Evran aldrei óvinsælli í Svíþjóð

Samkvæmt könnun sænsku hagstofunnar eru 82% Svía á móti því að taka upp evru. Það er mesta andstaða við evruna frá því mælingar hófust. Andstaðan við ESB-aðild Svía hefur einnig aukist. Tæplega þriðjungur Svía vill nú yfirgefa sambandið.

Svíar eru þannig almennt ánægðir með að vera utan evrusamstarfsins, enda hefur hagur þeirra verið ágætur með sænsku krónuna eftir það þeir höfnuðu evrunni ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2003. Svíar hafa einnig haft efasemdir um samstarf ESB-þjóða um bankaeftirlit, en það gildir reyndar um fleiri þjóðir.

ESB hefur ekki tekist að sannfæra íbúa Evrópu, hvorki um ágæti ESB né evrunnar. Stór hluti í öllum Evrópulöndum er efins um ágæti samstarfsins innan ESB eða hreinlega á móti því. Þeir sem vonuðust til þess að ESB yrði að eins konar Bandaríkjum Evrópu hafa orðið fyrir talsverðum vonbrigðum. Þótt ekki sé ætlunin að dásama Bandaríkin sérstaklega hér er þó ljóst að þar í landi eru hvorki efasemdir um dollarann né sambandsríkið.

Vissulega er ástandið mismunandi í hinum einstöku ESB- og evrulöndum nú í upphafi ársins 2013. Fyrir ungt fólk á ýmsum jaðarsvæðum er ástandið þó ekki upplífgandi, meðal annars vegna gríðarlega mikils atvinnuleysis og mikilla skulda. Vitaskuld ræður hagstjórn í hverju ríki einhverju um ástandið, en eftir sem áður er evran og evrusamstarfið ein stærsta ástæðan fyrir atvinnuleysinu á
svæðinu. Evran veldur ójafnri samkeppnisstöðu evruríkjanna, mismunandi árangri í milliríkjaviðskiptum og mismunandi skuldasöfnun.

Það er rétt að hafa það í huga þegar nýtt ár gengur í garð.

Sjá nánar:
http://www.europaportalen.se/2012/12/rekordlagt-stod-for-euron-i-sverige


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru sannarlega meðmæli með ESB að um 70% Svía sjái hag sínum best borgið í ESB þrátt fyrir að heimskreppan hafi leikið nokkur ESB lönd grátt.

Þetta kemur svo sem ekki á óvart enda hafa Svíar upplifað miklar framfarir eftir að landið gekk í ESB.

Útflutningur Svía, sem fyrir aðild var um 30% af þjóðarframleiðslu, hækkaði eftir aðild í 50% og nálgast nú óðfluga 60%. Vegna ónýtrar krónu ættu þessi áhrif að verða enn meiri hjá okkur.

Svíar höfnuðu hins vegar upptöku evru aðallega vegna þess að þeim þótti vænt um krónuna. Þeir höfðu efni á því enda er krónan þeirra ekki ónýt.

Í ljósi kreppunnar var fyrirséð að andstaðan við evru væri enn meiri í Svíþjóð eins og sakir standa. Þetta er auðvitað ekki rétti tíminn til að taka upp evru.

Upptaka evru eða binding við evru í Svíþjóð er þó líkleg innan fárra ára.

Evruþjóðir vilja almennt með yfirgnæfandi meirihluta halda í evru. Í þeim löndum sem ég hef frétt af slíkum könnunum voru 80% og þar yfir hlynnt evru.

Það vekur athygli að þetta er í löndum sem eiga við mestan vanda að glíma eins og Grikklandi og Ítalíu enda kenna þau ekki evru um ófarir sínar.

Í Austurríki, þar sem efnahagsástandið er einna best, var fylgi með evru 83%.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 15:23

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

þetta er rétt hjá Ásmundi - líka bara mjög aumt hjá vinstrivaktinni að koma með svona frétt til að hræða okkur hérna

Rafn Guðmundsson, 3.1.2013 kl. 15:56

3 identicon

Þetta er rangt hjá þér, Ásmundur. Ef þú lest textann undir meðfylgjandi tengli þá sérð þú að minnihluti Svía vill vera í ESB og stuðningur við aðild hefur minnkað nokkuð á árinu. Ekki vera of snöggur að draga ályktanir.

Stefan (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 16:59

4 identicon

"Stödet för det svenska EU-medlemskapet minskar också. Sedan november förra året har andelen som skulle rösta ja till ett medlemskap minskat från 47 procent till drygt 44 procent.

Andel väljare som röstar nej och vill lämna EU har ökat från knappt 24 procent till drygt 26 procent. Bland kvinnorna vill var tredje att Sverige lämnar EU."

Þeir sem tóku afstöðu í könnuninni voru 44+26 = 70%

Af þeim vilja 44/70 = 63% vera áfram í ESB

26/70 = 37% vilja yfirgefa ESB

Það er því yfirgnæfandi meirihlutafylgi fyrir því í Svíþjóð að vera áfram í ESB.

Af fljótfærni hélt ég að Vinstrivaktin hefði sagt að rúmlega en ekki tæplega 2/3 vildu vera áfram í ESB og fékk því út um 70%.

Annars er skondið að Stefan segir að minnihluti Svía vilji vera í ESB. Þá væri eins hægt að segja að aðeins um 32% Íslendinga vilji hafna ESB-aðild því að það voru aðeins 32% aðspurðra sem vildu hafna henni skv skoðanakönnun Capacent Gallup. Það var hins vegar meirihluti þeirra sem tóku afstöðu.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 18:06

5 identicon

En eigum við ekki bara að vera sammála um að 82% Svía vilji ekki taka upp evru - og aðeins 10% vilja það?

Annars er meginniðurstaða þessa ESB-sinnaða vefjar þessi:

Om det hade varit en folkomröstning om euron i Sverige skulle fler än 82 procent rösta nej. Även EU-medlemskapet tappar stöd hos svenskarna.

Sem útleggst:

Ef það hefði verið þjóðaratkvæðagreiðsla um evruna í Svíþjóð myndu meira en 82 prósent segja nei. Jafnvel ESB-aðildin tapar stuðningi meðal Svía.

stefan (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 20:54

6 identicon

ESB-aðildin tapar ekki stuðningi þó að hann minnki lítils háttar frá síðustu könnun. Hverja ertu að reyna að blekkja?

Nærri tveir af hverjum þrem sem tóku afstöðu í þessari sænsku könnun styðja enn aðild þrátt fyrir kreppu. Yfir 80% Eista styðja aðild. Það er í samræmi við gott gengi smáríkja í ESB.

Stuðningur við aðild skiptir okkur miklu meira máli en upptaka evru sem kemur ekki til álita fyrr en löngu seinna. Á þeim tíma gæti meirihluta Svía verið hlynntur upptöku evru.

Annars er áhugi Svía á upptöku evru enginn mælikvarði fyrir okkur. Þeir eru ekki með ónýtan gjaldmiðil. Sænska krónan er 30 sinnum stærri en íslenska krónan.

Íslensk króna getur hæglega sett íslenskt þjóðfélag á hliðina. Það er því brýnt að hún komist sem fyrst í skjól hjá ECB.

Menn ættu að spyrja sig hvers vegna ætti Íslendingum ekki að vegna vel í ESB úr því að Svíum vegnar svo vel að þeir hafa nærri tvöfaldað útflutning sinn sem hlutfall af þjóðarframleiðslu? 

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 21:41

7 identicon

Jafnvel í Grikklandi var fjarfestingarstigið hærra 2012 en hér á landi þrátt fyrir yfirvofandi hrun þar.

Hver skyldi ástæðan vera fyrir því? Ástæðan er vitaskuld að Grikkir eru með evru sem þeir vilja umfram allt halda í.

Við erum hins vegar með ónýta krónu í höftum sem flæmir óhjákvæmilega frá þá sem íhuga að fjárfesta hér. 

http://evropa.blog.is/blog/evropa/entry/1275259/ 

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 23:24

8 identicon

Ég fæ ekki betur séð, samkvæmt sænskri upplýsingasíðu, að útflutningur hafi aukist talsvert meira á Íslandi sem hlutur af vergri landsframleiðslu en í Svíþjóð á þeim tíma sem Svíþjóð hefur verið aðili að ESB frá 1995. Þá hefur hlutur útflutnings sem hlutfall af VLF aukist í Svíþjóð úr 40% í 50%, en á Íslandi úr 35,5% í 60%. Aukningin á Íslandi er sem sagt 25 prósentustig á meðan þetta var aðeins 10 prósentustig í Svíþjóð. Ég fæ því ekki séð annað en að þetta sé eitthvað málum blandið sem þú ert að halda fram, Ásmundur. Samkvæmt þinni eigin röksemdafærslu er miklu betra að vera utan ESB.

Sjá hér:

http://www.ekonomifakta.se/sv/Fakta/Ekonomi/Utrikeshandel/Exportandelar---internationell-jamforelse/?from1628=&to1628=&columns1628=,1,13,26,

Stefan (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 00:19

9 identicon

Göran Persson hélt því fram í viðtali við RÚV nýlega, þegar hann var hér á ferð, að útflutningur Svía hefði aukist úr 30% upp í 50% af þjóðarframleiðslu vegna ESB-aðildarinnar og væru nú óðfluga að nálgast 60%.

Trúlega hefur útflutningur tekið kipp vegna þess að sótt var um aðild og Persson gæti hafa miðað við þann tímapunkt.

Vegna hruns á gengi krónunnar er samanburðurinn við Ísland ekki raunhæfur frá upphafi árs 2008 en þá byrjaði krónan að hrynja.

Gengishrunið og bankahrunið olli hruni á landsframleiðslu en mikilli aukningu útflutningsverðmæta í krónum talið. Það skýrir eflaust að mestu hækkun kúrfunnar síðustu ár.

Hækkun hennar frá hruni kemur því ekki til af góðu. Fyrir þann tíma er hún flöt fyrir Ísland en hækkandi fyrir Svíþjóð.

Íslendingar njóta þess eflaust núna að vera að sækja um ESB-aðild. Það er því hætta á að lánskjör versni, gengi krónunnar lækki og tregða til fjárfestinga hér aukist enn frekar ef viðræðum verður slitið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband