Steingrímur krafsar

„Óumflýjanlegt er að endurmeta nú stöðu viðræðna við Evrópusambandið í ljósi breyttra forsendna og búa um það mál með ábyrgum hætti. Þar verður vilji þjóðarinnar sjálfrar að varða veginn úr því ljóst er orðið að ekki reyndist unnt að leggja málið í hennar dóm á kjörtímabilinu í formi atkvæðagreiðslu um samning eða efnislega niðurstöðu eins og til stóð.“

 

Svo mörg voru þau orð, mögur og mörg. Steingrímur J. Sigfússon er nú að draga út þá skúffuna sem forusta VG ákvað að tæma og negla aftur þegar gengið var til sængur með Samfylkingunni. En, skúffan er jafn tóm sama hvað Steingrímur segir og þetta óumflýjanlega endurmat hans á viðræðum við ESB er grátbroslegt krafs manns sem hefur í höndunum deyjandi stjórnmálaflokk.

 

„. . . í ljósi breyttra forsendna og búa um það mál með ábyrgum hætti.“ – það lá að! Nú þarf að grafa eftir ábyrgðartilfinningunni sem var allt í senn krossfest, dáin og grafin um leið og ríkistjórnin sem nú situr við sinn eigin banabeð var mynduð. Breyttust forsendur í gær? –eða fyrradag? –eða voru einhverjar aðrar forsendur uppi – á einhverjum tímapunkti? Ég held nú bara ekki! Hér hafa aldrei verið neinar þær forsendur til staðar að efnilegt væri að ganga inn í Evrópusambandið. Þetta veit Steingrímur – en honum er sama. Ef það hefði getað keypt honum dýrari ráðherradóm ögn lengur þá hefði hann ekki tekið eftir neinum forsendubreytingum. Þá hefði hann látið við það sitja að svíkja það sem í upphafi var boðað – sem hann og gerði. Vitandi samt frá upphafi að þessi vegferð væri heljarganga sem ekkert gott gæti haft í för með sér og engu gæti skilað. Hinn ábyrgi háttur var sem sagt aldrei hafður uppi og hann var heldur aldrei rifjaður upp í öll þessi fjögur ár – af því að það hentaði ekki. Hentaði ekki Steingrími J. Sigfússyni.

 

„Þar verður vilji þjóðarinnar ...“ Akkúrat, horfir ráðherra allra mála nú óforvarendis út úr einhverju ráðneytinu og sér að þjóðin geti mögulega haft vilja í þessu máli. Aldrei áður hafði nokkrum manni hugkvæmst það! Í það minnsta ekki Steingrími – eða hvað? Og hvað á þjóðin svo að gera? Jú, hún á að varða veginn – hún á ekki að ákveða neitt. Hún á að hlaða leiðarsteinana svo svikulir stjórnmálamenn eins og Steingrímur geti enn á ný „villst“ af leið. Eða höfðu ekki almennir flokksmenn hlaðið hverja vörðuna eftir aðra svo Steingrímur gæti fetað öruggur um í þokuslæðingi og sudda stjórnmálanna? En fór hann eftir þeim vörðum? Nei aldeilis ekki – hann anaði áfram eins og óþekkur krakki ólæs á veður og vinda og ófær um að taka leiðsögn þeirra sem þó höfðu verið honum dyggastir grjóthleðslumenn. Og núna? –Núna er það þjóðin sjálf sem hann telur rétt að taki að sér hleðsluna. Svo hann geti farið bara eitthvað sem honum dettur í hug – seinna.

 

Og svo er það þvaðrið um þjóðarinnar dóm sem ekki gafst ráðrúm til að heyra. Hafa menn þó á kjörtímabilinu hlaupið upp til handa og fóta og kosið af ómerkilegra tilefni en því að fá úr því skorið hvort nokkurt vit sé í því að halda áfram þessum aðildarviðræðum sem Vinstrihreyfingin grænt framboð gaf Samfylkingunni í morgungjöf – án allra heimilda. Dómur þjóðarinnar er löngu fallinn, hann er sá að yfirgnæfandi meirihluti hennar er á móti þessu ESB brölti og hann má einnig sjá í þeim smánarlegu fylgistölum sem VG fær nú í skoðanakönnunum og má ég þó til með að minnast á það að flokkurinn sá hefur oftast skorað betur í skoðanakönnunum en í kosningum. Dómur þjóðarinnar er sá að svikahrapparnir í VG hafi í fjögur ár setið umboðslausir í ríkisstjórn – hvað Evrópumálin varðar – og hvorki hlustað né tekið nokkrum sönsum þegar þeir voru góðfúslega beðnir að fara að samþykktum flokksins. Það er slæmt að Steingrímur hafi ekki gert sér grein fyrir því – og auðvitað langverst fyrir hann sjálfan.

 

- gb. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær grein og svo sönn.  Já ætli Steingrímur alsherjar engist nú ekki um eins og ormur, vegna eigin svika við kjósendur sína, og þjóðina alla reyndar.  Ég treysti honum allavega í upphafi þó ég hafi ekki kosið hann, þá leist mér vel á að þessi galvaski baráttumaður fyrir sjálfstæði landsins gæti  komið í veg fyrir ESB umsókn, AGS, Icesave og allt sem því tilheyrir.  En við hvert fótmál sveik hann það sem hann hafði lofað í sinni kosningabaráttu.  Slíkum mönnum á að henda fyrir borð sem allra fyrst. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2013 kl. 13:07

2 Smámynd: Gunnlaugur I.

Þessi grein verður ágætis grafskrift á legstein VG og jafnframt góð viðvörun fyrir alla aðra stjórnmálamenn framtíðarinnar.

Ekki nóg með að SJS og forysta Flokksins hafi nú tapað meira en 23.000 atkvæðum eða rétt 60% af fylgi sínu úr síðustu kosningum.

Heldur í ofanálag hefur Steingrímur Joð og flokkurinn líka tapað allri sinni virðingu, áhrifa og stöðu sem hann þó hafði meðal margra aðila í þjóðfélaginu sem að þó aldrei kusu VG.

Að ætla nú fimm mínútum í kosningar að ætla að þykjast vera að fara kannski að gera eitthvað, virkar bara ekki.

Því miður þá er þetta búið spil fyrir VG !

Gunnlaugur I., 4.1.2013 kl. 13:37

3 Smámynd: Sandy

Takk fyrir góða grein og mikið get ég verið ykkur sammála. Það var eins með mig í síðustu kosningum ég var svo viss um að VG mundi gera allt sem hægt væri til að halda landinu utan við ESB, en nei ekki gerðu þeir það. Ég var líka á því að sá flokkur myndi sjá til þess að ekki yrði hróflað við velferðarkerfinu og framfærsla öryrkja og eldriborgara yrði tryggð,en nei ekki gátu þeir séð til þess, það var meira segja það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði var að skerða þá lúsaframfærslu sem þar er greidd út í hverjum mánuði. Ég fékk t.d. greiddar út um áramótin 107 þús og ekki með neinar fjármagnstekjur, eigum við að ræða um velferðarstjórn? HVAÐ Á AÐ KJÓSA Í NÆSTU KOSNINGUM?

Sandy, 4.1.2013 kl. 14:14

4 Smámynd: Elle_

Já, út með Katrínu og Steingrím.  Og alla litlu, ljótu hjálparmennina.  Nú vantar bara að þessir heimakettir Jóhönnu í VG gangi inn í landsöluflokkinn.

VG var ónýtur flokkur eftir Svavarssamninginn í júní, 09.  Það þurfti ekki einu sinni rothoggið í júlí, 09 öll ógeðsmálin sem á eftir komu.

Elle_, 4.1.2013 kl. 15:01

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Öfugt við kjósendur er tryggðin ekki hátt skrifuð hjá V.G. og Samfó,dugar lítt að heimta nokkuð úr sambúðinni,síst morgungjöfinni sem S.J.S. rausnðist til að gefa,án heimilda. Líklegt að S.F. finnist hann leggjast látt,þannig fólk kann hún að nota. Takk fyrir -gb.

Helga Kristjánsdóttir, 4.1.2013 kl. 15:57

6 identicon

Afneitunin heldur áfram.

ESB-umsóknin mæltist vel fyrir hjá kjósendum Vg. Það kom skýrt fram í því að fylgi við flokkinn jókst mikið eftir að Alþingi samþykkti ESB-umsóknina með öruggum meirihluta. Níu mánuðum síðar var fylgi Vg 28% en var innan við 20% í kosningunum.

Skoðanakönnun sýndi að Steingrími var langbest treyst til forystu í flokknum. Þar á eftir komu Katrín og Svandís. Jón Bjarnason og Ögmundur komust ekki á blað.

Þeir sem bera mesta ábyrgð á hruni á fylgi VG eru: Jón Bjarnason, Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslson og Ögmundur Jónasson.

Guðfríður Lilja Grétarsson þoldi ekki lengur við í þessum félagsskap og ákvað að hleypa stuðningsmanni Steingríms að og styrkja þannig ríkisstjórnina.

Og enn halda Jón Bjarnason og Vinstrivaktin áfram að reita fylgið af Vg.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 16:01

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert algjörlega veruleikafirrtur Ásmundur, eða er þú betur að þér í vilja þjóðarinnar en þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið og allar sýna að meiri hluti þjóðarinnar og reyndar sístækkandi vill ekki inn í Sambandið og æ fleir núna meirihluti landsmanna vill hætta viðræðum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2013 kl. 16:33

8 Smámynd: Gunnlaugur I.

Það vantar ekki að allt kjörtímabilið frá því að ESB umsóknin var lögð fram hafa svona ESB-Váfuglar eins og Ásmundur, reynt lævíslega að hvísla því að forystu VG að þetta sé allt í lagi og ef að illa hefur gengið þá sé þetta allt saman þessum vondu villiköttum að kenna, sem þurfi að hreinsa út úr flokknum. Beitt hefur verið bæði hótunum og blíðmælgi til þess að hafa forystu VG í þessari spennitreyju ESB umsóknarinnar.

Þeim hefur reyndar tekist ágætlega upp við þessa iðju sína.

Nú þegar það blasir við að flokkurinn er í rjúkandi rústum, fjórir þingmenn farnir fyrir borð og hundruðir af trúnaðarmönnum flokksins um land allt hafa yfirgefið hið sökkvandi skip. Tuttugu og þrjú þúsund atkvæði virðast hafa yfirgefið flokkinn samkvæmt nýjustu könnun, eða hátt í 60% af fylginu farið !

Þá ætla Ásmundur og Co og þeir aðrir ESB landsölumenn að höggva enn í sömu knérun og telja Steingrími og Co trú um að þetta sé allt í þessu fína lagi. Ekki það að við vitum svo sem að þessi þykjustu uppgerðar umhyggja þeirra fyrir VG, er aðeins sýndarmennska til þess gerð að etja VG klárnum þó að vegalaus sé og komin að fótum fram áfram á ESB foraðið.

Þeir vilja gjörnýta og misnota VG klárinn alla leið og nú síðustu metrana fram að kosningum.

Þá verður öll uppgerðar umhyggjan rokin út í veður og vind og þetta slóttuga falshundalið á eftir að hlæja af ánægju og sparka í hræið og finna sér aðra klára til að draga ESB vagninn.

Spunameistarar þeirra verða enn þessi lygi þeirra og eftirmælin um VG verða því á þann sama mund að þeir hafi ekki fylgt Samfylkingunni nógu fast eftir í ESB ruglinu.

En við þau sem hér skrifum og commentum sem erum mörg hver nú orðin fyrrverandi stuðningsmenn VG og þau liðlega 23 þúsund aðrir sem nú eru farnir, sem treystu VG í síðustu kosningum til þess að standa við loforð sín um að vera heil og traustsins verð í ESB andstöðu sinni.

Við vitum betur alla þessa sögu og miklu betur en Ásmundur þessi ótýnda málpípa ESB trúboðsins á Íslandi.

Forystu VG hefði verið nær að hlusta á sína eigin sál og Vinstri vaktina og okkur stuðningsmenn sína. Því að vinur er sá er til vamms segir. Frekar en að láta svona ESB- smjaðrandi falsspámenn eins og Ásmund og það úrtölulið allt saman villa sér svona algerlega sýn.

VG verður því miður ekki á vetur setjandi úr þessu, Samfylkingunni og útibúinu þeirra til óblandinnar ánægju, þó svo að þeir séu nú með þetta smeðjulega samúðarglott fram að kosningum.

Eflaust mun flokksforystan að lokum draga sinn þunga lærdóm af þessu ESB- feigðarflani þó allt of seint verði.

Það sama þurfum við að gera sem áfram munum berjast gegn ESB aðild og teljum okkur vera þjóðlegt og frjálslynt vinstra fólk í stjórnmálum, við þurfum líka að læra af þessari bitru reynslu og finna okkur annan verðugri vettvang en VG til að berjast á.

Gunnlaugur I., 4.1.2013 kl. 16:58

9 identicon

Ásthildur þú ert úti að aka. Kannski ekki furða eftir snjóflóð, rafmagns-, hita- og netleysi hjá þér undanfarið.

Ég var ekkert að tala um líkur á að Ísland samþykkti ESB-aðild heldur aðeins útskýra hrun á fylgi Vg.

Þú lokar augunum fyrir þeim staðreyndum sem ég tiltek og benda ótvírætt til að fylgishrunið sé vegna sundrungar í flokknum.

Á því bera þeir ábyrgð sem virða ekki meirihlutasamþykktir. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 17:16

10 identicon

Gunnlaugur, hvernig útskýrir þú að fylgi Vg jókst mikið eftir samþykkt Alþingis á ESB-umsókninni? Það fór upp í 28% um níu mánuðum síðar. Er ekki ljóst að það sýnir að ESB-umsóknin mæltist vel fyrir hjá kjósendum Vg?

http://www.capacent.is/frettir-og-frodleikur/thjodarpulsinn/

Og hvernig stendur á því að Steingrímur nýtur sem formaður trausts 67.5% stuðningsmanna Vg skv rúmlega árs gamalli könnun? Ögmundur fær aðeins 3.2% stuðning og Jón Bjarnason engan.  

http://smugan.is/2011/10/sjo-af-hverjum-tiu-treysta-steingrimi/

Er ekki tími til kominn að grafa höfuðið upp úr sandinum? Þessar staðreyndir sýna svo að ekki verður um villst að það er órólega deildin sem er að rústa Vg enda er fátt meiri atkvæðafæla en stöðugar innanflokksdeilur.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 17:45

11 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, þú hefur stundum rétt fyrir þér;  "á því bera þeir ábyrgð sem virða ekki meirihlutasamþykktir".

Við sem vorum höll undir flokksstefnu VG kosningavorið 2009 í ESB málum teljum okkur hafa verið svikin.  Illilega svo vægt sé orðað.

Aldrei, aldrei aftur munum við krossa við VG á kjörseðli, á meðan núverandi forysta ræður þar ríkjum og hunsar meirihlutasamþykktir flokksins.

Það er ekki vegna snjóflóða, rafmagnsleysis eða híbýlakulda!

Ég gæti tínt til fleira - eins og hinn "glæsilega" Icesavesamning, kolefnakvótaafsal, lítillækkandi framkomu gagnvart kjörnum fulltrúum, sem hafa einn af öðrum yfirgefið flokkinn.  Á þann hátt sem var þar til nú  algjörlega óþekkt í flokkapólitík frá lýðveldisstofnun.

En ykkur krötum er sama.  Við hin munum hvernig þið skilduð við síðasta samstarfsflokk.  Nytsamir sakleysingjar eru jú nytsamir, ekki satt?

Kolbrún Hilmars, 4.1.2013 kl. 17:56

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt Kolbrún, þessi svik VG við stefnu sína fyrir kosningar er ekki líðandi neinum flokki.  Það þarf ekki að taka fram að þeir sviku allflest sín loforð, sem þeir gáfu fólkinu sem kaus þá, umboðslausir köstuðu þeir öllum sínum loforðum fyrir róða til að komast í sængina með Samfylkingunni.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2013 kl. 18:02

13 Smámynd: Elle_

Alltaf reitast af Ásmundi brandararnir.  Gunnlaugur lýsti þessum váfugli og hans líkum annars vel að ofan. 

Váfuglarnir hjálpa við að reita fylgið af VG, samtímis og þeir reita af sér lélega brandara og fjaðrir.  Það voru ekki hinir svokölluðu villikettir Jóhönnu sem skemmdu.  Það voru nefnilega allir hinir sem voru orsakavaldarnir.

Elle_, 4.1.2013 kl. 18:10

14 Smámynd: Elle_

Nema að vísu get ég og margir enn ekki fyrirgefið neinum þeirra ICESAVE.

Og hvernig stendur á því að Steingrímur nýtur sem formaður trausts 67.5% stuðningsmanna Vg skv rúmlega árs gamalli könnun?

Maðurinn er með 177 stuðningsmenn, það er allt og sumt.  Og þó hann haldi það vera stórsigur og þó Ási vilji villa um fyrir honum og öðrum.  Þau verða úti í myrkrinu á bátnum með Ásmundi og Jóhönnu. 

Elle_, 4.1.2013 kl. 18:38

15 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Icesave kúgunartilraunirnar þekkja allir.

En vitið þið hvað umhverfisráðherrann okkar, VG, hefur verið að bauka og kaupslaga?

Ísland getur ekki lengur státað af 100% endurnýjanlegri orku. Okkar vistvæna  orka hefur minnkað um 11% - eins og hendi væri veifað, í 89%.

6% framleiðum við af jarðefnaeldsneyti - 5% með kjarnorku.   Já, ég veit að nú klóra sér sumir í kollinn og spyrja hvar við fáum kolin og/eða olíuna og hvar kjarnorkuverin séu.

Þetta hefur okkar ágæti umhverfisráðherra - VG - verið að vinna að.

Ísland er ekki lengur vistvænt í orkuframleiðslu.

Kolbrún Hilmars, 4.1.2013 kl. 19:05

16 identicon

Ekki eru alli jafnveruleikafirrtir og Vinstrivaktin og áhangendur hennar.

Úlfar Þormóðsson:

"Samkvæmt mælingum er fylgi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs nú innan við 10%. Helmingi minna en í síðustu þingkosningum. Einn þingmanna hreyfingarinnar hefur þegar útskýrt þetta fylgishrun. Hann segir að það sé vegna svika flokksins við allt mögulegt. Hvort hann veit betur skal ég ekki fullyrða. En hann ætti að gera það. Ætti að vita að ástæðan er óeiningin meðal talsmanna flokksins. Óeining sem hann á hve mestan þátt í. Óeining sem hann elur enn á. En hann kaus að gleyma því og segja ósatt líkt og forsetinn og biskupinn." 

http://blogg.smugan.is/avextir/2013/01/03/thrjar-litlar-lygar/

Grímur Atlason:

"Alveg lýsandi fyrir víðáttuvitleysuna og forheimskuna. Í kjördæminu sem hann leiddi og var valinn til forystu af 200 sálum fékk VG 4000 atkvæði. Fyrir tilstuðlan furðukerfis komust 3 þingmenn flokksins á þing i kjördæminu sem þó skartar aðeins 9 þingmönnum. Sauðir í Reykjavík sem kusu VG voru í rauninni að velja Jón og félaga. Það er líklegt að þar hafi frjálslyndari armur flokksins kosið og fengið Ásmund Einar í kaupbæti auk Jóns Bjarnarsonar. Þegar hann heldur því fram að fólk sé búið að fá upp í kok þá gleymir hann að það eru umtalsvert margir búnir að fá algjörlega upp í kok á honum og þessari ESB þráhyggju í tengslum við öll mál! Maður sem kennir ESB um hörmungar sauða á Norðurlandi í septemberhreti ætti að líta sér nær. Það eru nefnilega margir sem ekki kjósa VG af því að flokkurinn er ekki tækur með skagfirsku söngsveitina innanborðs!"

http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/01/04/margir-i-vg-komnir-med-upp-i-kok-a-esb-adrir-komnir-med-upp-i-kok-a-joni/

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 21:36

17 Smámynd: Elle_

En er Grímur Atlason ekki forheimskur og víðáttuvitlaus?  Var hann ekki að skrifa um sjálfan sig?  Þið ættuð að leyfa manngreyinu að fljóta (og sökkva) með í Jóhönnubátnum svo hann verði nú ekki eini sauðurinn eftir með fast land undir fótum.

Elle_, 4.1.2013 kl. 22:40

18 Smámynd: Gunnlaugur I.

Að vitna hér í lýðskrumarann og tækifærissinnan Grím Atlason einn af helstu fótgönguliðum ESB trúboðsins á Íslandi slær nú öll fyrri heimsku met.

Maðurin sem hafði þangað til allt í einu verið forfallinn Samfylkingarspeni en gekk svo allt í einu öllum að óvörum yfir í VG rétt fyrir síðustu kosningar og reyndi þar að nýta sér meðbyr flokksins til þess að ná þar þingsæti í NV- kjördæmi.

Það tókst reyndar alls ekki enda sáu Norðlendingar í gegn um lýðskrumarann og tækifærissinnan Grím Atlason.

Reyndar má samt segja að honum hafi að stórum hluta tekist ætlunarverk sitt og augljóst skemmdarverk þ.e. að toga flokkinn yfir til ESB aðildar helsisins, þvert gegn stefnu og samþykktum meirihluta stuðningsmanna flokksins.

Síðan þegar skemmdarverkin voru farin að virka þá flúði þessi tækifærissinni og lýðskrumari aftur yfir í sínar fyrri herbúðir í Samfylkingunni eða BF og heldur þar úti sínum hatursfulla ESB áróðri.

Við fyrrverandi stuðningsmenn VG sjáum í gegn um svona ómerkilegan lýðskrumara og augljósan skemmdarvarg en vorkennum hinum sem enn eftir sitja þ.e. hinum sönnu og heiðarlegu stuðningsmönnum VG sem sitja eftir með sárt ennið og misnotaðan og ónýtan stjórnmálaflokk !

Gunnlaugur I., 4.1.2013 kl. 23:27

19 identicon

"Maðurin sem hafði þangað til allt í einu verið forfallinn Samfylkingarspeni en gekk svo allt í einu öllum að óvörum yfir í VG rétt fyrir síðustu kosningar og reyndi þar að nýta sér meðbyr flokksins til þess að ná þar þingsæti í NV- kjördæmi."

Ekki veit ég hvort þetta er rétt lýsing á Grími Atlasyni. En svo mikið er víst að þetta gæti einmitt átt við Jón Bjarnason fyrir utan að hann komst mjög óvænt á þing.

Jón fór í prófkjör fyrir ESB-flokkinn Samfylkinguna en flokkurinn hafði vit á að hafna honum. Þá hafði Jón á sér hamskipti og bauð sig fram fyrir Vg og því miður fyrir flokkinn náði hann kjöri.

Þannig er Jón tækifærissinni og lýðskrumari sem þó nær engum árangri í stjórnmálum vegna algjörs skorts á kjörþokka.

Áhrif hans eru fyrst og fremst þau að skaða Vg.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 08:13

20 identicon

Eins og við var að búast, virðist Gunnlaugur staðráðinn í að vera áfram með höfuðið grafið í sandi. Hann hefur ekki enn svaraði spurningunum í #10.

Gunnlaugur, reyndu nú að bjarga eigin trúverðugleika með því að svara þessum spurningum. Heiður þinn er að veði.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 08:24

21 Smámynd: Gunnlaugur I.

Það er létt verk og löðurmannlegt að svara þessari spurningu Ásmundar í kommenti nr. # 10.

Því þó svo að VG hafi fengið eitthvert mælanlegt aukið fylgi í einni skoðanakönnun einhverjum mánuðum síðar miðað við kosningarnar þá segir það alls ekkert um skoðanir fólks eða meinta hrifningu yfir ESB umsókninni.

Þó svo að VG hafi unnið stærsta kosningasigur allra flokka í kosningunum 2009, með 22,7% fylgi þá var það nú svo að flokkurinn hafði oft mælst með talsvert meira fylgi í skoðanakönnunum fyrir kosningar en þeir svo fengu í sjálfum kosningunum. Þetta mælda skoðana kannana fylgi fyrir kosningar hafði oft faið um og yfir 30% og sýnt VG þar með sem stærsta stjórnmála aflið.

Það var því alveg greinilegt að málsstaður VG naut mikils stuðnings og trausts og ákveðinnar samúðar mjög víða í þjóðfélaginu. Enda voru þingmenn VG svo til hreinir af drullueðju fyrir hruns árana og höfðu einir ekki tekið þátt í því að láta banksterana og handbendi þeirra bera á sig fé eins og uppvíst varð um marga aðra. Umhverisstefna þeirra og staðfastur og heiðarlegur málflutningur gegn gróðahyggjunni hafði einnig skapað þeim ákveðna áru um hreinleika og að þarna væri á ferðinni öðruvísi og heiðarlegra stjórnmála afl en aðrir.

Flokkurinn hafði heldur aldrei áður verið í Ríkisstjórn og var því óflekkaður af völdunum ef svo má að orði komast.

Því höfðu margir utan raða VG í aðra röndina heil mikla trú á því að eins og staðan var þá væri það landi okkar og þjóð fyrir bestu á þessum erfiðu tímum að koma þessu óflekkaða og heiðarlega stjórnmálaafli loks til valda.

Því er það ekkert skrítið að eftir kosningar og jafnvel eftir þessa ESB umsókn að flokkurinn mældist með eitthvert örlítið meira fylgi en þeir fengu út úr kosningunum. Þetta var svona alþekktur byrjenda og hveitibrauðs daga meðbyr og fagnaðar bylgja sem oft fylgir sigurvegurum eftir í einhvern ákveðinn tíma .

Jafn vel þó svo að ESB umsóknin hafi verið send inn að kröfu Samfylkingarinnar og það ylli vonbrigðum og skiti mér og mörgu fleira stuðningsfólki VG verulega skelk í bringu, þá vorum við á þeim tímapunkti alls ekki tilbúinn til að gefa alveg skít í flokkinn. Lengi skildi manninn reyna.

Við héldum nefnilega að það gæti jafnvel verið illskárra en ekki að VG hefði þarna einhverja beina aðkomu að þessu máli. Hefði sitt að segja um hvernig samningsmarkmiðin yrðu mótuð og sett ákveðin skilyrði fyrir þessu og hinu.

Flokkurinn fengi svo sína menn í samninganefndirnar og að báðum aðilum, með eða móti aðild yrði gert jafn hátt undir höfði og allt þetta samningarferli yrði til jafns við Samfylkinguna á okkar forræði og þar með undir okkar stjórn og að okkar fólk sæi til þess að allt ferlið yrði svo gegnsætt, opið og lýðræðislegt.

Byrjað yrði á stóru málunum og við hefðum heilmikið að segja um fyrirkomulag og dagskrá viðræðnanna og hvaða mál væru tekin fyrir hverju sinni og ef illa gengi í viðræðunum og við værum ekkert að ná neinum málum í gegn þá mætti alltaf stöðva ferlið og ljúka viðræðunum án samnings.

Auk þess höfðu helstu menn Samfylkingarinnar fullyrt það fullum fetum að þetta mjög skamman tíma, við fengjum sérstaka flýtimeðferð. Við mydum vera með fullbúinn samning við ESB árið 2011 og þá yrði kosið um málið í lýðræðislegum kosningum og málið væri dautt. Auk þess átti það að vera tryggt í stjórnarsáttmálanum að báir stjórnarflokkarnir virrtu skoðanir hvors annar og að VG væri heimillt að hafa sín prinsipp og sína yfirlýstu skoðun gegn ESB og berjast þannig fyrir stefnu og skoðunum sínum innan og utan þings.

Við vorum heldur ekkert hrædd um það að ef þetta gengi svona eftir, annað en að þjóðin myndi hafna ESB aðild í lýðræðislegum kosningum og þar með væri málið afgreitt og frá.

En þetta hefur allt verið lævíslega á öfuga bókina lært.

Nú er löngu orðið ljóst að þetta var allt tóm svik og lygi og að þetta var aðeins tálbeita og annaðhvort lét forysta VG plata sig meðvitað eða ómeðvitað.

Flokkurinn fékk enga menn í Samninganefndirnar, þar eru einungis stimamjúkir ESB sinnar. Handvaldir af Samfylkingunni. Flokkurinn hefur því heldur ekkert að segja um samningsmarkmið eða að hafa ein eða nein áhrif á virðæðurnar nema mjög afmarkað og takmarkað og sú litla aðkoma algerlega handstýrt af sjálfri Samninganefndinni.

Það heur líka ítrekað komið í ljós að hér var aldrei um einhverjar eiginlegar samninga viðræður að ræða á jafnræðis grundvelli. Nei aðeins aðlögunar- og aðildar ferli og allt á forræði ESB og á þeirra forsendum.

Íslenska samninganefndin hefur ekkert að gera með dagskrá eða framvindu samningaviðræðnanna. Það er allt á forræði framkvæmdastjórnar ESB. Einstefna, þar sem samninganefnd ESB opnar og lokar léttvægum köflum en skilur þá eftir sem öllu máli skipta.

Saningsmarkmið Íslands eru öll á reiki og í þoku og síbreytileg og leika á lyginni. Alveg greinilegt að Samninganefndin reynir aðeins að beigja sig fyrir kröfum ESB og sigla þannig milli skers og báru og hefur enginn viðmið eða prinsipp í þessum viðræðum.

Aðeins að þóknast ESB.

ESB valdið er með þetta allt í hendi sér og þó svo að þeir viti að samninganefnd Íslands sé þeim auðsveip og eftirlát og hylur slóð sína. Þá vita þeir vel af hinni geysi hörðu og öflugu andstöðu meirihluta þjóðarinnar við ESB.

Því dettur þeim ekki í hug annað en að þæfa og toga og teigja allt aðildar og aðlögunar ferlið í von um það að þeim takist síðar meir að snúa andstöðuna niður með botnlausum áróðri og fjáraustri sem mokað er yfir þjóðina. Í því skini hafa þeir opnað sérstakt ESB sendiráð í Reykjavík einnig opnað áróðursskrifstofur, svokallaðar Evrópustofur sem fá ómælt fé frá útbreiðslu og áróðurs málskrifstofu ESB. Kynningin á ESB er því aldeilis ekki kynnt hlutlaust og hér er freklega hlutast til um innanríkismál þjóðarinnar. Þetta er hreint tilræði við heilbrigt opið og frjálst lýðræði og hrein ögrun við okkur andstæðinga aðildar. Í ofna á lag er svo sáldrað milljörðum í formi svokallaðra IPA styrkja yfir þjóðfélagið. Þó svo að gert sé gróflega grein fyrir hvert IPA styrkirnir fara þá er að öðru leyti engar reglur eða eftirlit með hvernig ESB valdið ráðstafar þessum fjármunum. Hverjir eru styrktir, eru það blaðamenn, stjórnmálamenn og háskola- og fræðimenn sem njóta þessara styrkja. Það er meira en rökstuddur grunur um að svo sé.

Allt þetta aðildarferli er svo meira og minna hulið þoku og í leynd og pukri.

Þeir innan VG sem hafa andmælt þessu eða reynt að malda í móinn og standa við stefnu flokksins hafa verið beittir hörðu og bolað burtu eða flæmdir braut.

Forysta flokksins hefur algerlega brugðist og látið þetta allt meira og minna yfir sig ganga átölulaust, enda eiga fræg áhrínisorð formanns VG svo sannarlega við hann sjálfan í þessu máli. Hann er þvílík "gunga og drusla"

Þess vegna er fylgið nú endanlega hrunið af VG !

Gunnlaugur I., 5.1.2013 kl. 10:54

22 identicon

Gunnlaugur, þú hefur ekki enn svarað hvers vegna Steingrímur naut 67.5% fylgis sem formaður síðast þegar það var kannað, um 2 1/2 ári eftir að aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi.

Á sama tíma naut Jón Bjarnason einskis fylgis og Ögmundur fékk aðeins 3.2%.

Þessi langloka þín, sem er full af rangfærslum, gefur heldur engar skýringar á því hvers vegna fylgi Vg óx upp í 28% næstu mánuðina eftir að aðildarumsóknin var samþykkt. Þessi staðreynd sýnir einmitt svo að ekki verður um villst að umsóknin lagðist vel í kjósendur Vg.

Ástæðan fyrir því, að eftir það byrjaði fylgið að hrynja, voru óheiðarleg vinnubrögð Lilju Mósesdóttur, Ásmundar Einars og Atla Gíslasonar sem þoldu illa að þau nutu lítils trausts og höfðu því allt á hornum sér.

Eftir að þau hurfu, góðu heilli, úr flokknum tók Jón Bjarnason við keflinu einkum eftir að hann var rekinn úr ríkisstjórn fyrir að vinna gegn stefnu hennar.

Jón naut stuðnings Ögmundar. Vegna þessara innanflokksátaka hefur fylgi VG hrunið um 67% meðan fylgi Samfylkingar hefur lítið breyst.

Það er auðvitað algjörlega fráleitt að kenna Steingrími um að menn hafi ekki kynnt sér hvað í aðildarumsókn felst. Það er hlægilegt að að halda því fram að slík vanræksla þingmanna og kjósenda skýri fylgishrunið. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 12:17

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gunnlaugur takk fyrir þetta ítarlega yfirlit yfir ferlið.  Ég er sannfærð um að þetta er raunsönn lýsing á því hvað gerðist. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.1.2013 kl. 12:30

24 Smámynd: Elle_

Hlýtur að vera erfitt fyrir Ásmund og Eirík og Grím og hina Jóhönnukett, afsakið Jóhönnufylgjendur, hvað Gunnlaugur skýtur þá niður hópum saman.  Og niðurlægjandi:)

Elle_, 5.1.2013 kl. 21:42

25 identicon

Þessi langloka hans Gunnlaugs er innihaldslaust raus sem auk þess er langt frá því að svara því sem henni var ætlað að svara.

Og Elle og Ásthildur keppast við að taka undir bullið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 01:11

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er meiri sannleikur í því en allar þínar fullyrðingar út í loftið Ásmundur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2013 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband