ESB-andstæðingar í komandi kosningum til Evrópusambandsþingsins

Í komandi kosningum til Evrópusambandsþingsins eru allmargir flokkar í framboði sem eru gagnrýnir á Evrópusambandið í núverandi mynd. Sumir vilja að þjóðlönd þeirra gangi úr ESB en aðrir einbeita sér að breytingum innanfrá í ljósi þess að lönd þeirra eru í ESB og ef til vill ekki á leið út, hvort sem þjóðarvilji stendur til þess eða ekki.

Fjölmiðlar greina einkum frá gagnrýni þeirra hægri flokka sem vilja ekkert með ESB hafa, enda er málflutningur hægri manna, ESB-sinnaðra eða ekki, oft tilefni hneykslunar og öfga sem þykja fréttaefni.

Gagnrýni á ESB frá vinstri, frá umhverfisverndarfólki eða frá róttækari öflum sem jafnvel eru nær miðju en hafna rasisma, ratar sjaldnar í fréttir, en af henni er þó nóg. Þrátt fyrir að kosningaþátttaka til Evrópusambandsþingsins sé með afbrigðum léleg, um 40% og gæti jafnvel orðið minni næst, er umræðan fyrir kosningarnar vettvangur sem margir vinstri flokkar velja sér, hvort sem þeir gera sér vonir um að koma fulltrúa inn á ESB-þingið eða ekki. Sumir eiga þar fulltrúa og hér er smá sýnishorn af því hverjir þetta eru.

Í Danmörku hefur Folkebevægelsen mod EU boðið fram til ESB-þingsins í fjölda ára. Innan raða hreyfingarinnar hafa margir vinstrimenn fundið sig. Vinstriflokkurinn Enhedslisten, sem hefur átt góðu gengi að fagna í dönskum stjórnmálum, ákvað að bjóða ekki sjálfstætt fram til komandi kosninga til ESB-þingsins, til að spilla ekki fyrir Folkebevægelsen. ESB-þingmaður hreyfingarinnar er ung baráttukona, Rina Ronja Kari, sem þykir skelegg í málflutningi sínum.

Norrænir græningjar eru í hópi þeirra sem teljast til mildari gagnrýnenda ESB af þeim sem eiga þingmenn á ESB-þinginu, þeir vinna jöfnum höndum að því að reyna að betrumbæta regluverk og ákvarðanatökuferli ESB og að afhjúpa spillingu og þá ágalla sem þeir telja á stofnunum ESB. Pär Gahrton, sem var evrópuþingmaður sænskra græningja frá 1995-2004 var forystumaður sænsku Nei-samtakanna og gríðarlega gagnrýninn á veru Svíþjóðar í ESB. Hann hefur einnig verið áhrifamaður í friðarsamtökum í Svíþjóð og baráttu fyrir réttindum Palestínumanna. Almennt má segja að baráttufólk á vinstri vængnum í Skandinavíu hafi verið leiðandi í ESB-andstöðunni og tengt þá baráttu bæði friðarbaráttunni, umhverfisvernd, baráttu gegn kjarnorkuvá auk þess að gagnrýna spillingu, grímulausa hyglun fjármagnsaflanna innan ESB og vald lobbíistanna.

Í Grikklandi hefur mikið gengið á á kjörtímabilinu og baráttan gegn niðurbroti samfélagsins, í boði ESB og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum hefur ekki síst verið leitt af vinstri mönnum, mannréttindabaráttufólki og forvitnilegt verður að sjá hvernig landslagið verður nú í kjölfar kosninganna til ESB-þingsins. Grikkir eiga nú þegar sterka vinstri fulltrúa sem hafa verið í samstarfi við norrænu vinstri grænu flokkana í ESB-þinginu.

Fyrrverandi leiðtogi TEAM, sem eru sam-evrópsk samtök ESB-andstæðinga og gagnrýnenda, Sharon Ellul Bonici frá Mötlu, fyrrverandi fréttakona og félagi í maltneska Verkamannaflokknum hefur sóst eftir að komast á ESB-þingið og þykir áhrifamikil meðal ESB-andstæðinga í Brussel, þótt hún hafi enn ekki haft erindi sem erfiði.

Stærsti andstöðuflokkur við ESB í Evrópu kemur þó frá Ítalíu, Fimm stjörnu flokkurinn, en það er flokkur sem sumir hafa líkt við Besta flokkinn á Íslandi, þar sem grínisti er í forsvari og mikil áhersla er lögð á breytt vinnubrögð í stjórnmálum, beint lýðræði og umhverfisvernd. Þótt ekki sé um vinstri flokk að ræða, heldur undarlegan (og vinsælan) popúlistaflokk, er óþarfi að afgreiða hann með einhverjum klissjum. Flokkurinn hefur ekki tekið þátt í kosningum til ESB-þingsins en er spáð nokkuð góðu gengi, þótt framboð á vegum hans kæmu seint fram og væru valin með tilviljanaúrtaki meðal flokksmanna. Ekki er vitað í hvaða rann þeir munu leita með sína fulltrúa eftir kosningarnar.

Hér er aðeins drepið á fátt eitt sem er að finna í flóru ESB-andstæðinga sem sækjast eftir sæti á ESB-þinginu í kosningunum nú í maílok. Aukið misrétti, kreppan, ósveigjanleiki í garð fátækra, auknar álögur, vantrú á stjórntækjum skrifræðis og kapítalisma og svæðisbundin vandamál svo sem flóttamannastraumurinn til Evrópu og meðferð á því fólki sem hefur reynt að komast inn fyrir illvíga múra forréttindaríkis hinna ríku í Evrópu eru meðal þess sem hefur blandast inn í þessar umræðu. Síðastnefnda málið var meða annars tekið fyrir nú nýverið í dönskum fjölmiðlum og er hér tengill á þá umræðu:

http://nyhederne.tv2.dk/udland/2014-03-31-23000-d%C3%B8de-her-er-de-farligste-veje-ind-i-fort-europa

Þá er fjallað um sumt af því sem hér fer að ofan í nýútkominni skýrslu um þá flokka sem eru í forsvari Evrópusambandsandstæðinga í Evrópu og er hér tengill á þá skýrslu. Hún er þó engan veginn tæmandi en ítarleg svo langt sem hún nær:

http://www.cardiff.ac.uk/insrv/resources/edc/Euroscepticism.pdf 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vinstri radíkali flokkurinn Syriza í Grikklandi er ekki á móti EU.

Þá hefur formaður flokksins, Tsipras (Αλέξης Τσίπρας), margoft sagt að hann vilji áfram Evruna.

Hættið að villa um fyrir fólki!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.5.2014 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband