Vinnumarkaðsumbætur ESB boða harkaleg komandi ár

Saga EBE/ESB er saga um stöðuga viðleitni og endurteknar tilraunir lítillar elítu, þ.e.a.s. klúbba kringum vesturevrópskt stórauðvald, til að smíða sér stærri og voldugri einingu, efnahagslega og pólitíska blokk. Til þess þarf að  brjóta niður skilrúm, opna landamæri, samræma og samhæfa framleiðslukerfi og vinnumarkaðs-regluverk, gera það straumlínulagaðra, ná við það sparnaði og hagræðingu stærðarinnar - til að græða meira á sameiginlegum innri markaði og til að standast betur samkeppni frá öðrum auðvaldsblokkum. 

Tilraunir elítunnar til að smíða pólitískt samband hafa mætt eindreginni andstöðu og tregðu hjá almenningi sem hefur jafnan fellt slíkt ef hann er spurður. Úr því lýðræðisleiðin er ekki fær velur elítan hjáleið: að innleiða sameiginlegan markað - formlega með Maastrict-samningnum 1993 - sleppa markaðsöflunum lausum og láta frjálsa flæðið og samkeppnina sjá um samrunaþróunina. Leiðin liggur framhjá lýðræðinu. Gallinn við pólitíkina er að þar þvælist almenningur endalaust fyrir en á efnahagssviðinu ræður elítan ein (einokunarauðvaldið). Mig langar að nefna fáeina nýlega áfanga á þessari þróunarbraut.

Árið 2000 tók ESB upp sk. Lissabon-stjórnlist (Lisbon strategy) þar sem sett var á dagskrá að gera ESB að „samkeppnishæfasta efnahagskerfi heims" fyrir árið 2020. Evrópski markaðurinn þurfti að verða meira örvandi fyrir fjárfesta og þar með hagvöxtinn. Sérstakt vígorð var „sveigjanleiki" og byggðist á þeirri trú að afnám reglna (deregulering) og sveigjanleiki á vinnumarkaði væri lykilatriði í því að auka hagvöxt.

Næsti áfangi var stækkun ESB í austur 2004. Þar fór saman hagræn stórsókn Vesturevrópsks auðmagns inn í gömlu austurblokkina og svo straumur launafólks frá austri, þar sem verkalýðshreyfing er naumast til. Þeim straumi var ætlað að brjóta upp „ósveigjanleika og reglugerðabákn" í vestrinu. Í framhaldinu voru framleiðslueiningar fluttar á lágkostnaðarsvæði í austri og/eða að ódýrt vinnuafl streymdi í vestur í krafti hins frjálsa flæðis. Elítan hefur lengi talið að „reglugerðabákn" á vinnumarkaði hamlaði hagvexti. „Reglugerðabákn" á vinnumarkaði er samheiti við áunnin fagleg réttindi og því snar þáttur í velferðarkerfinu. Markmiðið var sem sé að brjóta upp heildarkjarasamninga og stranga vinnulöggjöf, og til lengri tíma að losna við kostnaðarsamt velferðarkerfi.

Þegar svo fjármálakreppan 2008 kom til og í framhaldinu evrópska kreppan er hún notuð sama hátt: sem múrbrjótur á fagleg réttindi og velferðargæði. Vinnumarkaðsumbætur eru fyrst innleiddar í þeim löndum Suður-Evrópu þar sem allt er í kaldakoli og niðurskurðarhnífurinn stöðugt blóðugur, og síðan er umbótunum veitt þaðan og inn í hin löndin. Tilskipanirnar frá miðstöðvum ESB verða sí-harkalegri. Nefna má áætlun um fjármálastöðugleika sem nefnd er „Evrópska önnin" sem Framkvæmdastjórnin sendi út í ársbyrjun, einnig svonefndan „ríkisfjármálasáttmála" (bann við Keynesisma) frá í mars sl. sem ég fjallaði nokkuð um fyrir viku.

Nú síðast, í september sl., kemur frá Framkvæmdastjórninni skýrsla um „umbætur á vinnumarkaði".  Sjá hér: http://ec.europa.eu/economy_finance/publications/european_economy/2012/pdf/ee-2012-5_en.pdf  Þar er fjallað um breyttar reglur á vinnumarkaði sem þegar hafa gengið í gildi í nokkrum aðildarríkjum þar sem kreppan hefur komið harðast niður og lagt er á ráðin um frekari aðgerðir í sama anda. Breytingarnar fela almennt í sér „aukinn sveigjanleika" þ.e.a.s. afnám reglna á vinnumarkaði. Dæmi: dregið er úr vægi heildarkjarasamninga, boðuð „dreifð samningagerð" þar sem einstök fyrirtæki geta samið um kjör utan kjarasamninga og bein inngrip ríkisstjórna um kaup og kjör eru daglegt brauð (um þetta er fjallað í skýrslunni á bls 48-60).

Samband evrópskra verkalýðsfélaga (European Trade Union Confederation, ETUC) er regnhlífarsamtök verkalýðshreyfinga innan ESB. Sambandið rekur rannsókna- og námsstofnunina ETUI. Á vegum hennar hefur nú verið gerð rannsókn á þessum vinnumarkaðsumbótum sem flæða yfir lönd sambandsins í kreppunni. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er að umbæturnar hafi í för með sér meiri ójöfnuð og meira óöryggi í Evrópulöndum. Rannsóknarskýrsluna má sjá hér:

http://www.etui.org/Publications2/Working-Papers/The-crisis-and-national-labour-law-reforms-a-mapping-exercise  Danska netsíðan „EU-fagligt netværk", sem er ESB-gagnrýnin, dregur skýrsluna saman og segir m.a.:

„Krafan um umbætur hefur hljómað árum saman frá ESB-kerfinu, en í núverandi kreppu hafa kröfurnar um „sveigjanlegri vinnumarkað" harðnað. ESB leikur beint og virkt hlutverk í því að grafa undan faglegum réttindum í Grikklandi, Írlandi og Portúgal eins og skýrslan sýnir. Löndunum er ekki bara þröngvað til að breyta reglunum um vinnumarkaðinn heldur einnig félagsmálakerfinu (styttri dagpeningagreiðslur, lægri bætur, hækkaður lífeyrisaldur, lækkaðar lífeyrisgreiðslur).

Umbæturnar nú eru svo umfangsmiklar að þær ógna beinlínis hinni svonefndu „evrópsku samfélagsgerð" segja skýrsluhöfundarnir tveir frá ETUI. Skýrslan bendir á nokkrar almennar tilhneigingar til afnáms reglna á vinnumarkaði aðildarlandanna og fjallar um þróunina í 24 löndum. ETUI bendir á að umbæturnar séu í mörgum tilfellum teknar upp án lýðræðislegs lögmætis og án tillits til hefða í viðkomandi löndum. Í mörgum tilfellum eru umbæturnar samþykktar án þess að verkalýðshreyfingin sé höfð með í ráðum eins og annars er venja."

http://www.eufagligt.dk/artikel/alarm_faglige_rettigheder_under_angreb_i_hele_eu/

Það er ástæða til að undirstrika að skýrsla þessi sem er samhangandi aðvörunaróp er ekki samin af stofnun sem yfirleitt ástundar ESB-gagnrýni heldur er stofnunin hluti af ESB-batteríinu og hefur stutt samrunaferlið til þessa. En niðurstaðan er enn á ný þessi: Elítan notar vald sitt í efnahagslífinu til að leggja leiðina framhjá lýðræðinu. Eins og samkeppnin og frjálsa flæðið áður er kreppan nú notuð eins og gengið getur sem múrbrjótur gegn verkalýðshreyfingunni og og áunnum réttindum hennar. /ÞH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allt tal um "litla elítu eða klúbba í kringum vesturevrópsku stórauðvald" er vænisýki enda ekki minnsti fótur fyrir slíku. Ekki er getið um neitt slíkt í skýrslunni sem vitnað er í.

ESB-paranojan er séríslenskt fyrirbæri. Íslenskur afdalaháttur og vanmetakennd sem fær útrás í þjóðrembu er aðalástæðan fyrir andstöðu við ESB-aðild enda hníga flest ef ekki öll rök að aðild. Vegna ónýtrar krónu hefur trúlega engin þjóð jafnmikinn hag af ESB-aðild og Íslendingar. 

Í raun eru þessar fréttir skýr vitnisburðir um lýðræðisleg vinnubrögð í ESB. Ákvarðanir eru gagnrýndar. Ef gagnrýnin telst réttmæt er tekið tillit til hennar. Hagur almennings er þá alltaf í fyrirrúmi en ekki hagur sérhagsmunaaðila.

Valddreifingin í ESB tryggir það. Auk þess er það reynsla lítilla þjóða að fullt tillit sé tekið til þeirra. Almennt hefur þeim vegnað mjög vel í ESB. Eftir því sem ESB-þjóðir eru minni eru færri íbúar á bak við hvern þingmann. Ísland fær 12.5 sinnum fleiri þingmenn en sem svarar hlutfalli íbúafjölda.

Krafan um samþykki 55% þjóða í ráðherraráðinu auk kröfunnar um aukinn meirihluta atkvæða tryggir hag smáþjóða. Mál sem Evrópuþingið samþykkir ná ekki fram að ganga nema ráðherraráðið samþykki þau einnig.

Það er því ljóst að "lítil elíta eða klúbbur kringum vesturevrópskt stórauðvald",fær hvergi þrifist í ESB. Valdreifingin og vönduð löggjöf sér til þess.

Óvönduð stjórnsýsla og lög sem eru ýmist vanhugsuð eða standa vörð um hagsmuni sérhagsmunaaðila eru hins vagar alvarlegt íslenskt vandamál sem mun minnka verulega með ESB-aðild.

Ásmundur (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 19:54

2 Smámynd: Elle_

Alveg að fara á límingunum í ESB-rembingnum og paranojunni og vænisýkinni?  Ekki nema von með ykkar gjörtapaða mál.  Þjóðin er ekki eins vitlaus og þið Eiríkur, Jóhanna og Össur og co. haldið.  Langt í frá.

Elle_, 2.1.2013 kl. 22:48

3 Smámynd: Gunnlaugur I.

Ásmundur er svo blindaður og heilaþveginn að það getur oft verið hlægilegt að sjá hvað hann er illa blindaður.

Hann heldur hér blákalt fram að; "Lítl elíta eða klúbbur kringum Vestur Evrópskt stórauðvald" geti ekki þrifist í ESB. Vegna þess að valddrefingin og vönduð löggjöf sjái til þess.

En hvað með alla þessu vönduðu löggjöf og valddreifingu.

Afhverju fær þá alræmdasta glæpaklíka heims að vaða uppi í einu stærsta hagkerfi ESB/EVRU svæðisins.

Þar er Ítlaska Mafían sem nú sem aldrei fyrr er orðin stærri og öflugri en nokkru sinni og er nú talin stjórna stærstum hluta Ítlasks hagkerfis.

Þessi sérlega vandaða löggjöf og valddreifing hefur ekkert komið í veg fyrir það !

Gunnlaugur I., 2.1.2013 kl. 23:30

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta er allt of áróðursslagorðakennt til að vera tekið alvarlega. þetta er eins og áróðurinn á kreppuárunum. Alveg úrelt.

það sem gleymist alveg þarna er að allur almenningur nýtur góðs af opnun landamæra og niðurfelling hafta og helsis. Alveg álíka og almenningur nayt góðs af því á Ísandi um 1900 að vistarbandið var afnumið. Danir skipuðu íslendingum að afnema vistaandið. Íslendingar vildu það ekki og alveg sérstaklega ekki elítan.

Og það vekur umhugsun um að það er akkúrat elítan hérna uppi núna sem er á móti EU viðhorfum varðandi landamæri og frelsi fólks.

Sem ennfremur varpar ljósi á að Ragnar Arnalds er einmitt kominn langt aftur í ættum af elítunni.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.1.2013 kl. 23:53

5 Smámynd: Elle_

Nú á ætt manns að skipta máli??  Fjölskylda og ætt manns koma engu við.  Engu.  Þið verðið alltaf aumari og harðsvíraðri í örvæntingunni.  Kannski skiljanlegt?

Elle_, 2.1.2013 kl. 23:58

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú það skiptir máli í samhengi boðskapar pistilsins. Boðskapurinn snýst m.a. um elítu svohljóðandi:

,,Saga EBE/ESB er saga um stöðuga viðleitni og endurteknar tilraunir lítillar elítu, þ.e.a.s. klúbba kringum vesturevrópskt stórauðvald, til að smíða sér stærri og voldugri einingu, efnahagslega og pólitíska blokk. Til þess þarf að brjóta niður skilrúm, opna landamæri, samræma og samhæfa framleiðslukerfi og vinnumarkaðs-regluverk, gera það straumlínulagaðra, ná við það sparnaði og hagræðingu stærðarinnar - til að græða meira á sameiginlegum innri markaði og til að standast betur samkeppni frá öðrum auðvaldsblokkum."

þetta gæti verið skrifað einhverntíman á 4. áratug 20. aldar.

þetta jafnframt vekur upp umhugsunina um elítu á Íslandi. Er það ekki bara elíta sem hefur nánast alltaf ráðiðið og ráskast með allt á Íslandi? Jú, það er þannig. Ákveðnar ættir og fjölskyldur langt aftur í sautjánhundruð og súrkól. Ragnar Arnalds er kominn af kaupmönnum og embættismönnum langt aftur í ættir og þess vegna bara eitt andlit elítunnar hérna uppi í fásinni í höftum og helsi.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.1.2013 kl. 00:14

7 identicon

Gunnlaugur, meira bullið í þér.

Ítalska mafían hefur auðvitað ekkert með ESB að gera. Hún varð til löngu fyrir stofnun þess og fyrirlítur ESB vegna þess að það gerir henni erfiðara fyrir.

Mafían stjórnar ekki ESB. Ertu kannski að halda því fram að þessi hlægilega meinta elíta, sem enginn fótur er fyrir, sé ítalska mafían?

Þannig virðist þetta bara vera enn eitt auma rökþrotið hjá þér. Það kemur skýrt fram að ég er að tala um ESB en ekki hvað viðgengst í ESB-löndum.

Það er barnaskapur að ætla að með vönduðum lögum og vandaðri stjórnsýslu sé hægt að uppræta alla spillingu.

Úrslitin í kosningunni um ESB-aðild Íslands munu ráðast af því hvort íslenskur almenningur lætur íslenska elítu plata sig.

Þessi auðvaldselíta sem stjórnar landinu að miklu leyti er nefnilega til á Íslandi.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 07:42

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Að bera saman frjálst flæði milli ríkja í Evrópu við afnám vistabanns á Íslandi, undir lok 19. aldar, er vægast sagt frjálslega farið með staðreyndir, Ómar.

Því frjálsa flæði millli landa ESB og EES fylgir fleira. Því fylgir einnig frjálst flæði fjármagns, sem var grunnur þess að Ísland var sett á hausinn. Það er einnig grunnur þess vanda sem jaðarríki evrulanda búa við.

En það var þó ekki þessi atriði sem greinin hér að ofan fjallar um, heldur skýrslu unna af ETUI, samtaka stéttarfélaga innan ESB. 

ETUI hefur verið hlynnt ESB. Þessi samtök hafa verið fulltrúar launafólks innan sambandsins og staðið vörð þess. Nú er svo komið að ekki er lengur óskað aðstoðar þessara samtaka við reglugerð innan ESB, frekar talin vera til óþurftar. 

Þær breytingar sem nefndar eru í skýrslunni hafa flestar komið til vegna krafna frá launafólki og teknar upp ýmist í kjarasamningum eða með vinnu ETUI innan ESB. Um þessi atriði hefur verið samið.

Nú er verið að ógida þá samninga, einhliða. Það er gert í fögru nafni, "sveigjanleika á vinnumarkaði".

En fyrir hvern er þessi sveigjanleiki? Hver er það sem hagnast á þessum sveigjanleika? Ekki launafólkið, svo mikið er víst!

Sveigjanleikinn er gerður fyrir fjármagnsöflin,  svo þau geti grætt enn frekar. Það er með þetta eins og annað innan ESB, staðinn sterkur vörður um þá sem ráða fjármagninu og til þess er öllu fórnað.

Það segir kannski meira en allt annað hvernig ástand er að skapast innan ESB, einkum evruríkja, að Alþjóða Rauðikrossinn er þegar farinn að undirbúa neyðaraðstoð innan þessara landa, gerir ráð fyrir að til styrjalda muni draga þar áður en langt um líður. Þetta mat Alþjóða Rauðakrossins er byggt á áratuga reynslu þeirra og hver teikn þeir telja líklegust til styrjaldar. Þau teikn sjá þeir nú innan margra ríkja evrunnar.

Gunnar Heiðarsson, 3.1.2013 kl. 10:30

9 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Aumkunarvert að nota það sem rök fyrir ESB aðild að einhver baráttumaður gegn sé kominn af "kaupmönnum og embættismönnum langt aftur í aldir."

Svo segir Ómar Bjarki.  Sem sjálfur á þá væntanlega svo flekklausa forfeður þarna austur frá að enginn þeirra hafi ekki aðeins aldrei átt bót fyrir botninn á sér heldur einnig aldrei átt sjálfstæða skoðun.

Ásmundur hefur áður nefnt að takist okkur Íslendingum að sniðganga ESB aðild bíði okkar aðeins Parísarklúbburinn.  Sjálf sé ég ekki muninn, annan en þann augljósa; að við höfum ekki sótt um aðild að Parísarklúbbnum.  Þótt efa megi að sá kostur yrði verri.  A.m.k. þar til annað verður sannað.

Kolbrún Hilmars, 3.1.2013 kl. 15:34

10 Smámynd: Elle_

Ekkert svar.  Kolbrún, fóstbræðurnir 2 eru í Danmörku að hjálpa hinum 3ja að finna Palla fyrir Interpol.

Elle_, 3.1.2013 kl. 21:07

11 identicon

Kolbrún, það er ekkert að því að vera kominn af "kaupmönnum og embættismönnum langt aftur í aldir". Hins vegar getur það valdið því að viðkomandi tekur sérhagsmuni fram yfir hagsmuni almennings.

Það sækir enginn um að komast að hjá Parísarklúbbnum. Þar lenda þjóðir sem geta ekki greitt skuldir sínar og eiga sér enga bandamenn til að bjarga sér úr snörunni. Þær bera varla sitt barr eftir það.

Í ESB er miklu minni hætta á að Ísland lendi í slíkri stöðu með evru eða krónu í skjóli. Það er þó ekki hægt að útiloka það. Ef það gerist mun ESB bjarga okkur úr snörunni sbr aðstoð ESB við Grikki.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 22:36

12 identicon

Það er auðvitað jafnmikið bull að ESB taki hagsmuni fjármálafyrirtækja fram yfir hagsmuni almennings eins og að Jóhanna og Steingrímur geri það.

Sveigjanlegur vinnumarkaður er til hagsbóta fyrir almenning vegna þess að hann lágmarkar atvinnuleysi en hámarkar landsframleiðslu, lífskjör og opinbera þjónustu. Sérhagsmunir víkja fyrir almannahagsmunum.

Það eru einnig hagsmunir almennings að fjármálakerfið fari ekki á hliðina. Það ætti að vera óþarfi að útskýra það frekar fyrir Íslendingum sem hafa reynsluna.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband