Viljum við senda 47 milljón skattgreiðslu dag hvern til Brussel?

Nú er rifist af heift í Brussel um fjárlög risaríkisins fyrir árin 2014-20. Breska þingið samþykkti að krefjast þess að útgjöldin yrðu skorin niður. En hvað myndu skattgreiðendur á Íslandi þurfa að punga miklu úr sínum vösum ef Samfylkingunni tækist að gera Ísland að skattlandi ESB?

 

Framlög aðildarríkja til ESB eru reiknuð út frá þjóðartekjum að stærstum hluta en jafnframt fær ESB hlutdeild í tekjum ríkissjóðs af virðisaukaskatti, tolli og öðrum innflutningsgjöldum. Vergar þjóðartekjur (GNI) á Íslandi árið 2011 voru 1383 milljarðar kr. og út frá þeirri upphæð má áætla að heildargreiðslur ríkissjóðs Íslands til ESB yrðu um 17,2 milljarðar kr. á ári.

 

Þjóðartekjur aðildarríkja ESB eru mjög mismunandi en Ísland er tvímælalaust í hópi þeirra ríkja sem hæstar þjóðartekjur hafa og myndi þá skatturinn miðast við hámarksreglu sem segir að þau tekjuhærri greiði ekki meira en 1,24% af þjóðartekjum. Þannig er skattupphæðin fyrir Ísland fengin, þ.e. 17,2 milljarðar kr.

 

En eins og verða vill í stórríki sem stöðugt leitast við að efla áhrif sín og gera sig gildandi á öllum sviðum mannlegs lífs – eða með öðrum orðum svo að notað sé rammíslenskt orðalag – reynir stöðugt að vera ofan í hvers manns koppi, þurfa sístækkandi stofnanir miðstjórnarvaldsins sífellt að þenja sig meira út sem aftur krefst aukinna útgjalda.

 

Því kemur ekki á óvart að á krepputímum séu harðar deilur uppi um útþenslu skriffinnskubáknsins í Brussel og kostnaðinn sem af aðild leiðir. Fyrir fáum dögum gerðu 53 þingmenn breska Íhaldsflokksins uppreisn gegn foringja sínum, Cameron, og kröfðust þess að framlög til ESB yrðu skorin miklu meira niður en hann vildi og beið þá Cameron sinn mesta ósigur til þessa í breska þinginu. En hann verður að fylgja niðurstöðunni eftir á fundunum í Brussel.

 

Á Íslandi tíðka ESB-menn að gera sem minnst úr þessum háu skattgreiðslum sem Íslendingar yrðu að láta af hendi ef þeir gengju í ESB. Bent er á – sem vissulega er rétt - að einhver hluti af þessu fé komi til baka í formi styrkja til ýmissa verkefna sem ESB velur. Einmitt þessa dagana er ESB að ausa úr sjóðum sínum til verkefna hér á landi til að reyna að blíðka hug landsmanna gagnvart inngöngu í sambandið. En það eru þó smáaurar miðað við upphæðirnar sem við Íslendingar yrðum að greiða þeim eftir aðild.

 

Kjarni málsins er einfaldlega sá að rúmir 17 milljarðar myndu árlega flæða úr vösum íslenskra skattgreiðenda í eyðsluhítina í Brussel. Sá skattur næmi fjörtíu og sjö milljónum króna á hverjum einasta degi ársins! Er ekki hyggilegra að við Íslendingar fáum áfram að ráðstafa því fé til eigin þarfa?    - RA


mbl.is Viðræður um fjárlög ESB í strand
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Flott grein og orð í tíma töluð.

Þessum atriðum þurfum við ESB andstæðingar að halda hátt á lofti.

ESB sinnar tala oft eins og þessir fjármunir detti bara af himnum ofan fyrir náð og góðsemi Brussel valdsins.

Vissulega er það rétt að hluti af þessum 17 milljarða króna fjármunum sem við myndum þurfa að greiða til ESB ef kæmi til aðildar kæmu að einhverjum hluta til baka eftir meðhöndlun sérfræðingaráða og úthlutunarnefnda Brussel valdsins.

Gera má ráð fyrir að með einum eða öðrum hætti kæmu ca 66% "til baka" eða rúmir 11 milljarðar.

En nettó værum við að samt að greiða a.m.k. 6 milljarða á ári umfram þessa svokölluðu styrki, bara fyrir þá náð að vera hjá þeim í Klúbbnum.

Þannig færu 500 milljónir króna af þjóðartekjum til Brussel í hverjum einasta mánuði.

En eru þessir styrkir og ölmusa sem bjúrókratarnir hafa velþóknun á einhver raunveruleg verðmæti sem auka hagvöxt og nýsköpun til lengri tíma litið.

Ég dreg það mjög í efa og held því reyndar fram að svona styrkjakerfi hafi hamlandi áhrif á nýsköpun og hagkerfin almennt.

Það er vegna þess að allar svona styrkveitingar og millifærslur skekkja heilbrigða samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Þeir mismuna fyrirtækjum, einstaklingum og atvinnugreinum og undantekningarlaust kalla þær á gríðarlega valdaspillingu og sóun fjármuna.

Talið er að u.þ.b. 1/3 af styrkveitingum sem veittar eru fari í kostnað við sjálfa umsóknina það er sérfræðikostnað ýmiskonar s.s. vinnu starfsmanna fyrirtækjanna sjálfra og svo lögfræðinga og endurskoðenda og annarra sérfræðinga. Ekki er heldur sopið kálið þó svo styrkur fáist því að þá þarf áfram að skila reglulega allskonar framvinduskýrslum og þóknast öllu skrifræðinu og kenjum sérfræðingaráðana í Brussel.

Þannig má gera ráð fyrir að 3,5 milljarðar fari í kostnað og klípist af þessum styrkjum.

Síðan er ótalin sá kostnaður sem önnur fyrirtæki og verkefni leggja í við styrkumsóknir sem aldrei fæst neinn styrkur út á.

Því að staðreyndirnar eru þær að innan við 10% af umsóknum fá náð fyrir augum sérfræðingaráða úthlutunarnefndanna.

Gróflega má gera ráð fyrir að sá kostnaður sé ekki minni, jafnvel meiri, en sjálfra styrkþegana.

Þannig að þegar upp er staðið er lítið orðið eftir af þessum ölmusu styrkjum sem nýtast í raunveruleg verkefni.

Styrkja og ölmusukerfi ESB er að mínum dómi og margra annarra ekkert annað en rándýrt og óskilvirkt millifærslu og spillingar kerfi.

Sem er stórkostleg sóun verðmæta og hamlandi fyrir raunverulegan hagvöxt og frjóa hugsun og nýsköpun

Gunnlaugur I., 10.11.2012 kl. 14:56

2 identicon

Hversu mikið af þessu fengist til baka með algjöru afnámi tolla á útflutningi okkar inn á svæði ESB? Þar er um að ræða ca. 85% af öllum útflutningi íslendinga.

Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 10.11.2012 kl. 15:46

3 identicon

Hvað myndi meðal íslendingur fá í vasann með lægra matvöruverði, tollfrjálsum innflutngi allra vara frá svæðinu og reglna sem kæmu í veg fyrir verðtryggingu og hækkun stýrivaxta sem tæki til efnahagsstjórnunar?

Hvernig væri nú að reyna hafa umræðuna svolítið málefnalega í stað þessa einhliða skoðanastríðs og hræðsluáróðurs sem nú er í gangi

Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 10.11.2012 kl. 15:48

4 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Jón Bjarni

Þér verður nú síst hrósað fyrir málefnalega umræðu. Eða þykistu ekki vita að við höfum fyrir löngu gert samninga við ESB sem fela það í sér að það eru engir tollar á mestöllum útflutningi okkar til ESB-ríkja og engir tollar á innfluttum vörum frá ESB-ríkjum nema á landbúnaðarvörum en þeir tollar eru lagðir á til verndar íslenskum landbúnaði sem ella yrði fyrir gífurlegu tjóni. Hins vegar eru tollar á vörum sem koma frá ríkjum utan ESB og í mörgum tilvikum myndu þeir beinlínis hækka við inngöngu í ESB og valda hærra vöruverði. Dæmi um þetta er innflutningur á banönum. Verðtrygging á lánum kemur þessu máli ekkert við. Við getum afnumið hana (þó ekki afturvirkt) strax og við viljum.

Vinstrivaktin gegn ESB, 10.11.2012 kl. 16:34

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Og nú logar allt í ESB út af kröfum um hækkun á gjöldum ríkjanna til bjúrókratana í Brussel, þetta er allt að liðast í sundur sem betur fer, og sundrungin er ... já vegna þess að það kemur við pyngjuna í aðildarríkjunum, hvað annað en peningar geta haft þau áhrif? Ekki sanngirni, heiðarleiki, umhyggja, nei peningar eru allt sem þarf/vantar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2012 kl. 18:26

6 identicon

Það sem rennur til ESB frá Íslandi, ef af aðild verður, kemur margfalt tilbaka þegar allur sparnaður og öll hlunnindi eru talin.

Fyrir utan alla styrkina sem við fáum er td um að ræða gífurlegan sparnað við upptöku evru. Þá fellur niður mikill kostnaður við að halda úti eigin gjaldmiðli, þar á meðal kostnaður vegna nauðsynlegs gjaldeyrisvarasjóðs.

Eftir upptöku evru er hægt að nota gjaldeyrisvarasjóðinn til að greiða niður skuldir og spara þannig gífurlegan vaxtakostnað til langrar framtíðar.

Vaxtakostnaður ríkisins minnkar ekki bara vegna þess að skuldirnar minnka. Ekki er síður um vert að vaxtaprósentan lækkar verulega. Hér er um að ræða sparnað upp á tugi milljarða.

Með krónu töpum við gífurlegum upphæðum vegna gjaldeyrishafta. Það tap á sér stað af mörgum ástæðum. Auk vaxtaálags vegna hafta er mikill fjarmagsmagnflótti úr landi framhjá lekum höftum. Heilu fyrirtækin gera út á slíka þjónustu.

Það er því veruleg hætta á að gjaldeyrisskortur valdi greiðsluþroti ríkisins. Það getur riðið okkur að fullu enda við ein og yfirgefin án bandamanna.

Parísarklúbburinn væri þá okkar eina athvarf en það er matröð hverrar þjóðar að enda þar.

Mesti fjarhagslegi fengurinn með ESB aðild er þó stöðugleikinn sem fæst fljótlega eftir ESB-aðild með ERMII myntsamstarfinu. Það eflist enn frekar 2-3 árum seinna með upptöku evru.

Stöðugleikinn eykur samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Fjölbreytileg starfsemi mun blómstra þegar hún fær grundvöll til að vera í heilbrigðri samkeppni við fyrirtæki evrulanda.

Það verður liðin tíð að ekki sé hægt að gera samninga við erlenda aðila nema til mjög skamms tíma vegna óvissu um gengisþróun.

Það verður liðin tíð að þau fyrirtæki sem taka sjansinn blómstri til að byrja með en verði svo gjaldþrota þegar gengi krónunnar verður þeim mun óhagstæðara.

Það verður liðin tíð að öflug fyrirtæki flytji í stórum stíl starfsemi sína úr landi vegna ófremdarástands af völdum krónunnar.

Þeirri þróun, sem felst í því að vel menntað hálunað fólk flyst úr landi og láglaunafólk frá útlöndum kemur í staðinn, mun þá linna.

Laun á Íslandi munu þá nálgast eða ná launum í þeim evruríkjum sem við höfum borið okkur saman við.

Fjárhagslegur ávinningur af að ganga í ESB og taka upp evru er svo gífurlegur að væntanlegar greiðslur íslenska ríkisins til ESB verða hverfandi í þeim samanburði.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 10.11.2012 kl. 23:33

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ávinningur Ásmundur í ESB?? Sparnaður,hlunnindi,styrkir,?? Eftir upptöku hvers? Eigun við gjaldeyrisvarasjóð? Skuldum við hann ekki,var hann ekki sleginn að óþörfu? Hvaða stöðugleika sannar Esb? Nafntoguðstu hagfræðinga heims greinir á um efnahagsleiðir einstakra ríkja. Því skyldum við,sem viljum ekki í Esb, amast yfir stórveldisdraumum kommisera þeirra,sem líklega hafa reiknað sér hagnað af að komast yfir Ísland,einmitt það sem við berjumst á móti. Ríkisstjórn Íslands,er mönnuð af jafn einföldum einstaklingum,sem vegna alltof margra ára karpi í þingsölum,hafa orðið viðskila við grasrótina,skilja ekki að við verðum ekki keypt fyrir mútufé,eins og þessair IP styrkir geta kallast. Þjóðareinkenni okkar hafa ekki skolast burtu,þrátt fyrir áföll,við viljum vinna fyrir okkar brauði og halda fullri reisn,umfram allt halda í sjálfstæði okkar.

Helga Kristjánsdóttir, 11.11.2012 kl. 05:17

8 Smámynd: Gunnlaugur I.

Hinn forritaði ESB páfagaukur Ásmundur......... hefur talað !

Gunnlaugur I., 11.11.2012 kl. 10:24

9 Smámynd: Elle_

Hann hefur gaggað og getur ekki þagað.  Gaggið hans er alltaf það sama, þvert gegn öllum rökum og öllum ljóta raunveruleikanum sem blasir við heiminum úr nýlenduveldasvæði Evrópu: Heil sé 4. ríki Stór-Þýskalands, dýrðlegu og æðislegu.

Elle_, 11.11.2012 kl. 11:00

10 identicon

Viðkvæmni Gunnlaugs og Elle fyrir sannleikanum um ESB er góð vísbending um hve veikur þeirra málstaður er.

Ekki er ólíklegt að þau séu að verja eigin sérhagsmuni á kostnað almennings. Krónan er afbragðs tæki til að braska og auka ójöfnuðinn í landinu.

Krónan eykur ekki bara ójöfnuðinn. Gengissveiflur, hömlur og höft af hennar völdum draga úr landsframleiðslu og hagvexti.

ESB-aðild og evra eru því ávísun á meiri jöfnuð, betri kjör og betra mannlif. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 11.11.2012 kl. 13:42

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ef einhver er með sérhagsmuni hér þá ert það þú Ásmundur, það er með ólíkindum hvernig þú talar eins og talbrúða sömu slagorðin og vitleysuna aftur og aftur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.11.2012 kl. 14:20

12 identicon

Ásthildur, hverjir eru þessir sérhagsmunir mínir? Eða hvaða sérhagsmuni mun ESB-aðild vernda?

Það er hins vegar ljóst að þeir sem geta spilað á gengi krónunnar græða með lítilli fyrirhöfn. Sumir hafa orðið milljarðamæringar á kostnað almennings.

Skiptir þá ekki máli hvort krónan sé í höftum eða viðskipti með hana frjáls.

Í höftum græða menn á gengismuni krónunnar hér og erlendis. Í frjálsum viðskuptum maka menn krókinn á gengissveiflunum.

Þegar bólan var við það að springa var féð flutt til útlanda. Þegar gengi krónunnar hafði fallið um helming var það aftur flutt heim og hafði þá skyndilega tvöfaldast.

Eða jafnvel mun meira en það eftir fjárfestingarsamning við seðlabankann. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 11.11.2012 kl. 15:53

13 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Ég hér með bendi Vinstri vaktinni gegn ESB á þá staðreynd að Ísland er ekki hluti af tollabandalagi Evrópusambandsins. Þannig að á innflutning á vörum frá Íslandi leggst tollur samkvæmt kröfum WTO og síðan tollataxta Evrópusambandsins. Þetta veit ég vel. Þar sem ég hef verið að skoða innflutning á vörum frá Íslandi hingað til Danmerkur. Á það mundi leggjast tollur og vsk (25%) við innflutning hingað til Danmerkur. Tollkvótar (EES samningurinn) eru einhverjir, en varla fyrir einstaklinga að flytja inn smávöru á þeim inn til Evrópusambandsins. Í ár er búið að nota alla tollkvóta frá Íslandi.

Íslendingar leggja tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt á allar vörur sem eru fluttar inn frá Evrópusambandinu (þó í mismiklum mæli eftir vöruflokkum).

Þannig að fullyrðing Vinstri vaktin gegn ESB um meint tollaleysi sannar því afskaplega vel fáfræðina og vanþekkinguna á Evrópusambandinu og hvernig það virkar. Það væri heiðarlegt fyrir andstæðinga Evrópusambandsins að játa það hér og nú að þeir vita ekkert hvað þeir tala um. Sérstaklega vegna þess að fáfræði þeirra er augljós og þeir koma upp um sig í öðru hverju orði.

Jón Frímann Jónsson, 13.11.2012 kl. 04:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband