Afturköllun umsóknarinnar var lofað

Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra skrifar

Meðan Ísland hefur stöðu umsóknarríkis að Evrópusambandinu hefur viðræðum á grundvelli umsóknarinnar ekki verið hætt.Bæði utanríkisráðherra og stækkunarstjóri Evrópusambandsins hafa staðfestað þó svokallað „hlé" hafi verið gert á viðræðunum hafi Ísland áfram stöðu umsóknarríkis. Það framtak Gunnars Braga að leysa upp samninganefndirnar var gott en betur má ef duga skal.Spurning er hvort utanríkisráðherra  hefði ekki  betur fækkað utanlandsferðum og  fylgt í stað eftir tillögu sinni um afturköllun umsóknarinnar að ESB á Alþingi eins og  hann hafði talað  fyrir.

Staðreyndin er sú að þegar skrifað var undir umsóknina  fyrir Íslands hönd var jafnframt samþykkt að undirgangast lög og vinnureglur sambandsins í umsóknar- og aðlögunarvinnunni. Umsóknarríki tekur á sig ákveðnar skuldbindingar og ESB öðlast rétt til  afskipta af innanríkismálum hér á landi. Stækkunardeild ESB hefur t.d. áfram rétt til að reka hér umfangsmikið áróðurs- og kynningastarf. Evrópustofa og Sendiráðsskrifstofa ESB getur áfram veitt hingað fjármunum í áróðursverkefni, kynningu  og boðsferðir langt umfram það sem heimilt er með starfi sendiráða.

Áróðursskrifstofur ESB reknar áfram

Þrátt fyrir að einstök lönd Evrópusambandsins reki hér eigin sendiráð er Evrópusambandið sjálft með stórt sendiráð með umfangsmikla starfsemi og afskipti af innanríkismálumsem öðrum sendiráðum væri ekki heimilt á grundvelli Vínarsáttmálans um skyldur erlendra diplómata.

Það að ríkisstjórnin hefur ekki afturkallað formlega umsóknina um aðild þýðir að  Ísland heldur áfram stöðu umsóknarríkis og umsóknarferlinu hefur ekki verið hætt eins og lofað var.

Í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær voru  stjórnarþingmenn fátalaðir um ESB-umsóknina, eitt stærsta kosningamál síðustu alþingiskosninga.

Hinsvegar máttu ESB- sinnarnir í stjórnarandstöðunni vart vatni halda yfir gleði sinni yfir því að umsóknin að ESB væri í fullu gildi, mallaði áfram og gæti fyrirvaralítið farið á fulla ferð á ný.

ESB- flokkarnir með tapað mál

Formenn beggja Samfylkingarflokkanna , Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson, fögnuðu því að hafa getað komið í veg fyrir að aðildarviðræðum við ESB væri slitið. Þeir töldu sig heldur betur hafa dregið tennurnar úr forystumönnum ríkisstjórnarinnar í ESB-málum.

Afturköllun ESB-umsóknarinnar var hinsvegar ekki stöðvuð af stjórnarandstöðunni eins og þeir halda fram. Ríkisstjórnin er með drjúgan þingmeirihluta og gat verið löngu búin að beita sér fyrir samþykkt tillögunnar ef hún vildi svo.Við sem viljum ganga hreint til verks og afturkalla umsóknina erum með unna stöðu sem átti að fylgja eftir. Meira að segja undirskriftasöfnun ESB-sinna var skrípaleikur þar sem „Óskar Nafnleyndar" var í aðalhlutverki.

Sumarþing og ljúka málinu

Ég er áfram þeirrar skoðunar að kalla eigi saman sumarþing til að ljúka ESB-málinu fyrir haustið. Ekki trúi ég því að stjórnarflokkarnir hafi guggnað, en trúverðugleiki þeirra hefur beðið hnekki .  Hitt er þeim slæmur kostur að geyma málið til hausts og þurfa þá að endurflytja tillöguna. Þá byrjar sama ballið upp á nýtt og menn vita  þá í hvað haustið fer.

(Áður birt í Morgunblaðinu í dag, 20. maí 2014) 


Hvar eru ákvarðanir teknar og hvers vegna skiptir það máli?

Það er í tísku að tala illa um þingið og ekkert nýtt við það. Á nýliðnu þingi vakti það athygli að fleiri þingmannamál voru samþykkt en venja er til. Það er skref í átt til þess að gera fleiri raddir gildandi en raddir þeirra stjórnvalda sem fara með völd hverju sinni.

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar á Íslandi og kosningar til ESB-þingsins. Sú þróun hefur átt sér stað undanfarna tvo áratugi að minnsta kosti að sífellt fleiri verkefni eru færð til sveitarfélaga og fjármagn fylgir eða á að fylgja þeim verkefnum. Stækkun og samvinna sveitarfélaga er nauðsynleg til að sinna þessum verkefnum og ekki til einhver ein, rétt leið til að gera það. Stundum hefur sameining sveitarfélaga falið í sér óvinsælar, umdeildar og stundum jafnvel ákvarðanir sem hafa verið kallaðar aftur vegna gagnrýni heimamanna. Nægir þar að nefna sameiningar umönnunarstofnana aldraðra og brottflutninga úr heimabyggðum og sameiningar skóla, sem hafa ýmist tekist vel eða illa, efling skólastarfs og langur skólabifreiðaakstur togast á þegar fólk gerir upp hug sinn.

Sífellt fleiri ákvarðanir eru teknar langt frá vettvangi heimahaga í Evrópu, lög og reglur sem varða smæstu atriði daglegs lífs. Sumt er vel gert en annað miður og því sterkari sem hagsmunaaðilar eru, þeim mun líklegra er að fólkið, sem ákvarðanirnar hafa áhrif á, megi sín lítils eða jafnvel einskis. Þetta er eitt af því sem veldur að fólkið innan Evrópusambandsins, ekki síst þeir sem gagnrýnir eru á regluverk þess, hefur barist fyrir auknum áhrifum Evrópuþingsins, því þar eiga þó þjóðkjörnir fulltrúar hverrar þjóðar sína eigin rödd, þótt lagasetningaferlið sé á annan veg en á flestum (öllum) þjóðþingum álfunnar. Henni er lýst svo á Evrópuvefnum (Evrópuvef Háskóla Íslands og alþingis):

“Aðkoma Evrópuþingsins að setningu Evrópulaga er ýmist í samræmi við svokallaða almenna lagasetningarmeðferð eða sérstaka lagasetningarmeðferð eftir því hvaða málaflokkar eru til umræðu. Núorðið eru flestar gerðir settar með almennri lagasetningarmeðferð en samkvæmt henni hefur Evrópuþingið jöfn tækifæri á við ráð ESB til að móta nýja löggjöf og getur hafnað tillögum þess. Framkvæmdastjórnin hefur í þeim tilvikum frumkvæðisrétt að nýrri lagasetningu sem felur í sér að hún ber ábyrgð á að móta og leggja tillögur að nýjum lögum fyrir Evrópuþingið og ráðið.”

Við þessar aðstæður er ekkert rúm fyrir frumkvæði, varla einu sinni raddir óbreyttra þingmanna, hvað þá enduróm frá kjósendum (nema þeir séu innvígðir í lobbíistaklúbbinn). Og kjörsókn, sem var árið 2009 aðeins 43% en margir óttast að verði minni í komandi kosningum eru fleirum áhyggjuefni en vinstrisinna á Íslandi, sem sæi fram á 6 þingmenn af 766 (með nýjustu viðbót þingmanna hefur þeim fjölgað upp í þessa tölu skv. sömu heimild og að ofan er nefnd). Og auðvitað hefur þetta verið rannsakað, enn er litið á upplýsingar af Evrópuvefnum:

„Mikið hefur verið rætt um hugsanlegar ástæður sífellt minnkandi kjörsóknar í kosningum til Evrópuþingsins. Finnski fræðimaðurinn Mikko Mattila hefur komist að þeirri niðurstöðu að áhrifaþættirnir séu að hluta til þeir sömu og í landskosningum. Þannig hafi það áhrif hvort borgurum sé lagalega skylt að mæta á kjörstað, hvaða dag vikunnar kosningar eru haldnar (kjörsókn er almennt meiri um helgar) og hvort kosningar til Evrópuþingsins séu haldnar samhliða öðrum kosningum í viðkomandi aðildarríki.

 

Þá hafi aðrir þættir, sem tengjast Evrópusambandinu beint, einnig áhrif en þó ekki eins mikil að mati Mattila. Kjörsókn í aðildarríkjum sem hljóta háa styrki frá ESB er meiri en í þeim ríkjum sem fjármagna stóran hluta styrkjanna. Einnig sé kjörsókn meiri í aðildarríkjum þar sem ESB nýtur almennt mikils stuðnings almennings. Sú staðreynd að vald Evrópuþingsins er töluvert minna en ríkisþinga geti einnig skýrt dræma kjörsókn, þar sem ávinningurinn af því velja sinn eigin frambjóðanda á Evrópuþingið sé minni en þegar kemur að ríkisþingum. Að mati Mattila endurspeglar lítil kjörsókn í kosningum til Evrópuþings vandamál varðandi lögmæti þingsins og jafnvel Evrópusambandsins alls.“

 

Það virðist því langt í land að menn líti um öxl í þinglok ESB-þingsins og fagni aðkomu óbreyttra þingmanna að ákvarðanatökunni. Spurningin er hverjum finnst það skipta máli? Og því miður er ekki hægt að sjá lausnina í aukinni beitingu þjóðaratkvæðagreiðslna. Því ef skrifræðisvaldinu í Brussel hugnast ekki niðurstaðan er bara kosið aftur, og aftur, og aftur ... þar til sú niðurstaða fæst sem þar þykir ásættanleg.


Verður umsóknin afturkölluð eða látin gufa upp?

Enn virðist óljóst hvort ríkisstjórnin beiti sér í haust fyrir formlegri afturköllun Alþingis á aðildarumsókn að ESB eða láti sér nægja að staðfesta að viðræðum sé lokið. Á þessu tvennu er þó meginmunur.

 

Í Morgunblaðinu í dag er birt viðtal við Sigmund Davíð, forsætisráðherra, undir fyrirsögninni: „Framhald ESB-málsins ekki ákveðið“. Þar spyr blaðamaðurinn, Baldur Arnarson, ráðherrann í lok viðtalsins: „Sérðu fyrir þér að ályktunin geti verið tekin fyrir á haustþingi?“

 

Og svar forsætisráðherra er:

„Menn hafa ekkert rætt það sérstaklega hvort þörf sé á því.“

 

Óneitanlega er dálítið erfitt að trúa því að ríkisstjórnin hafi alls ekki rætt það í tengslum við þinglokin hvort tillagan um afturköllun umsóknarinnar verði endurflutt í haust eða ekki. Hitt er augljóst að ríkisstjórnin hefur ekki ákveðið sig. Þar er eitthvert hik fyrir hendi.

 

Að sjálfsögðu er það hugsanlegur möguleiki að aðildarumsókn Íslands verði skilin eftir í höndum forystumanna ESB eins og hvert annað plagg sem lagt er upp í hillu. En málið er þó ekki alveg svo einfalt. Það hefur ýmsar afleiðingar að ganga ekki hreint til verks og ljúka málinu formlega.

 

Meðan umsóknin hefur ekki verið afturkölluð telst Ísland áfram vera „umsóknarland“ að forminu til. Í umræðum um norðurslóðamál á liðnu ári kom það skýrt fram að í samningaviðræðum ríkja um norðurslóðir myndi ESB koma fram fyrir hönd aðildarríkja sinna svo og umsóknarlanda. Til þess að Íslendingar séu virtir sem sjálfstæður samningsaðili af hálfu þriðju ríkja er óheppilegt að Ísland sé einhvers konar viðhengi við ESB. Einnig er hætt við að erfiðara verði fyrir Íslendinga að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við ríki í öðrum heimsálfum, ef það liggur ekki ljóst fyrir hver staða Íslands er gagnvart ESB.

 

Þar að auki er augljóst að ný ríkisstjórn gæti þá tekið upp aðildarviðræður að nýju fyrirvaralaust og án samþykkis Alþingis, ef samþykkt Alþingis  frá árinu 2009, sem veitti framkvæmdavaldinu heimild til samningaviðræðna við ESB, hefði ekki verið afturkölluð.

 

Það er því ljóst að mjög óheppilegt væri að núverandi ríkisstjórn skildi málið algerlega eftir í lausu lofti. Hún verður að setja punktinn aftan við þetta mál með svo skýrum hætti að ný ríkisstjórn geti ekki farið aftur af stað með málið án samþykkis Alþingis og þjóðarinnar. - RA


mbl.is Framhald ESB-málsins ekki ákveðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heppilegast að draga umsóknina til baka

Umsóknarferlið er nú í biðstöðu eftir fjögurra ára viðræður og óvissa með áframhaldið, skrifar Ævar Halldór Kolbeinsson félagsfræðingur í Morgunblaðið um ESB málið í dag. Þar segir síðan.:

aevar_kolb

M.a. er deilt um það hver á að taka ákvörðun um framhald mála. Þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi mál er ábyggilega þarfaþing, en ég velti því fyrir mér eins og væntanlega fleiri landsmenn; Af hverju er ekki hægt að ljúka aðildarviðræðum fyrst og fela svo þjóðinni að kjósa um fyrirliggjandi valkosti eins og gert var í Noregi á sínum tíma?

Það virðist því miður ekki vera hægt að gera það á hliðstæðan hátt nú vegna ákv. þróunar hjá Evrópusambandinu. Það er orðið öðruvísi nú en þegar norska þjóðin hafnaði aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994. Sem þýðir að það yrði mun fyrirhafnarmeira á margan hátt fyrir Íslendinga að ljúka aðildarviðræðum fyrst og kjósa svo um framhaldið eins og Norðmenn gerðu fyrir 20 árum.

Aðildarumsókn Íslands að ESB og ferill hennar

Í áðurnefndri skýrslu Hagfræðistofnunar, Úttekt á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið og þróun sambandsins kemur eftirfarandi fram: »Við mat á stöðu viðræðnanna er mikilvægt að átta sig á helstu einkennum og áherslum stækkunarstefnunnar. Stækkunarstefnan hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina og hafa þær endurspeglað þann efnahagslega og pólitíska veruleika sem við blasir hverju sinni.«

Einnig: »Stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í einkennist af strangari skilyrðum fyrir inngöngu en áður tíðkaðist.« Samtals eru nú 28 ríki í Sambandinu en voru um helmingi færri 1994 þegar Norðmenn tóku sína afstöðu. Síðan þá hafa 11 af nýjum ríkjum ESB verið fyrrverandi austantjaldsríki, sem þörfnuðust endurnýjunar á allri stjórnsýslu og fengu hana á vettvangi ESB, samfara nýrri stækkunarstefnu, sem er óþörf og of umfangsmikil fyrir Ísland.

En hver er staða fyrrnefndra lykilþátta nú?Í skýrslu Hagfræðistofnunar er m.a. vikið að stöðu mála varðandi sjávarútvegsmál: »Í framvindu-skýrslum Evrópusambandsins kemur einnig fram að sjávarútvegsstefna Íslendinga sé almennt ekki í samræmi við réttarreglur sambandsins.« Jafnframt; »Reynsla annarra þjóða sýnir glöggt að erfitt getur reynst að fá varanlegar undanþágur frá sameiginlegri stefnu sambandsins.«

Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur einnig fram að: »þegar viðræðunum var frestað hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki lagt fram rýniskýrslu sína og Ísland gat því ekki lagt fram formlega samningsaðstöðu sína í sjávarútvegi.« Eftir fjögur ár!

Í grein eftir Jón Bjarnason, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, í Bændablaðinu þann 5. mars sl. kemur fram að ESB stöðvaði umsóknarferlið í landbúnaði í nóv. 2011, því að kröfum þess var ekki mætt af hálfu Íslands. Í aðildarviðræðunum hafði ESB tekið sér einhliða vald til að setja opnunar- og lokunarskilyrði á hvern samningskafla, og nýtti sér það.

Evrópusamstarf Íslands til þessa

Með EES samningnum 1994 má segja að Ísland hafi orðið fullgildur aðili að víðtæku evrópsku efnahagssamstarfi. Í upphafi komu fleiri þjóðir að EES í gegnum EFTA samstarfið og þá var það mjög eftirsóknarvert fyrir ESB að hafa slíkan samning. Það er ljóst að Ísland hefur haft góðan ávinning af EES samningnum og spursmál hvort hann sé ekki áfram heppilegasti farvegurinn fyrir íslenskt Evrópusamstarf í framtíðinni. Þessi samningur nær ekki til sjávarútvegs og landbúnaðar og þrengir ekki neitt að fullveldi íslensku þjóðarinnar.

Í ljósi þess sem hér hefur komið fram tel ég heppilegast að draga umsóknina til baka. Allt í efnahagslögsögunni er þá aðallega Íslendinga! Síðan væri hægt að taka þráðinn upp aftur frá byrjun ef þurfa þykir.

Það er vel þess virði í tilefni af 150 ára afmæli þýska fræðafrumkvöðulsins Max Weber (1864-1920) að virða þann frábæra árangur ESB að hafa tryggt frið sl. áratugi á mjög fjölmennu svæði í Evrópu. Weber fjallaði í fræðum sínum líka um skriffinnsku en hún viðgengst víðar en í ESB.

Vert að taka fram að hvað sem af aðildarumsókninni verður, þá nýtur Ísland góðs af samstarfi við ESB í margslungnum milliríkjaviðskiptum, þó að stækkunarstefna þess sé orðin vafasöm. Vonandi næst sæmileg sátt um þessi mál í meðferð bæði þings og þjóðar. 


Þýska Septemberprógrammið frá 1914 orðið að veruleika

Stórauðvaldið hefur almennt ekki mjög ákveðnar pólitískar skoðanir. Það styður einfaldlega þann pólitíska valkost sem tryggir best gróðann og þenslumöguleikana á hverjum tíma. Þess vegna tekur vald auðsins á sig ólíkar birtingarmyndir.

Tökum þýskt stórauðvald sem dæmi. Þegar þýskur iðnaðarkapítalismi komst til þroska eftir sameiningu Þýskalands á 19. öld markaðist tilvera hans af þröngu olnbogarými, af því skipting stórvelda á heiminum í formi nýlendna og áhrifasvæða var þá þegar langt komin. Þýskaland hafði komið seint að „borðinu" svo misræmi var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og lítils olnbogarýmis. Í tímans rás hefur þýskt stórauðvald brugðist við þessari stöðu á talsvert mismunandi vegu. Samt er í því veruleg samfella.

Árið 1914. Í septembermánuði það ár þegar rúmur mánuður var liðinn af fyrra stríði - mánuður sem gekk Þjóðverjum mjög í vil - lagði Bethmann Hollweg Þýskalandskanslari framstyrjaldarmarkmiðin fyrir ríkisstjórn sína og næsta valdahring í Septemberprógramminu. Þar stóð:

„Mynda þarf Miðevrópskt efnahagssamband og tollabandalag sem nái yfir Frakkland, Belgíu, Holland, Danmörku, Austurríki-Ungverjaland, Pólland og mögulega Ítalíu, Svíþjóð og Noreg. Sambandið mun líklegast verða án sameiginlegs stjórskipunarlegs stjórnvalds og hafa yfirbragð jafnréttis meðal þátttakenda, þó það verði í reynd undir þýskri forustu, og verði að tryggja ráðandi stöðu Þýskalands í Mið-Evrópu." 

Skömmu síðar snérist stríðsgæfan á móti Þjóðverjum og stríðsmarkmiðin ýttust inn í framtíðina.

Árið 1933. Framan af höfðaði þýski Nasistaflokkurinn einkum til millistéttar en í djúpi kreppunnar 1932/33 vann hann tiltrú stórauðvaldsins. Það gerði flokkurinn einfaldlega með því setja hagsmuni þess í forgang: lofa harðri baráttu fyrir auknu landrými („lífsrými", nokkuð sem var í stefnuskrá flokksins frá upphafi), með því að leggja fram áform um hervæðingu efnahagslífsins sem leið út úr kreppunni, ennfremur bjóða sig fram sem brjóstvörn gegn kommúnisma/sósíalisma og róttækri verkalýðshreyfingu.

Auðhringar Þýskalands mynduðu kjarnann í efnahagskerfi nasista og stuðningur þeirra var meginforsenda fyrir völdum flokksins. Það er siður að dylja þetta með því að lýsa Þýskalandi sem einræði illmennis. Stjórnarfar Nasistaflokksins var um margt sérstætt. Hugmynd nasista um „lífsrými" var öðru vísi en Septemberprógrammið og gerði ráð fyrir opinskárri undirokun annarra (óæðri) þjóða. Samt var þetta stjórnarfar fyrst og fremstein birtingarmynd á stéttarveldi þýsks auðvalds. Aðferðin skilaði gróða og landvinningum allt til Stalíngrað en snérist síðan í hamfarir. En hamfarirnar eru kapítalismanum hollar og lögðu grunn að nýju þýsku blómaskeiði.

Árið 2014. Þýskt auðvald - ásamt einkum því franska - hefur alla tíð verið forystuaflið í Evrópusamrunanum. Eftir því sem hnattvæðing viðskiptanna náði sér á flug, m.a. með falli Austurblokkarinnar hefur ESB orðið múrbrjótur hnattvæðingar í formi frjáls fjármagnsflæðis og flæðis vöru og vinnuafls á sameiginlegum evrópskum markaði. Djúp kreppa Rússlands á 10. áratugnum auðveldaði sókn ESB inn í Austur-Evrópu. Sambandið beitti eigin viðskiptamúrum gagnvart löndunum: Ef Austur-Evrópulönd vilja aukin viðskipti við ESB-markaðinn verða þau að ganga í ESB! Eftir það áttu svo auðhringar ESB ­- og sérstaklega Þýskalands - óhindraðan aðgang inn í þessi lönd.

ESB-svæðið er nú tvískipt, skiptist í kjarnsvæði norðan og vestanvert og jaðarsvæði í suðri og austri. Kjarninn - og Þýskaland sérstaklega - blæs út sem útflutningshagkerfi og lánveitandi en jaðarsvæðin verða undir í samkeppninni og verða hjálendur í skuldafjötrum. Fjármálaöflin í ESB setja hinum skuldugu löndum skilmálana, afsetja jafnvel ríkisstjórnir og setja sitt fólk í staðinn. „Samstarfssamningur" sá sem ESB bauð Úkraínu í fyrra ber öll merki sömu útþenslustefnu, ekki síst sker hann mjög á hin nánu tengsl landsins við Rússland. Sjá grein mína um samstarfssamninginn: http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1382814/. Dæmið Úkraína sýnir líka að evrópskt stórauðvald styður fasista til valda ef nauðsyn krefur til að tryggja gróða sinn og þenslumöguleika.

Það eru ekki grófar ýkjur að kalla Austur- og Suður-Evrópu efnahagslegan bakgarð Þýskalands. Það eru alls ekki grófar ýkjur að segja að þýska Septemberprógrammið frá 1914 sé orðið að veruleika.

Þórarinn Hjartarson


Draumurinn um evruna er orðinn að martröð

Á evrusvæðinu eru nú sautján ríki og í tíu þessara ríkja er nú yfir tíu prósent atvinnuleysi. Það er engin tilviljun að einmitt íbúarnir í þeim ríkjum sem féllu fyrir draumnum um traustan, sameigin­legan gjaldmiðil sem allan vanda átti að leysa, þurfi nú að búa við martröð atvinnuleysis­vofunnar.

 

Þau ríki sem dýpst eru sokkin í atvinnuleysispytt evrusvæðisins eru Írland með tæplega 12% atvinnuleysi, Grikkland með tæp 27%, Spánn með rúm 25%, Frakkland með rúm 10%, Ítalía með tæp 13%, Kýpur með rúm 17%, Lettland með um 11,5%, Portúgal  með rúm 15% og Slóvakía með um 14%.

 

Tölurnar eru miðaðar við marsmánuð s.l.  Athyglisvert er að í flestum þessara ríkja hefur ástandið nánast ekkert lagast undanfarna mánuði, þótt vonir stæðu til að það væri að skána.

 

Viðbrögð forystumanna ESB við þessu ástandi hafa mjög verið á eina leið. Þeir hafa lengi aðeins séð eina lausn við öllum vanda og það er enn meiri samruni, enn meiri samþjöppun, enn meira framsal fullveldis til miðstýrðra stofnana ESB.

 

Evru­svæðið verði sam­bands­ríki

„Það er mín per­sónu­lega skoðun að evru­svæðið ætti að verða að Banda­ríkj­um Evr­ópu.“ Þetta sagði Vi­via­ne Red­ing, dóms­mála­stjóri Evr­ópu­sam­bands­ins og vara­for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar sam­bands­ins, í ræðu sem hún flutti í laga­deild Cambridge-há­skóla í Bretlandi fyrir skömmu. Sagði hún sterk rök hníga að því að koma á fjár­mála­legu banda­lagi og að lok­um póli­tísku sam­bandi („poltical uni­on“).

Til­gang­ur Banda­ríkja Evr­ópu ætti að vera að koma á stöðug­leika á evru­svæðinu, sagði Red­ing.

 

En er það vilji ESB-sinna á Íslandi, þessara sem þykjast fyrst og fremst vilja „kíkja í pakkann“ að landsmenn afsali sér fullveldinu og hverfa inn í nýtt sambandsríki Evrópu? - RA


Átök ESB við Rússa valda of háu gengi evrunnar

Seðlabankastjóri ESB-bankans, Mario Draghi, lýsti því yfir á blaðamannafundi s.l. fimmtudag 8.maí að aðgerðir Rússa í Úkraínu ættu sinn þátt í því að keyra gengi evrunnar upp á við en það gæti veikt mjög samkeppnisstöðu evruríkja og dregið úr útflutningstekjum þeirra.

 

Hann bætti því þó við að atburðirnir í Úkraínu væru ekki eina ástæðan fyrir því að þessi hætta steðjaði að. Lítil verðbólga, lítil eftirspurn eftir framleiðslu og gríðarmikið atvinnuleysi ættu sinn þátt í því að gengi evrunnar væri of hátt og væri það mikið áhyggjuefni.

 

Í evrópskum fjölmiðlum hefur verið fullyrt að vegna atburðanna í Úkraínu séu rússneskir auðjöfrar að flýja með fé sitt inn á evrusvæðið. Aðspurður kvaðst Draghi ekki geta svarað því hvert þetta fjármagn væri nú helst að streyma. En hann varaði við því að auknar refsiaðgerðir ESB gagnvart Rússum, sem gætu valdið samdrætti og kreppueinkennum þar, gætu komið ESB og evrusvæðinu í koll og í það minnsta haft meiri áhrif til hins verra á því svæði en annars staðar í heiminum.

 

Það er einmitt helsta áhættan sem fælist í upptöku evru hér á landi að sveiflur á gengi hennar yrði ekki í neinu samræmi við efnahagsþróun hér og þarfir íslensks atvinnulífs. Of hátt gengi gjaldmiðilsins, hvort sem um er að ræða evru eða krónu, getur haft afar neikvæð áhrif á efnahagslíf okkar, rétt eins og alltof lágt gengi hefur einnig sínar neikvæðu hliðar. - RA


ESB-andstæðingar í komandi kosningum til Evrópusambandsþingsins

Í komandi kosningum til Evrópusambandsþingsins eru allmargir flokkar í framboði sem eru gagnrýnir á Evrópusambandið í núverandi mynd. Sumir vilja að þjóðlönd þeirra gangi úr ESB en aðrir einbeita sér að breytingum innanfrá í ljósi þess að lönd þeirra eru...

Vaxandi efasemdir í ESB um eigið ágæti

Það eina jákvæða við evrukreppuna er sú staðreynd að fólkið í aðildarríkjum ESB horfist loksins í augu við þann vanda sem evran hefur skapað og dregur í vaxandi mæli í efa ágæti þess að þjappa völdunum saman í kringum einn valdakjarna og eina mynt sem...

Jón Bjarna: Umsókn um aðild að ESB á að afturkalla undanbragðalaust

Margur vinstrimaður batt vonir við að nýr formaður VG rifi sig frá hinni gömlu, ESB-sinnuðu forystu flokksins og gripi aftur til grunngildanna, sem Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð um. Í samræmi við stefnu flokksins ættu þingmenn VG ekki...

Sumarþing og sumarþing

Nú dynur á það árlega spursmál hvort hér eigi að vera sumarþing eða ekki. Alþingi hefur enn þann hátt að vinna eftir einhverjum undarlegum tunglgangi og þingmenn velflestir virðast una því vel. Vaknar þá sú spurning hvort þeir nenni ekki að vinna....

Atvinnuleysi af völdum evrunnar er vaxandi vandamál

Víða á evrusvæðinu segja menn að evran sé of sterk. Aðrir segja að hún sé of veik, a.m.k. fyrir Þjóðverja. Getur það verið rökrétt? Jú, skýringin er einfaldlega sú að sama gengi hentar ekki öllum, ekki frekar en að sama stærð af fötum passar ekki á alla....

Aðild að ESB stríðir gegn stjórnarskrá Íslands

Sumir ímynda sér að innganga í ESB feli einfaldlega í sér þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Þeir gera sér ekki grein fyrir því að ESB-aðild stríðir beinlínis gegn ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar og er óhugsandi án stórfelldra breytinga á stjórnarskrá....

Offors og óðagot í liði ESBsinna

Bergþór Ólason fjallaði nýlega um viðbrögð ESB-sinna við þeim tíðindum að ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis hyggst afturkalla aðildarumsóknina sem steytti upp á sker á seinasta kjörtímabili. Í grein í Mbl. benti hann á að þeir sneru öllu á hvolf. Við...

Skýrsla um áhættuþætti spillingar innan 10 helstu stofnana ESB; veikleikarnir eru innbyggðir

Þann 24. apríl síðastliðinn var gefin út merkileg skýrsla í Brussel. Hún er úttekt á helstu áhættuþáttum spillingar innan 10 helstu stofnana ESB, meðal annars framkvæmdastjórnarinnar, þingsins og dómstóls ESB. Það er ESB-skrifstofa óháðra alþjóðlegra...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband