Ekki gráta Björn bónda lengur, söfnum liði!

Fyrrverandi stuðningmenn VG telja sig margir vera ansi illa leikna af ESB svikum forystu þessa stjórnmálaflokks. Sérstaklega á þetta við um þá fjölmörgu sem að trúðu og treystu því að flokkurinn stæði sig í að vera flokkur sem væri andsnúinn ESB aðild og myndi aldrei láta ginna sig til slíkra verka sem hann hefur orðið ber af í samstarfi og þjónkun sinni við Samfylkinguna.

Það verður reyndar rannsóknarefni stjórnmála- og sagnfræðinga framtíðarinnar að finna það út hvernig og hvers vegna Samfylkingunni tókst að teyma forystumenn VG út í þetta fúafen ESB aðildarumsóknarinnar. Lygar og blekkingar varða allan þann veg. Ekki verður farið út í þá sögu hér lið fyrir lið, en það er löngu ljóst að VG verður ekki bjargað.

Sá flokkur er rúinn öllu trausti og forystan er fyrir löngu gengin í ESB björgin. Staurblindur keyrir nú formaðurinn leifarnar af flokknum fram af bjargbrúninni með ESB fánann í fanginu. Álengdar situr Samfylkingin og glottir við tönn !

Það þýðir ekki lengur fyrir okkur sem erum einarðir barátumenn gegn ESB aðildar helsinu og eitt sinn studdum þennan flokk VG að reyna að halda áfram að að tala um fyrir flokknum eða forystumönnum hans.

Þetta er algerlega þýðingarlaust lengur og einhvern tíma verður að draga strik og setja mörk. Einhvern tímann er komið nóg. Við hrópuðum og við kölluðum og reyndum allt hvað af tók, en á okkur var aldrei neitt hlustað. Nú er það einfaldlega orðið allt of seint! Það er meira en nóg komið.

Þess vegna verðum við nú að staldra við og endurskipuleggja baráttuna. Stjórnmálaflokkar eru ekki upphaf og endir alls. Þeir geta aldrei verið markmiðið. Þeir eru aðeins einhvers konar tæki lýðræðisins og fólksins til þess að hafa einhver áhrif á líf sitt, samfélagið og umhverfið. Þess vegna þurfum við nú sem aldrei fyrr að hugsa vandlega, hvað næst?

Sá sem hér heldur á penna í þetta skiptið hér á Vinstri vaktinni telur að hin gömlu gildi "vinstri" og "hægri" verði einfaldlega að setja til hliðar nú um stund á meðan að þessu ófyrirleitna og lymskulega umsátri stendur um sjálfsstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar.

Þjóðin þarf með öllum ráðum að verjast þessum úrtölu- og niðurrisfs öflum sem engu eira í áróðurs lygaþælu sinni við að koma þjóðinni með góðu eða illu undir Brussel valdið. Við getum ekki grátið hörmuleg örlög VG endalaust við þurfum að bíta á jaxlinn og safna liði fram til sóknar.

Við þurfum e.t.v. að huga alvarlega að því að stofna nýtt stjórnmála afl sem getur vill og kann og færi fram í kosningunum í vor í öllum kjördæmum. Flokk sem einarðlega talar máli okkar sem erum hörð í ESB andstöðunni.

Stofnun Bjartrar framtíðar er þrautskipulagt bragð ESB sinna úr Samfylkingunni. Þetta er látið líta út sem hálfgert grín og að þetta framboð sé á móti gamla flokkakerfinu en er ekkert annað en pólitískt útibú Samfylkingrinnar og Guðmundur Steingrímsson leiðtogi þeirra fæddur inn í stjórnmálaelítuna með silfurskeið í munni. Þeir halda þessari glansmynd að fólki, en vitað er að eina markmið BF er að hjálpa Samfylkingunni að svíkja þjóðina undir Brussel valdið.

Hinir ESB sinnuðu fjölmiðlar reyna stöðugt að poppa þetta falska skrum framboð upp. Við getum ekki látið BF einum eftir það tómarúm að ná til sín hinu óákveðna fylgi og skáka í þeim "populisma" að vera eini valkosturinn gegn fjórflokknum. Tókuð þið eftir því að næstum 1/3 þeirra sem gaf sig upp sem stuðningsmenn BF vildi annað hvort slíta ESB aðildar viðræðunum og eða hætta þeim og ekki leyfa þeim að fara aftur á stað fyrr en þá þjóðin kysi svo í þjóðaratkvæða greiðslu. Þetta fólk veit greinilega alls ekki fyrir hvað BF stendur og fyrir hverja þeim var ýtt á flot.  Það er því ljóst að BF tekst enn með sýndarmennsku að fela fyrir hvað þeir standa. Það þarf að fletta ofan af þeim.

Þetta nýja stjórnmálaafl þyrfti að afhjúpa þetta lið. En fyrst og fremst að vera brjóstvörn gegn þessari ESB væðingu þjóðarinnar. Frjálslynt, umbótasamt og þjóðlegt afl sem stæði traustan og trúverðugan vörð um þjóðar hagsmuni og tæki saman við þau önnur öfl sem vilja verjast þessu umsátri. Hefðbundinn vinstri og/eða hægri sjónarmið yrðu þar að víkja til hliðar um sinn fyrir samstöðunni gegn ESB aðildar helsinu ! / GI


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Jóhann Sig. Guðbjartur og Árni Páll hafa öll sagt í fjölmiðlum að það sé enginn munur á stefnumálum SF og BF.

Go figure.

Hvers vegna eru ESB andstæðingar að styðja þessa flokka, óskyljanlegt.

Kveðja frá Saudi Arabíu

Jóhann Kristinsson, 22.1.2013 kl. 12:14

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það ætti nú ekki að vera erfitt, hér er ályktun þeirra um framtíðina.  Afar falleg orð á blaði sem allir geta tekið undir, en hvernig á að fara að framkvæma alla þessa fallegu hluti? það kemur eflaust eftir á.

Ályktun stjórnar Bjartrar framtíðar nr. 1

Hvernig sjáum við Ísland fyrir okkur eftir nokkur ár? Í svarinu við þeirri spurningu felst stefna Bjartrar framtíðar. Svona viljum við að Ísland sé. Að þessari björtu framtíð viljum við stefna eða eftir atvikum verja og viðhalda.

Mannréttindi, jafnrétti og friður

Við viljum beita okkur fyrir því að:

Íslendingar verði málsvarar mannréttinda, jafnréttis og friðar á alþjóðavísu og verði öðrum til eftirbreytni með róttækni sinni í þessum málum.

Á Íslandi ríki ævarandi og staðföst virðing fyrir fjölbreytileika mannlífsins, þar sem sumir eru svona og aðrir hinsegin.

Fullt jafnrétti ríki milli kynjanna og milli ólíkra þjóðfélagshópa, fólk njóti sömu launa fyrir sömu störf og jafnra tækifæra.

Ofbeldi sé ekki liðið, s.s. kynbundið ofbeldi, ofbeldi gegn börnum, einelti og annað ofbeldi sem oft er erfitt að koma auga á.

Allir einstaklingar, hvort sem þeir glíma við líkamlegar, félagslegar eða andlegar hindranir, eigi möguleika á sjálfstæðu lífi, með reisn og fái til þess aðstoð ef þarf.

Íslendingar leggi sitt af mörkum til friðar í heiminum með þátttöku í þróunarsamvinnu, hjálparstarfi og friðarumleitunum, en taki ekki þátt í hernaði.

Íslendingar taki vel á móti flóttamönnum og sinni málefnum innflytjenda af stakri prýði.

Uppvaxtarárin

Við viljum beita okkur fyrir því að:

Þjónusta við börn, unglinga og fjölskyldur þeirra sé ætíð sem best og það sé álitin kjarnastarfsemi í þjóðfélaginu að koma börnum til manns.

Fjölbreytni ríki á öllum stigum menntakerfisins svo fólk geti valið skóla með mismunandi áherslur fyrir börn sín.

Skólar lagi sig enn frekar að börnunum, þörfum þeirra og áhugasviði, námsánægja sé höfð að leiðarljósi og nemendur fái notið styrkleika sinna.

Kennsluefni og aðferðir séu í stöðugri mótun í takt við nýja tíma og skólar séu vakandi fyrir nýjum áherslum, s.s. á gagnrýna hugsun, siðfræði, listir, iðnmenntun, umhverfismál, heilsu eða hugleiðslu, svo sitthvað sé nefnt.

Börn og unglingar njóti góðs mataræðis, hreyfingar og alls konar möguleika á íþrótta- og tómstundaþátttöku.

Samfélagið styðji ólíkar fjölskyldugerðir og hvetji til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali upp börn sín í sátt.

Börn fái notið bernsku sinnar.

Efnahagslífið og atvinnan

Við viljum beita okkur fyrir því að:

Á Íslandi ríki efnahagslegt jafnvægi með stöðugum gjaldmiðli og þar með lækki húsnæðisvextir, verðtrygging verði lögð af, rekstrarskilyrði fyrirtækja batni og Íslendingar njóti frjálsra alþjóðlegra viðskipta.

Fólk geti tekið sambærileg húsnæðislán og víðast í Evrópu og borgað þau niður á sanngjörnum kjörum.

Fjármálakerfið sé heilbrigt og hrynji ekki.

Auðlindir til lands og sjávar skili þjóðinni mun meira fé í sameiginlega sjóði, sem síðan nýtist til þess að bæta almenn skilyrði fyrir heimili og fyrirtæki af öllu tagi um allt land.

Ríki og sveitarfélög séu rekin af ábyrgð, skuldir borgaðar niður og að langtímahugsun ríki í efnahags-, atvinnu- og ríkisfjármálum.

Skammsýni víki almennt fyrir ábyrgri langtímastefnu.

Samfélagsleg markmið, s.s. í mannréttindamálum, umhverfismálum og hvað varðar siðferði í viðskiptum, setji svip sinn á áætlanagerð og fjárfestingar.

Ríkisrekstur sé ekki umfangsmikill en markviss og miði fyrst og fremst að því að tryggja góðan grunn og svigrúm að skapandi framtaki einstaklinga og samtaka þeirra.

Öðrum mælikvörðum en hagvaxtarmælikvörðum verði einnig beitt á efnahagslegar stærðir, þar sem litið verði til fleiri þátta mannlífsins, s.s. sjálfbærni þess og almennrar hagsældar.

Fjölbreytni ríki í atvinnulífinu og hún verði aukin með fjárfestingu eða annars konar hvatningu í skapandi greinum, grænum iðnaði, s.s. vistvænni tækniþróun og framleiðslu, hugverka- og þekkingariðnaði og aukinni rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði gert hærra undir höfði með einfaldara regluverki, skattaumgjörð og hvötum sem efla rekstur þeirra.

Fleiri forsendur skapist fyrir byggð í sveitum með fjölbreyttari starfsemi en hefðbundnum landbúnaði.

Að jarðvarmi verði í meiri mæli nýttur til ræktunar á grænmeti og ávöxtum.

Skatta- og tollakerfið verði einfalt, réttlátt og skiljanlegt og hvetji til innlendrar verslunar, nýsköpunar og vistvænnar atvinnustarfsemi og hindri sem minnst framtakssemi.

Góðir háskólar stundi öflugt rannsóknarstarf, bjóði upp á fjölbreytta menntun og svari líka kalli atvinnulífsins um þá þekkingu og kunnáttu sem þarf.

Námslán nægi námsmönnum fyrir námi hér á landi sem erlendis.

Velferð, heilsa og hamingja

Við viljum beita okkur fyrir því að:

Allir íbúar landsins hafi jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu í gegnum eitt sameiginlegt sjúkratryggingakerfi.

Almenn heilsugæsla bjóðist öllum, hvar á landi sem er, og sérhæfðari þjónusta á spítölum.

Heilbrigðiskerfið bjóði upp á fjölbreyttar leiðir með mismunandi aðferðafræði og aðkomu allra heilbrigðisstétta.

Forvarnir vegna ýmissa andlegra og líkamlegra sjúkdóma og kvilla séu öflugar og að í samfélaginu sé almennt lögð jafnmikil áhersla á andlega heilsu og líkamlega.

Brugðist sé við vanda einstaklinga með samræmdu og heildstæðu móti þar sem viðeigandi stofnanir, aðstandendur og viðbragðsaðilar vinna saman að lausn vandans.

Vitund almennings um heilsu, gott mataræði og hreyfingu sé aukin og efld.

Tannheilsa falli í auknum mæli undir sjúkratryggingakerfið.

Samfélagið virði eldri borgara, nýti krafta þeirra og þekkingu og ævikvöld þeirra verði sem best.

Eldri borgarar geti notið þjónustu í því byggðalagi sem þeir kjósa og þeim bjóðist fjölbreyttir og hagkvæmir búsetukostir.

Lífeyriskerfið verði einfaldað til muna, að samræmi sé milli opinbera og almenna kerfisins og að samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða sé skoðað með það að markmiði að fólk njóti betur framlaga sinna til hvors tveggja.

Fleiri leiðir bjóðist fólki til að koma sér upp þaki yfir höfuðið, í gegnum leigu eða aðra möguleika og sérstaklega sé hugað að því að auðvelda ungu fólki að hefja heimilisrekstur.

Samgöngur séu góðar um land allt, í borg og sveit, og samgönguframkvæmdir miði að því að lagfæra varhugaverðustu vegakafla landsins og tengja saman nágrannabyggðalög sem nú búa við hættulegar hindranir.

Umhverfið og náttúran

Við viljum beita okkur fyrir því að:

Nýting auðlinda til lands og sjávar verði ætíð í jafnvægi og ekki sé gengið á rétt komandi kynslóða til þess að njóta sömu gæða.

Íslendingar standi sig betur í endurvinnslu, vistvænum lífsháttum og notkun á alls kyns orkusparandi tækni.

Notkun vistvænna orkugjafa verði útbreiddari en nú er, bæði til sjós og lands.

Vistvænni samgöngumátar eins og almenningssamgöngur og hjólreiðar njóti mun meiri forgangs í uppbyggingu samgangna.

Ferðamennska verði skipulögð þannig að hún raski ekki viðkvæmri náttúru og þar með aðdráttarafli landsins og gæðum þess.

Átak sé gert í vernd og uppbyggingu þjóðgarða, friðlanda, þjóðlenda og þjóðskóga og skýr stefna mótuð um vernd og nýtingu hálendis Íslands.

Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði lögfest og njóti trausts og virðingar sem framsýn og fagleg sáttagjörð milli ólíkra sjónarmiða um virkjun og vernd.

Áhersla á lífræna ræktun og upprunavottuð matvæli verði aukin og matvælamerkingar bættar til muna.

Dýravernd sé í hávegum höfð.

Samfélagið og umheimurinn

Við viljum beita okkur fyrir því að:

Íslendingar landi eins góðum samningi og völ er á við Evrópusambandið og að þjóðin taki afstöðu til aðildar á grunni fullkláraðs samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu, að undangenginni upplýstri og vandaðri umræðu.

Íslendingar verði virkir og mikilvægir þátttakendur í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu innan ESB, kjósi þjóðin aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Íslendingar setji sér nýja, frumsamda og skýrari stjórnarskrá, líkt og Stórnlagaráð hefur lagt til.

Auðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu sameign þjóðarinnar.

Lista- og menningarstarf fái notið sín í allri mögulegri mynd.

Meira frjálsræði og sveigjanleiki ríki í íslensku stjórnkerfi, það sé móttækilegt fyrir skapandi hugsun og breytingar séu hluti af eðlilegu rekstrarumhverfi hins opinbera líkt og annars staðar í atvinnulífinu.

Meira frelsi ríki í viðskiptum neytendum til hagsbóta, þ.m.t. í innflutningi á matvælum.

Beint lýðræði fái meira vægi, ekki einungis með atkvæðagreiðslum heldur ekki síður aukinni þátttöku almennings á öðrum stigum ákvarðanatökunnar.

Tækninýjungar séu notaðar til þess að einfalda stjórnsýsluna, auka þátttöku fólks í umræðu og ákvörðunum og bæta aðgengi þess að upplýsingum.

Landsbyggðin og borgarsamfélagið vinni meira saman sem ein heild, enda þarfnast höfuðborgin landsbyggðar og öfugt.

Þróttmikið mannlíf fái þrifist um land allt.

Áhersla sé lögð á sáttaferli ýmiskonar og forn rígur milli flokka, bæjarfélaga, fjölskyldna, einstaklinga, félagasamtaka og annarra, sem oft stendur í vegi fyrir framförum og heilbrigðri skynsemi, verði meðhöndlaður markvisst.

Virðing Alþingis verði endurreist og þar ríki meiri sanngirni í orðaskiptum, kurteisi, gleði og jafnframt festa í vinnubrögðum líkt og tíðkast á mörgum öðrum sviðum samfélagsins, s.s. í fyrirtækja- og félagamenningu nútímans.

Almennt ríki minna vesen.

Ísland vinni Eurovision.

—–

Leiðirnar að þessum markmiðum kunna að vera margar. Þær hyggjumst við setja fram og ræða á www.heimasidan.is

Við hvetjum þá sem deila þessari sýn að leggjast á árarnar með okkur, taka þátt og leggja fram sínar hugmyndir að lausnum og leiðum.

Saman sköpum við bjarta framtíð.

Samþykkt á fundi stjórnar BF 6.september 2012.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2013 kl. 12:16

3 identicon

Nýja Samfylkingin er náttúrulega alveg dásamlegt fyrirbrigði, og verður áhugaverð stúdía í markaðsfræði þegar fram líða stundir. Sérstaklega ef flokkseigendum tekst að sannfæra einhverja kjósendur um að þessar nýju umbúðir um gömlu fúlu Samfylkingu geri innihaldið að nýrri vöru. Þetta er svona punktur is aðferð.

Vitaskuld kemur þetta ekki til með að virka. Hugsanlega verður BF með um 10% fylgi, sem yrði að skrifast á þá landa okkar sem eru ginnkeyptir fyrir auglýsingaskrumi.

Einhverjum verður seld sú hugmynd að Guðmundur Steingríms sé veraldarvanur bóhem, sem vill öllum vel, sé vandaður og góður og bjóði upp á "betri" umræðu. Sennilega verða ekki allir sem fatta að Guðmundur Steingríms er letihaugur sem vill halda góðri innivinnu. Ef hann hefði hana ekki, þá væri hann atvinnulítill poppari sem svæfi fram yfir hádegi og drægist bara á fætur til að hitta félaga sína úr 101 á næsta kaffilatte-froðustað.

Þroskað fólk heldur sig frá Guðmundi.is

Hilmar (IP-tala skráð) 22.1.2013 kl. 13:22

4 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Þetta auglýsingarskrum BF og SF virkar.

!/3 kjósenda kemur til með að kjósa þau og þar með halda inni vinnuni.

Kveðja frá Saudi Arabíu

Jóhann Kristinsson, 22.1.2013 kl. 13:26

5 identicon

Hvernig þessi ríkisstjórn varð til er ekkert rannsóknarefni sagnfræðinga framtíðarinnar. Það liggur algjörlega ljóst fyrir.

Vg og Samfylking náðu saman meirihluta í síðustu kosningum. Það lá því beint við að þeir myndu reyna að mynda ríkisstjórn.

Eftir að Samfylkingin hafði gefið eftir ESB-umsókn við myndun ríkisstjórnarinnar 2007 var það algjörlega á tæru að það væri ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir þátttöku hennar í ríkisstjórn að sótt yrði um ESB-aðild.

Vg vildu hins vegar ekki gefa eftir andstöðu sína við aðild en ákváðu að samþykkja að þjóðinni yrði gefinn kostur á að kjósa um aðild frekar en að svíkja sitt fólk með því að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda.

Hér er því allt með felldu og lygar og blekkingar víðs fjarri. Menn gera lítið úr Vg að  telja hann ekkert hafa vitað hvað í umsókn felst.

Krafan um að Vg fylgi sinni stefnu í einu og öllu og gefi ekkert eftir er krafa þeirra sem vilja að Vg sé eingöngu stjórnarandstöðuflokkur.

Það er óskastaða ábyrgðarlausra kverúlanta. En slíkir flokkar eru dæmdir til áhrifaleysis og eiga því tæpast rétt á sér.

Þess vegna hafa fáir samúð með málstað villikattanna svokölluðu. Þess vegna njóta þeir nú nánast einskis fylgis.

Þess vegna gefa fjögur þeirra ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu og aðeins tveir þeirra verða í framboði í kosningunum í vor.

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.1.2013 kl. 15:31

6 identicon

Heyr, heyr!! Alveg hjartanlega sammála! Þetta er allt eitt allsherjar hneyksli. Ég segi ekki meira.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2013 kl. 16:25

7 Smámynd: Elle_

Guðmundur er of rólegur, of skaplaus, eins og hann varði ekkert um fullveldið, eða neitt yfirleitt.  Hann lætur eins og hann skilji ekki fullveldisframsalið og glottir þegar fólk skýrir það fyrir honum. 

Skaðvaldana Jóhönnu, Steingrím og Össur (og kannski aðra úr flokkunum) ætti að rannsaka í bak og fyrir, og allar þeirra embættisfærslur. 

Í no. 5, það hafa margir samúð með hinum svokölluðu villiköttum, hvað sem þú rakkar það fólk oft niður.  Varst það ekki annars þú sem vildir þagga niður í hægri mönnum, þú sem lætur allt vaða?  

Elle_, 22.1.2013 kl. 18:50

8 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Nýjan flokk. Nafn og eitt þinglýst loforð ''Úr ESB'' Svo venjuleg þjóðarmál.  

Valdimar Samúelsson, 22.1.2013 kl. 20:26

9 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

ég vil ekki þetta "stríð" Björns bónda!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.1.2013 kl. 22:31

10 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég er nú næstum viss um að ,,Gumsið,, vinnur enga sigra. Greinilegt er að við sem erum eindregið á móti inngöngu í Esb,erum ekki öll með á hreinu hvern við ætlum að kjósa. Þetta vita andstæðingarnir og yfirspenntir beita þeir æ grófari aðferðum,til að sía inn andstyggð á formanni Sjálfstæðisflokksins,sérataklega þegar hann mælist sá stærsti,og er mörgum að meinalausu,en nú seinustu mán. fyrir kosningar,væri árangursríkast að sameinast,rétt eins og í Ivesave. Í stríði eru allir í herdeildinni jafnir,koppasalinn,prófessorinn og þú/ég.

Helga Kristjánsdóttir, 22.1.2013 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband