Að horfa undir holhönd

Í gömlum íslenskum sögum er sagt frá fólki sem hafði skyggnigáfu eða ófreskiauga. Slíkir sáu það sem aðrir gátu ekki séð, bæði í álfheimum, meðal drauga og inn í hið óorðna. Nútímafólk telur gjarnan að þetta hafi verið hið eftirsóknaverða en í hinu gamla kyrrláta samfélagi var litið á gáfu þessa sem vafasaman fylgifisk. Oft fylgdi þessu andlegur óstöðugleiki og vanlíðan.

Flestir vildu vera lausir við þessa eiginleika og lögðu jafnvel nokkuð á sig til að losna undan því helsi sem skyggninni fylgdi. Aðrir reyndu að nota sér þetta og áttu jafnvel til að lokka fákæna meðbræður sína til að skoða með sér. Sá sem vildi sjá það sem hinn skyggni sá þurfti ekki annað en að horfa undir holhönd hins skyggna. Hélt þá sá skyggni hendi sinni út en sá sem vildi sjá beygði sig undir armlegginn og sá allt í gegnum það sjónarhorn sem varð undir axlarkverkinni.

Þegar leið nær okkar tíma varð þetta að hrekkjarbragði að láta fákæna kjána trúa því að það sem sást svona undir holhönd væri allt andlegra og merkilegra en venjuleg útsýn yfir veröldina. Í raunsæi 20. aldarinnar er nærtækt að skýra margar þessar sagnir og sýnir hinna ófresku með vísan í hugtök geðlæknisfræðinnar. Enginn trúir því nú að hægt sé að sjá ofsjónir annars manns með því að horfa undir axlarkverkinni og gildir þá einu hvort horfa skal á álfa eða skyggnast inn í framtíðina.

En samt er eins og veröldin endurtaki sig og sé jafnan söm við sig. Töluvert stór hópur manna telur sig geta kíkt inn í framtíðina með því að sjá undir loðinni holhönd utanríkisráðherra einhvern þann pakka framtíðar sem á að geyma það sem gerist og gerist ekki ef Ísland gengur í ESB. Og líka hvað gerist og hvað gerist ekki ef Íslendingar fara svo að ráði sínu að ganga ekki í ESB.

Bíddu, bíddu, segir nú einhver hinna andlegu holhandarmaðurinn. Er ekki bara verið að tala um að sjá hvað kemur út úr samningum við ESB. Sjá hvað þeir eru til í að gefa okkur!?

Ísland hefur reyndar samið við ESB. Það liggur fyrir svokallaður EES samningur og Ísland hefur verið undir oki hans í áratugi. Meðan við bíðum þess að sjá hvað er í aðildarsamningi við ESB mætti ef til vill upplýsa þjóðina um það hvað felst í EES samningi. Þá kárnar gamanið og verður því líkast að nú standi fjórir blindir undir holöndinni fyrrnefndu.

Samningar þessir sem þjóðin ætlar að "sjá" - hvort sem við ræðum um aðildarsamning eða EES samning - eru heldur ekki blað sem skoðað verður í kaffitímanum áður en tekin er ákvörðun. Það er heldur ekki bók sem fréttamaður les yfir og segir okkur svo meginatriðin úr. Hinir svokölluðu samningar við Evrópusambandið eru miklu nær því að vera margsaga skjalasafn á óskiljanlegri skollalatínu sem gefa misvísandi fyrirheit. Það er talsvert fljótlegra að renna yfir Gamla testamentið heldur en EES og er hann þó tæpur hálfdrættingur í samanburði við það safn sem verður til við fulla aðild.

Og ennfremur - þó lesið sé yfir samningspappírana og þeirra fylgiskjöl verða svörin við því hvað samningur þýðir fjarlægt hjóm. Það hvaða réttindi og hvaða skyldur það leggur á þjóðina breytist dag frá degi með sífelldum skriðþunga Evrópusambandsins í átt að meiri stjórnun og meiri samruna. Samningar við Evrópusambandið eru einfaldlega samningar um óafturkræf yfirráð erlendrar ríkjasamstæðu yfir Íslandi sem getur líkt og síðast þegar slíkt henti gert hvað hún vill við það vald.

Þeir sem þykjast geta svarað því hvað felist til framtíðar í samningi hvort sem er EES eða aðildarsamningi að ESB hafa ófreskigáfu og verður réttilega skipað á bekk með hinni merku völvu Vikunnar. En fyrir okkur sem viljum byggja pólitíska sýn okkar á ögn traustari grunni er alls ekki á annað að treysta en að skoða hvernig farið hefur fyrir öðrum þjóðum sem hafa gengist ESB á hönd og meta út frá þeim staðreyndum sem og staðreyndum um Ísland eins og það er nú - hvort við teljum hagsmunum Íslands betur borgið innan eða utan ESB. / -b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta með að kíkja í pakkann eða sjá hvað kemur út úr samningsviðræðum er orðin ansi þunnur þrettándi.  Loksins er fólk farið að átta sig á því hvað felst í þessu aðlögunarferli.  Og það þurfti að koma frá kommiserum ESB ofan á allt annað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2013 kl. 13:55

2 identicon

Ég þykist sjá nefi mínu lengra, og tel mig geta spáð fyrir óorðna atburði.

Ég spái því t.d. að Mundi, vinur okkar allra, haldi áfram að boða undanþágur frá lögum og reglum ESB, þó svo að allir, meira að segja Össur, viðurkenni að það sé ekki hægt.

Ég spái því líka, að Ómar, hinn vinurinn okkar, haldi áfram að senda inn óskiljanlegt rugl inn á allar síður sem bjóða upp á athugasemdir.

Ég spái því líka, að næsta ríkisstjórn hendi aðlögunarferlinu í ruslið, með þeim árangri að mjög hávær en smávaxinn hópur aðlögunarsinna kveini yfir því að 25% þjóðarinnar fái ekki að skoða í pakka sem ekki er til.

Að lokum spái ég því, að áróðurinn gegn krónunni haldi áfram af margföldum krafti, og þessi fámenni frekjuhópur geri sitt besta til að draga kjarkinn úr íslenskri þjóð.

Bónusspádómur:

Ég spái því að Ísland haldi áfram að vera til, eftir að aðlögun að ESB hefur verið hafnað.

Hilmar (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 14:46

3 identicon

Það þarf enga skyggnigáfu til að já í hverjar ógöngur ónýt króna getur leitt þjóðina. Við höfum bæði reynsluna auk þess sem lögmál orsaka og afleiðinga leiða til rökréttra ályktana.

Það er td augljóst að skortur á stöðugleika vegna gengissveiflna ónýtrar krónu gerir fyrirtækjum svo erfitt fyrir að oft þarf annaðhvort að taka miklar áhættur eða halda að sér höndum.

Blómleg fyrirtæki fara áður en varir í þrot og önnur verða ekki til vegna skorts á stöðugleika. Það gefur augaleið að slíkt er óhemjudýrt fyrir þjóðarbúið.

Þegar fyrirtæki neyðast til að hætta starfsemi eða fara í gjaldþrot fækkar störfum. Skortur á stöðugleika kemur einnig í veg fyrir að margvísleg ný störf  verði til.

Skortur á stöðugleika veldur því að lántaka er allt of mikið fjárhættuspil, ekki síst ef um er að ræða óverðtryggð lán. Valið stendur því oft um að taka mikla áhættu eða sleppa því að kaupa íbúð.

Það eru afleitir kostir sérstaklega þegar við bætist að vaxtakjör eru miklu verri en þekkist á evrusvæðinu þar sem allar skuldir lækka með hverri greiðslu.

Skortur á stöðugleika vegna sveiflna á gengi krónunnar gerir gjaldeyrishöft nauðsynleg.

Gjaldeyrishöft halda gjaldeyri frá landinu bæði vegna þess að menn hafa meiri trú á að geyma fé í öðrum gjaldmiðlum en einnig af hræðslu við að verða innlyksa með fé hér á landi.

Af sömu ástæðum reyna menn að koma fé úr landi í gegnum löglegar og ólöglegar smugur í höftum.

Enginn þarf að fara í grafgötur með að þetta ástand getur hæglega leitt til gjaldeyrisskorts sem er skelfileg framtíðarsýn fyrir þjóð sem skuldar mikið í erlendum gjaldeyri.

Gjaldeyrishöft valda þrýstingi á gengi krónunnar og hafa áhrif til hækkunar á vöxtum erlendra lána. Hvorutveggja dregur verulega úr lífskjörum í landinu. Það bætist við þá lífskjaraskerðingu sem fækkun starfa hefur í för með sér.

Þetta eru dæmi um rökréttar ályktanir út frá staðreyndum. Hefur Vinstrivaktin engin mótrök? Eða skiptir efnahagsleg velferð og sjálfstæði Íslendinga hana kannski litlu máli?

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 15:38

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sannspár ertu Hilmar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2013 kl. 15:56

5 identicon

Ásthildur ekki vera svona einföld. Þú veist betur. 

Staðreyndirnar tala sínu máli. Allar varanlegu sérlausnirnar sem aðrar þjóðir hafa samið um taka af allan vafa um þetta atriði.

Auk þess veistu eins vel og ég að miklu fleiri háttsettir ESB-menn hafa harðlega neitað að um ekkert sé að semja og bent á sérlausnir sem aðrar þjóðir hafa fengið.

En annars ættirðu að upplýsa okkur um hverjar þessar nauðsynlegu sérlausnir eru sem við fáum ekki. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika tryggir okkur einokun á veiðum í íslenskri landhelgi.

Eftir úrskurð Evrópudómstólsins er hægt að krefjast efnahagslegra tengsla við landið til að verjast kvótahoppi. Það er beinlínis gert ráð fyrir að hver þjóð semji um þetta atriði sérstaklega.

Mismunandi reglur gilda um hin ýmsu fiskimið á ESB-svæðinu. Það gefur því augaleið að það þarf að semja um reglur um hin nýju fiskimið sem bætast við með aðild Íslands. Um þetta má lesa í bók Auðuns Arnórssonar ÚTI EÐA INNI -aðildarviðræður við Evrópusambandið:

..."Sameiginlega fiskveiðistefnan skiptist upp í nokkra hluta eftir því hvaða mið er um að ræða. Þannig má segja að sérstefna gildi um veiðar í Miðjarðarhafi, önnur um veiðar í Atlantshafi undan vesturströnd meginlandsins, sú þriðja um um veiðar í lögsögu Írlands, sú fjórða um veiðar úr Norðursjó, og jafnvel sú fimmta um veiðar við Hjaltlandseyjar og sjötta um veiðar umhverfis Azoreyjar, Kanaríeyjar, Madeira, Guadelupe, Réunion og slík fjarlæg eylönd sem tilheyra ESB."... 

Það var dapurlegt að horfa upp á Sigmund Davíð í Silfrinu í gær og Ásmund Einar í Kastljósi um miðja vikuna reyna í örvæntingu að ljúga því að hþjóðinni að um ekkert sé að semja.

Eru engin takmörk fyrir niðurlægingu Alþingis?  

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 16:24

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Engar þjóðir hafa fengið einhverjar varanlegar heimildir sem skipta máli.  Og auk þess þó svo að við fengjum að halda til dæmis kvótanum, þá kemur önnur vá, og það eru erlendir fjárfestar sem myndu geta keypt kvótann upp, og veitt hverja bröndu hér.  Það er nefnilega svo að í lögum ESB er frjálst flæði fjármagns, og það er einmitt það sem hefur gerst á Spáni og Grikklandi fjármagnseigendur hafa keypt upp öll þau fyrirtæki sem gefa eitthvað af sér og þess vegna hækkaði verðlagið mikið til dæmis á Spáni.

En við fáum engar varanlegar heimildir, því eins og sagt er hér er einungis um að ræða aðlögun að regluverki ESB, aðeins spurning um tímasetningar.

Auk þess sem komið hefur fram að það sækir ekkert land um að komast inn í ESB, nema fullur vilji sé til að ganga inn, þar er enginn spurning um að kíkja í pakka og skoða hvað við fáum út úr því,: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/20110725_understanding_enlargement_en.pdf

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2013 kl. 16:38

7 identicon

Erlendir aðilar mega eiga allt að 49% í íslenskum útgerðum nú þegar.

Hvernig stendur á að sú er ekki raunin fyrst þá þyrstir svona í fiskinn okkar Ásthildur? Af hverju ætti þetta að vera eitthvað öðruvísi ef Ísland gengur í ESB?

Ég er ekki viss um að þær þjóðir sem hafa sín varanlegu sérákvæði líti svo á að þessi ákvæði skipti barasta engu máli eins og þú lætur í veðri vaka. Þú gerir þér væntanlega grein fyrir að undanþága er ekki það sama og sérákvæði?

Páll (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 18:21

8 identicon

Ásthildur, aðeins 15-20% Svía voru hlynntir aðild ári fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Þeim datt þó aldrei sú fjarstæða í hug að slíta viðræðunum eða hafa um það þjóðaratkvæðagreiðslu. Samningurinn reyndist svo betri en þeir áttu von á enda fengu þeir td varanlega sérlaus í landbúnaðarmálum.

Þeir máttu styrkja áfram landbúnaðinn með eigin fjárframlögum varanlega að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um að það myndi ekki minnka markaðshlutdeild annarra ESB- landa.

Svíar eru nú hæst ánægðir með ESB-aðildina. Hún var þeim þó ekki jafnmikilvæg og hún er Íslandi enda er sænska krónan um 30 sinnum stærri en íslenska krónan og því vel nothæf sem sjálfstæður gjaldmiðill.

Með kröfunni um efnahagsleg tengsl við landið er reynslan sú að kvótahopp er ekki teljandi vandamál. Auk þess hafa Íslendingar sýnt miklu meiri áhuga á að fjárfesta í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum en öfugt.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 19:00

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ásmundur. Þú mátt gjarnan koma með tilvísun sem staðfestir að Svira hafi einungis stutt inngöngu að 15-20% ári fyrir inngöngu. Koma svo. Link takk. Svíar voru klofnir í herðar niður frá byrjun og aðeins 52% réðu því að inn var farið. Þessu fylgdi skuldbinding um að taka upp Evru síðar.

Nú er andstaðan við sambandið i hæstu hæðum þar í landi og háværar raddir um að koma sér út. 87% eru nú á móti því að Evran verði tekin upp.

Það þýðir ekki að koma hér með heimatilbúna statistík. Það er nefnilega í allra valdi að fletta þessu upp. Hafir þú farið með rangt mál hér, hvað segir það þá um annan málflutning þinn?

Jón Steinar Ragnarsson, 21.1.2013 kl. 21:12

10 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg veit um fáa sem halda því eins stíft fram að þeir geti séð framtíðina og ,,vinstri" vakt gegn ESB.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.1.2013 kl. 22:32

11 identicon

Eins og sjá má í eftirfarandi hlekk eru 63% þeirra Svía sem tóku afstöðu í nýlegri skoðanakönnun hlynnt ESB-aðild, þrátt fyrir verstu heimskreppu í 80 ár sem undanfarið hefur sérstaklega herjað á ESB-svæðið. 

Þetta er mikil aukning frá þeim 52% sem samþykktu aðild 1994. Það sýnir að ESB-aðildin hefur gefist mjög vel. Það má búast við að fylgið sé jafnvel enn meira því að margir eiga erfitt með að viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér.

http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1275215/

Ég hef engan hlekk á upplýsingarnar um fylgið við ESB-aðild Svía ári fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég sá ekki ástæðu til að vantreysta minni heimild.

Jón Steinar á hins vegar að eigin sögn auðvelt með að sannreyna hvort þetta sé rétt  og er hann hér með hvattur til þess og að birta hlekkinn.

Sjálfur sleppir hann öllum hlekkjum og fer með rangt mál varðandi fylgi Svía við upptöku evru eins og sjá má í hlekknum hér fyrir ofan. Það er umtalsvert lægra en Jón Steinar heldur fram skv sinni "heimatilbúnu statistik".

Andstaða Svía við evru er enginn mælikvarði fyrir okkur enda hefur sænska krónan 30 sinnum meiri útbreiðslu en íslenska krónan sem er ónothæf vegna smæðar.

Ánægja Svía með aðild er hins vegar sterk vísbending um að við eigum heima í ESB alveg óháð miklum ávinningi með upptöku evru.

Í Evrulöndum er mikið fylgi við evru í skoðanakönnunum. Algengt er að það sé um 80%. Jafnvel Grikkir vilja umfram allt halda í evru og ESB. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 22:34

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Reglugerðir t.d. um hlutfallsregan stöðugleika er tímabundnar eins og aðrar slíkar reglur.  Meginreglan um að allir stofnar lúti stjórn Evrópusambandsins kemur fram í Rómarsáttmálanum.

Sigurður Þórðarson, 21.1.2013 kl. 22:55

13 Smámynd: Elle_

No. 11-
Er nú bræðralag Íslands og Svíþjóðar það sterkt að hvað þeir vilja, ætti að vera vísbending fyrir okkur?  Hafðu þessa skoðun fyrir sjálfan þig.

Og umfram allt vilja Grikkir evru og ESB, umfram allt já?  Hafði þessa skoðun líka fyrir sjálfan þig.

Við erum hvorki Grikkir né Svíar.

Elle_, 21.1.2013 kl. 23:11

14 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ísland er ekki Þýskaland og Ísland er ekki Svíþjóð og verður aldrei.Samlíking við þessi lönd er sambærileg og að bera saman eldisbleikju( Ísland) og beinhákarl. (Þýskaland, Svíþjóð) Beinhákarlinn er verðlaus.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 21.1.2013 kl. 23:31

15 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ásmundur! Loksins fékk ég þá ósk mina upfyllta,að þjóðin fékk að sjá á prenti í Silfri Egils að svokallaður samningur við Esb, er bara ekkert nema að undirgangast lög og reglur þess. Hann reynist okkur vel hann Sigmundur Davíð.

Helga Kristjánsdóttir, 22.1.2013 kl. 01:26

16 identicon

Morgunblaðið:

"Það eru engar líkur á að reglunni um hlutfallslegan stöðugleika verði breytt. Þetta segir háttsettur embættismaður hjá framkvæmdastjórn ESB sem fer með fiskveiðimál. Þessi regla felur í sér að kvóta innan 200 mílna lögsögu tiltekins lands er skipt eftir sögulegri veiðireynslu og efnahagslegu mikilvægi fiskveiða fyrir viðkomandi land."

http://evropa.blog.is/blog/evropa/entry/1065818/

Í sambandi við þá endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB sem nú stendur yfir hefur komið ljós að engar líkur eru á að reglunni um hlutfallslegan stöðugleika verði breytt.

Margir andstæðingar aðildar virðast halda að ESB sé mafía sem lokki þjóðir til sín og breyti síðan lögum og reglum þeim í óhag. Þannig vinnur auðvitað ekki ESB. Þess er ávallt gætt að ganga ekki gegn mikilvægum hagsmunum einstakra þjóða.

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.1.2013 kl. 08:10

17 identicon

"Graham Avery, heiðursframkvæmdastjóri ESB, sagði í þættinum Silfur Egils að reglan um “hlutfallslegan stöðugleika” tryggði að aflaheimildum við Ísland yrði úthlutað til Íslendinga og annarra ekki.  Avery telur að núverandi sjávarútvegstefna sambandsins tryggi hagsmuni Íslands, en Íslendingar muni reyna að ná sem hagstæðustum samningi við Evrópusambandið í komandi samningaviðræðum. Hann er vongóður um að það finnist viðunandi lausn sem íslenska þjóðin geti sætt sig við. Endanlegt svar við spurningunni fáum við þó ekki fyrr en að samningurinn liggur fyrir". 

http://jaisland.is/umraedan/sjavarutvegsstefna-esb-tryggir-hagsmuni-islands/#.UP5LHvIZnwk

http://evropa.blog.is/blog/evropa/entry/881678/

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.1.2013 kl. 08:20

18 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Að vera að ræða hvort og hversu lengi aðrar þjóðir hafi fengið undanþágur frá ESB við inngöngu, er lítilsvirði og einungis sjálfblekking.

Fyrir það fyrsta hefur engin önnur þjóð fengið varanlega undanþágur. Þær undanþágur eru í flestum tilfellum til takmarkaðs tíma og allar háðar því að framkvæmdastjórn og evrópuþing gefi þeim líf áfram. Þá eru þessar "undanþágur" í flestum tilfellum dýru verði keyptar.

Það sem skiptir einu máli í þessari umræðu er að Ísland, ef að aðild verður, mun verða fyrsta landið sem gengur til aðildar að ESB eftir að Lissabonsáttmálinn tók gildi. Og þar er skýrt tekið á því sem allir fulltrúar ESB hafa verið að reyna að koma inn í hausinn á Íslendinum, að aðildarríki verði að ganga að öllum lagabálk ESB. Að egar undanþágur séu í boði og ekki um samningarviðræður að ræða. Einungis viðræður um aðildarferlið og hversu lengi það muni standa yfir.

Það þarf ekkert að ræða þetta mál neitt frekar á þessum nótum.

Hitt má svo ræða og sjálfsagt að gera það, hvort við viljum verða aðildarríki að ESB, með öllum kostum og göllum. Sú umræða á þá að vera heiðarleg og án allra falsraka. Þá eiga aðildarsinnar að sýna fram á að kostirnir séu meiri en gallarnir, taka upp vinnubrögð sjálfstæðissinna sem halda því fram að gallarnir séu meiri en kostirnir. Á þessu grunni á umræðan að vera.

Svo geta spámenn velt fyrir sér hvernig sambandið mun þróast. Það þarf þó ekki spámann til að sjá að sú þróun er komin á fullt skrið og það sem hingað til hefur komið í ljós er ekki beint glæsilegt. Spámennirnir geta spáð í það hvort núverandi valdhöfum ESB tekst það ætliunarverk sem þeir hefa boðað eða hvort almenningur rísi upp gegn því ofríki.

Gunnar Heiðarsson, 22.1.2013 kl. 08:28

19 identicon

Að tala um samvinnu þjóða sem ofríki er fáránlegt. Sérstaklega þegar mál eru leidd til lykta á mjög lýðræðislegan hátt og hagur smáþjóða er tryggður.

Það lýsir heimsku að þykjast vita betur en framkvæmdastjórar ESB, þingmenn þess, fyrrum sjávarútvegsstjóri og heiðursframkvæmdastjóri sem hefur tekið þátt í öllum samningaviðræðum ESB undanfarna áratugi.

Lög ESB ná auðvitað til allra landa ESB. En það er samið um varanlegar og tímabundnar sérlausnir í aðildarviðræðum sem annaðhvort falla að lögum ESB eða eru felld að þeim með sérákvæðum vegna sérstakra aðstæðna.

Þannig geta aðildarviðræður verið tilefni til að bæta sérákvæðum við lögin svo að ekki verði um undantekningu frá þeim að ræða.

Það er orðið ansi þreytandi að andstæðingar aðildar skuli koma í veg fyrir eðlilega umræðu um ESB með því staglast endalaust á svona bulli.

Tilgangurinn með sérlausnum er að taka tillit til sérstaka aðstæðna og raska ekki samkeppnishæfni einstakra þjóða.

Með inngöngu í ESB munu Íslendingar halda landhelginni fyrir sig og þarf ekki sérlausn til enda er það í samræmi við regluna um hlutfallslegan stöðugleika.

Komið verður í veg fyrir kvótahopp með kröfum um efnahagsleg tengsl við landið í samræmi við úrskurð Evrópudómstólsins. Hvernig þau tengsl verða útfærð verður samið um sérstaklega.

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.1.2013 kl. 10:16

20 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, þetta er að verða svolítið þreytt - segðu sannleikann, eins og ESB er að hvetja íslenska ESB sinna til að gera.

ÁN inngöngu í ESB munu Íslendingar halda landhelginni fyrir sig.

Sérlausnir og útfærslur allrahanda eru ekki í boði hjá ESB svo ráðríkir menn verða bara nota slíkt heima hjá sér, á maka og börn, ef þeir eru þannig þenkjandi.

Kolbrún Hilmars, 22.1.2013 kl. 17:59

21 identicon

Kolbrún, ertu ekki búin að ná því að rökin fyrir aðild eru svo yfirgnæfandi að ESB-andstæðingar hafa leitað logandi ljósi að mótrökum en engin fundið.

Þess vegna sá þeir sig tilknúna að beita blekkingum sem sumir þeirra jafnvel trúa sjálfir. Það sem mest ber á upp á síðkastið er að um ekkert sé að semja þó að staðreyndirnar, sem eru allt aðrar, blasi við.

Það er rétt hjá þér að ekkert breytist í aflaheimildum Íslendinga við aðild. En það er allt hitt sem fæst með aðild sem mikill fengur er í.

Í stuttu máli er það stöðugleiki, bætt samkeppnishæfni, meiri atvinna, lítil verðbólga, engin verðtrygging, mikil vaxtalækkun og lægra verðlag. Síðast en ekki síst minnkar spilling vegna vandaðra laga og virks eftirlits.

ESB-aðild er leiðin inn í framtíðina. Að hafna henni er leið til fortíðar, kjararýrnunar og einangrunar.

Hvernig getum við lifað slíka þróun af með svona miklar erlendar skuldir?

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.1.2013 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband