Getur VG stöðvað lekann í sökkvandi skipi?

Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr blasir það við í skoðanakönnunum að VG sekkur stöðugt dýpra og dýpra. Æ fleiri flýja sökkvandi skip. Sú þróun stöðvast því aðeins að VG bregðist rétt við á komandi fundi flokksráðs og á landsfundi.

 

Meginvandi VG felst í þeirri mótsögn að flokkurinn vinnur árum saman í ríkisstjórn að ESB-aðild þótt samþykkt hafi verið á öllum landsfundum og flokksráðsfundum að VG telji hagsmunum okkar betur borgið utan ESB. Flestir kjósendur fá engan botn í þess háttar tvíhyggju sem rökstudd var með því að þrátt fyrir allt gæti verið skynsamlegt að verja tveim, þremur árum í að kanna hvað í boði væri. Þolinmæði fólks er löngu á þrotum. Því lengri tími sem líður frá því aðildarferlið hófst því erfiðara hefur orðið fyrir stuðningsfólk og kjósendur VG að sætta sig við þessa tvöfeldni.

 

Það er eins og forysta VG geri sér enn ekki grein fyrir því að ekkert eitt mál hefur jafn mikil áhrif á afstöðu fólks til stjórnmála þessi árin eins og einmitt ESB-málið. Samfylkingin hefur allt sitt á þurru því að um það bil þriðjungur þjóðarinnar vill ESB-aðild. Þar er sá akur sem Samfylkingin reynir að erja í samkeppni við Bjarta framtíð. Á sama tíma hafa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur tekið skýra afstöðu til málsins og ætla að nýta sér það til fulls að mikill meiri hluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu í ESB.

 

En hvað um VG? Sannleikurinn er auðvitað sá að samkomulag ríkisstjórnarinnar „um breytta meðferð aðildarviðræðna við ESB fram yfir komandi alþingiskosningar“ er afar rýrt veganesti í komandi kosningabaráttu. Þótt að vísu megi segja að það sé stutt skref í rétta átt dugar það flokknum engan veginn ef ekki kemur annað til. Þegar þar við bætist að Jóhanna og Össur hamra á því í fjölmiðlum að samkomulagið um „breytta meðferð aðildarviðræðna“ breyti í raun og veru engu, er augljóst að kjósendur almennt eru engu nær um það hvar VG er á vegi statt. Í augum flestra skilar VG auðu í þessu mesta átakamáli íslenskra stjórnmála. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

 

Steingrímur Sigfússon, formaður VG, hefur margoft sagt að hann hafi vænst þess að í ljós kæmi í viðræðum hver gæti orðið „efnisleg niðurstaða“ í hugsanlegum samningum. Það ætti að nægja. En nú hefur Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, lýst því yfir á heimasíðu sinni að markmið VG sé allt annað og miklu meira. Markmiðið sé að ríkisstjórn Íslands geri formlegan samning við ESB og 27 ríki aðildarríki þess um inngöngu í ESB, og síðan fái þjóðin að segja já eða nei í þjóðaratkvæði. Þetta felur það í sér að VG er ætlað að skrifa upp á samning um inngöngu Íslands í ESB sem verði þá að veruleika nema þjóðin grípi í neyðarhemilinn á síðustu stundu. Þetta er sem sagt allt annað en það sem Steingrímur hefur hingað til lýst sem markmiði VG. Með öðrum orðum: Árni Þór vill að VG taki fulla ábyrgð á samningi um inngöngu Íslands í ESB í ríkisstjórn sem mynduð yrði þegar að kosningum loknum.   

 

Vandi VG er sá að flokkinn skortir trúverðugleika. Sá sem þennan pistil ritar er þó enn að gera sér von um að VG sé ekki svo heillum horfinn flokkur að hann fallist á þessa stefnu Árna Þórs Sigurðssonar á flokksráðsfundi og landsfundi. Því að þá fer illa.

 

Í fyrrnefndri samþykkt ríkisstjórnarinnar er aðeins að finna eina málgrein sem talist getur mikilvæg fyrir þróun mála á næstu mánuðum. Hún er  svohljóðandi:

 

„Það er hvors flokks um sig að móta stefnu sína og málflutning þar um og hvað varðar framhald málsins, samanber það sem segir í samstarfsyfirlýsingu flokkanna að þeir virða ólíka grundvallarafstöðu hvors flokks og hafa fullt frelsi til málflutnings og baráttu á þeim grunni.“

 

Með þessum orðum hefur ríkisstjórnin vísað spurningunni um framhald aðildarviðræðna heim til flokkanna sem að ríkisstjórninni standa. Þessi orð opna útgönguleið fyrir VG sem að sjálfsögðu ber að móta stefnu sína á komandi vikum á þann hátt að þjóðin fái aðkomu að þessu máli strax í vor eða sumar, annað hvort í komandi kosningum eða þegar á nýju kjörtímabili, og þá fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Íslendingar vilja eða vilja ekki stefna að því að ganga í ESB á grundvelli þeirra margvíslegu upplýsinga sem bersýnilega liggja þegar fyrir um hvað óhjákvæmilega felst í ESB-aðild. – RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ekki meðan að skemdarverkahópar ss. ,,vinstri" vakt bora alltaf ný og ný göt á VG. þá tekst þeim náttúrulega ekki að stöðva lekann sem vonlegt er. Lekinn fer síðan allur beint í BF.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.1.2013 kl. 15:08

2 Smámynd: Elle_

Alltaf úti að aka, Ómar.  Og kennandi röngu fólki um.  Vinstrivaktin borar engin göt í VG, forysta VG er fullfær um að bora og vinna að skemmdarverkunum sjálf. 

Líka væri hægt að segja að við, reiðir fyrrverandi kjósendur, borum göt í flokkinn sem laug að okkur og hafði okkur að algerum fíflum.  Við erum samt ekki svo græn að kenna saklausri Vinstrivaktinni um.  Þau eru ekki VG. 

Elle_, 20.1.2013 kl. 15:50

3 identicon

Mér er svo sem sama hvorum megin VG-forrystan kann endanlega að klúka í afstöðunni til ESB-aðildar, enda er ég íhaldsmaður og andvígur aðild. Það er hins vegar ráð mitt til þeirra er studdu VG, en eru andvígir aðildinni, að þeir minnist Dante gamla forðum og "skilji vonina eftir fyrir utan"

þegar þeir mæta á næsta landsfundi. Manni virðast forrystmenn flokksins og þingflokks farnir ískyggilega mikið að "baula eftir töðumeis" frá þýzka stórbúinu. Vituð þér enn eður hvat?

Sveinn Snorrason (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 16:10

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Mörg okkar sem hér skrifum höfðum taugar til VG, þess VG sem var, og höfum greitt flokknum atkvæði.  Við erum því í fullum rétti að gagnrýna þá umskiptinga sem stýra flokknum nú.

Ómar og fleiri sem einnig skrifa hér hafa engan áhuga á VG nema á meðan af flokknum má hafa eitthvert gagn í stjórnarsamstarfinu. 

Þá má þekkja á því að þeir gagnrýna ekki VG, heldur þá sem gagnrýna VG.

Kolbrún Hilmars, 20.1.2013 kl. 16:31

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta er ósanngjarnt. Eg hef mikinn áhuga á VG. Að sumu leiti fellur ákv. ugmyndafræði VG að mínum skoðunum og mati á aðstæðum. Að sumu leiti. Enda er ég staðsettur á pólitísku línunni vinstra megin við miðju. Eg er Jafnaðarsinni sem sem tek göngutúra talsvert langt í vinsti átt.

Ni, það sem hamlar þeim gönguförum eru ákveðin sjónarmið innan VG sem kallast þjóðrembingur. Sérstaklega er þetta slæmt þegar þjóðrembingurinn gjörsamlega yfirtekur alla málefnaega umræðu og önnur málefni.

Sérlega er það fráhrindandi þegar maður loks kemur að híbýlum VG - að þá er bara mannskaður þar upp um allt að bora göt. Mér finnst þetta skrítið.

Í Vg þarf að fara fram uppgjör milli einangrunarsinna og Samvinnumanna. það er ekki pólitískt holt að hræra þessu tvennu saman.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.1.2013 kl. 17:18

6 Smámynd: Elle_

Lekinn fer hvert, Ómar (15:08 )?  Þú ert farinn að segja jafn fyndnar skrýtlur og Ásmundur gerði þegar hann talaði um víðtækan stuðning við Steingrím:
Hægara sagt en gert
Fólkið sem er að flýja VG er alveg örugglega ekki að fara að elta Guðmund í litla Brusselflokknum beint til Brussel.  Fólkið flúði vegna þess að það vill ekki fara þangað.  Óþarfi að segja draugasögur um hábjartan dag og bæta svo við skrýtlum.
Og þetta þjóðrembingatal þitt á ekki við nein rök að styðjast.

Elle_, 20.1.2013 kl. 17:44

7 Smámynd: Gunnlaugur I.

Ég tek undir með "Elle" sem nú fyrrverandi stuðningmaður VG. Fólkið er að flýja VG og flestir þeirra gefa sig kannski ekki upp við aðra flokka strax, þó svo að fólk sé búið að ákveða að vegna svika VG í ESB málinu þá sé þeim alls ekki treystandi fyrir atkvæði okkar.

En eitt er alveg víst það fylgi er ekki að fara yfir til útibús Samfylkingarinnar þ.e. Bjartrar Framtíðar.

Ég tel að obbinn af þessu nýja fylgi BF komi frá Samfylkingunni. Einhver 2 til 4% gætu verið að koma frá þeim fáu ESB sinnum úr VG og Framsókn og Sjálfsstæðisflokki.

Ég tel að VG fylgið muni fyrst og fremst fara yfir til Framsóknar og eitthvað líka til Sjálfsstæðisflokksins.

Hugsanlega gæti komið fram nýtt framboð sem væri skýrt á móti ESB aðild og myndi veita VG náðarhöggið.

Að tala nú um vinstri og hægri í pólitík er alger tímaskekkja. Sérstaklega þegar að þessi ESB umsókn er hangandi yfir þjóðinni !

Gunnlaugur I., 20.1.2013 kl. 19:48

8 identicon

Fylgistap Vg vegna ríkisstjórnarsamstarfsins, sem var skilyrt við ESB-aðildarumsókn, á ekki við nein rök að styðjast. Það sést best á því að fylgi flokksins jókst mikið eftir að aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi.

Það er auðvitað fyrst og fremst ágreiningurinn við forystuna, sem nýtur mikils trausts, sem veldur fylgistapinu. Flokkar, þar sem hver höndin er upp á móti annarri, tapa alltaf miklu fylgi í skoðanakönnunum

Nokkuð stór hluti þeirra sem kusu Vg í síðustu kosningum voru sjálfstæðismenn sem treystu ekki Flokknum í ESB-málinu enda höfðu formaður, varaformaðir og fleiri þungavigtarmenn hans sýnt aðild áhuga.

Þessir Sjálfstæðismenn hverfa til síns heima í næstu kosningum þar sem þeir geta aftur orðið fyrir vonbrigðum. Flokkar sem njóta ekki meirihlutafylgis verða nefnilega að gefa eftir einhver af sínum stefnumálum við myndun ríkisstjórnar.

Mér sýnist að mjög margir, ef ekki flestir, sem tjá sig hér, séu úr þessum hópi utangarðsmanna. Þeim hefnist fyrir tækifærismennskuna. Þeir eiga auðvitað ekkert með að gagnrýna forystu Vg sem hefur engar skyldur að rækja gagnvart þeim.

Vg munu áfram styðja aðildarumsókn. Annars missa þeir trúverðugleikann. Síst af öllu mega þeir við að láta ofbeldisöfl knýja sig til hlýðni og leiða þannig Sjálfstæðisflokkinn til valda.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 21:24

9 identicon

http://blogg.smugan.is/kjarval/?p=252&preview=true

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 21:55

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, þakka þér fyrir að staðfesta fullyrðingu mína í lokasetningunni #4.

Kolbrún Hilmars, 21.1.2013 kl. 16:04

11 Smámynd: Elle_

Ásmundur vill þagga niður í hægri mönnum.  En vonandi koma allir hægri menn, vinstri menn, miðjumenn og óháðir, sem ekki vilja yfirráð Brusselveldisins, og skipta sér af VG. 

En hvað er Ásmundur að skipta sér af hægri mönnum??  Og VG? 

Elle_, 21.1.2013 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband