Sameiginlegur gjaldmiðill í ákafri leit að sameiginlegu ríki

Eitt hið furðulegasta sem sjá mátti á liðnu ári var hvernig sameiginlegur gjaldmiðill 17 ESB ríkja hefur útheimt æ meira framsal fullveldis evruríkja sem neyðast til að leggja gífurlega fjármuni í sjóði til bjargar evrunni og framselja um leið yfirráð sín yfir skattmálum og fjárlagagerð.

Margoft hefur komið fram að ákvörðunin um sameiginlegan gjaldmiðil ESB-ríkja var pólitísk ákvörðun stjórnmálamanna sem vildu að samstarfið um evruna yrði til að þjappa aðildarríkjunum saman í eitt voldugt stórríki, en ekki var hirt um aðvaranir þeirra sem bentu á að alvarleg vandræði geti hlotist af því að þjóðir sem búa við mjög ólíkar efnahagslegar aðstæður reyni að nota sama gjaldmiðilinn. Andstæðurnar milli mjög iðnvæddra ríkja í norðanverðri álfunni eins og Þýskalands annars vegar og hins vegar ríkja á jaðrinum eins og Grikklands, Spánar og Portúgals eru einfaldlega svo miklar, að þau síðarnefndu hafa smám saman lent í æ meiri ógöngum að þurfa að nota sama gjaldmiðil og Þjóðverjar.

Gallarnir á evrukerfinu hafa sem sagt lengi blasað við en komu þó lítt í ljós á uppgangsárunum 2001-2007 þegar lán á mjög lágum vöxtum flæddu um bankakerfi heimsins og lögð grunn að þeirri bólu sem síðan hefur sprungið með skelfilegum afleiðingum og komið evruríkjunum í háskalega sjálfheldu.

Hvað geta Íslendingar lært af því sem gerst hefur á evrusvæðinu? Þeir geta áttað sig betur á því:

  • 1) Að allt tal um að íslenska krónan sé „ónýt" og gagnist þjóðinni ekki er yfirborðslegur áróður. Staða gjaldmiðilsins er afleiðing af því hvernig haldið er á efnahagsmálum þjóðarinnar og „sterkur" gjaldmiðill getur komið sér verr fyrir efnahagsþróun í landinu en „veik" króna ef gjaldmiðillinn endurspeglar ekki eða mjög illa þær aðstæður innanlands sem ríkjandi eru á hverjum tíma.
  • 2) Að sveiflur í íslenska hagkerfinu eru mjög ólíkar sveiflum á evrusvæðinu og við gætum lent í enn meiri vandræðum en við höfum áður lent í ef við tækjum upp gjaldmiðil eins og evruna sem hentar illa íslensku atvinnulífi.
  • 3) Að aðeins fjórðungur útflutningstekna Íslendinga er greiddur í evrum. Það sýnir eitt með öðru hve langt við erum frá því að falla vel inn í evrusamstarfið.
  • 4) Að þær sjö þjóðir sem gengu í ESB á árunum 2004-2007 og skuldbundu sig samkvæmt aðildarsamningum til að taka upp evru reyna nú af öllum mætti að forðast að taka hana upp með þeim rökum að myntbandalagið muni bersýnilega verða gerbreytt bandalag sem byggi á miklu nánari fjármálalegum, efnahagslegum og pólitískum samruna en áður hafði verið gert ráð fyrir.
  • 5) Að sama gildir um Breta, Dani og Svía sem komnir voru í ESB áður en evran var tekin upp. Skoðanakannanir í þessum ríkjum sýna ótvírætt að mikill meirihluti kjósenda fúlsar við því að taka upp evru.
  • 6) Að upptaka evru á Íslandi er ekki hagfræðilega skynsamleg stefna fyrir íslenskt efnahagslíf heldur fyrst og fremst pólitísk tálbeita þeirra sem vilja reyna að troða Íslendingum inn í ESB. En reynsla jaðarríkja á evrusvæðinu ætti varla að lokkar aðra Íslendinga en þá sem lítt fylgjast með þeim hremmingum sem þjóðir á evrusvæðinu hafa nú lent í. - RA

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Öllu er snúið á haus til að viðhalda vitleysunni og alþjóðlegu auðhringjunum sem þrífast i þessu kerfi en borga hvergi skatta. Í stað þess eru lagðir ofurskattar á þá sem þegar borga langhæstu skattana refjalaust og það kallaðir auðmannaskattar. Gott dæmi um það er fyrirhugaður 75% tekjuskattur á franska listamenn og íþróttamenn líkt og Gerard Depardieu. Honum og fleirum er stillt upp sem óvinum ríkisins ef þeir mögla á meðan greifarnir í Societe General og Total spila á björgunarsjóði Evrunnar og grísk skuldabréf úr öryggi fjarlægra skattaskjóla.

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 1.1.2013 kl. 15:03

2 identicon

ESB-löndin eru öll fullvalda ríki og er engin breyting á döfinni hvað það varðar.  

Lítil ríki og sérstaklega örríki sækjast eftir að hafa sameiginlegan gjaldmiðil með öðrum eða binda sinn gjaldmiðil við evru eða bandaríkjadollar þrátt fyrir að hafa ekkert skjól í seðlabanka.

Yfir 500 milljónir manna hafa evru sem gjaldmiðil eða binda gengi síns gjaldmiðils við evru, þar af 150 milljónir í Afríku. Á evrusvæðinu búa um 330 milljónir.

Tilgangur smáríkja með því að taka einhliða upp evru eða binda eigin gjaldmiðil við hana er að örva fjárfestingu og koma í veg fyrir mikla verðbólgu.

Við erum svo heppin að geta fengið fulla aðild að evru. Binding við evru eða dollar gengur ekki upp nema með miklum höftum sem meðal annars samræmast ekki EES.

Vinstrivaktin forðast eins og heitan eldinn að fjalla um það sem mestu máli skiptir: Hvernig á að lifa við krónu í höftum en einhvers konar höft eru nauðsynleg til frambúðar.

Höftin halda fjárfestingu og fjármagni frá landinu því að fáir vilja taka þá áhættu að komast ekki út aftur. Gjaldeyrir streymir einnig úr landi vegna lekra hafta. Mikil spilling þrífst við slíkar aðstæður.

Með höftum versna því lífskjör óhjákvæmilega smám saman að öðru óbreyttu. Hvernig á þá að fara að því að greiða skuldir ríkisins?

Vegna ónýtrar krónu hefur Ísland meiri hag af að ganga í ESB en flestar ef ekki allar aðrar þjóðir. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband