Utanríkisráðherra í hlutverki loddara

Aðildarsamningur við ESB verður aldrei gerður nema ríkisstjórnarflokkarnir taki pólitíska ábyrgð á samningnum. Forysta VG hefur hingað til ekki viljað horfast í augu við þá augljósu stöðu og látið sem »þjóðin« leysi hana undan að bera pólitíska ábyrgð á hugsanlegum samningi.

Hjörleifur Guttormsson fjallaði um „yfirstandandi loddaraleik með fjöregg lands og þjóðar" í grein í Mbl 28. des. s.l. Grein hans er svohljóðandi:  

"Þeir sem lagt hafa hlustir við orðræðum Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að undanförnu gera sér ljóst að þar er á ferðinni maður sem varla getur ætlast til að vera tekinn alvarlega. Það sem meira er, þar rausar ráðherra sem er í slíku ójafnvægi þegar kemur að afdrifaríkasta máli sem hann fer með þessi árin, aðildarumsókninni að ESB, að háskalegt verður að teljast. Daginn sem ríkjaráðstefna ESB kom saman í Brussel 18. desember sl. til þess að fjalla um stöðuna í aðildarumsókn Íslands sagði ráðherrann að aðild Íslands yrði sérstök »guðsgjöf« fyrir landsbyggðina og tiltók þrjá landsfjórðunga þar sem allt myndi snúast til betri vegar í kjölfar inngöngu.

Í löngu einkaviðtali við Össur í þætti RÚV »Í vikulokin« 22. des. bætti hann um betur. Nú var það ekki aðeins landsbyggðin sem myndi blómstra við inngöngu og upptöku evru, öll vandræði Íslands væru þar með fyrir bí. Við ungu fólki myndi blasa framtíð með »lægri vöxtum, aukinni fjárfestingu, fleiri störfum, og svo náttúrlega að losna við verðtrygginguna.«

Samfylkingin sem einsmálsflokkur

Allt frá stofnun Samfylkingarinnar fyrir síðustu aldamót hefur blasað við að þar er á ferðinni flokkur þar sem eitt meginmarkmið ræður för: Að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Þetta stefnumið tók Samfylkingin í arf frá Alþýðuflokknum og undir það beygðu sig þá ýmsir einstaklingar úr Alþýðubandalagi og fyrrverandi Kvennalista. Bakgrunnur þessa voru átökin um EES-samninginn í byrjun 10. áratugarins, en á þann samning leit forysta Alþýðuflokksins sem fordyri aðildar. Andstæðingar EES-samningsins bentu ítrekað á að það valdaframsal sem í honum fælist bryti gegn íslensku stjórnarskránni. Á það var ekki hlustað á þeim tíma, en nú snýr utanríkisráðherra sér í hring og segir að bregðast verði við reglugerðafæribandi EES með því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Svipuð gagnrýni á EES fer nú vaxandi í Noregi og þeim fer fjölgandi þarlendis sem telja ráðlegt að segja þeim samningi upp og leita þess í stað eftir tvíhliða samningi Noregs við ESB, en ella tryggi reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) frá 1995 helstu viðskiptahagsmuni gagnvart Evrópusambandinu.

Háskalegur málflutningur

Utanríkisráðherra og aðrir sem halda því fram að í boði geti verið allskyns undanþágur fyrir Ísland frá grunnsáttmálum Evrópusambandsins ættu að íhuga í hvaða stöðu þeir setja sig og samninganefndarmenn Íslands með einhliða málflutningi um eðli yfirstandandi aðildarviðræðna og þann voða sem við Íslandi blasi ef aðild verði ekki samþykkt. Ekkert spurningarmerki er af hálfu ráðherra sett við það hvort gerður verði aðildarsamningur, verkefnið sé aðeins að »koma heim« með það sem í boði sé af hálfu ESB og láta greiða um það þjóðaratkvæði. Á fundinum með ESB rétt fyrir jólin fullyrti Össur »að senn sæist til lands« þótt viðræður séu hvorki hafnar um landbúnaðarmál né sjávarútveg. Þegar hann er minntur á stöðuna heima fyrir þar sem meirihluti utanríkismálanefndar leggst gegn áframhaldi viðræðna, kemur það honum ekki við, umboð Alþingis muni halda hvað sem tautar og raular. Engin ríkisstjórn »leggi í það feigðarflan að slíta viðræðum«.

Umhugsunarefni fyrir VG

Framganga utanríkisráðherra heima sem erlendis er stöðug storkun við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, að ekki sé minnst á stjórnarandstöðuna. Langt er síðan það lá fyrir að engar lyktir yrðu á aðlögunarferli Íslands að ESB á kjörtímabilinu og engin drög að samningi til að taka afstöðu til af núverandi ríkisstjórn. Aðildarsamningur við ESB verður aldrei gerður eingöngu á ábyrgð utanríkisráðherra sem stjórnvalds, heldur þarfnast hann hið minnsta samþykkis ríkisstjórnar í umboði meirihluta Alþingis áður en til greina komi að vísa honum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samninganefnd Íslands starfar ekki í tómarúmi. Samningsdrög af hennar hálfu hafa ekkert gildi nema ríkisstjórn og þeir flokkar sem að henni standa, tækju á þeim pólitíska ábyrgð. Forysta VG hefur hingað til ekki viljað horfast í augu við þá augljósu stöðu og látið sem »þjóðin« leysi hana undan að bera pólitíska ábyrgð á hugsanlegum samningi. Á slíkt mun hins vegar ekki reyna úr þessu. Taki Alþingi ekki af skarið fyrir kosningar og bindi enda á yfirstandandi loddaraleik með fjöregg lands og þjóðar, blasir það verkefni við nýju Alþingi og ríkisstjórn að kosningum loknum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Össur var frábær í Vikulokunum 22/12. Sjá hér:

http://www.ruv.is/sarpurinn/vikulokin/22122012-0

Það er allt of algengt að sannfærðir ESB-sinnar lyppist niður vegna krampakenndra viðbragða ESB-andstæðinga. Svo öflug er þöggun þeirra.

Þess vegna fær málflutninmgur aðildarsinna ekki að njóta sín. Össur neitar að vera meðvirkur og beinlínis brilleraði. Þetta voru engar ýkjur hjá honum.

Það gengur ekki lengur að aðildarsinnar tjái ekki hug sinn af fullum krafti. Heiftúðugir nei-sinnar, sem hafa sérhagsmuna að gæta, mega ekki stjórna umræðunni. 

Um pistil Hjörleifs er það eitt að segja að hann hann er ekki málstað hans til framdráttar, öðru nær.

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.12.2012 kl. 15:04

2 Smámynd: Elle_

Alveg lýsandi pistill frá Hjörleifi.  Eins og hann segir er málflutningur Össurar háskalegur og hann ætti ekki að búast við að vera tekinn alvarlega.  Hann er ennfremur hraðlyginn. 

En ekki von Ásmundur sjái það enda nánast eins.  Það á að koma þessum skæða manni úr ríkisstjórn og úr stjórnmálum, fyrir fullt og allt. 

Elle_, 30.12.2012 kl. 17:03

3 identicon

Er Ásmundur okkar Árni Páll Árnason?

Þeir tala eins.

Á(smundur) P Á (IP-tala skráð) 30.12.2012 kl. 17:31

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hjörleifur skilgreinir pólitíkina eins og honum er lagið eftir áratuga reynslu í því umhverfi.  En alltaf kemur eitthvað á óvart. 

Eins og t.d.  uppgjöf Ásmundar gagnvart því sem hann kallar öfluga þöggun ESB andstæðinga og ákall til ESB sinna um að tjá hug sinn af fullum krafti.

Eru þessir svokölluðu aðildarstyrkir, kynnisferðir, áróðursfundir um land allt og umboðsskrifstofur ESB ekki að skila þeim árangri sem ætlað var?

Kolbrún Hilmars, 30.12.2012 kl. 17:38

5 identicon

Kolbrún, vonandi eru kynningar ESB að skila þeim árangri sem þeim er ætlað - að gera fólki kleift að taka upplýsta ákvörðun um aðild þegar samningur liggur fyrir.

Ef ekki væri fyrir þessa kynningu ESB, væru kjósendur ofurseldir blekkingaráróðri hagsmunaaðila þar sem nei-sinnar hafa yfirhöndina. Það væri nauðgun á lýðræðinu.

Þessir styrkir, sem nei-sinnar sjá ofsjónum yfir, eru til ýmiss konar starfsemi sem hefur ekkert með kynningu á ESB að gera. Þeir eru aðeins í boði meðan á aðildarferlinu stendur. Já eða nei við aðild hefur því engin áhrif á þessa styrki.

Hins vegar bjóðast ýmis konar styrkir aðildarþjóðunum - einkum og sér lagi hinum dreifðu byggðum. Það skýtur því skökku við að Ísfirðingurinn Ásthildur skuli berjast gegn aðild.

Þessir styrkir, bæði fyrir og eftir aðild eru engin ölmusa enda greiðum við nú þegar háar upphæðir til ESB vegna EES-samningsins.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.12.2012 kl. 21:16

6 Smámynd: Elle_

Einu manneskjurnar með öfluga þöggun eru landsölumenn eins og hann.  Það er þeirra persónulegi gróði og væntanlega mútur.  Þau þola ekki landvarnarfólk og beita lygum og níði og of erfitt að lesa þessa þvælu hans og þegja.  Það væri ein leið að halda sig í burtu og lesa ekki. 

Elle_, 30.12.2012 kl. 21:21

7 identicon

Ég óska Vinstrivaktinni til hamingju með að hafa loksins tekið sér tak og fjarlægt soraskrif palla.

Palli var með fyrstu athugasemdina við þessa færslu. Nú er hún horfin. Ég veit að vísu ekki hvað í henni stóð því að ég les aldrei neitt eftir hann.

Það gerði ég þó í eina tíð. Öll hans skrif voru þess eðlis að þau var voru hreinn ruslahaugamatur - ekki fólki bjóðandi. Hann hefur því örugglega flæmt marga frá síðunni.

Annars er ég sannfærður um að aðildarsinnar hafi grætt á skrifum palla því að hann kom óorði á málstað nei- sinna rétt eins og Palli Vill sem nú hefur hrökklast úr stöðu framkvæmdastjóra Heimssýnar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.12.2012 kl. 23:21

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Alltaf að græða Ásmundur,á skrifum annara,þannig viljið þið hafa það græða á öðrum þið Samfylkinga ---- rosalega hlakka ég til þegar Ísland dregur umsóknin til baka. Segðu nú hreinskilnislega þykist þú og þið aðildarsinnar,vera að vinna fyrir heill þjóðarinnar,eða stendur von ykkar um kontorista-job í Brussel,þar sem enginn borgar skatt,hvorki til heimalands síns né landsins sem hýsir Esb-höllina. Millur á mán og engin mennska eins og einn ötulasti bloggari gegn aðild kallar þessar aðfarir landssölustjórnarinnar. Var Páll með soraskrif,lát sjá fyrr trúi ég þér ekki,ég er ekki alltaf hér. Æ! Nei þú lest ekki skrif Páls,ekki þá Páls Vill eða hvað. Tjáningafrelsi er stjórnarskrárvarið samkvæmt þeirri einu sem er í gildi og mun verða lítið breitt um aldir. Nú förum við að komast í kosningagírinn. Hvað ætlarðu að skrifa um þegar við höfum fengið okkar stjórn,sem vinnur fyrir þjóðarheildina? Nei annars mér kemur það ekki við.

Helga Kristjánsdóttir, 31.12.2012 kl. 00:55

9 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur,  eftir inngöngu í ESB þyrfti Ísland að greiða a.m.k. 15 milljarða einungis í félagsgjald.

Sérstaka undanþágu fengjum við líka, líkt og Finnar, til þess að hækka eigin landbúnaðarstyrki  um það sem kallað er dreifbýlisstyrkir.

Værum við ekki bara jafnsett - eða betur, með því að sleppa ESB aðildargjöldunum og nota þessa fjármuni líkt og við nú þegar gerum?

Svo er þetta vesen með EES.  Fyrir efnahagsbandalag  sýnist mér yfirgengilegt þetta misgáfulega reglugerðarfargan sem sífellt streymir frá Brussel og sér ekki fyrir endann á.

Kolbrún Hilmars, 31.12.2012 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband