Einbeittur brotavilji Alþingis gagnvart Stjórnarskrá Íslands

Verðmiði á eiðstaf Alþingismanna

Alþingi samþykkti að næturlagi korteri fyrir jól lagafrumvarp um viðskipti með kvóta í losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda og er frumvarpið hluti af aðlögun okkar að ESB. Í nefndaráliti minnihluta umhverfis- og samgöngunefndar er komist að þeirri niðurstöðu að lögin sem þingið samþykkti brjóti í bága við stjórnarskrána. Undir álit þar um skrifuðu Atli Gíslason sem var framsögumaður málsins, Ásmundur Daði Einarsson, Árni Johnsen og Birgir Ármannsson (þ.e. fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks auk Atla). Lokaorð álits þeirra eru:

Að mati minni hlutans virðist ljóst að málið verði ekki afgreitt óbreytt nema að undangenginni breytingu á stjórnarskrá þar sem framsal valds væri heimilað, standi vilji til þess. Ekki verður við það unað að Alþingi samþykki lagafrumvarp sem fer í bága við núgildandi stjórnarskrá.

Þetta afdráttarlausa álit minnihlutans styðst m.a. við niðurstöðu lagahóps samninganefndar vegna ESB viðræðna (http://www.vidraedur.is/media/lagamal/Stjornarskrarbreytingar-greinargerd-okt12---revised-FINAL.pdf). Flækjustig málsins er hátt og verður ekki rakið hér til hlítar en áhugasömum bent á að lesa álit meiri- og minnihluta á vef Alþingis. (http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=141&mnr=381). Með lögum þessum gangast Íslendingar inn á úthlutun kvóta til losunar gróðurhúsalofttegunda og viðskipti með þá kvóta.

Í stuttu máli snýst deiluefnið um heimild Alþingis til að fela Evrópusambandinu framkvæmda- og refsivald gagnvart innlendum fyrirtækjum. Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru hér í húfi og var það mat atvinnulífsins að hagstæðara væri að fá lögin samþykkt. Það breytir þó ekki réttarstöðu þess sem refsað yrði af ESB fyrir að fara framúr gefnum kvóta. Sá gæti sótt íslensk stjórnvöld til ábyrgðar þar sem refsivaldið hefur verið afhent til erlendra aðila.

Í áliti minnihluta um málið er rakið að opinberar álitsgerðir sem gerðar hafa verið að frumkvæði og fyrir sitjandi ríkisstjórn lúti að sömu niðurstöðu, samþykkt laganna samrýmist ekki Stjórnarskránni. Þar er hægt að vísa til álits sem Stefán Már Stefánsson vann fyrir utanríkisráðherra 2011 (http://www.althingi.is/altext/139/s/1079.html), álit Stefáns og Bjargar Thorarensen frá unnu fyrir ráðuneytin um þetta tiltekna mál, fyrrnefnt álit lagahóps samninganefndar sem og eldri álitsgerðir um sambærileg mál. Öll leiða þau til sömu niðurstöðu og beina auk þess sjónum að því að fleiri atriði í aðlögun okkar að ESB kalla á það sama. „Nú verður ekki lengra gengið í aðlögun að ESB nema breyta stjórnarskránni," sagði Atli Gíslason um málið í ræðu sinni á Alþingi og í orðum hans felst að víglína okkar sem viljum berjast gegn ESB aðild liggur nú um stjórnarskrána.

Í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefnda kemur aftur á móti fram sú almenna túlkun að hér sé ekki gengið lengra en áður hafi verið gert og því sé ekki ástæða til að staldra hér við. Orðrétt segir í áliti meirihlutans:

... Áður hafi gilt að framsal valds, sem sé takmarkað með þessum hætti og varðar milliríkjaviðskipti, rúmist innan stjórnarskrárinnar. Kjarni röksemdarinnar sé sá að aðili sem tekur þátt í alþjóðlegum viðskiptum og nýtur þeirrar hagkvæmni og þess hagnaðar sem af því leiðir skuli einnig bera skyldur gagnvart þeim stofnunum sem markaðnum tengjast. ... ESB-ríki hafa þegar framselt vald á sama afmarkaða sviðinu til miðlægs aðila, sem getur lokað tímabundið aðgangi aðila að skráningarkerfinu í heild eða hluta eða kyrrsett losunarheimildir tímabundið að beiðni framkvæmdastjórnarinnar. Vart verður séð að með ákvæðum nýs samkomulags um aðlögun EES/EFTA-ríkjanna að reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1193/2011 sé gengið lengra en þegar hefur verið gert í samkeppnismálum samkvæmt EES-samningnum.

Hér er í raun viðurkennt að um framsal á fullveldi sé að ræða og brot á stjórnarskrá rökstutt með þeim hætti að slíkt hafi verið gert áður. Enginn vafi er að Ísland getur sjálft sem fullvalda ríki farið með loftslagskvóta sína. Svo virðist sem þingmenn (sem sverja eið að stjórnarskrá lýðveldisins þegar þeir fyrst setjast á Alþingi) telji mögulega hagsmuni atvinnulífs í landinu og aðlögun Íslands að ESB gangi framar stjórnarskránni. Með áherslu á fjárhagslega hagsmuni er verið að setja harla ósmekklegan verðmiða á sjálfa stjórnarskrána sem og eiðstaf þingmanna.

Fyrr á þessu kjörtímabili fóru fram miklar umræður um ábyrgð þingmanna, rannsóknarskýrslu og landsdóm. Nú þegar þingmenn standa væntanlega frammi fyrir stjórnarskrárbroti er bent á fjárhagslega hagsmuni atvinnulífsins.

Í málinu skiptist Alþingi í þrennt. Stjórnarmeirihlutinn samþykkti frumvarpið. Þorri stjórnarandstöðunnar sat hjá en aðeins fjórir þingmenn töldu sér skylt að greiða atkvæði gegn stjórnarskrárbroti, þau Atli Gíslason, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Mósesdóttir og Vigdís Hauksdóttir. Athygli vekur að einn þeirra þingmannanna fjögurra sem skrifuðu undir álit minnihluta, Birgir Ármannsson sat hjá en Atli Gíslason einn úr þeim hópi greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Hinir tveir, Árni Johnsen og Ásmundur Einar Daðason voru (líkt og 16 aðrir) fjarstaddir. /-b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ef þetta er rétt hjá 'minnihlutanum' þá sýnir þetta bara nauðsyn þess tími er kominn til að lagfæra stjórnarskránna. meirihlutinn virðist sjá að við getum ekki verið ein í heiminum

Rafn Guðmundsson, 29.12.2012 kl. 16:48

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ekki að ræða það! Tllögu ólölegs stjórnlagaráðs má alls ekki samþykkja. Hún er eingöngu gerð til að auðvelda samfylkingunni inngöngu í Esb.,sem fleiri og fleiri Íslndingar eu á móti.

Helga Kristjánsdóttir, 30.12.2012 kl. 02:48

3 identicon

Málið snýst ekki um "aðlögun" Íslands að ESB, enda aðlagast menn ekki samtökum sem þeir eru ekki í, heldur um aðild Íslands að EES. Í stað þess að vera sífellt að gaspra um eitthvað sem enginn fótur er fyrir ("aðlögun") ætti "vinstri" vaktin (á reyndar erfitt með að sjá hvað er vinstri við þessa síðu) að berjast fyrir uppsögn EES samnings.

Gunnar Halldrórsson (IP-tala skráð) 30.12.2012 kl. 08:14

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Gunnar, það þarf ekkert að hafa fyrir því að segja upp EES samningnum.

Nóg er að brjóta hann nokkrum sinnum.

Kolbrún Hilmars, 30.12.2012 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband