Eldamennskan í Brussel

Það gengur stundum hægt og illa að kokka saman fjárlög í þeim skaftpotti sem íslensk stjórnmál eru. Það gerist þó í fljótheitum og mun nær „þolendum“ miðað við það þegar hrært er í þeim risavaxna grautarpotti hvar fjárlög ESB eru samansoðin. Nú stendur það kokkerí einmitt yfir og vilja allir ráða í eldhúsinu.

Ef marka má fréttirnar sem berast af þessari eldamennsku þá eru það þó bara ákveðnir yfirmatreiðslumenn sem mark er á tekið. Það eru franski matreiðslumeistarinn sem er með allt niðrum sig án þess að taka eftir því og hefur verið látin trúa því of lengi að hann geti eldað, það er breski kokkurinn sem helst vill ekki nota neitt hráefni í réttina og svo þýska eldabuskan sem, merkilegt nokk, ræður flestu því sem hún vill ráða og kemur sínu óæti fram með seiglunni. Þeir sem eiga að smakka til réttina – svo ég minnist nú ekki á þá sem eiga að éta herlegheitin – hafa ekkert að segja.

Til eru þeir Íslendingar sem vilja ólmir komast í þetta skítabras – þó ekki til að elda (enda yrði þeim seint hleypt að hlóðunum), né heldur í það að smakka, heldur í hitt að éta hroðann sem sýður uppúr með reglulegu millibili. Það kalla þessir sömu að „fá að vera með í ákvörðunarferlinu“. Hvaða ákvörðunarferli er vandséð enda ekki nein ákvörðun í því fólgin að vera skipað að éta það sem að manni er rétt með hótunum og heitingum um að annað hvort fái maður aldrei að standa upp frá borðinu ellegar maður verði rekinn frá því með skít og skömm, éti maður ekki gumsið.

Nú stendur eldamennskan sem hæst í eldaskálanum í Brussel, brasararnir sem áður voru upp taldir munu að endingu koma sér saman um réttinn, fáeinir munu fá að smakka en öllum verður skipað að éta – fyrir kannski utan þá sem þjónarnir í stóra eldhúsinu verða búnir að hengja með því að reyra of fast á smekkina.   

- gb.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/11/23/leidtogar_esb_frestudu_fundi/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Kokkarnir við Kabissuna brasa og reka við í Glás.

Helga Kristjánsdóttir, 23.11.2012 kl. 10:49

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Skýring;sleif er úr viði.

Helga Kristjánsdóttir, 23.11.2012 kl. 10:51

3 Smámynd: Gunnlaugur I.

Það er fróðlegt að heyra þetta með eldamennskuna í Brussel.

En lítum okkur nú aðeins nær. Hvernig líður eldamennskunni hjá frambjóðendum VG í Reykjavík. Þeir áttu ekki seinna en miðvikudagskvöldið var að skýra fyrir Reykvíkingum og væntanlegum þátttakendum í forvalinu. Hvaða rétti þau biðu uppá hvert fyrir sig í væntanlegri kosningasúpu.

Ekkert krælir enn á svörunum og forvalið byrjar á morgun !

Enda grunar mann að þau muni ekkert svara þessu heldur aðeins bjóða upp á útvatnaða og "heildstæða" naglasúpu.

Gunnlaugur I., 23.11.2012 kl. 11:26

4 identicon

"Þeir áttu ekki seinna en miðvikudagskvöldið var að skýra fyrir Reykvíkingum og væntanlegum þátttakendum í forvalinu. Hvaða rétti þau biðu uppá hvert fyrir sig í væntanlegri kosningasúpu."

Gunnlaugur, hver er það sem ákveður hvað frambjóðendur VG eiga að gera. Hefur Vinstrivaktin umboð til þess? 

Ásmundur (IP-tala skráð) 23.11.2012 kl. 17:19

5 identicon

Hver er gb?

Þetta er ómerkilegur pistill og því ekki undarlegt ef höfundur hans vill ekki þurfa að gangast við honum.

Fjárlög ESB er ekki neinn risapottur. Hann er ekki nema rúmlega 1% af þjóðarframleiðslu ESB-þjóða. Hann er vel innan við 2000 evrur á hvern íbúa sem skila sér að mestu aftur þó ekki í sömu hlutföllum og greiðslurnar.

Þjóðverjar hafa ekkert meiri rétt en aðrar þjóðir því að allar verða þær að samþykkja fjárlögin. Það er því bull að þjóðverjar ráði meiru en aðrir.

Hvernig kemur það heim og saman að mest sé tekið mark á Frökkum en þeir ráði samt litlu (úr því að Þjóðverjar ráða mestu.) 

Það er sláandi hve vel minnstu þjóðunum gengur í ESB. Td er atvinnuleysi í tveim minnstu löndunum, Lúxemborg og Möltu, með minnsta móti á evrusvæðinu og í ESB.

Íslendingar munu fá sex þingmenn á Evrópuþinginu en það er lágmarksfjöldi þingmanna frá sömu þjóð. Þetta er 12.5 sinnum meira atkvæðamagn en ef farið væri eftir íbúafjölda.

Mikið hefur verið gert úr að atkvæðamagnið í ráðherraráðinu er í réttu hlutfalli við íbúafjöldann. Það skiptir hins vegar litlu máli vegna þess að hvert mál þarf samþykki 55% þjóða eða 16 þjóða eftir að Ísland er orðið aðili.

Auk þess þarf aukinn meirihluta atkvæða til að fá mál samþykkt, ýmist 65%, 72% eða jafnvel 100%.

Þetta kemur í veg fyrir að nokkrar stórþjóðir geti ráðið öllu. Auk þess geta smáþjóðir eins og Ísland fengið mál samþykkt af lágmarksfjölda þjóða rétt eins og Þýskaland, ef atkvæðin skiptast þannig.

Vinstri vaktin ætti að koma sér af sandkassastiginu og fara að tala af viti og þekkingu. Eða er málstaður ESB-andstæðinga kannski óverjanlegur? 

Ásmundur (IP-tala skráð) 23.11.2012 kl. 18:07

6 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Mikið pláss þarft þú, Ásmundur, til að svara ómerkilegum pistli.

- gb.

Vinstrivaktin gegn ESB, 25.11.2012 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband