Mörður reynir að fleyta sér á þing með yfirborðshjali

Í gær veifaði Mörður Árnason ákaft evrunni sem patentlausn á efnahagsvanda Íslendinga í von um að vekja á sér athygli í væntanlegu prófkjöri Samfylkingar. Pistillinn var þó með afbrigðum illa rökstuddur og yfirborðslegur.

 

Í pistli sínum sem birtist í Fréttablaðinu í gær, 7. nóv., segir Mörður m.a: „það þarf að finna leið út úr gjaldeyrishöftunum, og enginn hefur bent á neina aðra í raun og veru en upptöku evru“. Staðreyndin er hins vegar sú að fyrst þurfa Íslendingar sjálfir að afnema gjaldeyrishöftin með krónuna að vopni áður en til þess kemur að þeir geti eða megi taka upp evru. Afnám gjaldeyrishafta er sem sagt ein af mörgum forsendum fyrir upptöku evru – en ekki öfugt.

 

Jafnframt segir Mörður: „Verðtryggingin hverfur  svo að segja með evrunni, enda er verðtryggingin hækja  sem hin veika króna notar til að halda sér uppréttri.“ Þessi fullyrðing Marðar er algerlega úr lausu lofti gripin. Íslendingar geta afnumið verðtryggingu hvenær sem þeim sýnist og þurfa ekki að taka upp aðra mynt til þess. Þarna er ekkert samband á milli. Hins vegar hefur lengi verið leitast við það hér á landi að tryggja jákvæða raunvexti til að tryggja sem mesta innlenda sparifjármyndun og þess vegna var verðtryggingin tekin upp á sínum tíma, ekki síst að kröfu móðurflokks Samfylkingarinnar, Alþýðuflokksins. Í dag eru samfylkingarmennirnir í verkalýðshreyfingunni áköfustu talsmenn verðtryggingar. En auðvitað hefur það fyrirkomulag bæði kosti og galla.

 

Það hentar Merði bersýnilega illa eins og fleirum að skrifa um mál sem hann hefur ekki hundsvit á. Hann hefði mátt nefna að þótt við gengjum í ESB gætum við ekki tekið upp evru vegna þess að við uppfyllum ekki skilyrðin sem sett eru fyrir upptöku evru, höfum aldrei gert það og munum bersýnilega eiga mjög erfitt með það, a.m.k. næstu árin.

 

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, ræðir hins vegar af mikilli skynsemi um þau vandamál sem fylgja upptöku annarrar myntar í ítarlegu viðtali við Viðskiptablað Mbl. í dag. Ragnar varpar fram eftirfarandi spurningu, hvað evruna varðar:

 

„Förum við ekki úr öskunni í eldinn? Aðstæður hér verða líkari því sem er í Grikklandi og Írlandi, þar sem gengi gjaldmiðilsins getur ekki lagað sig að þörfum efnahagslífsins. Þá verða aðrir þættir efnahagslífsins að skapa nauðsynlega aðlögun eins og laun, verðlag, opinber umsvif o.s.frv. Þeir þættir hafa fram til þessa ekki sýnt mikinn sveigjanleika...“

 

Aðalvandinn sem Ísland hefur glímt við í gegnum tíðina, að sögn Ragnars, er ekki verðbólga heldur hagsveiflur, óstöðugleiki og skortur á hagvexti. Og nú efnahagskreppa og atvinnuleysi.

 

„Þegar kallað er eftir upptöku á annarri mynt er raunverulega verið að kalla eftir því að skipt sé um peningamálastjórn. Slík umræða er því fyrst og fremst áfellisdómur yfir peningamálastjórn og hagstjórn á Íslandi. Menn einblína á krónuna í stað þess að horfast í augu við vandann.“


mbl.is Einblína á krónu í stað þess að horfast í augu við vandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Vandamál fjármálakerfis-hruns heimsins eru múlbundin við spillt embættis og banka/verðbréfakerfi heimsins, með aðstoð siðblindrar og lögvarinnar spillingu. Það er staðreyndin sem Íslandsbúar og aðrir heimsbúar þurfa að horfast í augu við, og leiðrétta.

Hugarfarsbreyting, og réttlát gagnrýni á sjálfan sig og kerfið, er lykillinn að nýrri og réttlátri stefnu.

Þegar peninga/verðbréfa/banka-blekkingar og lygar siðblindra og keyptra starfsmanna/kvenna í embættisstöðum innan opinbera kerfisins stjórna heiminum, verður útkoman mannréttindabrot, svik, bankarán og blekkingar, hér eftir sem áður fyrr.

Þurfa heimsbúar meira af slíku blekkingar-moði? Hvenær lærir "skynsama" mannskepnan af mistökum? Þarf ekki að viðurkenna mistök af auðmýkt, til að læra af þeim?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.11.2012 kl. 11:47

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er að byrja kosningavetur, við eigum eftir að sjá þennan upphefðarslag í allan vetur, þar sem alþingismenn hrópa á torgum um lausnir á öllum vanda, og gera sig breiða og ómissandi, svo er þagað næstu fjögur árin, uns þarf að berjast fyrir atkvæðunum á ný.  Þetta er bara lágkúra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.11.2012 kl. 12:22

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Óskaplegur tregleiki er þetta. Ekki er eg hissa á að sjallar hafi rústað hérna landinu.

þetta fylgist að. þegar búið er að segja: Aðild að EU og upptaka Evru - þá er innlendur gjaldmiðill sjálfkrafa orðin nokkurskonar Evra. Í framhaldi næst stöðugleiki og með að stoð EU og aðild ERMII verður hægt að aflétta höftum og helsi sem kjánaþjóðrembingar og sérhagsmunaklíkur þrá að halda þessu aumingjans landi í.

Mjög einfalt. Hafiði heyrt máltækið: Hálfnað er verk þá hafið er?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.11.2012 kl. 12:47

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frá minni hálfu hefur þetta ekkert með Sjálfstæðisflokkinn að gera.  Reyndar sagði mér maður í gær sem hefur búið í Danmörku um hríð, að hann hafi þurft að fara þaðan, því þar væri allt að hækka og staðan að verða verri en á Íslandi, þrátt fyrir okkar erfiðleika, segir meira en nokkuð annað um dýrðina í ESB:

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.11.2012 kl. 13:38

5 identicon

Auðvitað á Mörður við að það sé að fara úr öskunni í eldinn að afmena verðtryggingu meðan við erum enn með krónu.

Með afnámi verðtryggingar verða lán annaðhvort með neikvæðum raunvöxtum eða með svo miklar sveiflur í greiðslubyrði að mikil vanskil eru óhjákvæmileg þegar verðbólgan fer á skrið.

Neikvæðir raunvextir rústa lífeyrissjóðum og koma í veg fyrir sparnað. Framboð á lánsfé verður því mjög takmarkað einmitt þegar eftirspurnin er mest vegna ótrúlega hagstæðra lánskjara.

Neikvæðir raunvextir eru aðeins hugsanlegir með gjaldeyrishöftum vegna þess að án þeirra myndi sparifé streyma úr landi þangað sem kjörin eru betri.

Raunvextir á óverðtryggðum lánum á Íslandi, meðan krónan er enn gjaldmiðillinn, verða svo háir þegar verðbólgan fer á skrið að mikil vanskil verða óhjákvæmileg. Við þekkjum slíkt skelfingarástand og viljum ekki endurtaka það.

Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar koma í veg fyrir að hægt sé að afnema verðtryggingu á þegar teknum lánum nema með samþykki lánveitanda.

Vegna mjög misjafnrar greiðslubyrði óverðtryggðra lána geta margir ekki keypt íbúð ef aðeins eru í boði óverðtryggð lán.

Verðtryggð lán hafa jöfnustu greiðslubyrðina. Raunvirði allra greiðslna út lánstímann er hið sama. Hættan með þau eru því eingöngu að kaupmáttur launa fari minnkandi. 

Með afnámi verðtryggingar verður því stórum hluta almennings gert ókleift að eignast íbúð. Það er því fráleitt að afnema hana þó að óverðtryggð lán megi gjarnan fá meira vægi.

Með evru verður verðtrygging óþörf. Lítil verðbólga kemur í veg fyrir að greiðslubyrðin rjúki upp úr öllu valdi. Lán munu lækka með hverri greiðslu.

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.11.2012 kl. 14:51

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Neikvæðir vextir rústa aldrei innkomu lífeyrissjóðanna því launþegar og atvinnuveitendur er skyldugir til að greiða til þeirra.  Lífeyrisþegar eru svo að tapa megninu af útgreiðslum hvort sem er - í einu formi eða öðru. 

Sparifé í bönkum er ekki verðtryggt, launin eru ekki verðtryggð.  Skuldirnar hins vegar.   Almenningur á engra hagsmuna að gæta hvað varðar verðtryggingu þegar allt er reiknað til. 

Kolbrún Hilmars, 8.11.2012 kl. 16:30

7 identicon

Vandamál sem tengjast því að við erum með eigin gjaldmiðil verða auðvitað engin fyrirstaða fyrir ESB-aðild og upptöku evru vegna þess að þau leysast af sjálfu sér við gjaldmiðilsbreytinguna.

Mikil verðbólga stafar af miklum sveiflum á gengi krónunnar og háir vextir eru afleiðing mikillar verðbólgu. Með upptöku evru hverfa þessi vandamál sjálfkrafa.

Auk þess verðum við í allt annarri aðstöðu til að nálgast skilyrðin eftir inngöngu í ESB og séstakega þegar ERMII myntsamstarfið kemst á.

Helsta skilyrðið sem við þurfum að uppfylla er að vera innan ákveðins hámarks á skuldum ríkisins. Það skilyrði uppfyllum við fyrirsjáanlega í síðasta lagi um leið og við tökum upp evru vegna þess að þá getum við notað gjaldeyrisvarasjóðinn til að greiða niður skuldir.

Það ber vott um mikla minnimáttarkennd fyrir hönd þjóðarinnar að bera Ísland saman við þær þjóðir sem hafa verst farið að ráði sínu í evrusamstarfinu.

Nær lagi er að bera okkur saman við þær þjóðir sem við erum vön að bera okkur saman við. Þar gengur allt ótrúlega vel, sérstaklega í ljósi heimskreppunnar sem er langt frá því að vera lokið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.11.2012 kl. 16:55

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ísland á engan gjaldeyrisvarasjóð.  Nema þann sem var tekinn að láni og er nú vistaður í New York.

Það fer svo engum fregnum af gjaldeyrisvarasjóði landsins sem varðveittur var í London/City fram að hruni - bretarnir frystu hann með hryðjuverkalögunum.

Hefur sá varasjóður verið endurheimtur?

Kolbrún Hilmars, 8.11.2012 kl. 17:14

9 identicon

Kolbrún, íslensku lífeyrissjóðirnir eru ekki gegnumstreymissjóðir þar sem það sem einn greiðir í sjóðinn fer til annars sem lífeyrir. Slíkir sjóðir eru í miklum vanda vegna þess að lífeyrisþegum fer fjölgandi en þeim sem greiða í sjóðina fækkar.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið byggir á söfnunarsjóðum. Tryggingafræðileg staða hvers sjóðs er reiknuð út reglulega til að fá yfirsýn yfir eðlilegan lífeyrisrétt hvers og eins.

Það gefur augaleið að ef vextir eru verulega neikvæðir þá lækkar smátt og smátt raunvirði sjóðsinneigna lífeyrisþega. Lífeyririnn verður að lækka í samræmi við það ef ekki á að fara illa.

Miðað við íslenskar aðstæður tekur það ekki mörg ár þangað til raunvirði lífeyrisins hefur lækkað um helming ef hann er látinn fylgja tryggingarfræðilegri stöðu sjóðsins.

En svo er auðvitað hægt að hunsa stöðuna og borga eins og ekkert hafi i skorist. Það endar þá með gjaldþroti lífeyrisjóðsins.

Þess vegna er brýnt að á Íslandi verði raunvextir jákvæðir.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.11.2012 kl. 17:24

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, ég var aðeins að minna á það að hvað sem á gengur þá þurfum við að greiða 12% af launum okkar í lífeyrissjóði sem stundum líkjast meira spilavítum en sparnaðarstofnunum.

Lágmark væri að fólk ætti valkost; að greiða í þessa hít eða leggja fyrir á annan hátt.  Þú manst kannski ekki eftir skyldusparnaðinum sem komið var á 1960+eitthvað.  Þá greiddi fólk 16-25 ára 15% af launum í skyldusparnað, sem var svo greiddur út við íbúðakaup eða í lok tímabils.  Mig minnir að Seðlabankinn hafi haldið utan um þessar inneignir.  

Sjálf gat ég lagt til í útborgun að íbúð á sínum tíma fyrir þennan sparnað. 

En nú hef ég greitt 10-12% af launum síðan 1970 í lífeyrissparnað og  sé ekki fram á annað en að það dugi fyrir 10 kg. af kjötfarsi!  Tryggingafræðileg staða hvað?

Annars var ég hér að ofan að minnast á gjaldeyrisvarasjóð - eflaust má finna einhverja afsökun fyrir því að hafa týnt honum líka...

Kolbrún Hilmars, 8.11.2012 kl. 17:42

11 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Eina leiðin til að koma jafnvægi á þetta rugl er að verðtryggja launin aftur, svo að launin hækki jafnt og lánin. Nú eða lækki hver veit.Nei mér datt þetta svona í hug.

Eyjólfur G Svavarsson, 8.11.2012 kl. 18:02

12 identicon

Kolbrún, það hefur í raun lítið með lífeyrissjóðina að gera þegar fólk er ósátt við hvað það fær lítið í lífeyri. 

Ástæðan er skerðingin sem verður á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingarstofnun vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Það er því við ríkisvaldið að sakast en ekki lífeyrissjóðina.

Það hlýtur að vera einhver misskilningur hjá þér að væntanlegar greiðslur þínar úr lífeyrissjóði dugi aðeins fyrir 10 kg af kjötfarsi eftir að hafa greitt í lífeyrissjóð í 42 ár. 

Sá sem hefur sem svarar 400.000 á mánuði í fjörtíu ár þangað til hann verður 67 ára fær 233.917 á mánuði ævilangt (verðtryggt) skv reiknivél Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Við bætast greiðslur frá TR.

Ef hann heldur áfram að vinna til sjötugs á sömu launum fær hann 310.327 á mánuði. Allar upphæðir eru verðtryggðar. Við bætast greiðslur frá TR sem eru þó mun lægri en í fyrra dæminu. 

Lífeyrir frá lífeyrissjóðunum skerðast ekki. Hins vegar skerða þær lífeyri frá Tryggingastofnun. Einnig geta fjármagnstekjur skert greiðslur frá TR.

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.11.2012 kl. 19:03

13 Smámynd: Bragi

Enn halda veruleikafirrtir ESB-sinnar fram þeirri órökstuddu trú sinni að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu neytendalána með krónu án þess að raunvextir verði neikvæðir, sem er bull, og að ekki sé hægt að afnema ströngu gjaldeyrishöftin hægt og rólega með krónu, sem er líka bull.

Bragi, 8.11.2012 kl. 19:44

14 identicon

Bragi, lestu betur það sem þú ert að tjá þig um.

Hér hefur enginn haldið því fram að raunvextir verði endilega neikvæðir ef verðtryggimg er afnumin.

Reyndu svo að færa rök fyrir máli þínu. Hvað önnur ráð en gjaldeyrishöft hefurðu við árásum vogunarsjóða á krónuna?

Gerirðu þér enga grein fyrir að krónan er svo agnarsmá að það er auðvelt fyrir sæmilega öfluga aðila að keyra gengi hennar niður til að græða á því?

Hvernig hefurðu hugsað þér að koma í veg fyrir að gengi krónunnar verði allt of hátt skráð meðan á stóriðju- og virkjanaframkvæmdum stendur?

Gerirðu þér enga grein fyrir að slík bóla er ávísun á gengishrun krónunnar?    

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.11.2012 kl. 21:39

15 Smámynd: Bragi

Ásmundur, ég myndi nenna að rökræða við þig ef þú tækir rökum en þitt markmið er að halda umræðum niðri á ákveðnu stigi. Það gerirðu með að líta framhjá rökum.

Er búinn að lýsa fyrir þér margoft hvað myndi gerast við afnám verðtryggingar. Í stuttu máli, enn og aftur, lægri verðbólga og lægri nafnvextir.

Önnur ráð en ströng gjaldeyrishöft segirðu. Þau kallast þjóðhagsvarúðartæki. Með þeim væru hvatar aðila til að standa í slíkum viðskiptum takmarkaðir verulega. Slík tæki verða líka tekin upp á evrusvæðinu ef það lifir af.

Auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir svona mikla þenslu fyrir hrun, einfaldlega með að ráðast ekki í svona stórar þensluaðgerðir og sleppa skattalækkunum þegar þenslan var sem mest. Auk þess sem bindiskyldan var afnumin.

Gerirðu þér enga grein fyrir því að hið algjöra frelsi sem þú ert svo hrifinn af rústaði íslensku efnahagslífi og rústaði efnahagslífi S-Evrópuþjóða, sem svo aftur hóta því að rífa evrusamstarfið sundur með ófyrirséðum afleiðingum í öllu Evrópusambandinu? Gerirðu þér enga grein fyrir því að afar illa gengur að laga samkeppnishæfni S-Evrópuþjóða svo þær geti spyrnt sér við aftur? Gerirðu þér enga grein fyrir að það hefur ekkert að gera með gjaldmiðlana sjálfa heldur stjórn mála? Gerirðu þér enga grein fyrir því að hagvöxtur langflestra evrulanda er minni en hagvöxtur Íslands frá því að evran var tekin upp?

Bragi, 8.11.2012 kl. 22:28

16 identicon

Bragi, enn verð ég að áminna þig um að lesa betur það sem þú tjáir þig um. Ég hef hvergi sagst vera hrifinn af algjöru frelsi, aðeins bent á að íslensku gjaldeyrishöftin eru skelfileg eins og flestir virðast gera sér grein fyrir.

Hins vegar er frelsi í fjármagnsflutningum milli landa skilyrði fyrir EES-þátttöku og ESB-aðild.

Ég bað þig ekki heldur um að útskýra hvað myndi gerast á Íslandi með afnámi verðtryggingar.

Annaðhvort verða vextir neikvæðir með skelfilegum afleiðingum fyrir lífeyrissjóði, sparifjáreigendur og lánsfjárfarmboð eða, ef raunvextir haldast, mikil vanskil verða þegar verðbólgan fer á skrið. Miklu færri geta eignast eigin íbúð.

Það ber vott um skilningsleysi á hvað veldur verðbólgunni að halda því fram að verðtrygging valdi verðbólgu. Hækkanir vegna verðtryggingar eru leiðréttingar en ekki raunhækkanir. Sambærilegar hækkanir eru á óverðtryggðum lánum í formi hærri nafnvaxta.

Við höfum reynsluna frá áttunda áratugnum þegar lán voru ekki verðtryggð og verðbólgan var flest árin upp á fleiri tugi prósenta á ári.

Berðu ekki saman evrulöndin og Ísland þegar kemur að fjármagnsflutningum milli landa.

Fjármagnsflótti milli evrulanda leiðir ekki til lækkunar á gengi gjaldmiðilsins, jafnvel um meira en helming, með þeim afleiðingum að erlendar skuldir meira en tvöfaldast og lífskjör snarversna.

Þar að auki lánar ECB þeim ríkjum sem verða fyrir fjármagnsflótta. Við erum hins vegar ein og yfirgefin án bandamanna. Allar bjargir eru okkur bannaðar ef illa fer.

Það er rangt að hagvöxtur hafi verið meiri á Íslandi undanfarin ár en í flestum evrulöndum. Hann var minni í Grikklandi, Ítalíu og á Írlandi en í öðrum evruríkjum var hann meiri en hér eins og hér má sjá:

http://data.worldbank.org/indicator/NY.GDP.MKTP.KD.ZG   

Athygli vekur hve mikið hagvöxturinn  í Eistlandi eykst eftir upptöku evru.  Hann var 7.6% þar á síðasta ári.

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.11.2012 kl. 01:01

17 Smámynd: Bragi

"Bragi, enn verð ég að áminna þig um að lesa betur það sem þú tjáir þig um. Ég hef hvergi sagst vera hrifinn af algjöru frelsi, aðeins bent á að íslensku gjaldeyrishöftin eru skelfileg eins og flestir virðast gera sér grein fyrir."

Þau eru skelfileg til lengri tíma já en hafa veitt okkur stöðugleika frá og með hruni til og með dagsins í dag. Neitarðu því? Enginn talar um þessi ströngu höft til framtíðar, nema þú til að halda umræðunni niðri, eins og flestir virðast gera sér grein fyrir.

"Það ber vott um skilningsleysi á hvað veldur verðbólgunni að halda því fram að verðtrygging valdi verðbólgu. Hækkanir vegna verðtryggingar eru leiðréttingar en ekki raunhækkanir. Sambærilegar hækkanir eru á óverðtryggðum lánum í formi hærri nafnvaxta."

Það ber vott um skilningsleysi að telja hið öfuga. Kynntu þér málin betur því þú ert úti á þekju hér.

"Við höfum reynsluna frá áttunda áratugnum þegar lán voru ekki verðtryggð og verðbólgan var flest árin upp á fleiri tugi prósenta á ári."

Hér er ekki áttundi áratugurinn lengur. Í millitíðinni hefur vaxtafrelsi verið komið á, millibankamarkaður stofnast, hlutabréfamarkaður stofnast og já, fjármálakerfið þróast allsvakalega svo vaxtamyndun geti átt sér stað með tiltölulega eðlilegum hætti, burtséð frá þessu tímabundna ástandi sem nú er. Hættu að líta svona mikið til fortíðar alltaf, þjóðfélög breytast á nokkrum áratugum.

"Fjármagnsflótti milli evrulanda leiðir ekki til lækkunar á gengi gjaldmiðilsins, jafnvel um meira en helming, með þeim afleiðingum að erlendar skuldir meira en tvöfaldast og lífskjör snarversna."

Hvað heldur þú að fjármagnsflótti innan evrusvæðið hafi í för með sér? Þú sérð það í háum atvinnuleysistölum.

"Það er rangt að hagvöxtur hafi verið meiri á Íslandi undanfarin ár en í flestum evrulöndum. Hann var minni í Grikklandi, Ítalíu og á Írlandi en í öðrum evruríkjum var hann meiri en hér eins og hér má sjá:"

Enn og aftur skilningsleysi, ég minntist aldrei á undanfarin ár. Ég sagði frá því að evran var tekin upp eða árið 1999. Lestu betur.

80% af því sem þú segir er skotið niður í hvert skipti, samt heldurðu áfram að endurtaka sömu hlutina til að halda umræðu niðri en slíkt er auðvitað gert því þú veist að málstaður þinn er veikur.

Bragi, 9.11.2012 kl. 01:32

18 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ertu virkilega með hýrri há,Ásmundur, við ein og yfirgefin án bandamanna! Við eigum þá í massa, Færeyjar,Noregur, Kanada,Bandaríkin,bara þeir ,,næstu,, Ef við erum svona eftirsóknarverð hjá ESB. hljóta aðrir að sjá mikið við okkur án þess að heimta löglegan ,,hjúskap.,, Hvað villtu segja um ástandið sem þessi ríkisstjórn hefur innleitt?’ U.þ.b. sem ríkisstjórnin lagði af stað í þessa vitlausu átt, miðað við loforð sín,voru vel upplýstir sérfræðingar um ferli Evrópusambandsins,búnir að segja fyrir um hvernig þessir leppar myndu haga málum,það hefur gengið eftir. Þannig er löngu búið að upplýsa fávísasta fólk um gabbið um pakka-kíkkið. Stjórnarandstaðan hefur beðið ítrekað um samningsmarkmið í hinum ýmsu málaflokkum ESb.en ekki fengið. Svona til að klikkja út með það sem allir vita og sjá,gæti borgarar þessa lands haft það miklu betra,ef stjórnin léti sig það varða.Sovétíkanið eru þeirra trúarbrögð,það er mikið og strangt verkefni eftir, að fella þessa flokka/ríkisstjórn.

Helga Kristjánsdóttir, 9.11.2012 kl. 02:19

19 identicon

Bragi, ég geri mér vel grein fyrir að gjaldeyrishöft hafa verið nauðsynleg. Þau eru einnig nauðsynleg í einhverju formi  til frambúðar ef við höldum áfram með krónu. Eina fullnægjandi lausnin er því ESB-aðild og upptaka evru.

Hagvöxturinn einn og sér er ekki styrkleikamerki. Það verður að skoða hvað liggur að baki honum.

Hagvöxtur vegna þess að lifað er um efni fram er verri en enginn. Hagvöxtur vegna virkjana- og stóriðjuframkvæmda sem síðar reynast ekki nógu arðbærar er leiðréttur síðar í formi hruns og verri lífskjara.

Það er óðs manns æði að fara út í framkvæmdir sem gefa hagvöxt á meðan á þeim stendur ef þær eru litt eða ekki arðbærar til lengdar. Það kemur okkur illilega í koll síðar.

Það vill svo til að árin eftir 1999 gætir áhrifa einkavæðingar bankanna og þeirra bólu sem þá var í gangi. Þess vegna var mikill uppgangur hér meðan á sama tíma var kreppa annars staðar á vesturhveli jarðar.

Vorið 2000 sprakk netbólan svokallaða með svo miklu hruni að Nasdaq vísitalan er enn næstum helmingi lægri en vorið 2000 og aðrar hlutabréfavísitölur lítið hærri ef ekki lægri en þá.

Minni hagvöxtur á evrusvæðinu fyrstu ár aldarinnar hefur því ekkert með evru að gera heldur var það ástandið í heiminum sem olli því. Á sama tíma vorum við á fullu í einkavæðingar- og stóriðjufylleríi sem gat ekki endað nema illa.

Hver stóriðjuframkvæmdin tók við af annarri og lítt hirt um arðsemi þeirra til lengdar. Ekkert var gert til að hafa hemil á bólunni enda olli hún falshagvexti.

Í stað þess að stíga á bremsuna var gefið í. Skattar voru lækkaðir hjá þeim ríku og tekjuháu og hlutfall húsnæðislána hækkað upp i 90%, jafnvel 100%, svo að dæmi séu nefnd.

Hagvöxtur í evrulöndum er reiknaður í evrum en í krónum á Íslandi. Ef hann er reiknaður í evrum á Íslandi hefur hann hrunið um meira en 50% á árinu 2008.

Þannig reiknað er hagvöxturinn væntanlega miklu minni á Íslandi yfir þetta tímabil en á öllu evrusvæðinu og þótt víðar væri leitað. Samanburður í krónum er jafnóhagstæður okkur því að evruríkin sýna þá gífurlegan hagvöxt.

Þú hefur ekki skotið neitt niður sem ég hef sagt. Þvert á móti stendur það allt óhaggað. Órökstuddar fullyrðingar, sem virðast ekki eiga sér neina stoð nema óskhyggju, missa marks.

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.11.2012 kl. 10:06

20 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur #12. 

Það er ekki rétt fullyrðing hjá þér að lífeyrir frá lífeyrissjóðunum skerðist ekki.

Margir lífeyrissjóðir hafa skert lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga sinna vegna taps á áhættufjárfestingum sjóðanna.  Allt að 40% hjá sumum.  T.d. sjómanna og verkfræðinga.      

Kolbrún Hilmars, 9.11.2012 kl. 14:30

21 identicon

Kolbrún, ég átti við að það verða engar skerðingar vegna annarra tekna eins og á lífeyri frá Tryggingarstofnun.

Það skiptir engu máli hvort þú býrð ein, hefur miklar fjármagnstekjur, færð greitt úr öðrum lífeyrissjóðum eða ert enn vinnandi, upphæðin sem þú færð úr lífeyrissjóðum breytist ekki vegna þessara tekna.

En auðvitað má búast við sömu hlutfallslegu skerðingunni hjá öllum ef sjóðsinneign stendur ekki undir greiðslum td vegna neikvæðra raunvaxta.

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.11.2012 kl. 14:57

22 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það er alveg rétt hjá þér, Ásmundur, að lífeyrisgreiðslur skerðast ekki vegna annarra tekna. 

En hvers virði er raunávöxtun (verðtrygging) lífeyrisinneignar ef stjórnir sjóðanna geta hvort sem er leyft sér að  tapa milljörðum af inneignum  sjóðseigenda í áhættufjárfestingum?  



Kolbrún Hilmars, 9.11.2012 kl. 17:26

23 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Verðtrygging á neytendalán er ólögleg á Íslandi.

Um það þarf ekki að deila. Okurvextir ofan á verðtrygginguna er glæpur númer 2, á lögleysis-landinu Íslandi, sem stjórnað er af EES, og ESB-dindlunum!

Þetta ætti að vera öllum Evrópu "fræðingum" vel ljóst.

En þeim er þetta ekki kannski ekki ljóst!

Er það ekki áhyggjuefni heiðarlegra skattborgara, sem borga þessum Evrópu "fræðingum" laun fyrir að brjóta Íslensk lög, og vísvitandi blekkja almenning á Íslandi?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.11.2012 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband