Við veiðum aðeins fjórðung af þyngdaraukningu makríls í íslenskri lögsögu

Við megum ekki beygja okkur fyrir refsihótunum ESB sem úthrópar Íslendinga sem makrílræningja og hótar þeim löndunarbanni. Einu sjáanlegu rökin fyrir undanhaldi og samningum eru þau að greiða þurfi fyrir inngöngu í ESB þar sem 88% fiskistofna eru ofveiddir og óstjórn ríkir í sjávarútvegi.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, minnir á í viðtali við Fréttablaðið 9. júlí s.l. að aðeins tvö ár séu liðin síðan ESB „viðurkenndi stöðu Íslendinga sem strandveiðiþjóðar að makríl.“ Fram að því var það sem sagt stefna ESB að Íslendingar fengju ekki að veiða eina einustu bröndu af fiskistofni sem fyllt hefur hér flóa og firði mörg undanfarin ár. Í fyrra ákvað ESB að aðildarríki þess fengju 90% af þeim 640 þúsund tonna hámarkskvóta sem Alþjóðahafrannsóknarráðið mælti með að veiddur yrði. Ísland, Færeyjar og Rússland áttu svo að skipta afganginum á milli sín, þ.e. 10% af 640 þúsund tonnum = 64 þúsund tonnum!!! Árleg veiði Íslendinga er nú um 155 þúsund tonn.

Steingrímur minnir á í þessu viðtali að makríllinn hafi lengi látið á sér kræla í íslenskri lögsögu og rannsóknir sýni að milli 1,1 - 1,2 milljónir tonna sé þar að finna nokkra mánuði ársins. „Þyngdaraukningin [á makríl í íslensku lögsögunni] er gríðarleg, kannski 650 þúsund tonn. Við getum því sagt sem svo að við veiðum ekki nema um þriðjung af því sem makrílstofninn sem hér er á beit þyngist um árlega.“ Ábending Steingríms er afar athyglisverð. Þó er nær sanni að tala um að veiði Íslendinga sé fjórðungur af þyngdaraukningu makrílsins hér við land (650:155 = 4,2).

En Steingrímur heldur áfram: „Þetta er veruleiki í okkar lífríki sem við verðum að horfast í augu við og ganga út frá. Stofninn er í miklum mæli innan okkar eigin efnahagslögsögu, er hér á fóðrum og fyrirferðarmikill í lífríkinu. Það er engin leið að við eigum að fóðra hann hér í íslensku lögsögunni en megum sáralítið eða ekkert veiða hann.“

„Steingrímur bendir á að vísbendingar séu um að makríllinn sé farinn að hrygna hér við land og ef hitastig sjávar þróist áfram í sömu átt geti makríllinn náð enn frekari fótfestu hér við land. Þess vegna verði að vanda þá samninga sem gerðir eru núna og gæta þess að semja ekki af sér.“

Það er sannarlega hárrétt hjá Steingrími að veruleg hætta er á því að Íslendingar semji af sér ef þeir setjast að samningaborði um makrílveiðar undir ósvífnum hótunum ESB. Allt tal um að við og Færeyingar séum að eyðileggja makrílstofninn í Norður Atlantshafi er ómerkilegt bull sem engin ástæða er til að taka mark á. Það sem gerst hefur er einfaldlega að makríllinn hefur fært sig í stórum stíl inn í íslenska lögsögu og afétur aðrar fisktegundir á íslenskum fiskimiðum því meira sem minna er tekið af honum.

Þegar talsmenn ESB sýna svo freklega ósanngirni í þessu máli sem raun ber vitni og hafa uppi alvarlegustu hótanir sem beinst hafa að Íslendingum í áratugi er að sjálfsögðu höfuðnauðsyn að Alþingi og ríkisstjórn taki fast á móti og hafi uppi kröftugan málflutning á erlendum vettvangi í stað þess að undirbúa undanslátt í samningum, þegar við blasir að ekkert er um að semja.

Kjarninn málsins er sá að ESB hefur tryggt sér yfirstjórn á fiskveiðum aðildarríkjanna og afleiðingin er sú að 88% fiskistofna ESB eru ofveiddir. Nú ætlar ESB að bæta um betur og yfirtaka stjórn á fiskveiðum Íslendinga. Á komandi vikum verðum við Íslendingar framar öllu öðru að láta þá heyra að við höfnum yfirgangi þeirra afdráttarlaust.

Á meðan leikur sumarblíðan við landsmenn og Reykvíkingar, Hafnfirðingar og Keflvíkingar flykkjast með börn sín og veiðistengur niður að höfn til að veiða makríl í matinn. Skyldi það vera mögulegt í bæjum eða borgum nokkurs strandríkis ESB? - RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Meðan ekki er samið um veiðar á makríl, standa allar þær þjóðir sem þær veiðar stunda, að ofveiðinni. Það er ekki hægt að taka eina eða tvær út og segja að sökin sé þeirra.

Reyndar er það svo að sú veiðiráðgjöf, sem ESB fer eftir, um veiðar á makríl eru byggðar á rannsóknum á seiðafjölda á takmörkuðu svæði. Það geta varla talist ábyrgð veiðistjórnun sem byggist á slíkum rannsóknum einum, sérstaklega þegar ljóst er að þessi fiskur hefur breytt svo mjög hegðun sinni í kjölfar hlýnun sjávar.

Það er líklegt að íslenskir fiskifræðingar viti meira um stofnstærð og hegðun makríls, en þeir fiskifræðingar ESB sem veiðistjórnin er byggð á. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi síðustu ár á stærð og hegðun makríls hér við land. Það væri gaman að vita hvað fiskifræðingar ESB hafa rannsakað þennan fisk, fyrir utan seiðafjöldann. Þá er einnig ljóst að við fiskiráðgjöf innan ESB er tekið meira tillit til annarra þátta en ráðgjafar fiskifræðinga. Þar eru pólitísk hrossakaup jafn sterk eða sterkari.

Því er ljóst að þær aðgerðir sem ESB ætlar að grípa til vegna "ofveiði" á makríl, hljóta að lenda á öllum þeim löndum sem þá veiði stunda, einnig löndum ESB.

Það er annars frekar kómískt í ljósi þess að þær þjóðir sem verst hafa gengið um fiskistofna og matarkistur sjávar og gera enn, skuli nú vilja standa að refsiaðgerðu gegn öðrum, vegna slíkrar framkomu. Hvernig ætlar ESB að taka á móti því ef allar þjóðir heims tækju þessar reglur þeirra sér til fyrirmyndar. Þá er hætt við að þjóðir ESB yrðu fyrir miklum efnahagsrefsingum vítt um heim!!

Gunnar Heiðarsson, 11.7.2012 kl. 19:14

2 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Staðan er þannig að ESB krefst rúmlega 6% af veiði síldarstofnins sem kemur ekki millimeter inn í ESB sjó.

Staðan er þannig að ESB krefst þess að Ísland fái 5% afmakrílstofni sem heldur til í íslenskum sjó(um 41% af stofninum) 5 til 6 mánuði a ári eingöngu til að fita sig.

Tilraunir VG (Árni Þór og Steingrímur J) til að leggjast flatir vegna krafna ESB um að Íslendingar fái bara 5% af makríl stofninum eru ekki bara fábjánalegar heldur glæpsamlegar og ættu að kalla á tafarlausa fangelsun þessara manna ef af verður.

Ef makrílinn hunskast úr okkar landhelgi þá munu nytjastofnar á Íslandsmiðum hagnast og skapa okkur auknar tekjur af okkar hefðbundnu veiðum.

Af öðrum fábjánagerðum VG að friða Svartfugl, sem þjáist af ofáti makrílsins á sandsíli, er dæmi um blindu fólks sem hefur ekki hundsvit á því sem því er trúað fyrir. Svartfugl sem þjáist að hungri vegna ofáts makrílsins ætti ekki að friða enda eykur friðun hungur stofnsins þar sem margir munnar eru um takmarkaða fæðu.

Eggert Sigurbergsson, 11.7.2012 kl. 22:08

3 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Svona til að fyrirbyggja allan misskilning þá kaus ég VG 2009 í von um að fólkið í forystu VG hefði eitthvað til bruns að bera, vonbrygðin um getu og skynsemi forystusveitar VG er algjör, þessi forystusveit til háborinnar skammar og ekki veit á gott ef þetta eru kaliberin í þessum flokki!!!

Eggert Sigurbergsson, 11.7.2012 kl. 22:19

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heilar þakkir, Ragnar fyrir þessa einörðu, reyndar frábæru grein.

Ef eitthvað er tímabært nú, þá er það þetta mál.

Tek líka undir með innleggjum Gunnars og Eggerts hér ofar.

Jón Valur Jensson, 12.7.2012 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband