Evran er ættmóðir atvinnuleysisvofunnar

Er það tilviljun að fjögur af þeim fimm ríkjum þar sem atvinnuleysi er mest í heiminum eru öll á evrusvæðinu? Auðvitað ekki! Ein stærð hentar ekki öllum. Sú hugmynd var meingölluð frá upphafi að sami gjaldmiðill geti hentað mörgum ríkjum sem búa við gjörólíkar aðstæður.

Mikið atvinnuleysi er skýrasti vitnisburður þess að hagkerfi starfi ekki með eðlilegum hætti. Og hvar er þá ástandið verst? International Labour Organization (ILO) hefur nýlega birt tölur um atvinnuleysi í heiminum. Það reyndist mest í Suður Afríku, stærsta hagkerfi Afríku. En þau lönd sem næst koma eru eftirfarandi:

2. Spánn 22 %   3. Grikkland 18 %   4. Írland 14 %   5. Portúgal 13%

Og hvað eiga svo þessi fjögur ríki sameiginlegt: Jú! Öll eru þau í ESB og öll eru á evrusvæðinu. Fyrirfinnst einhver svo ákafur ESB-sinni að hann reyni að halda því fram að þetta sé alger tilviljun? Varla!

 

Undirrótin að vandræðum evrusvæðisins er einfaldlega sú staðreynd hvernig staðið var að þeirri ákvörðun. Upptaka evru byggðist ekki á sínum tíma á hagfræðilegum rökum. Það var rammpólitísk ákvörðun sem reist var á þeirri trú nokkurra helstu leiðtoga Þjóðverja og Frakka að sameiginlegur gjaldmiðill myndi þjappa ríkjum ESB enn frekar saman og þvinga þau til enn nánari samruna á sem flestum sviðum.

 

Þessi rammpólitíska röksemd fyrir upptöku evru reyndist að því leyti hárrétt að evruríkin hafa talið sig aftur og aftur nauðbeygð til að framselja fullveldisrétt sinn í æ ríkari mæli í þeim gagngera tilgangi að bjarga evrunni frá hruni. Þess vegna eru nú forystumenn evruríkjanna ár eftir ár á stöðugum hlaupum frá einum leiðtogafundinum til annars í því skyni að reyna að bjarga sér og sínum undan hrammi evrukreppunnar með því að framselja æ meira ákvarðanavald í heldur miðstýrðra stofnana ESB.

 

Blekið á undirskriftum þeirra á seinasta björgunarsamningi var rétt nýlega þornað þegar liðinu var aftur hóað saman til að setja saman enn nýjan björgunarpakka. Á meðan fara æðstu menn Kína, Rússlands og Bandaríkjamanna ekki leynt með það í yfirlýsingum sínum að vandræðagangurinn á evrusvæðinu sé um það bil að steypa heimsbyggðinni allri í enn dýpri kreppu en fyrir var.

 

Allir þjóðarleiðtogar virðast sammála um að hinn gífurlegi fjáraustur sem nú beinist að brennandi efnahagskerfi Grikklands og Spánar dugi skammt. Þjóðarleiðtogi Íslendinga, Jóhanna Sigurðardóttur, er þó undanskilin. Hún hefur fátt til málanna að leggja nema það eitt að hún eigi þá ósk heitasta að koma þjóð sinni sem allra fyrst á það svæði þar sem eldarnir brenna hvað heitast, atvinnuleysið er hvað mest í heiminum og nýi gjaldmiðillinn í stöðugri líknarmeðferð, þótt hann hafi aðeins verið til í rúman áratug. - RA


mbl.is Minnsta atvinnuleysi í 4 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Það er minna atvinnuleysi í Austurríki en á Íslandi. Einnig í Lúxemborg held ég. Bæði þessi lönd nota evruna sem gjaldmiðil.

Annars eru höfundar þessar síðu bara að endurtaka endurunna vitleysu.

Jón Frímann Jónsson, 20.6.2012 kl. 13:01

2 identicon

Atvinnuleysi hefur ekki mæst minna á Íslandi í meira en 4 ár samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar mældist það aðeins 5,6%. Öfugt við ESB/EVRU svæðið þar sem atvinnuleysi hefur sífellt verið að aukast, þá hefur það hægt og sígandi verið að lækka. Meðaltals atvinnuleysi á öllu EVRU svæðinu er nú komið yfir 11% eða u.þ.b. tvöfallt meira en það er nú á Íslandi.

Þó svo að ESB sinnin Jón Frímann finni kannski 2 smáríki á öllu ESB svæðinu sem hafi eitthvað svipað eða örlítið minna atvinnuleysi en er á Íslandi þá segir það ósköp lítið. Þessi tvö smáríki eru með innan við 3% af heildaríbúafjölda Evrópusambandsins.

ESB og EVRU svæðið eru verstu atvinnuleysis- bæli veraldarinnar og með hrörnandi efnahagsástand þar sem atvinnuþátttaka er komin niður í að vera aðeins um 60% á meðan hún er næstum 80% á Íslandi sem er mest í Evrópu.

Næst á eftir koma EKKI ESB ríkin Noregur og svo Sviss. Það er haldur ekki tilviljun.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 14:32

3 identicon

Kreppan og atvinnuleysi í þessum Evrópuríkjum er til komin vegna hruns fjármálakerfis sem gekk út á gríðarlega skuldsetningu og að ríkin, eins og Grikkland, lifðu verulega um efni fram.  það er talsverð kreppa og atvinnuleysi í Bandaríkjunum en ekki eru þeir með Evru eða Evrópusambandsaðild er það?  Atvinnuleysi hefur alltaf verið hærra í þessum fjölmennu ríkjum heldur en í fámenninu hérna.  Við búum bara við lág laun fyrir verkalýðinn og verðtryggð lán sem eru að sliga okkur sem sem skuldum þessi lán. Launin eru lækkuð reglulega með gengisfellingum. Þúsundir heimila á Íslandi eru komin í þrot og geta ekki borgað af lánum sínum, þurfa að vera í "greiðslujöfnun" og sértækum úrræðum. Fólk er tugþúsundum saman orðið eignalaust, jafnvel á sextugsaldri eftir að hafa þrælað allt sitt líf.

Margret S. (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 15:14

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

25% ungmenna eru atvinnulaus á Íslandi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 20.6.2012 kl. 16:02

5 identicon

Það er alrangt að fjögur af fimm ríkjum heims með mest atvinnuleysi séu á evrusvæðinu. Eins og hér má sjá er atvinnuleysi miklu meira í mörgum löndum:

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_unemployment_rate

Þvert á móti vekur athygli að þau lönd Evrópu þar sem atvinnuleysið er minnst, Austurríki, Holland og Lúxemborg eru öll með evru. Þar á eftir koma Þýskaland með evru, Danmörk með tengingu við evru og Ísland, öll með 5.6% atvinnuleysi.

http://en.wikipedia.org/wiki/Economy_of_the_European_Union#Unemployment

Mikið atvinnuleysi er vegna efnahagserfiðleika sem hafa ekkert með evru að gera heldur stafa af stjórnleysi og upplausn innanlands ofan á alþjóðlega skuldakreppu. Ef þessi lönd hefðu haft eigin gjaldmiðil hefði hann hrunið og gert miklar erlendar skuldir þeirra óyfirstíganlegar.  

Þessar þjóðir virðast hafa haldið að ESB og evra væru allra meina bót. Þær hafa því sofið á verðinum. Á Spáni og víðar var mikið atvinnuleysi áður en þessar þjóðir gengu í ESB og tóku upp evru.

Það er ljóst að ESB-aðild og upptaka evru mun bæta mjög samkeppnishæfni Íslands. Við það mun útflutningur aukast og ný störf verða til.

Meðaltal atvinnuleysis á evrusvæðinu breytir engu um atvinnuleysi á Íslandi eftir inngöngu í ESB. Ástandið í ESB og á evrusvæðinu hefur auðvitað áhrif hér en ekkert síður þó að við göngum ekki í ESB.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 16:06

6 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Samhengið verður að skoða.

T.d. hvert hefur fólkið farið?

Til vinnu?

eða

Á framfæri sveitarfélaganna?

eða

úr landi?

Til að ganga úr skugga um það þarf að skoða hvort atvinnuþátttaka aukist ... en á það minnist enginn.

Óskar Guðmundsson, 20.6.2012 kl. 16:30

7 identicon

Skv vefsíðu Hagstofu Íslands er atvinnuleysi á Íslandi 8.5% en ekki 5.6%.

http://hagstofan.is/

Skv því er meirihluti evruríkja með minna atvinnuleysi en Ísland.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 18:36

8 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Vinnumálastofnun heldur utan um tplfræði um skráð atvinnuleysi, sjá meðfylgjandi frétt:

12.6.2012

Skráð atvinnuleysi í maí var 5,6%

Skráð atvinnuleysi í maí 2012 var 5,6%, en að meðaltali voru 9.826 atvinnulausir í maí og fækkaði atvinnulausum um 1.011 að meðaltali frá apríl eða um 0,9 prósentustig

Vinstrivaktin gegn ESB, 20.6.2012 kl. 20:10

9 identicon

Hver skyndi vera skýringin á þessum mikla mun á atvinnuleysi í tölum Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar? Getur verið að mismunandi aðferðum sé beitt við útreikningana?

Það vekur sérstaka athygli að atvinnuleysi hefur farið minnkandi undanfarna mánuði skv tölum Vinnumálastofnunar en það hefur á sama tíma aukist skv línuritinu sem er birt á forsíðu vefjar Hagstofunnar. 

Getur verið að í tölum Vinnumálastofnunar séu aðeins þeir sem fá atvinnuleysisbætur en Hagstofan reyni að ná til allra atvinnulausra?

Sumir hafa ekki áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta. Aðrir missa réttinn eftir að hafa verið ákveðinn tíma á bótum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.6.2012 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband