Viljum við hætta á að Ísland breytist í kvótalaust sjávarþorp?

Ef Ísland gengur í ESB fá erlend stórfyrirtæki og matvælakeðjur tækifæri til að kaupa upp kvótann í erfiðu árferði hér á landi þegar að kreppir. Þannig gætu veiðiheimildir safnast á hendur erlendra auðfélaga með tíð og tíma og arðurinn af veiðunum (virðisaukinn) flust úr landi.

Orð formanns samningshóps við ESB um sjávarútvegsmál, Kolbeins Árnasonar, á fundi Viðskiptaráðs Íslands 18. nóv. s.l. staðfesta þetta, sbr. frétt mbl.is s.l. föstudag. Kolbeinn sagði þar „að ljóst sé að ef Ísland gangi í Evrópusambandið verði borgurum annarra ríkja ESB heimilt að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi"  Hann benti jafnframt á að hægt væri „að krefjast þess að eigendur útgerða hafi efnahagsleg tengsl við það ríki sem úthlutar þeim aflaheimildum." Hér er Kolbeinn að vísa til reglna ESB um svonefnt „kvótahopp" sem dregur nafn sitt af því að innan ESB getur fiskveiðikvóti „hoppað" frá einu landi til annars í gegnum leppfyrirtæki sem stofnuð eru í þessu skyni.

Gerð er nánari grein fyrir þessu fyrirbrigði á heimssyn.blog.is s.l. laugardag undir fyrirsögninni "Kvótahopp í boði Össurar":

„Bretar og Írar kynntust kvótahoppi spænskra útgerða strax eftir inngöngu Spánverja í Evrópusambandið um miðjan níunda áratuginn. Með styrkjum frá ESB keyptu Spánverjar útgerðir á Írlandi, Skotlandi og Englandi og komust þannig yfir kvótann. Reynt var að reisa skorður við yfirgangi Spánverja en það kom fyrir lítið. Auðvelt var að sniðganga kvaðir um ,,efnahagsleg tengsl" við það ríki sem í hlut átti.

Kolbeinn Árnason dró heldur enga dul á, í fullu samræmi við það sem við höfum margoft bent á hér á síðunni, að með ESB-aðild myndu yfirráð Íslendinga yfir veiðum úr flökkustofnum, svo sem á síld, loðnu, kolmunna og makríl bæði í eigin lögsögu og utan hennar, færast yfir til ESB, en Kolbeinn komst svo að orði skv. mbl.is: „Eins er ljóst að Ísland myndi glata samningsumboðinu við þriðja ríki og alþjóðastofnanir þar sem Evrópusambandið færi með það umboð fyrir hönd Íslands, að sögn Kolbeins."

Að sjálfsögðu eru það athyglisverð tíðindi að í samningshópnum um sjávararútvegsmál geri menn sér ekki minnstu vonir um að Íslendingar haldi fullveldisrétti sínum til samninga við aðrar þjóðir um sjávarútvegsmál, en aflaverðmæti úr flökkustofnum nema þriðjungi af heildarverðmæti íslensks sjávarútvegs. Samningum við ESB ætti að sjálfsögðu að vera sjálfhætt nú þegar þessi staðreynd blasir við og íslensk stjórnvöld gera sér grein fyrir að annað er ekki í boði. - RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vísbending 1. desember 2008:

"Bretar hafa sett eftirfarandi reglur

gegn því sem nefnt er „kvótahopp“ eða

tilflutningur á aflaheimildum milli ríkja:

1. Landa þarf a.m.k. 50% aflans í

Bretlandi, eða

2. a.m.k. 50% áhafnar þurfa venjulega

að vera búsett á bresku strandsvæði (UK

coastal area), eða

3. verulegur hluti útgjalda útgerðar

skips þarf að eiga sér stað á bresku

strandsvæði, eða

4. sýna þarf fram á efnahagsleg tengsl

með öðrum hætti (m.a. með samsetningu

framangreindra þátta), til hagsbóta

fyrir íbúa sem háðir eru fiskveiðum og

tengdum greinum.

Þessar reglur hafa verið samþykktar af

ES og má því ætla að sambærilegar reglur

væri hægt að setja hér á landi til þess að

hindra flutning kvótans til annarra ríkja."

Eftir að þessar reglur voru settar telja Bretar kvótahopp ekki vera teljandi vandamál. Erlend fyrirtæki geta ekki keypt kvóta. Þau geta aðeins keypt fyrirtæki með tímabundnar aflaheimildir. Þau geta nú þegar keypt í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum en hafa greinilega mjög takmarkaðan áhuga á því.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 20.11.2011 kl. 14:59

2 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Ásmundur! Miklar hömlur eru á fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi og því er áhugi þeirra takmarkaður. En kvótahoppsleiðin í ESB er bakdyraleið sem myndi gjörbreyta möguleikum þeirra á að komast hér inn í 200 mílna lögsöguna. Vissulega yrðu leppfyrirtæki þeirra að landa hálfum aflanum hér og gætu svo sent hann út með flugi en siglt með hinn hlutann. Jafnframt yrði hluti áhafnar að vera íslenskur. En finnst þér þetta fyrirkomulag eftirsóknarvert? Er ekki ljóst að virðisauki Íslendinga af veiðunum myndi snarminnka? Óvíða er jafnmikil óánægja með sameiginlega fiskveiðstefnu ESB og einmitt í Bretlandi og Írlandi enda hefur hún rústað fiskistofna í þessum ríkjum.

Vinstrivaktin gegn ESB, 20.11.2011 kl. 16:14

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ólafur Stephensen hefur þegar í ritstjórnargrein í Esb-Fréttablaðinu fagnað því, að erlendum útgerðum verði gert kleift að kaupa hér sjávarútvegsfyrirtæki við Esb-innlimun. Það sýnir hug þess manns til íslenzks sjálfsforræðis.

Þetta er gersamlega ofsagt hjá Ásmundi hér ofar: "Eftir að þessar reglur voru settar telja Bretar kvótahopp ekki vera teljandi vandamál."

Annir kalla, ég verð að vitja þessarar síðu aftur.

Jón Valur Jensson, 20.11.2011 kl. 20:29

4 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Það sem Ásmundur vísvitandi sneiðir framhjá er: b) ....eða 50% áhafnar sé búsettur í Bretlandi (ekki nauðsynlega breskir ríkisborgarar),
eða... þ.e búsettir í verðbúð hluta úr ári en senda launin "heim" 

Það eina sem þarf er að 50% af áhöfn hafi búsetuskráningu hér í staðin fyrir Vigor á spáni eða í norður afríku. Að þessu skilirði uppfylltu þarf ekki að landa hér enda hagkvæmara að sigla bara beint með afla til meginlandsins til frekari vinnslu. http://www.utanrikisraduneyti.is/media/PDF/kvotahopp_ESB_agust_2008.PDF

Markmið ESB er að afnema regluna um hlutfallslegan stöðugleika og setja ALLAN kvóta á markað á meginlandinu þar sem allir þegnar ESB geta boðið í hann.

"When the structural problems of the fisheries sector have been addressed and the economic and social situation within the sector has become more stable, it may be possible to reconsider the need to maintain the relative stability principle and the possibility of allowing market forces to operate in fisheries as in the rest of the EU economy." http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/site/en/com/2001/com2001_0135en01.pdf

Markmiðið er að gera fiskveiðiauðlindina að auðlind ESB án alls tillits til einstakra ríkja. Markmiðið er að ESB væða síðan fleiri auðlindir á grunni ESB væðingar fiskveiðiauðlindarinnar með tilheyrandi búsifjum einstakra landa og svæða, það má segja að fiskveiðiauðlindin sé notuð til að prufukeyra auðlindavæðingu ESB enda flokkast hún sem umhverfismál og skiptir ekkert ríki máli nema að sjálfsögðu Íslendinga.

Eggert Sigurbergsson, 20.11.2011 kl. 21:16

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og þá taka olíuauðlindirnar við, Eggert, sem einn helzti áfanginn, er tímar líða, en örugglega þó ekki fyrr en þeir hafa til þrautar reynt (og kannski tekizt) að ná Noregi inn í Evrópusambandið.

Þetta var mjög þarft innlegg, Eggert, þú sparaðir ýmsum vinnu með þessu.

Minna ber á, að "reglan" um hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða hvers Esb-ríkis er einmitt mjög óstöðug, ráðherraráð Esb (með 27 ráðherrum meðlimaríkjanna) bjó hana til og hefur yfir henni fullt vald, getur afnumið hana eða breytt henni að vild sinni, og hugmyndir um það hafa verið í umræðunni. Íslenzki ráðherrann í ráðherraráðinu sæti þarna, jú, jú, við hliðina á til dæmis þeim þýzka, en réði bara 273 sinnum minna atkvæðavægi en þýzki ráðherrann, 205 sinnum minna en sá brezki, 215 sinnum minna en sá franski og 153 sinnum minna en sá spænski!

Þessi síðastnefndi gæti t.d. orðið sá spænski ráðherra Evrópumála sem í júlí 2009 staðfesti ásælni Spánverja í íslenzk fiskimið og sagði Spánverja "himinlifandi" með umsókn Össurarteymisins (þarna vísaði ég á viðtal Kristins R. Ólasonar við hann í Spegli Ríkisútvarpsins 30. júlí 2009, sem sagt er frá í grein minni).

Eins mætti vel vera, að ráðherrann spænski við afgreiðslu málsins í ráðherraráðinu yrði sá hinn sami, sem var

sjávarmálastjóri Spánar 2009 og sagði auðlindir verða "evrópusambandsvæddar" þegar ríki gengur í Esb. (Kristinn R. Ólafsson var með annað Spegilsviðtal við þann mann, Martín Fragueiro, og hér vísað í ýtarlega frásögn mína af því 5. sept. 2009).

Í ráðherraráðinu myndum við ráða einungis 0,06% atkvæða (og Malta 0,08%, þ.e. 90,8% minna en nú, þegar hún hefur þar 0,87% atkvæðavægi). Byltingin í atkvæðavægi ríkjanna (eða 1. byltingin) er þegar ákveðin: 1. nóv. 2014, samkvæmt ákvæðum í Lissabon-sáttmálanum. Þá eykst t.d. atkvæðavægi Þýzkalands þar úr 8,41% í 16,41% og Bretlands úr 8,41% í 12,33%, en Frakklands í 12,88% og Spánar úr 7,83% í 9,17%. Við myndum ráða þarna 1/1666 hlut alls atkvæðavægis í ráðinu! Það gæti þó minnkað umtalsvert, t.d. við inntöku Tyrklands eða Úkraínu!

Esb-dindlarnir hafa því mikið til að hlakka yfir og hlakka til !

Jón Valur Jensson, 20.11.2011 kl. 21:56

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sbr. nánar hér: Evrópubandalagið leggur snörur sínar. Hér eru YFIRRÁÐ STÆRSTU RÍKJANNA afhjúpuð!

Nú voru mið- og hægri flokkar á Spáni að vinna yfirburðasigur á sósíalistum í kosningunum þar um helgina (nýheyrt í 10-fréttum Rúv). En það mun ekki minnka þrýsting á, að spænskir ráðherrar sæki á íslenzka hagsmuni á fiskimiðum okkar, ef Esb. og innlimunarsinnum tekst markmið sitt með Ísland, enda mun hægri stjórn þar styðja hagsmuni spænskra útgerðarmanna, og FIMM MILLJÓNIR atvinnulausra á Spáni, þ.m.t tugþúsundir sjómanna, munu án efa þrýsta á um það. Ef svo ólíklega færi, að Esb. tregðaðist við eða tefði málið, mætti eflaust búast við fiskförmum og slógi og öðru illa þefjandi fyrir framan glerhallirnar í Brussel, þar til kommissararnir og ráðherraráðið teldu "einboðið" að fara yrði að "kröfum almennings í Evrópusambandinu".

Jón Valur Jensson, 20.11.2011 kl. 22:09

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ásmundur þú ert dálítið rólegur yfir þessu. Bretar segja það sé ekki hætta lengur. Hvaða Bretar eru þetta sem segja þetta í lagi. Ekki þeir sem lifa á fiskveiðum. Það verður valtrað yfir okkur ef við göngum í ESB og jafnvel erum við í stórhættu vegna EES samninganna sem ég tel að skerði sjálfstæði okkar  og var líka ólögleg athöfn eins og umsóknin sjálf var að aðild ESB. Förum varlega í þessum málum. Fjölþjóðleg hugsun hefir ekki gengið og mun aldrei ganga. Munið í könnun sögðust 2 milljónir Spánverja  vilja flytja til íslands eða Bretlands. Í guðanna bænum verið ekki einföld.

Valdimar Samúelsson, 21.11.2011 kl. 10:52

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hins verðum við að gæta, Valdimar, að loksins nú, með hugsanlegri innlimum Íslands og efnahagslögsögu þess inn í efnahagslögsögu Evrópusambandsins á næstu árum, sjá Bretar fram á, að þeir geti í raun bætt sér upp tapið (einkum Skota) á eigin miðum -- og tap enskra útgerða við ósigur Breta í landhelgisstríðunum við Íslendinga. Þeir eru hins vegar ekki jafn vel skipum búnir og Spánverjar, þegar hér er komið sögu, en geta vitaskuld eflt fiskveiðiflota sinn á ný.

Jón Valur Jensson, 21.11.2011 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband