Krafan um að þjóðin eigi að ákvarða framhaldið er brella

Skrif Þórarins Einarssonar á netinu 29. mars s.l vöktu talsverða athygli. Hann mætti á Austurvöll s.l. laugardag og segir að margir sem þar voru hafi látið plata sig. Hann segir kveikjuna að þessum mótmælum vera gremju og örvæntingu aðildarsinna yfir því að það eigi að draga aðildarumsóknina til baka. Krafan um að þjóðin eigi að ákvarða framhaldið hafi verið brella til þess að útvega meira fallbyssufóður í mótmælin.

Pistill Þórarins var svohljóðandi: ,,Ég mætti á Austurvöll í dag. Auðvitað samt ekki til að mótmæla heldur bara til að "skoða". Maður læddist þarna um eins og einhver 'Hannes Hólmsteinn' að tékka á fólkinu sem mætti. Eins og mér þykir nú almennt ánægjulegt að sjá fólk sameinast og standa á kröfum sínum, þá hef ég enga samúð með þessum málstað og þykir leitt að sjá hvernig margir hafa látið draga sig á Austurvöll á fölskum forsendum.

Kveikjan að þessum mótmælum er sú gremja og örvænting aðildarsinna að það eigi að draga aðildarumsóknina til baka. Krafan um að þjóðin eigi að ákvarða framhaldið var brella til þess að útvega meira fallbyssufóður í mótmælin. Áður var búið að draga stóran hlut óákveðna yfir til aðildarsinna með því að dáleiða það í trú á að það yrði að kíkja í einhvern pakka til þess að geta tekið afstöðu ('The Mystery Box Dumb Ass Trap').

Aðildarsinnar eru búnir að blekkja miklu fleiri en núverandi stjórnarflokkar hafa verið sakaðir um. Ennfremur tókst þeim að hindra þjóðaratkvæði um aðildarumsóknina sjálfa og ítrekað um áframhaldandi aðildarviðræður á síðasta kjörtímabili. Þá tókst þeim að hindra að þjóðin fengi að kjósa um fullveldisákvæðið í nýju stjórnarskránni. En sem betur fór, mistókst þeim að láta þjóðina borga Icesave og hindra þjóðaratkvæði um þá deilu. Það er þó fyrst nú að aðildarsinnarnir heimta lýðræðið - þegar ný ríkisstjórn er tekin við og ætlar að draga umsóknina til baka með sömu aðferð og hún var upphaflega send til Brussel, þ.e. með einföldum þingmeirihluta.

Aðildarsinnar eru búnir að pissa á lýðræðið í fimm ár en kalla nú andstæðinga sína andlýðræðissinna fyrir að styðja ekki kröfu þeirra nú um þjóðaratkvæði sem þeir voru þó sjálfir búnir að hafna ítrekað í tíð síðustu stjórnar. Ég vorkenni aðildarsinnum ekki neitt í þessari stöðu, en hef nokkra samúð með þeim sem voru hafðir að fíflum í blekkingarherferð aðildarsinna undanfarin ár. Megi þeir ranka við sér sem fyrst."


Halldór Blöndal beinir hvössum spurningum til Þorsteins Pálssonar

Halldór Blöndal, fyrrv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins beinir hvössum spurningum til Þorsteins Pálssonar, fyrrv. formanns sama flokks í grein í Morgunblaðinu í dag, en Þorsteinn átti einmitt sæti í aðalsamninganefnd Össurar í viðræðum við ESB. Greinin er svohljóðandi:

 

„Um helgina hitti ég frænku mína sem mér þykir vænt um. Til orðaskipta kom milli okkar vegna þess að hún vill ljúka samningum um aðild að Evrópusambandinu til að sjá hvað er »í pakkanum«. Ég svaraði því til, að engar sérlausnir stæðu okkur til boða. Þess vegna eru þessar línur skrifaðar til að skýra þessi mál fyrir sjálfum mér.

 

Ég hygg að þorri Íslendinga hafi skoðun á því, hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki. Flestir, þar á meðal Össur Skarphéðinsson, telja, að úr því geti ekki orðið nema Evrópusambandið bjóði »Íslandi sérlausnir í sjó«, en því fer víðs fjarri að það standi til boða ef marka má dagbókarfærslur utanríkisráðherrans fyrir árið 2012.

 

Hinn 9. febrúar talaði Össur um tregðu innan framkvæmdastjórnar ESB til að opna samninga um sjávarútvegsmál. Samningsafstaða okkar sé að verða til en ekki bóli á því að ESB bjóði í samningadans. - »Vaxandi vísbendingar, þ.ám. ferð Einars ráðuneytisstjóra í frönsku kansellíin benda til að Frakkar séu að snúast nokkuð þétt gegn opnun kaflans og við aðra viðra þeir skilyrði sem við munum aldrei ljá máls á.«

 

Þetta er sá rauði þráður, sem gengur í gegnum dagbókarfærslur Össurar. Evrópusambandið setur skilyrði fyrir opnun sjávarútvegskaflans. Sum ríki vegna makríldeilunnar, önnur af grundvallarástæðum. »...slík skilyrði verða túlkuð sem rautt spjald af okkar hálfu,« segir Össur kotroskinn, »það jafngildir því að ESB sé að stöðva viðræðurnar.«

 

Nú voru aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið hornsteinninn að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þær voru lagðar þannig upp, að það væri ekki á valdi Íslendinga hvenær einstakir kaflar yrðu opnaðir, eins og skýrt kemur fram í dagbókarfærslum Össurar. Við gátum á hinn bóginn hafnað þeim skilyrðum, sem Evrópusambandið setti fyrir opnun kaflans. Og sú varð þrautalending Össurar. Ég tel að honum beri pólitísk og siðferðileg skylda til að upplýsa hver skilyrði Evrópusambandsins fyrir opnun sjávarútvegskaflans og annarra erfiðra kafla voru á hverjum tíma. Af hverju vildi hann ekki opnar umræður um kaflana, af hverju vildi hann ekki að við Íslendingar fengjum að kíkja í pakkann?

 

Þorsteinn Pálsson hefur haft stór orð um, að Bjarni Benediktsson hafi brugðist kjósendum Sjálfstæðisflokksins með því að ljúka ekki aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þorsteinn var í aðalsamninganefnd Össurar Skarphéðinssonar, vafalaust sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra. Eins og hann hefur talað er óhjákvæmilegt að inna hann eftir því, hvort hann var sammála Össuri Skarphéðinssyni um að opna ekki erfiðustu kaflana vegna þeirra skilyrða sem Evrópusambandið setti. Vildi hann ganga lengra til móts við kröfur Evrópusambandsins en Össur eða taldi hann að viðræðurnar væru komnar í sjálfheldu? Yfir hvaða upplýsingum býr hann sem gera það líklegt að Evrópusambandið muni slá af kröfum sínum nú svo að forsendur skapist fyrir því að opna erfiðustu kaflana?

 

Össur tekur það fram a.m.k. tvívegis í dagbókarfærslum sínum að Þorsteinn Pálsson hafi málfrelsi um hvaðeina, enda ógjörningur að hugsa sér að Þorsteinn hefði að öðrum kosti tekið sæti í aðalsamninganefndinni. Honum er því ekkert að vanbúnaði að skýra sín sjónarmið.

 

Ég tók mér í hönd »Fögru veröld« og las fyrir konu mína kvæðið »Hvað er í pokanum«, sem lýkur svo:

 

Bræður mínir, sagði ég,

bræður mínir og systur.

Allir þér,

sem eruð viðstaddir,

og einnig þér, sem ekki heyrið orð mín.

Gefið gaum að yðar pokum.

Sleppið ekki sjónar af yðar pokum.

Því sjá!

Dagur dómsins nálgast,

þegar Drottinn sjálfur snýr yður við,

og segir:

Hvað er í pokanum?“




120 þúsund greiddu atkvæði gegn aðild!

Dr. Björn S. Stefánsson þjóðfélagsrýnir til áratuga skrifar litla ádrepu í síðustu viku sem Vinstri vaktin telur fulla ástæðu til að vekja athygli á.: 

bjornstefansson

Lokið er talningu atkvæða í Alþingiskosningum í apríl 2013. Hátt á annað hundrað þúsund sóttu kjörfund. 120.000 greiddu atkvæði flokkum, sem vilja, að Ísland sé ekki í Evrópusambandinu. Tala þeirra, sem greiddu eina flokknum, sem vildi Ísland í Evrópusambandið, var einn fimmti þeirrar tölu, 24.000. Flokkarnir, sem mynduðu svo ríkisstjórn, voru í kosningunum einhuga í málinu. Stjórn þeirra þurfti því ekki að gera neina málamiðlun um það efni.

Þeir, sem urðu undir, halda fram sínu máli, eins og þeim er rétt. Hér verður drepið á rök, sem heyrast þessar vikurnar.

  • Við viljum í Evrópusambandið, af því að sérhagsmunir mega ekki ganga fyrir þjóðarhag (átt er við landbúnað og sjávarútveg).

Þetta kom vitaskuld fram fyrir kosningarnar og var þá rætt fram og til baka, meðal annars á flokksþingi/landsfundi núverandi stjórnarflokka. 120.000 kusu flokka, sem ekki vildu í Evrópusambandið. Eftir því er mikið fylgi við sérhagsmuni. Hitt mundi vera sanni nær, að menn líta ekki svo á, að innlent vald til að skapa landbúnaði og sjávarútvegi stöðu, sé í þágu sérhagsmuna.

  • Við viljum ekki einangra Ísland.

Þessu var gjarna haldið fram til að mæla með Evrópusambandsaðild. Það var vitaskuld mikið rætt. 120.000 kusu samt flokka gegn aðild, en 24.000 aðildarflokkinn. Það er út í hött, að fylgi 120.000 kjósenda hafi verið yfirlýsing um fylgi við einangrun.

  • Við viljum vöxt atvinnugreina fyrir hámenntað fólk.

Þetta var vitaskuld rætt í fyrra. Engar heimildir eru fyrir því, að 120.000 kjósendur hafi lýst andstöðu við vöxt atvinnugreina, sem borga vel, með því að greiða flokkunum fjórum atkvæði sitt.

Þrálátir fundir fyrir utan Alþingishúsið undanfarið eru kynntir í fréttum eins og þeir séu merkilegir. Þá fundi sækir ekki nema brot að tiltölu við þá, sem sóttu kjörfund. Það hlutfall kynni að vera álíka lágt og kjörsókn var fyrstu áratugina eftir endurreisn Alþingis í hlutfalli við íbúatöou.

Þá var kjörfundur opinn, eins og fundirnir á Austurvelli. Einn fundur var í hverri sýslu. Efling lýðræðis og þingræðið er í því fólgið, að almenningi er gert kleift hvar sem er að tjá sig og með leynd. Ýmsir láta eins og fréttir af fundum nokkurra hundraða eða þúsunda á Austurvelli eigi með endurtekningu að vega upp á móti undirtektum 120.000 kjósenda við flokkana fjóra, sem vilja ekki Evrópusambandsaðild.

(Birtist í Morgunblaðinu 29. apríl 2014) 


Lega Íslands og ríkulegar auðlindir trygging til framtíðar

Vorið 1988 kaus Alþingi 9 alþingismenn í Evrópustefnunefnd „til þess að taka til sérstakrar athugunar þá þróun sem fyrir dyrum stendur í Evrópu, einkum með tilliti til ákvörðunar Evrópubandalagsins um sameiginlegan innri markað.“

 

Nefnd þessi starfaði ötullega til vors 1990 og gaf út sjö rit um samskipti Íslands við aðrar Evrópuþjóðir, það síðasta sem áfangaskýrslu til Alþingis. Í lok sama árs gaf Alþingi út rit nefndarinnar í heild undir heitinu Ísland og Evrópa. Formaður nefndarinnar var í upphafi Kjartan Jóhannsson, uns hann var skipaður sendiherra sumarið 1989, en þá tók við formennskunni Eyjólfur Konráð Jónsson. Í sameiginlegu áliti nefndarinnar til Alþingis sagði í upphafi:

 

Enginn íslensku stjórnmálaflokkanna hefur á stefnuskrá sinni aðild að Evrópubandalaginu. Sumir flokkanna orða það svo í stefnuyfirlýsingum sínum og samþykktum að umsókn um aðild sé ekki á dagskrá. Aðrir kveða svo að orði að aðild komi ekki til greina.

 

Ég átti sæti í þessari nefnd og var jafnframt fulltrúi í Norðurlandaráði, þar sem samskiptin við þáverandi EB voru ofarlega á dagskrá, ekki síst eftir útspil Jacques Delors og Gro Harlem Brundtland um Evrópskt efnahagssvæði sem einskonar millileik. Sameiginlegu áfangaáliti nefndar Alþingis fylgdu sérálit einstakra nefndarmanna, þar á meðal álit mitt sem bar yfirskriftina Íslensk leið í samskiptum við umheiminn. Ég hef síðan fylgst með þróun þessara mála, á vettvangi Alþingis og EFTA til aldamóta, og eftir það sem áhugamaður.

 

Í öllum meginatriðum er ég enn sömu skoðunar og fyrir aldarfjórðungi og læt hér fylgja upphafið að álitsgerð minni frá 1990 sem bar fyrirsögnina Samskipti til allra átta.

 

„Íslendingar standa nú [þ.e. 1990] frammi fyrir því að velja um leiðir í samskiptum við umheiminn. Það val getur orðið afar afdrifaríkt og skipt sköpum um sjálfstæði þjóðarinnar og lífskjör í landinu um langa framtíð. Kostirnir sem við blasa eru í aðalatriðum tvenns konar:

 

1. Að tengjast Evrópubandalaginu [nú Evróusambandinu] í gegnum evrópskt efnahagssvæði eða með beinum hætti innan tíðar.

 

2. Að halda óháðri stöðu gagnvart efnahagsbandalögum en leita sem hagstæðastra samninga við slík bandalög í Evrópu, Norður-Ameríku, Austur-Asíu og víðar.

 

Skoðun undirritaðs er sú að tvímælalaust eigi að velja síðari kostinn þar eð með því haldi þjóðin sjálfsákvörðunarrétti sínum og æskilegum sveigjnleika í utanríkisviðskiptum og öðrum samskiptum til langrar framtíðar. Færa má fyrir því gild rök að Ísland óháð viðskiptabandalögum sé langtum betur sett en með því að verða jaðarsvæði í evrópsku efnahagsbandalagi.

 

Ísland er á margan hátt í öðruvísi stöðu landfræðilega, viðskiptalega og menningarlega en önnur Norðurlönd, að ekki sé talað um gamalgróin iðnríki Vestur-Evrópu. Landfræðileg staða okkar getur gagnast þjóðinni í samskiptum til margra átta. Landið er miðlægt á Norður-Atlantshafi, í þjóðbraut til austurs og vesturs, en liggur einnig vel við vaxandi samskiptum milli Evrópu og Austur-Asíu um norðurheimsskautið.

 

Ef við höldum þétt utan um náttúruauðlindir okkar til lands og sjávar og verndum umhverfið fyrir mengun og ofnýtingu er unnt að halda hér uppi lífskjörum til jafns við það sem best gerist annars staðar.

Við eigum að leita eftir samningum við bandalög og einstök ríki um friverslun og félagsleg og menningarleg samskipti. Við eigum að aðlaga okkur breytingum í heimsviðskiptum og leita sem bestra samskipta við rísandi Evrópustórveldi og keppinauta þess í Norður-Ameríku og Austur-Asíu.

 

Möguleikar á að ná slíkum samningum og þróa gagnkvæm samskipti verða að teljast góðir. Vegna sérstöðu sinnar og af sögulegum og landfræðilegum ástæðum njóta Íslendingar athygli og víðtæks velvilja víða um heim. Þessi viðhorf verða ekki skýrð út frá efnahagslegum forsendum eða með þýðingu samskipta við landið. Þau geta engu að síður vegið þungt þegar leitað er eftir samvinnu af okkar hálfu við aðrar þjóðir.Óháð staða landsins með tilliti til viðskiptabandalaga felur þannig í sér marga mjög góða kosti.“

 

Á eftir fylgdi í álitinu nánari röksemdafærsla fyrir þessum meginsjónarmiðum. Þar var m.a. tekið fram að EES-grundvöllurinn væri óaðgengilegur. Einnig þau sjónarmið tel ég að hafi staðist tímans tönn og að stefna beri að því að ná fram breytingum á þeim samningi fyrr en seinna, etv. yfir í tvíhliða form á samskiptum Íslands við ESB. Aðalatriðið í bráð er þó að hætta áformum um aðild að ESB, eins og samstaða var um 1990, en tryggja áframhaldandi góð samskipti við þann volduga granna.

 

Hjörleifur Guttormsson


Þessvegna er fráleitt að kjósa!

Nokkur hópur manna hefur nú gert kröfu um að aðildarviðræðum síðustu ríkisstjórnar að Evrópusambandinu verði haldið áfram og farið fram á kosningar til að útkljá hvort það skuli gert. Krafan er jafn rökrétt og að kjósa um það að ekki hafi orðið hér gos í Eyjafjallajökli. Allir sjá að slík kosning væri kaldlegur skrípaleikur og það sama á við þegar krafist er kosninga um það sem þegar er útkljáð.

 

Það hefur nú legið fyrir í meira en tvö ár að hin skilyrta aðildarumsókn sem vinstri flokkarnir lögðu fyrir ESB hefur strandað. Þau skilyrði sem Alþingi settu í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum gera ESB ómögulegt að setja fram opnunarskilyrði sín að þessum mikilvægu viðræðuköflum.

 

Ef Íslendingum er alvara með að fá niðurstöðu í aðildarviðræðum hvað sem það kostar verður Alþingi fyrst að samþykkja að fella úr gildi þau skilyrði sett voru með þingsályktunartillögu um aðild sumarið 2009. Hægri stjórnin nú væri þá þar með orðin meiri ESB stjórn heldur en vinstri stjórnin nokkru sinni var.

 

Skilyrðin sem Alþingi setti voru þess eðlis að ESB gat ekki komið að stjórn sjávarútvegsmála á Íslandsmiðum áður en þjóðin hefði samþykkt aðild. Ef þessi skilyrði eru tekin af þá höfum við í reynd hleypt Evrópuþjóðum inn í landhelgina og ráðum þá harla litlu um eftirleikinn. Þó okkur hafi á áttunda áratug 20. aldar tekist að vinna miðin af Bretum og Þjóðverjum er óvíst að það takist öðru sinni.

 

Þrátt fyrir marga galla þá er fulltrúalýðræðið sem Íslendingar hafa búið við undanfarna mannsaldra farsælla en annað sem reynt hefur verið í sambúðartilraunum mannsins. Þar munar mestu að almenningur hefur æðsta vald og getur kosið af sér vonda stjórnarherra eins og eftirminnilega var gert fyrir tæpu árin síðan.

 

En lýðræðið er ekki til að hafa í flimtingum og falsi. Það á ekkert skylt við lýðræði að hrópa á þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað sem ekki er mögulegt. Það er skrum og tilræði við lýðræðið. Ef ESB sinnum er alvara með að vilja hleypa evrópskum togurum inn í landhelgina ber þeim að segja það umbúðalaust.

Bjarni Harðarson - áður birt í Morgunblaðinu 28.apríl 2014


Það er engin þörf á að kíkja frekar í pakkann

Aftur og aftur hafa fulltrúar ESB verið spurðir hvort Íslendingar gætu staðið utan við sameiginlega stefnu ESB í sjávarútvegs- og landbúnaðarins. En talsmenn ESB hafa alltaf gefið sömu svör, nú seinast í Hörpu s.l. þriðjudag: Íslendingar verða eftir inngöngu að undirgangast yfirráð ESB á þessum sviðum.

 

Í mörg ár hafa ESB-sinnar með Össur Skarphéðinsson í broddi fylkingar reynt að telja þjóðinni trú um að Íslendingar geti náð því í aðildarsamningi að íslenskur sjávarútvegur verði tekinn út fyrir sviga og undanþeginn meginreglum ESB um yfirráð æðstu stofnana ESB yfir sjávarútvegi aðildarríkjanna, þ.e. „sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni“ eins og hún er nefnd í Brussel.

 

Össuri gafst tækifæri til þess sem utanríkisráðherra í tæp fjögur ár að fá þessa fullyrðingu sína staðfesta. En þegar hann hvarf úr embætti hafði hann ekki fengið svo mikið sem stafkrók út úr leiðtogum ESB í þessa veru. Meginreglurnar um sjávarútvegsmál gilda fyrir öll aðildarríki ESB. Síst af öllu getur nokkurt þeirra gert sér vonir um undanþágu á þessu sviði þegar um er að ræða helsta atvinnuveg viðkomandi lands eins og gildir um Ísland. Þetta hafa forystumenn ESB margsagt við sendimenn Íslendinga sem eftir þessu hafa leitað.

 

S.l. þriðjudag hélt sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB fund í Hörpu, en til þessarar nefndar var stofnað haustið 2010 í tilefni af aðildarumsókn Íslands. Innan ESB er nú rætt um að tímabært sé að nefndin verði lögð niður þar eð ekki sé lengur þingmeirihluti að baki umsókninni um aðild.

 

Fyrir hönd stækkunardeildar ESB sat Thomas Hagleitner fundinn að þessu sinni. Hann áréttaði þar þá staðreynd, eins og margoft hefur áður komið fram, að ríki innan ESB yrðu að viðurkenna sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB en bætti því við að við „framkvæmd stefnunnar“ væri unnt að taka tillit til sjónarmiða einstakra ESB-ríkja.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, sat þennan fund í Hörpu, en Guðlaugur er formaður íslenska hluta sameiginlegu nefndarinnar. Hann sagði við mbl.is eftir fundinn:

 

„Ég spurði hann [Hagleitner] að því hvort ríki gætu staðið fyrir utan sameiginlega stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og það kom alveg skýrt fram hjá honum að það væri ekki hægt. Það þýðir einfaldlega að okkar markmið að halda yfirráðum yfir sjávarútvegsauðlindinni okkar er ekki í boði. Það fer þvert á sjávarútvegsstefnu sambandsins.“

 

Nú er það öllum kunnugt að kröfur Íslands í sjávarútvegsmálum hafa legið fyrir síðan aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi sumarið 2009. Samkvæmt nefndaráliti á þingskjali 249 (38. máli árið 2009) fólu þessar kröfur m.a. í sér:

 

„forræði í stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu sem byggð er á ráðgjöf íslenskra vísindamanna. Auk þess verði leitað eftir að eins víðtæku forsvari í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er lúti málefni að íslenskum hagsmunum. Jafnframt verði haldið í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og skýrri aðkomu Íslendinga að mótun sjávarútvegsstefnu ESB í framtíðinni.... Þá verði forræði þjóðarinnar tryggt yfir sjávarauðlindinni og þannig búið um hnútana að framlag sjávarútvegsins til efnahagslífsins haldist óbreytt.“

 

Ljóst er að stækkunardeild ESB hafnaði þessum kröfum Íslendinga í verki með því að stöðva viðræður við íslensk stjórnvöld um sjávarútvegsmál í mars 2011 og með því síðan að neita að afhenda íslenskum stjórnvöldum rýniskýrslu um málaflokkinn. Krafa ESB virðist hafa verið, þótt það hafi aldrei komið opinberlega fram, að íslensk stjórnvöld breyttu kröfum sínum í grundvallaratriðum áður en lengra yrði haldið í viðræðunum. Í árslok 2012 valdi svo þáverandi ríkisstjórn þann kostinn að leggja viðræðurnar til hliðar að svo stöddu, og síðan hefur aðildarumsóknin legið afvelta.

 

Orð Thomasar Hagleitner á fundinum í Hörpu s.l. þriðjudag voru enn ein staðfesting á því að umsókn Íslands í ESB kemur ekki til greina nema Íslendingar falli frá þeim kröfum sem fylgdu aðildarumsókninni. Því má með fullum rétti segja að Íslendingar hafi þegar „kíkt í pakkann“ og ekki sé eftir neinu að bíða með að afturkalla umsóknina. - RA

 


mbl.is Samkomulag um kolmunnaveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Froðan afhjúpuð

Þessa auglýsingu er að finna inni á heimasíðu Evrópustofu: 

Námskeið um ESB fyrir meðlimi ASÍ og BSRB þann 27. mars, kl. 09:00-16:00, í Guðrúnartúni 1, 4. hæð.

Evrópustofa býður upp á námskeið fyrir meðlimi ASÍ og BSRB um ESB í samstarfi við Félagsmálaskólann sem ber heitið Hvernig starfar ESB?

Markmið námskeiðsins er að fara yfir Evrópumálin á aðgengilegan og áhugaverðan hátt út frá sjónarhóli Íslands. Fjallað verður um ESB sjálft, sögu þess og helstu stofnanir og hvernig ákvarðanir eru teknar innan sambandsins.

Þá verður fjallað um tengsl Íslands og ESB við EES ásamt því að farið er yfir stefnu ESB í byggða- mennta- og vinnumarkaðsmálum.

Námskeiðið verður haldið 27. mars frá 09:00 – 16:00, í Guðrúnartúni 1, 4. hæð. Skráning fer fram á heimasíðu skólans, en námskeiðið er einungis fyrir meðlimi ASÍ og BSRB, og er síðasti skráningardagur 19. mars. Námskeiðið eru kennt af Auðbjörgu Ólafsdóttur og Halldóri Grönvold.

Hér stendur ekki steinn yfir steini og ef rýnt er í þessa auglýsingu afhjúpast froðan sem Evrópusambandssinnar beita í áróðri sínum - en, sá áróður er hættulegur engu að síður. Og kannski einmitt vegna þess að hann er hroði og í fínum umbúðum ber að varast hann og berjast gegn honum.

Hér er látið að því að liggja að námskeiðið eigi að greina frá því hvernig ESB starfi. Það eru ágæt áform. En áform eru til lítils ef þau verða ekkert meira. Eða hvað segir svo: 

"Markmið námskeiðsins er að fara yfir Evrópumálin á aðgengilegan og áhugaverðan hátt út frá sjónarhóli Íslands." 

Hér er gott að staldra aðeins við og hugsa. Hér eru áformin um: upplýsingar um það hvernig ESB starfi, strax fokin út í veður og vind. Eða starfar ESB með einhverjum öðrum hætti en það starfar, yfirleitt, út frá sjónarhóli Íslands? Hvurslags eiginlega þvæla er þetta? ESB er ríkjasamband sem ótt og títt þróast í átt að stórríki. Það er alveg eins, yst sem innst, hvort heldur horft er á það frá Íslandi eða Ástralíu! ESB er ESB og breytir engu af hvaða sjónarhóli er gónt - jafnvel þótt horft væri af þeim súputeningi sem kögunarhóll Þorsteins Pálssonar er. ESB er alltaf eins: óréttlátt miðstýrt apparat sem þjónar peningaöflunum og eigin skrifræði gegn borgurunum og lýðfrelsi. Það er forneskja.

En að þessu söguðu ber að halda hinu til haga að þarna segir í þessari dæmalausu auglýsingu um áróðurskennslu launþegasamtakanna að markmiðið sé að fara yfir Evrópumálin á aðgengilegan og áhugaverðan hátt - það lá að. Hún lætur sum sé hafa það eftir sér sjálf aðdáendamaskínan, að þessi mál séu óaðgengileg og flókin! Eða, til hvers þarf að halda sérstakt námskeið í því sem er aðgengilegt og auðlæsilegt? Það skyldi þó aldrei vera þannig að ekki bara sé þetta bákn svo torskilið og flókið að bestu menn þurfi skólagöngu til að horfa þangað yfir, frá sjónarhóli Íslands? -heldur séu aðlögunarsamningarnir sem þjóðin á að glugga í eins og eina kvöldstund fyrir kosningar líka það torf að sérstakrar skólagöngu sé krafist til þess að skilja þar hið óskiljanlega? Gagnstætt því sem haldið er fram.

Fjallað verður um ESB sjálft - merkilegt! Sérstaklega í ljósi þess að á námskeiðinu á að fara yfir Evrópumálin. Og það á líka að fara yfir sögu sambandsins og segja frá því hvernig helstu ákvarðanir eru teknar. Nú? Eru teknar ákvarðanir af þessu sambandi, manni hefur helst mátt skiljast að ESB ákveði ekki neitt heldur séu það hinar frjálsu þjóðir sem það mynda sem ákveði hver fyrir sig hvað hver og ein þeirra vill gera. Eða ætlum við Íslendingar ekki að ráða öllu sjálfir þegar inn er komið, fiskimiðum, hernaði, landbúnaði, iðnaði, tollum og viðskiptum við umheiminn? Eða er það ekki þannig sem það er presenterað hér frá degi til dags?

Þegar þetta er skrifað er þetta námskeið yfirstaðið - en því er það gert að umtalsefni hér að fleiri slík gætu verið á boðstólnum á næstu mánuðum og misserum. Við þurfum að halda vöku okkar fyrir svona áróðursfundum, og við þurfum að mótmæla því - og því er hér með mótmælt - að launþegasamtök fjöldans standi í svona grímulausum áróðri í samstarfi við Evrópustofu! 

-gb. 


Þegar borgarmúrarnir falla

Filippus Makedóníukonungur faðir Alexanders mikla sagði að engir borgarmúrar væri það háir að asni klyfjaður gulli kæmist ekki þar yfir. Það eru orð að sönnu. Hvert sveitarfélagið á fætur öðru ályktar nú um að haldið skuli áfram aðlögunarviðræðum við...

Hvar er nú nafli alheimsins?

Heiðnir menn töldu miðju heimsins vera í mannheimum og þar ofan við var Ásgarður, heimur guða. Nærhendis góðum mönnum. Með kristninni varð til sú hugmynd að miðja heimsins væri í hinni helgu borg Jórsölum og heiminum var þaðan skipt í þrjá meginhluta sem...

Hve lengi verður reynt að þröngva þjóð í ESB sem vill ekki þangað inn?

Allar kannanir seinustu fimm árin sýna að þjóðin vill ekki ganga í ESB. Það er fráleitt að sóa hundruðum milljóna af skattfé almennings til að gera mörg þúsund síðna samning við aðildarríki ESB þegar augljóst er að hvorki ríkisstjórn, þing né þjóð vill...

Afar fróðleg ráðstefna Heimssýnar

Það var fróðlegt og gefandi að sitja ráðstefnu Heimssýnar á Hótel Sögu sl. laugardag 22. mars. Þátttaka margra gesta og ræðumanna frá Nei til EU í Noregi setti svip á fundinn, sem sóttur var af á 2. hundrað manns. Framlag Josefs Motzfeldt frá Grænlandi,...

Jón Bjarna: Náið samband við Færeyinga og Grænlendinga er nauðsyn

Ýmislegt á eftir að koma upp úr hattinum í nýgerðum makrílveiðisamningum. Að deila og drottna með hótunum, þvingunaraðgerðum og blíðmælgi á víxl er þekkt aðferð yfirgangssamra stórríkja gangvart þeim minni, segir Jón Bjarnason, fyrrv....

Hann neitar hratt að bragði

Nú standa ólíklegustu menn í kirkjum landsins og lesa Passíusálma Hallgríms. Í ellefta sálmi má lesa þessi orð: „Hann neitar hratt að bragði" - þessi orð rifjuðust upp fyrir mér nýverið þegar dregnar voru á flot neitanir Steingríms J. Sigfússonar...

Grænland missti veiðiheimildir til ESB við aðild og fékk þær ekki aftur við úrsögn úr ESB

Grænlendingurinn Jósef Motzfeldt heldur eitt aðalerindið á norrænni ráðstefnu strandríkja á Hótel Sögu á morgun. Hann segir þar frá reynslu Grænlendinga sem fóru nauðugir inn í ESB 1973 en sluppu aftur út 1985. Enn hafa þó ESB-ríki veiðirétt í...

Fjöldi norrænna gesta á ráðstefnu á Hótel Sögu n.k. laugardag

Nei við ESB á Íslandi og NEI til EU Noregi halda sameiginlega ráðstefnu um Fullveldi þjóða og Evrópusamrunann á Hótel Sögu (Kötlu) n.k. laugardag 22. mars og hefst hún kl 9,30. Margt góðra gesta hefur framsögu, m.a. fyrrv. ráðherrar, erlendir gestir sem...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband