Bananahugtök heimsvaldasinna

Nokkur hópur manna hefur undanfarið stillt sér upp framan við Alþingishúsið og gamla fangelsið við Lækjargötu með banana í hendinni. Sumir ota honum fram eins og byssu, aðrir gera snúa þessum gómsætu aldinum í hringi. Skilaboð þessa háværa minnihlutahóps er að hér sé bananalýðveldi.

Hugtakið bananalýðveldi mun eiga uppruna sinn í Honduras en er í dag notað næsta frjálslega um öll lönd þar sem ekki er fylgt bandarískum eða evrópskum stöðlum um stjórnarfar. Ég hef sjálfur ferðast töluvert um hinn svokallaða þriðja heim og hinar vestrænu skilgreiningar á stjórnarfari þeirra landa virka oftar en ekki á mig sem rasismi og heimska. Bananahugtakið er hér notað af ellifúnum svekktum nýlenduríkjum til þess að tala niður hinn nýfrjálsa heim.

Þar með er ég ekki að mæla ofbeldisfullum stjórnarháttum eða misrétti af neinu tagi bót. En hlutverk hvers og eins jarðarbúa er þar að taka til í sínum ranni. Almenn löggæslustörf „hinna rétthugsandi og vestrænu" í menningarheimum sem við höfum takmarkaðan skilning á - slíkur lögguleikur er nær alltaf til bölvunar.

Sérstök bananalönd fyrir utan Honduras eru til dæmis Úganda þar sem ég fékk um árið steikta og soðna banana í hvert mál - en aldini þetta er afar staðgóður matur. Bananaskrýtlan niður á Austurvelli gengur út á að telja þá sem hér stjórna, þau Gunnar Braga, Hönnu Birnu, Sigmund, Bjarna og öll hin álíka vitlaus eða spillt eða vond og hvað... stjórnarherra í Honduras eða Úganda. Þetta er vitaskuld rasismi og dónaskapur af verstu sort, ekki gagnvart ráðherrum hér heldur íbúum hinna suðlægu landa þar sem vaxa jú bananar.

Sagan sýnir okkur að þrátt fyrir brokkgenga stjórnarhætti víða í hinum fyrrum nýlendum Evrópumanna er í heildina betur á málum haldið nú en var meðan löndum þessum var stýrt af erlendum agentum gráðugra nýlenduvelda. Það sama á svo sannarlega við um Ísland sem var um aldir nýlenda Dana og þá fátækast allra landa í Evrópu.

En skoðum aðeins tilurð þessa hugtaks, hvað varð til að bananar voru tengdir stjórnmálum. Jú, bandarískur stórkapítalismi, sem birtist í fyrirtækjunum United Fruit og Standard Fruit, hafði kverkatak á stjórnvöldum í Honduras og beitti sér með ósæmilegum hætti við stjórn landsins. Ekki í þágu lands og þjóðar heldur í eigin þágu.

Hvað vill bananafólkið á Austurvelli,- jú að erlendur kapítalsimi og handbendi hans í Brusselvaldinu fari með völd á Íslandi en ekki lýðræðislega kjörin stjórnvöld.

Merkilegt hvað þetta smellur eins og flís við rass! /-b.

Aðildarviðræðurnar sigldu í strand þegar á árinu 2011

Undanfarna daga hefur verið leitt í ljós að aðildarviðræðurnar sigldu  í strand þegar á árinu 2011. Það var þó ekki fyrr en ári síðar að þáverandi stjórn gerði hlé á viðræðum af ótta við fylgishrun í kosningunum vorið 2013.

 

Upplýst hefur verið að Steingrímur J. gerði sér sértaka ferð til Brussel í janúar 2012 til að reyna að herja út úr kommissörunum í Brussel svonefnda „rýniskýrslu“ sem átti að verða grundvöllur af hálfu ESB í samningum við þáverandi ríkisstjórn um sjávarútvegsmál.

 

Enda þótt öllum væri ljóst að skýrsla þessi var löngu tilbúin var Steingrími neitað um að fá hana afhenta. Ljóst þykir að efni hennar var þess eðlis að stækkunarstjóri ESB taldi óráðlegt (hugsanlega að höfðu samráði við Össur utanríkisráðherra) að skýrslan kæmi fyrir sjónir almennings skömmu fyrir kosningar 2013 af ótta við að í ljósi þeirra krafna, sem þar komu fram af hálfu ESB, yrðu öll áform um hugsanlegan aðildarsamning endanlega hrópað niður í kosningabaráttunni sem þá var rétt að hefjast.

 

Í viðtali á sjónvarpsstöðinni ÍNN 12. mars s.l. sagði Ágúst Þór Árnason, meðhöfundur að skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um ESB-viðræðurnar að þeim hefði í raun lokið á árinu 2011 þegar framkvæmdastjórn ESB ákvað að kynna Íslendingum ekki niðurstöðu rýnivinnu sinnar um sjávarútvegsmál. Megi draga þá ályktun að svo mikið hafi borið í milli í afstöðu ESB annars vegar og þeirra takmarkana á umboði íslensku viðræðunefndarinnar sem fyrir lágu í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis að litið yrði á það sem viðræðuslit ef sjónarmið ESB yrðu kynnt.

 

Það er því löngu orðið tímabært að hætta formlega þessum skollaleik í kringum aðildarumsóknina, hvað sem líður gráti og gnístran tanna meðal þeirra, sem gert höfðu sér vonir um að Íslendingar væru rétt ókomnir inn í ESB.

 

Öllum er ljóst að á þessu kjörtímabili mun ekkert nýtt gerast í samskiptum Íslands og ESB varðandi hugsanlega aðild. Á hinn bóginn er það beinlínis stórskaðlegt í samskiptum okkar við nálæg ríki, eins og nýlega var bent á, að litið sé áfram á Ísland sem umsóknarland að nafninu til, þótt umsóknin sé í reynd dauð. - RA


Hjörleifur: Að vekja upp og kveða niður drauga

Í íslenskum þjóðsögum eru margar frásagnir af uppvakningum, framliðnum verum sem menn höfðu vakið upp til að ná sínu fram gegn andstæðingum eða gera þeim skráveifur og jafnvel fyrirkoma. Af uppvakningum hérlendis mun Glámur kunnastur.

 

Einnig eru þekktir gangárar, afturgöngur sem flökkuðu um og sem erfitt gat reynst að kveða niður, enda óviss uppruninn. Þriðja gerðin voru tilbúnir árar eins og Eyjasels-Móri, einna frægastur draugur austanlands. Ef ekki tekst að koma afturgöngum og uppvakningum fyrir geta þau orðið fylgjur og brugðið sér í margra kvikinda líki.

 

Uppvakningur frá árinu 1961

 

Því er þetta rifjað upp hér að Íslendingar glíma um þessar mundir við óvenju aðsópsmikinn uppvakning, svo magnaðan að sumir telja tvísýnt um að bestu manna ráð dugi til að kveða hann niður. Þarna er að sjálfsögðu átt við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu. Gangári þessi á sér sem kunnugt er langa sögu, fór af gera vart við sig skömmu eftir að kola- og stálbarónar Þýskalands og Frakklands komu sér saman um Rómarsamning 1957, að sögn í von um að sá gjörningur dygði til að þjóðir þessar hættu að berast á banaspjótum. Þetta hét þá Efnahagsbandalag. Alþýðuflokkurinn sálugi heillaðist svo af þessari draumsýn að fáum árum síðar, 1961, lagði helsti forystu maður þess flokks til að Íslendingar bæðu um inngöngu í þetta bandalag og boðaði það heilræði, að besta ráðið til að tryggja fullveldi þjóðar væri að fórna því og deila með öðrum. Um þann málflutning sagði Alfreð Gíslason, læknir og alþingismaður í þingræðu (17. apríl 1963):

 

Sumarið 1961 hófu málgögn hæstvirtrar ríkisstjórnar og félagasamtök á hennar snærum magnaðan áróður fyrir inngöngu Íslands í Efnahagsbandalagið. Var sú innganga þá talin brýnt nauðsynjamál þjóðarinnar og hver sem dirfðist að andmæla því [var] fyrirfram stimplaður landráðamaður og kommúnisti. En áróðurinn datt snögglega niður; þó ekki vegna þess að stjórnin sæi sig um hönd, heldur hins að stund náðar hinna voldugu í Brüssel var enn ekki upprunnin. Áróðurinn reyndist ótímabær, og því var hann látinn falla niður að sinni.

 

Ástæðan fyrir áróðurshléinu var m.a. uppgjafasamningurinn fyrir Vestur-Þjóðverjum og Bretum í landhelgismálinu 1961, sem mæltist afar illa fyrir hérlendis, en sama afstaða þessra þjóða gagnvart Íslendingum kom upp 1972 eftir útfærslu landhelginnar í 50 mílur.

 

Alvöruatlaga hálfri öld síðar

 

Alþýðuflokkurinn hélt fast við það baráttumál sitt að koma Íslandi inn í Evrópubandalagið, þótt í áföngum væri. Um 1990 höfðu sósíaldemókratar Vestur-Evrópu að Norðurlöndum meðtöldum gefist upp fyrir aðþjóðakapítalinu og sameinast undir merkjum Delors og Gro-Harlem Bruntland um að koma sem flestum utangarðsríkjum inn í Evrópusambandið. Fyrst skyldi skrifað upp á EES og fjórfrelsið og síðan sigla hraðbyri á endastöð í Brussel. Það gekk skjótt eftir í Svíþjóð og Danmörku en mislukkaðist í Noregi svo og hérlendis þar sem staða Alþýðuflokksins var afar veik. Ekki var þó farið dult með að EES ætti að gagnast sem vogarstöng til ESB-aðildar. Bæði Kvennalisti og Alþýðubandalag misstu átta í gjörningaveðri 10. áratugarins og sundruðust, að ekki sé minnst á Þjóðvaka. – EES-tilskipanir urðu til að kippa fótum undan íslensku bönkunum haustið 2008, og nú var það Samfylkingin, arftaki Alþýðuflokksins, sem boðaði Evru og fulla aðild sem bjarghring og allrameinabót.

 

ESB-uppvakningnum sleppt lausum

 

Ringulreiðin í kjölfar hrunsins var tilvalið ástand til að brjóta niður traust almennings á getu Íslendinga til að standa á eigin fótum. Útrásarvíkingarnir höfðu ekki aðeins komist yfir sparifé íslensks almennings heldur gott betur í útlöndum. Gangárar þeirra ýttu undir samsektarkennd fjölda fólks og vantrú á að stofnanir lýðveldisins réðu við það verkefni að reisa Ísland úr rústum hrunsins. Við þessar aðstæður setti Samfylkingin út net sín og fangaði í þau forystu Vinstri grænna í aðdraganda stjórnarmyndunar vorið 2009. Flokkur sem fram að þessu hafði gert út á andstöðu við ESB-aðild sem meginmál, féll á nokkrum dögum fyrir valdadraumórum og ESB-draugnum var sleppt lausum. Síðan hefur íslenskt þjóðfélag ekki verið samt við sig. Eyjasels-Móri varð til úr göróttri mixtúru og eirði engu. Samningaferlið mikla um aðild að ESB sem stundað var allt síðasta kjörtímabil var með sama hætti eitrað og hitti þá flokka fyrir sem settu það í gang. Til að reyna að bjarga sér undan uppvakningnum varð að ráði hjá upphafsmönnum að ákalla þjóðina sér til bjargar, hún yrði að skera úr, flokkarnir réðu ekki við málið. Og stjórnarandstaða þess tíma féll sumpart fyrir lýðskruminu og lítur nú undan þegar hún er á það minnt.

 

Glyttir í Gláms augun

 

Í liðinni viku lauk á Alþingi einni sérkennilegustu umræðu sem þar hefur orðið í þingsögunni. Skiptust þar á í ræðustól fulltrúar þingflokka í stjórnarandstöðu frá Samfylkingu, VG, Bjartri framtíð og Pírötum og ræddu til skiptis fundarstjórn forseta eða skiptust á andsvörum sín á milli. Sumir lýstu stefnu, fleiri þó stefnuleysi. Stöku ræður tíndust að mestu í þessu kapphlaupi um ræðustólinn. Ekki er þetta þó með öllu ónýtt efni heldur bíður nánari greiningar sálfræðinga. Ég nefni sem dæmi ræðu sem Páll Valur Björnsson í Bjartri framtíð hóf kl 16:31 11. mars sl. þar sem hann sagði m.a.:

 

Ég lít þannig á stjórnmál að við séum að vinna að hagsmunum þjóðarinnar. Allar þær ákvarðanir sem við tökum eiga að miðast að því að bæta hag og hagsæld þjóðarinnar. Nú hef ég ekki hugmynd um það frekar en nokkur einasti maður á Alþingi hvort það sé til hagsbóta fyrir okkur að fara í ESB. Ég hef bara ekki hugmynd um það. Ég vil samt trúa að það sé til hagsbóta, ekki síst í ljósi sögu Íslands, ekki síst í ljósi sögu gjaldmiðils okkar, þess hvernig staðan er á okkur núna og hvernig landinu hefur verið stjórnað alla tíð. Ég trúi því að með því að ganga í Evrópusambandið öðlumst við agaðri vinnubrögð.

 

Ekki var síður lýsandi ræðan sem hinn staðfasti ESB-andstæðingur Steingrímur J. Sigfússon byrjaði sama dag kl 19:48 og mælti m.a.:

 

Ég sem andstæðingur þess að Ísland gangi í Evrópusambandið gæti við venjulegar, hlutlausar óbundnar aðstæður að sjálfsögðu hugsað mér að greiða atkvæði með því að hætta viðræðum um það að fara í burtu frá því. Það væri efnislega sú niðurstaða sem félli að mínum skoðunum um að það sé að breyttu breytanda og að öllu samanlögðu væntanlega ekki hagstætt fyrir Ísland að gerast aðili að því. Það er algjörlega óbreytt skoðun mín, hefur lengi verið og þarf sennilega heilmikið til að hún breytist. ...

Í öðru lagi er það veruleiki og staðreynd, hvað sem menn segja um upphaf þess, að við erum búin að eyða tíma og kröftum í það að ræða við Evrópusambandið og erum langt komin með að láta á það reyna hvers konar samningsniðurstöðu við gætum fengið. Já, það hefur gengið hægar. Já, það voru eftir stórir erfiðir kaflar en engu að síður var farið að sjá fyrir endann á því að við gætum knúið á um niðurstöðu hvað varðar m.a. stór og afdrifarík hagsmunamál eins og landbúnað og sjávarútveg,

 

Ekki var laust við að sums staðar glytti í Gláms augu í orðaskiptum manna á Alþingi þessa daga á miðgóu. Mestöll umræðan bar því ljóst vitni, hversu erfitt er að kveða niður drauga, ekki síst þeim sem hafa vakið þá upp.

 

Hjörleifur Guttormsson


mbl.is Rúmlega 51 þúsund undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Harðar um pólitíska loftfimleika

Nokkur umræða fer nú fram um Evrópustefnu sitjandi ríkisstjórnar og ekki öll mjög hófstillt. Með pólitískum loftfimleikum er því haldið fram að ríkisstjórnarflokkarnir svíki gefin kosningaloforð ef þeir fylgja stefnum og fundasamþykktum flokka sinna og slíta aðildarviðræðum við ESB.

 

Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga voru umræður um aðild að ESB ekki miklar og svolítið ruglingslegar. Vinstriflokkarnir sem hrökkluðust frá völdum eftir að hafa sett allt sitt afl og sína æru í ESB-aðild voru áhugalitlir um þessa umræðu þar sem hún var þeim síst til frama. Hægriflokkarnir tveir sem nú sitja að völdum vonuðust til að halda innan sinnan raða bæði já- og nei-sinnum ESB-málsins og vildu því heldur ekkert um málið tala.

 

Sá sem hér skrifar var í hópi andstæðinga ESB-aðildar sem tefldu fram lista til þess að skerpa á þessari umræðu og standa vörð um fullveldisbaráttuna. Flest komum við úr VG en sá flokkur var þá fyrir löngu genginn í björg heimatrúboðs ESB-sinna. Með því að bjóða upp á kost þar sem enginn afsláttur væri gefinn frá einarðri kröfu um tafarlaus slit ESB-viðræðna töldum við okkur þrýsta á stóru flokkana að hvika ekki frá eigin samþykktum. Það er fljótsagt að við höfðum þar algerlega erindi sem erfiði. Þrátt fyrir hik og margskonar orðagjálfur viku hvorki Framsóknarflokkur né Sjálfstæðisflokkur frá þeim stefnum sem markaðar höfðu verið í grasrótum flokkanna og samþykktar á þingum að aðlögunarferli ESB skyldi stöðvað og það tafarlaust.

  

Sú ríkisstjórn sem nú situr er ekki líkleg til afreka í þágu almennings. Gjafir til handa heimilunum í landinu eru nú framkomnar í ríflegum skenkingum til þeirra heimila sem halda á kvóta í sjávarútvegi. Það eru vissulega fjölskyldur líka og kannski þær einar sem flokkarnir voru samstiga um að fá ættu gjafafé.

En í ESB-málinu voru ríkisstjórnarflokkarnir algerlega samstiga. Það er lágmarkskrafa okkar allra, sem studdum að því að koma hinni óvinsælu ESB-stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur frá völdum, að þeir sem nú ráða standi hér við gefin loforð.

 

Heimild: grein Bjarna Harðarsonar í Mbl. 15. mars s.l.


mbl.is Eiga ekki að hreyfa við ESB-málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Ágústsson: Hvað var Össur að gaufa í Brussel?

Enginn íslenskur ráðherra fyrr eða síðar hefur verið jafn kokhraustur og félagi Össur Skarphéðinsson. Margar myndir og viðtöl eru mér ofarlega í minni frá utanríkis­ráðherratíð hans. Össur var brosandi og glaður og sigurviss á fundunum með þeim stóru í Brussel, hjá Stefáni Füle og félögum.

 

Össur sló gjarnan í neftóbakspontu sína og bauð í nefið á báða bóga og virtist oftast vera að sigra heiminn, með spekingslegum svip. Þó sáust sjónarhorn þar sem sett var ofan í við okkar mann, ekki síst um form viðræðnanna. Ég var orðinn dauðhræddur um að Össur með snilld sinni myndi innlima Ísland í ESB á einu augabragði.

 

Viðræðurnar sjálfar hófust 17. júní 2010 á þjóðhátíðar- og frelsisdegi Íslands. Árni Páll Árnason var sigurviss og sagði að samningur myndi liggja fyrir eigi síðar en 2012 og þá væri hægt að klára málið, bætti hann við, og undir það tóku margir stjórnarliðar og áköfustu ESB-sinnarnir. Þá var komið að þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta stóra mál, einfalt já eða nei. Þetta eru auðvitað svik við ummæli og fyrirheit.

 

Nú væri eðlilegt að Össur Skarphéðinsson og samninganefndin skýrði frá því hvað gerðist í viðræðunum. Hvers vegna drógust þær á langinn? Hvað var Össur að gaufa í Brussel í þrjú ár? Einhvern tíma hefði hann sjálfur talað um reykfyllt bakherbergi og brigður á fyrirheitum. Hvað gerðist, Össur Skarphéðinsson?

 

Hver skrökvar? „Engar undanþágur í kortunum“

 

Í viðauka við skýrslu Hagfræðistofnunar segir Ágúst Þór Árnason við lagadeild Háskólans á Akureyri: „Miðaði hægt í stærstu hagsmunamálum Íslendinga, landbúnaði og sjávarútvegi, jafnvel þótt rík áhersla hafi verið lögð á það af Íslands hálfu að viðræður um þessa kafla hæfust sem fyrst.“

 

Ágúst segir síðan:

„Ekki tókst að opna landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann, hann sigldi í strand áður en hann komst á það stig að hægt væri að ljúka rýniskýrslu um hann og í kjölfarið að hefja viðræður um kaflann.“

 

Svo segir Ágúst Þór þetta: „Ástæðan var sú að Evrópusambandið vildi setja viðmið um opnun hans sem hefði verið óaðgengileg með öllu fyrir Ísland.“

 

Ágúst segir að afleiðingarnar hefðu orðið eftirfarandi ef Össur og félagar hefðu fallist á kröfu ESB: „Þau hefðu falið í sér að Ísland undirgengist áætlun um aðlögun að sjávarútvegsstefnu ESB áður en viðræður hæfust um kaflann.“

 

Þökk sé þeim að ég ætla Jóni Bjarnasyni, Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni, á þetta gátu þeir ekki fallist, hafa sagt hingað og ekki lengra, eða hvað? Össur hins vegar var staðráðinn ESB-sinni, hann sagði í júlí 2009 þetta á Alþingi:

 

„Varðandi þá umræðu sem farið hefur fram um sjávarútveg vil ég segja að ég er sammála formanni Sjálfstæðisflokksins, formanni Framsóknarflokksins og hæstv. fjármálaráðherra um að við munum ekki fá neinar varanlegar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni og ég held því hins vegar fram að við þurfum ekki slíkar undanþágur.“

 

Svo mörg voru þau orð, Samfylkingin ætlaði í ESB hvað sem það kostaði, það ætluðu Vinstri-grænir ekki. Er þeim Steingrími og Ögmundi meira í hug nú að æsa til orrustu á Austurvelli og fylgja viðræðusinnum en skýra frá því að þeir stöðvuðu viðræðurnar af þessum sökum? Með þessa kröfu ESB var ekki hægt að halda lengra. Viðræðurnar voru strand. Ekki að undra að Peter Stano, hægri hönd stækkunarstjórans, hafi flutt nýrri ríkisstjórn skilaboð í júní 2013 með eftirfarandi orðum:

 

„En það er ljóst að þetta getur ekki verið sett á ís að eilífu. Þess vegna þurfum við að fá viðbrögð frá íslenskum stjórnvöldum sem fyrst.“

 

Köllum fram svör við þessari spurningu

 

Það áttu sem sé engar viðræður, hvað þá samningaviðræður, að eiga sér stað um sjávarútveginn! Hvað þá um landhelgina sem barist var fyrir á síðustu öld með blóði, svita og tárum, stærstu sigra í sögu Íslands? Nú bið ég Össur Skarphéðinsson og þá Steingrím J. Sigfússon og Ögmund Jónasson að skýra frá því hvort þessi úttekt Ágústs Þórs Árnasonar sé samkvæmt staðreyndum.

 

Þeir hinir tveir síðarnefndu stefndu flokki sínum út í viðræðurnar til að fá upp á borðið rökin og staðreyndirnar, sögðu þeir. Og báðir andvígir aðild að ESB. Jafnframt bið ég þá sem leiddu samningateymin, formanninn Stefán Hauk Jóhannesson og fyrrverandi forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra Íslands, Þorstein Pálsson, að svara þessari stóru spurningu einnig.

 

Guðni Ágústsson

 

Heimild: grein í Mbl. 12. mars s.l.


mbl.is Samfylkingin heldur flokksstjórnarfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Bjarnason: Þeir sem vildu kíkja í pakkann hafa fengið sín svör

Forystumenn fyrri stjórnar máttu ekki heyra það nefnt að þjóðin greiddi atkvæði um hvort sótt yrði um aðild að ESB. Á það minnir Jón Bjarnason í eftirfarandi pistli, en honum var hótað brottrekstri úr ríkisstjórn þegar hann krafðist þjóðaratkvæðis.

Það er fróðlegt að hlusta nú á málflutning  á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðna. Ég minnist vordaganna 2009 á Alþingi þegar umsóknin um aðild að ESB var á dagskrá og þröngvað í gegnum þingið. Forystumenn þáverandi ríkisstjórnarflokka , Samfylkingar og Vinstri grænna  lögðust afdráttarlaust gegn því að þjóðin yrði fyrst spurð, þegar aðildarumsóknin var til umfjöllunar á Alþingi. Ég var yfirlýstur andstæðingur umsóknarinnar og sagðist myndi greiða atkvæði gegn umsóknartillögunni. Það hafði legið fyrir frá myndun ríkisstjórnar.

Þegar  fram kom tillaga um að þjóðin yrði spurð áður en sótt væri um studdi ég þá tillögu og lýsti því yfir á þingflokksfundi.  Enda var það í samræmi við þá yfirlýsingu, að hver þingmaður færi eftir sinni sannfæringu í þessu máli utan þings sem innan, eins og formaðurinn orðaði það í atkvæðaskýringu sinni. Fyrir atkvæðagreiðsluna voru haldnir neyðarfundir í stjórnarþingflokkunum, þegar ljóst var að mögulega nyti tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu meirihlutastuðnings á Alþingi.

Forystulið beggja ríkisstjórnarflokkanna lagðist afar hart gegn þjóðaratkvæðagreiðslu þá. Forysta VG var þá  nýbúin að ganga á bak orða sinna um andstöðu við aðildumsókn í aðdraganda kosninga, enda gekk sú ákvörðun  þvert á stefnu flokksins. Var því haldið fram að yrði farið þá  í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um, færi  stjórnarsamstarfið  samstundis út um þúfur. Samfylkingin, sem hafði ESB umsókn  þá sem fyrr og síðar sem sitt eina mál leit á það sem stjórnarslit ef þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu yrði samþykkt á Alþingi. Hún hafði áður látið steyta á aðildarumsókn í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar kom svo í fréttum að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu nyti stuðnings hóps þingmanna  Vinstri grænna og gæti orðið samþykkt fylltust öll herbergi þinghússins af reyk. Á þingflokksfundi VG um málið var stemmingin þrungin og þegar ég sagðist myndi styðja þjóðaratkvæðagreiðslu, féll sú ákvörðun vægast sagt í mjög grýttan jarðveg. Var mér þá einfaldlega hótað  brottrekstri úr ríkisstjórn af formönnum beggja stjórnarflokkanna. Eða eins og formaður Vg orðaði það, þá var mér ætlað að ganga á fund forsætisráðherra.

Ögmundur Jónasson, sem  lagði mikið  í sölurnar fyrir myndun fyrrverandi  ríkisstjórnar, stóð þá upp og tilkynnti að  ef Jón Bjarnason ætti að ganga með höfuð sitt á fati til forsætisráðherra þá myndi heilbrigðisráðherra ganga sömu leið. Alkunna var að forsætisráðherra tók einstaka þingmenn undir vegg  fyrir atkvæðagreiðsluna eða  gekk á milli sæta í þingsal.  Var þó búið að samþykkja áður  að umsókn að ESB væri ekki ríkisstjórnarmál og hver og einn þingmaður talaði fyrir og greiddi atkvæði í þeim málum samkvæmt sannfæringu sinni.

Þeir sem vildu kíkja í pakkann hafa fengið sín svör.  Framhjá Maastrichtsáttmála, Lissabonsáttmála, Kaupmannahafnaviðum, lögum og reglum ESB  verður ekki gengið.  Ísland verður að taka yfir öll skilyrði Evrópusambandsins refjalaust.

Það er því dapurt að horfa á þingmenn Vg halda hverja ræðuna á fætur annarri um áframhald  aðlögunarsamninga við ESB,  viðræður, sem þeir vita að voru löngu komnir í strand. Kröfur ESB um forræði í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum  sem og  samningum við önnur ríki einar sér ganga þvert á þá fyrirvara sem Alþingi setti 2009.


mbl.is Krafist refsiaðgerða gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB hafnar samvinnu við Íslendinga um makríl

Óvæntur samningur ESB við Norðmenn og Færeyinga um makrílveiðar á fundi, sem fulltrúar Íslendinga voru ekki boðaðir á, sýnir þá áráttu ESB að reyna að deila og drottna yfir fiskveiðum í Norður Atlantshafi. En þeir um það! Við veiðum þá það magn sem við teljum henta við þessar aðstæður.

 

Fréttir af því hvað gerðist á þessum leynifundi ESB með Norðmönnum og Færeyingum eru mjög misvísandi. Norðmenn hafa ekki alltaf hugsað hlýtt til okkar Íslendinga þegar þeir eru að gæta sinna hagsmuna. En það er ekki aðalatriði málsins.

 

Það sem gerðist á fundinum í London í gær er fyrst og fremst endurtekning á því  ofríki sem ESB hefur sýnt okkur Íslendingum í þessu makrílmáli fyrr og síðar. Ár eftir ár reyndi ESB að þvinga Íslendinga til að afsala sér öllum veiðum á makríl í eigin lögsögu, og lengi vel vildu þeir ekki einu sinni ræða við okkur um veiðarnar. Okkar mönnum var beinlínis meinað fyrir nokkrum árum að senda fulltrúa á fundi ESB þar sem fjallað var um makrílveiðar í Norður Atlantshafi.

 

Hafrannsóknir hafa sýnt að langstærstur hluti veiðistofnsins heldur sig á Íslandsmiðum á sumrin. Við höfum því haldið áfram veiðum á makríl í trássi við hótanir og ofríki ESB vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa valdið til að stjórna veiðum hér við land og vegna þess að Íslendingar hafa haft vit á því að afsala sér ekki þeim rétti eins og vera myndi ef Ísland gengi í ESB. Fá mál sýna eins ljóslifandi og makrílmálið, hvílíkt glapræði það væri fyrir Íslendinga að afsala sér samningsréttinum við önnur ríki um fiskveiðar til kommissara ESB. - RA


mbl.is Segir að Noregur hafi aldrei ætlað að semja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkel heimtar stóraukinn áróður meðal skólabarna fyrir ágæti ESB

Nýjasta fyrirætlun helstu forkólfa ESB minnir ekki síst á páfabréfin sem bárust til kaþólskra þjóðhöfðingja fyrr á öldum frá Róm með ósk um að enn meiri trúaráróðri væri troðið í höfuð æskufólks. Munurinn er sá að í stað guðsríkis er nú komið: hið...

Langdregið dauðastríð og óhuggandi ástvinir við banabeðið

Hin dauðvona hefur legið á banabeðinu í rúmt ár. Hún var lögð til hvíldar í ársbyrjun 2013 og á vormánuðum seinasta árs lá fyrir að henni yrði ekki hugað líf. Aðstandendur og ástvinir hafa grátið sáran og þó aldrei jafn ákaft og nú enda virðast þeir...

The Economist um lýðræðishallann í Evrópusambandinu

Í síðasta hefti tímaritsins The Economist (1. - 7. mars) er að finna ítarlega grein um hrörnun lýðræðis víða um heim að undanförnu. Fyrirsögnin er What´s gone wrong with democracy? Hvað hefur komið fyrir lýðræðið? The Economist er blað sem seint verður...

Ögmundi hugnast ekki að Brussel-fingur haldi um alla þræði samfélagsins

Ef menn vilji kíkja í pakkann, eins og sagt er, liggur beinast við að skoða sáttmála Lissabon-sáttamálann. Sá pakki liggi fyrir og er hægt að skoða, segir Ögmundur Jónasson alþingismaður í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar segir hann: „Kunningi...

Í makríldeilunni sést hvað best, hve skaðleg innganga í ESB væri

Sjálfstæður réttur okkar til samninga við aðrar þjóðir um fiskveiði glatast við inngöngu í ESB. Þá stjórnar ESB því hvað kemur í okkar hlut og tekjur landsmanna af makrílveiðum yrðu aðeins brot af því sem nú er. Mikilvægi fullveldisréttar þjóðarinnar...

Leiðtogar ESB hafa afneitað óskum Íslendinga um varanlegar undanþágur

ESB-sinnar reyna þessa dagana að hanga í því hálmstrái að þjóðin vilji fá að vita hvaða undanþágur séu í boði í sjávarútvegsmálum. Þó liggur ljóst fyrir að ráðamenn í ESB hafa oft gefið a.m.k. munnleg svör hvað þetta varðar, svo og almennar yfirlýsingar....

Jón Bjarnason: Umsóknin var skilyrt af Alþingi

Samningaviðræður við ESB eru stopp. ESB neitar að opna á viðræður um landbúnað og sjávarútveg. Fyrirvari og kröfur Íslendinga um fullt forræði yfir fiskimiðunum er algjörlega óaðgengilegt fyrir ESB. Þeir fyrirvarar Íslands eru bundnir í samþykktum...

Evrusvæðið, draumaland ESB-sinna, er einn dýpsti atvinnuleysispyttur heims

Um 12% prósenta atvinnuleysi hefur verið á evrusvæðinu undanfarna mánuði. Hagvöxtur þar er nánast enginn og svæðið í efnahagslegu frosti. Á Íslandi hefur árstíðaleiðrétt atvinnuleysi verið um 5-6% undanfarna mánuði. Hagvöxtur var enginn í Finnlandi á...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband