Lega Íslands og ríkulegar auðlindir trygging til framtíðar

Vorið 1988 kaus Alþingi 9 alþingismenn í Evrópustefnunefnd „til þess að taka til sérstakrar athugunar þá þróun sem fyrir dyrum stendur í Evrópu, einkum með tilliti til ákvörðunar Evrópubandalagsins um sameiginlegan innri markað.“

 

Nefnd þessi starfaði ötullega til vors 1990 og gaf út sjö rit um samskipti Íslands við aðrar Evrópuþjóðir, það síðasta sem áfangaskýrslu til Alþingis. Í lok sama árs gaf Alþingi út rit nefndarinnar í heild undir heitinu Ísland og Evrópa. Formaður nefndarinnar var í upphafi Kjartan Jóhannsson, uns hann var skipaður sendiherra sumarið 1989, en þá tók við formennskunni Eyjólfur Konráð Jónsson. Í sameiginlegu áliti nefndarinnar til Alþingis sagði í upphafi:

 

Enginn íslensku stjórnmálaflokkanna hefur á stefnuskrá sinni aðild að Evrópubandalaginu. Sumir flokkanna orða það svo í stefnuyfirlýsingum sínum og samþykktum að umsókn um aðild sé ekki á dagskrá. Aðrir kveða svo að orði að aðild komi ekki til greina.

 

Ég átti sæti í þessari nefnd og var jafnframt fulltrúi í Norðurlandaráði, þar sem samskiptin við þáverandi EB voru ofarlega á dagskrá, ekki síst eftir útspil Jacques Delors og Gro Harlem Brundtland um Evrópskt efnahagssvæði sem einskonar millileik. Sameiginlegu áfangaáliti nefndar Alþingis fylgdu sérálit einstakra nefndarmanna, þar á meðal álit mitt sem bar yfirskriftina Íslensk leið í samskiptum við umheiminn. Ég hef síðan fylgst með þróun þessara mála, á vettvangi Alþingis og EFTA til aldamóta, og eftir það sem áhugamaður.

 

Í öllum meginatriðum er ég enn sömu skoðunar og fyrir aldarfjórðungi og læt hér fylgja upphafið að álitsgerð minni frá 1990 sem bar fyrirsögnina Samskipti til allra átta.

 

„Íslendingar standa nú [þ.e. 1990] frammi fyrir því að velja um leiðir í samskiptum við umheiminn. Það val getur orðið afar afdrifaríkt og skipt sköpum um sjálfstæði þjóðarinnar og lífskjör í landinu um langa framtíð. Kostirnir sem við blasa eru í aðalatriðum tvenns konar:

 

1. Að tengjast Evrópubandalaginu [nú Evróusambandinu] í gegnum evrópskt efnahagssvæði eða með beinum hætti innan tíðar.

 

2. Að halda óháðri stöðu gagnvart efnahagsbandalögum en leita sem hagstæðastra samninga við slík bandalög í Evrópu, Norður-Ameríku, Austur-Asíu og víðar.

 

Skoðun undirritaðs er sú að tvímælalaust eigi að velja síðari kostinn þar eð með því haldi þjóðin sjálfsákvörðunarrétti sínum og æskilegum sveigjnleika í utanríkisviðskiptum og öðrum samskiptum til langrar framtíðar. Færa má fyrir því gild rök að Ísland óháð viðskiptabandalögum sé langtum betur sett en með því að verða jaðarsvæði í evrópsku efnahagsbandalagi.

 

Ísland er á margan hátt í öðruvísi stöðu landfræðilega, viðskiptalega og menningarlega en önnur Norðurlönd, að ekki sé talað um gamalgróin iðnríki Vestur-Evrópu. Landfræðileg staða okkar getur gagnast þjóðinni í samskiptum til margra átta. Landið er miðlægt á Norður-Atlantshafi, í þjóðbraut til austurs og vesturs, en liggur einnig vel við vaxandi samskiptum milli Evrópu og Austur-Asíu um norðurheimsskautið.

 

Ef við höldum þétt utan um náttúruauðlindir okkar til lands og sjávar og verndum umhverfið fyrir mengun og ofnýtingu er unnt að halda hér uppi lífskjörum til jafns við það sem best gerist annars staðar.

Við eigum að leita eftir samningum við bandalög og einstök ríki um friverslun og félagsleg og menningarleg samskipti. Við eigum að aðlaga okkur breytingum í heimsviðskiptum og leita sem bestra samskipta við rísandi Evrópustórveldi og keppinauta þess í Norður-Ameríku og Austur-Asíu.

 

Möguleikar á að ná slíkum samningum og þróa gagnkvæm samskipti verða að teljast góðir. Vegna sérstöðu sinnar og af sögulegum og landfræðilegum ástæðum njóta Íslendingar athygli og víðtæks velvilja víða um heim. Þessi viðhorf verða ekki skýrð út frá efnahagslegum forsendum eða með þýðingu samskipta við landið. Þau geta engu að síður vegið þungt þegar leitað er eftir samvinnu af okkar hálfu við aðrar þjóðir.Óháð staða landsins með tilliti til viðskiptabandalaga felur þannig í sér marga mjög góða kosti.“

 

Á eftir fylgdi í álitinu nánari röksemdafærsla fyrir þessum meginsjónarmiðum. Þar var m.a. tekið fram að EES-grundvöllurinn væri óaðgengilegur. Einnig þau sjónarmið tel ég að hafi staðist tímans tönn og að stefna beri að því að ná fram breytingum á þeim samningi fyrr en seinna, etv. yfir í tvíhliða form á samskiptum Íslands við ESB. Aðalatriðið í bráð er þó að hætta áformum um aðild að ESB, eins og samstaða var um 1990, en tryggja áframhaldandi góð samskipti við þann volduga granna.

 

Hjörleifur Guttormsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég er sammála þessu stöðumati og tel líka, að það hafi staðizt tímans tönn.  Fyrirvara geri ég um afstöðuna til EES.  Tek þó undir, að það er meingallað, en spurningin er, hvort sams konar aðgengi að mörkuðum ESB er í boði með tvíhliða samningum.  Svisslendingar láta sér lynda tvíhliða samning.  Ef slíkur stendur Íslandi til boða, ætti hann að duga okkur líka.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 31.3.2014 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband