Frá henni Aþenu þar sem allir hafa bein að naga

Bloggari dagsins var svo lánsamur að komast til hinnar fögru Aþenu í nokkra daga nú í vor. Þar í heitri sól sat ég og kom mér ekki til þess að venja mig af kaffidrykkkju þó ekki væri nú á hitann bætandi. Bollinn kostaði frá tveimur og upp fimm evrur eða 300 til 800 krónur íslenskar. Um tíma var ég farinn að skima eftir hvort ég ekki sæi þarna þægilegt lókal sem hægt væri að flytja í með það kaffihús sem ég nú rek á Selfossi,- þó ekki væri nema útibú. En var svo afhuga því þegar leið á daginn og hitinn í loftinu farinn að verka á mig sem refsinorn en ekki guðsgjöf.

P6110316

En eftir Grikklandsferð þessa er ég oftar en ekki spurður að því hér heima hvort ástandið þarna sé ekki ægilegt, hvort þarna sé ekki voðaleg fátækt og neyð. Ég er auðvitað ekki réttur maður til að leggja mat á það eftir viku dvöl í höfuðborginni og hefi þar að auki nokkuð annarlega mælikvarða við að styðjast. Þau lönd sem ég hef helst sótt heim á undanförnum árum eru í Suður Ameríku, Afríku og Asíu og það er ekkert í Grikklandi sem minnir á þá raunverulegu sáru fátækt sem blasir við á hverju götuhorni í Perú, Pakistan og henni Abyssiníu.

Í úthverfum og svefnbæjum nærri höfuðborginni Aþenu getur vissulega að líta auð hús, draslaragang og brotna drauma þar sem fínni íbúðablokk hefur verið breytt í partasölu og húsgarði í ruslahaug. Gluggahlerar eru yfir vertshúsum sem fyrir fáum misserum voru byggð upp en allt er þetta lítið meira en sjá má hér heima. Atvinnuleysið sem rís nú hæstu hæðum sést ekki á götuhornum og matargjafir líkar þeim sem tíðkast í Reykjavík eru hvorki þar né hér fyrir augum ferðamanna.

Um daginn þegar ég var að nöldra yfir alþjóðakapítalismanum og áhrifum hans á Miðjarðarhafslöndin sendi einn vina minna, Egill Helgason, mér svohljóðandi línu á fésbókarvegg:

Einhvern veginn held ég að frjálshyggjukapítalsmi ESB hafi ekki verið vandamálið í Grikklandi. Tala þar af nokkurri reynslu. Allt styrktarféð sem dælt hefur verið inn í Grikkland frá ESB telst tæplega vera frjálshyggja. Ég mun til dæmis næstu vikurnar dvelja í húsi á grískri eyju sem er byggt fyrir fé frá ESB, til að efla hlut kvenna á jaðarsvæðum.

Við Egill sjáum það líkt að á Grikklandi ríkir ekki hin sárasta hungursneyð en um frjálshyggjukapítalismann verð ég að vera honum ósammála. Það er einmitt maskína kapítalismans sem er á góðri leið með að rústa Grikklandi en sá hernaður er framkvæmdur með eins litlum sársauka fyrir fórnarlambið og hugsast getur. Þannig gengur kapítalsimanum betur að vinna sitt verk. Allskonar sjóðir og átaksverkefni ESB byggja samhliða upp mismerkileg setur sem sum eru til að efla hlut kvenna á jaðarsvæðum en önnur til rannsókna á tannheilsu gamalmenna í Jóníska hafinu. Þessi vænu styrktarverkefni eru rækilega prýdd merki ESB og frá því batteríi kemur allt gott sem gerist enda aðrir vanmegnugir.

Kaffivertinn minn í Aþenu varpaði á þetta allt saman ljósi sem hefur verið mér til hugrenninga síðan. Við vorum að tala um atvinnuleysið og allan þann fjölda Grikkja sem býr við óöryggi í heilsugæslu og félagslegri þjónustu.

En það hafa allir að éta og mamma Merkel sér um okkur. Allavega á meðan þeir þýsku eru að kaupa hér allt upp og draga til sín allt það besta. Hvað verður svo vitum við ekki.

Þessi þýðing á orðum míns gríska starfsbróður er reyndar ögn frjálsleg þar sem hann talaði til skiptis um Þýsku mömmu og Angelu Merkel með blandi af fyrirlitningu og aðdáun.

Í einhverjum undarlegheitum og kannski bara af sólsting varð mér næst hugsað til Bíldudals. Þar er ekki að sjá neina neyð umfram það sem sjá má í öðrum plássum á Íslandi. Líkt og á Selfossi og Aþenu aka menn þar um á bílum og sleikja ís í sólinni.

Í eina tíð var Bíldudalur stjarna í menningar- og atvinnulífi landsmanna, sól sem horft var til og þaðan komu afburðamenn. Nú er Vestfjarðakjálkinn allur svæði sem við efumst stundum um að lifi út öldina vegna þess hvernig fólki fækkar þar ár frá ári. Og samt er þar engin sérstök neyð hjá þeim sem þar búa. Hagkerfið er bara þannig samsett að allt sogast suður að einni miðju sem er við útnes í sunnanverðum Faxaflóa. Verðmætin verða til í plássum eins og Vestmannaeyjum, Þórshöfn og Bíldudal en gróðinn lendir allur fyrir sunnan. Þetta veit hvert mannsbarn og örfáir byggðastyrkir breyta þar engu um.

Í eina tíð var Aþena háborg Evrópu en nú er hún útkjálki. Með því að gangast evrunni á hönd hafa ríki Miðjarðarhafsins gert sig enn frekar að útkjálkum fyrir norðlæg mýrarlönd Barbara sem tekið hafa mulningsvél frjálshyggjunnar í sína þjónustu. En eins og hjá góðum doktorum er reynt að láta viðfangið ekki þjást og þessvegna eru byggð femínísk hús á eyju og þýska mamma sér um að allir hafi bein að naga í sólinni.

-b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sannarlega skemmtilegur og vel skrifadur pistill.

Jónatan Karlsson, 25.6.2013 kl. 02:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband