Áróðursmeistarar ESB-sinna miða við nafnvexti ekki raunvexti

Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði, benti nýlega á að þegar rætt er um langtímalán til íbúðakaupa sé réttara að miða við raunvexti en ekki nafnvexti, eins og áróðursmeistarar Samfylkingarinnar gerðu óspart í kosningabaráttunni með Árna Pál í broddi fylkingar.

 

Í seinni tíð er það ein helsta áróðursaðferð ESB-sinna að ræða um háa vexti á Íslandi því til sönnunar að Íslendingar þurfi að ganga í ESB og taka upp evru. Vissulega hafa nafnvextir verið háir hér á landi en raunvextir hins vegar ekki. Nú fyrir skemmstu sýndi Haraldur Ólafsson fram á í rökfastri grein í Fréttablaðinu  sem bar heitið „Írinn borgar þrjár íbúðir en Íslendingurinn tvær“ að þeir Íslendingar sem tekið hafa óverðtryggð lán undanfarin ár hefðu í reynd borgað minna fyrir húsnæðislánin en ýmsir aðrir íbúar Evrópu. Miðað við vexti Arionbanka og Írlandsbanka og verðbólguþróun væru Írar að borga helmingi meira að raungildi en Íslendingar. Grein Haralds veðurfræðings var svohljóðandi:

 

„Fáar þjóðsögur eru lífseigari en sú að lánsfé sé óhemju dýrt á Íslandi, nema ef vera skyldi sú saga að með innlimun landsins í Evrópusambandið opnist flóðgáttir ódýrra peninga sem rigna muni yfir Íslendinga. Viðskiptablaðið hefur eftir ummæli Björgvins G. Sigurðssonar á Alþingi 13. mars sl. um að Íslendingar greiði sem nemur aukaíbúð umfram aðra í formi hárra vaxta. Í Fréttablaðinu 10. apríl segir Magnús Orri Schram að Íslendingar borgi miklu meira fyrir íbúðir en aðrir. Ekki ósvipað stef kveður Mörður Árnason í Fréttablaðinu 18. apríl og margir aðrir hafa haft svipuð orð, oft í sama mund og vistin í Evrópusambandinu er lofuð og prísuð.

 

Raunvextir  mæla verð á lánsfé, en það eru vextir að frádreginni verðbólgu. 7% vextir í 5% verðbólgu samsvara nærri 2% raunvöxtum. Fáir mundu telja slíkt leiguverð á peningum tilefni til sárra kvartana, þótt einhverjum gæti þótt 7% hátt hlutfall við fyrstu sýn. Miðað við verðbólgu 2012 og lán með föstum vöxtum til 5 ára í Arion banka eru raunvextir húsnæðisláns á Íslandi 2,3%. Í því evrulandi sem næst okkur er, Írlandi, eru raunvextir húsnæðislána í Írlandsbanka reiknaðir með sama hætti 3,6%. Að gefnum þessum forsendum óbreyttum og eins að tekið sé kúlulán fyrir öllu kaupverðinu má segja til samræmis við það orðfæri sem nú er vinsælt að eftir 30 ár borgi Íslendingurinn tæpar tvær íbúðir en Írinn tæpar þrjár íbúðir. Ekkert segir þó að þessi munur geti ekki breyst í hvora áttina sem er. Eins má vafalaust finna staði í Evrópu þar sem kjörin eru ýmist lakari eða betri fyrir lántaka en í Írlandsbanka.

 

Íslendingar sem tekið hafa óverðtryggð lán hafa undanfarin ár borgað ívið minna fyrir húsnæðislán en ýmsir aðrir íbúar Evrópu, en það hefur ekki alltaf verið þannig. Raunvextir á Íslandi hafa oft verið 1-2 prósentustigum hærri en í nágrannalöndunum. Það ætti ekki að koma á óvart. Vextir ráðast m.a. af aldri einstaklinga í samfélaginu og vilja til sparnaðar, en hvorugt vinnur með lágum vöxtum á Íslandi. Ekki er á hinn bóginn augljóst samhengi milli stærðar myntsvæða og raunvaxta, enda eru raunvextir ekki bara breytilegir í tíma heldur líka milli landa á sama myntsvæði og jafnvel milli hreppa í sama landi. Eins er peningur misdýr eftir því hver lánar. Það þekkja þeir sem flutt hafa viðskipti sín milli banka eða sjóða á Íslandi. Einhvern tímann gæti sú staða komið upp að verð á lánsfé verði hátt á Íslandi, svo hátt að menn vilji grípa í taumana. Þá eru hæg heimatökin, því til er kerfi vaxtabóta og fjármagnstekjuskatts sem stilla má með einu pennastriki. Nú þegar er það kerfi reyndar keyrt á fullu þrátt fyrir að raunvextir séu lágir.

 

Nú er það svo að fyrrnefndir frambjóðendur sem tóku til máls um verð á lánsfé eru sómamenn, enda hafa þeir allir gefið kost á sér til að sinna fremur vanþakklátum þjónustustörfum fyrir þjóðina. Skiljanlega hafa þeir ekki haft tækifæri til að fara yfir skrýtnar vaxtatölur sem sveima um í umræðunni eins og draugar að nóttu. Þeim gefst vonandi góður tími til þess eftir kosningar.

 

Aðrir ákafamenn um innlimun Íslands í Evrópusambandið ættu svo að leita að öðrum og betri rökum en að með aðild Íslands komi miklir og ódýrir leigupeningar. Sú leit gæti reynst erfið og þá er hægast að hætta henni og snúa sér að þarfari málum. Það yrði auðvitað best fyrir alla.“

 

Pistill Haraldar Ólafssonar um vaxtamál voru orð í tíma töluð. Það er með miklum ólíkindum hve sjaldan er talað um þau mál hér á landi af rökhugsun og skynsemi. Raunvextir og nafnvextir eru tvennt gjörólíkt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Svokölluð ,,vinstri" vakt gegn ESB ætti nú ekki að beina þessu til ESB. Miklu frekar að beina þessu til td. Hagsmunasamtaka Heimilanna, Framsóknarflokksins, Haldórs í Holti, Ólafs Arnarssonar og so videre. Ræða við þá hve góð kjör þeir eru í raun með.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.5.2013 kl. 15:07

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Samkvæmt þessari rökfræði, þá eru raunvextir á íbúðarlánum innan evrusvæðisins í kringum 0,2 til 1% í flestum aðildarríkjum. Þar sem stýrivextir eru 0,5% og verðbólgan er oft í kringum 1 til 3% innan evrusvæðisins.

Á Íslandi eru raunvextir því á húsnæðislánum í kringum 4 til 6% eftir tímabilum (óverðtryggðum), þar sem stýrvextir eru í kringum 6% og verðbólgan er frá 3 til 10% eftir tímabilum (sveiflast mjög mikið).

Hvernig getur það verið betra fyrir almenning á Íslandi að vera með gjaldmiðil sem er sjúkur af verðbólgu og gengsfalli? Enginn ESB andstæðingur hefur ennþá svarað þessari spurningu svo ég viti til. Það er kominn tími til þess að það verði gert.

Jón Frímann Jónsson, 12.5.2013 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband