Í draumalandi Össurar er atvinnuleysið tæp 12% en í föðurlandi hans 4,5%

Þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur, segir gamalt og torskilið máltæki. Á evrusvæðinu, draumalandinu þar sem Össur og Jóhanna vilja innlima okkur, er atvinnuleysi enn að aukast og var 11,7% í okt. s.l. En hér í landi bankahruns og krónu er atvinnuleysið um 1/3 af því sem þar er.

 

Hagstofa ESB, Eurostat birti nýjustu tölur um atvinnuleysi s.l. föstudag 30. nóv. Ástandið versnar jafnt og þétt  bæði í ESB og á evrusvæðinu, einkum í suðurhluta Evrópu. Alls bættust 204.000 manns við á atvinnuleysisskrá í ESB-löndunum 27 í október og hlutfallið fór þar í 10,7% eða 25,9 milljónir manna.

 

 Í evru-ríkjunum 17 er atvinnuleysið enn meira eða 11,7%, hið mesta sem mælst hefur síðan evran kom til sögunnar árið 2002. Alls eru 18,7 milljónir manna atvinnulausir á evru-svæðinu, fjöldinn jókst um 173.000 í október, atvinnulausum hefur fjölgað í ríkjunum 17 um 2,2 milljónir manna á einu ári.

 

Á evru-svæðinu eru 3,6 milljónir manna undir 25 ára aldri án atvinnu, það er 23,9% af öllum á þeim á aldri. Í Grikklandi og á Spáni er hlutfallið yfir 55% meðal þessa aldurshóps. Mest er atvinnuleysið á Spáni, en þar voru alls 26,2% án atvinnu í október en 25,4% í Grikklandi.

 

Hins vegar hefur mikið dregið úr atvinnuleysi á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd og er það víðast hvar meira en á Íslandi.

 

Þetta kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Þrátt fyrir að atvinnuleysi hér á landi sé hátt í sögulegu samhengi þá var það í lægri kantinum hér af þeim 29 löndum Evrópu sem birtar eru upplýsingar um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er margoft búið að hrekja þetta.

Í mörgum ESB-löndum, sérstaklega evrulöndum, er atvinnuleysi lítið þrátt fyrir kreppu. Meðaltöl skipta engu máli nema fyrir þau lönd sem lyfta upp meðaltalinu. Mest atvinnuleysi í Evrópu er í þrem löndun utan ESB.

ESB-aðild er hugsuð til langrar framtíðar. Atvinnuleysi í dag í miðri kreppu skiptir engu máli. Mælir Vinstrivaktin kannski með að næst þegar atvinnuleysi á Íslandi verður meira en meðaltalið í evrulöndum að þá gangi Ísland í ESB?

Ávinningurinn með ESB-aðild hefur ekkert með atvinnuleysi að gera í augnablikinu. Með versnandi efnahagsástandi er hættan vegna ónýtrar krónu enn meiri en ella. Það er því ekki til setunnar boðið. 

Vissulega mun versnandi efnahagsástand í Evrópu hafa áhrif hér. En það gerist hvort sem við erum í ESB eða ekki. Í ESB erum við hins vegar betur varin gegn áföllum.

Við höfum ekki efni á að vera í afneitun.

Ásmundur (IP-tala skráð) 10.12.2012 kl. 20:17

2 identicon

Tengsl Vinstrivaktarinnar við VG hafa virst lítil enda hefur Vinstrivaktin barist heiftúðuglega gegn forystu flokksins sem nýtur yfirgnæfandi meirihluta stuðnings kjósenda hans.

Tengsl Vinstrivaktarinnar við Heimsýn hafa virst þeim mun nánari og  meiri. Heimssýn hefur nú lýst því yfir að verkefni vetrarins sé að minnka fylgi VG niður fyrir 5% svo að flokkurinn falli af þingi í vor.

http://heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/entry/1272014/?fb=1

Heimssýn hefur þróast út í hægri öfgahóp sem minnir um margt á bandarísku Teboðshreyfinguna. Rasistar hafa jafnvel verið boðnir þar velkomnir enda eru þeir miklir ESB-andstæðingar og auk þess hægri öfgahópur.

Styður Vinstrivaktin það verkefni Heimssýnar að minnka fylgi VG niður fyrir 5% til að koma flokknum af þingi? Ætlar Vinstrivaktin að styðja þessi hægri öfgaöfl áfram?

Ásmundur (IP-tala skráð) 10.12.2012 kl. 20:57

3 identicon

Þetta er náttúrulega skelfilegt. Atvinnuleysi ESB landanna eykst bara og eykst. Skuldir aukast og aukast og líkurnar á því að það takist að snúa við blaðinu minnka og minnka.

Góðu fréttirnar fyrir ESB liða, er að ástandið í Zimbabwe ku enn vera verra en í ESB. Mundi kemur til með að mjólka þá staðreynd duglega.

Hilmar (IP-tala skráð) 10.12.2012 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband