Hvers vegna mótmæla ekki Össur og Steingrímur hótunum ESB?
6.7.2012 | 12:10
Linkuleg viðbrögð ráðherranna við hótunum ESB um refsiaðgerðir vegna makrílveiða Íslendinga í eigin lögsögu vekja furðu og hneykslun. Viðbrögð þeirra snúast einkum um það hvort hætta sé á að makríldeilan skemmi eitthvað fyrir aðildarumsókninni.
Hótanir erlendra manna um löndunarbann á íslenskan fisk hafa ekki heyrst síðan í þorskastríðunum fyrir bráðum hálfri öld. Þá var þeim mætt með rökfestu og eindrægni af hálfu íslenskra ráðamanna sem létu ekki vaða yfir sig, jafnvel þótt herskip væru send á Íslandsmið til að reyna að þvinga landsmenn til hlýðni. Íslendingar höfðu sitt fram með þolinmæði og festu og færðu landhelgina út í mörgum áföngum, fyrst í 4 mílur, síðan 12, síðan 50 og loks 200 mílur.
Nú er öldin önnur. Þrátt fyrir grófar og grímulausar hótanir um löndunarbann og viðskiptahömlur heyrist ekki svo mikið sem tíst í utanríkisráðherranum sem þó á að gegna því aðalstarfi að rökstyðja málstað okkar erlendis. Össur hefur hvorki haft uppi mótmæli af neinu tagi né sýnt nokkra viðleitni til að útskýra málstað okkar á erlendum vettvangi.
Þess í stað eru ráðherrarnir að fimbulfamba um það fram og aftur og draga það í efa, sem lengi hefur blasað við öllum, að leiðtogar ESB ætla sér að tengja saman makríldeiluna og aðildarumsóknina í þeim tilgangi að þvinga Íslendinga til að fórna gríðarlegum hagsmunum sínum í makrílveiðum í skiptum fyrir greiðari inngöngu í ESB, enda gera leiðtogarnir sér ljóst að bæði hjá forsætis- og utanríkisráðherra Íslands kemst fátt annað að en draumurinn um að sitja við háborðið í Brussel.
Formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, hefur einnig fátt til málanna að leggja í fjölmiðlum annað en innantómar vangaveltur um hvort ESB ætli eða ætli ekki að tengja saman aðildarumsóknina og makrílveiðarnar. Auðvitað er það skylda Árna Þórs að kalla saman utanríkismálanefnd Alþingis til að mótmæla ósvífni og yfirgangi ESB í okkar garð og til að undirbúa tillögu til þingsályktunar um hótanir ESB sem lögð yrði fyrir Alþingi þegar það kemur aftur saman.
En það er lítil von til að Árni Þór sjái sóma sinn í því að standa í lappirnar í þessu máli því að hann dregur beinlínis í efa að hótanir ESB séu hótanir. Samt liggur fyrir formleg niðurstaða milli ráðherraráðs ESB og ESB-þingsins um refsiaðgerðir þar sem meðal annars eru eftirfarandi úrræði tilgreind:
1) Innflutningshöft á fiski frá viðkomandi landi úr sameiginlegum fiskistofnum ESB og á tengdum tegundum.
2) Hafnbann í ESB ríkjum á skip sem bera flagg ríkis sem heimilar veiðar í sameiginlegum fiskisstofnum ESB eða tengdum tegundum.
3) Takmarkanir á ferðum skipa um ESB-hafnir.
Árni kemst hins vegar svo að orði í viðtali við Morgunblaðið í gær: Ég veit ekki hvort það á að kalla þetta hótanir en sambandið er auðvitað að nota þetta mál til að beita þrýstingi á eitt mál til að fá lausn í öðru. Árni Þór neitar sem sagt að horfast í augu við staðreyndir.
Hvað hefur svo Steingrímur Sigfússon aðhafst til að leggja aukinn þunga á réttmæta hagsmuni Íslendinga í þessu máli sem jafnframt eru fullkomlega löglegir samkvæmt alþjóðalögum. Notaði hann tækifærið meðan sjávarútvegsstjóri ESB var hér í heimssókn til að bera fram formleg MÓTMÆLI við fyrirhuguðum aðgerðum ESB eða lét hann sér nægja að spjalla góðlátlega við gestina um stöðu mála. Þetta hefur enn ekki verið upplýst.
Samkvæmt frétt á mbl.is í gær var Steingrímur spurður út í viðbrögð sín við nýlegum ummælum Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, þess efnis að skiptar skoðanir séu um það í ráðherraráði ESB hvort hefja eigi viðræður um sjávarútvegsmál við Íslendinga í tengslum við aðildarumsókn Íslands, en þar væri makríldeilan í aðalhlutverki. Steingrímur segir það ekki hjálpa upp á að fara að hræra þessu saman, nógu erfið sé makríldeilan eins og hún er og sömuleiðis aðildarferlið.
Margir hafa undrast að jafn skeleggur maður og Steingrímur skuli ekki taka fastar á þegar hættu ber að höndum og miklir hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi. Hann lætur sér nægja það hlutverk að vera einhvers konar hjálparkokkur Össurar og telur það ekki hjálpa upp á að fara að sulla þessu öllu saman í einn hrærigraut. Það er að sjálfsögðu rétt. En stuðningsmenn hans og VG gera kröfu til þess að flokkurinn snúist gegn yfirvofandi refsiaðgerðum ESB með öðrum og skeleggari hætti en þeim að gera lítið úr þessari hótun eða undirbúa uppgjöf í málinu til að þóknast ESB, að ekki sé nú minnst á viðbrögð Árna Þórs sem beinlínis stingur höfðinu í sandinn og lætur eins og ekki sé um að ræða neina hótun. - RA
Athugasemdir
"Margir hafa undrast að jafn skeleggur maður og Steingrímur skuli ekki taka fastar á þegar hættu ber að höndum og miklir hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi."
Nú er það, já? Ég veit ekki um neinn mann sem hefur undrast á þessu. Embættisverk Steingríms síðan hann komst í stjórn (Icesave, ESB umsóknin, makríldeilan, vogunarsjóðirnir og bankarnir) lúta í sömu átt: linkind, feluskapur og undirlægjuháttur einkenna öll hans verk.
Það væri frekar að maður undraðist ef hann tæki sig einu sinni til og stæði í lappirnar.
Birgir (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 12:27
Vegna þess að í fyrsta lagi eru þetta kki hótanir og í annan stað er reglugerðinni ekki beint beinlínis gegn Íslandi heldur almennt löndum sem stunda óábyrgar veiðar og rányrkju og neita að semja. Til að beitt væri gegn ákv. ríki ss. í tilfelli óábyrgri háttsemi LÍÚ þyrfti sérstakar ráðstafanir byggðar á þessi reglugerð o.s.frv.
Ennfremur er það þannig að um þetta þarf að semja og það gagnast best Íslandi og innbyggjurum.
Ef eigi verður samið og háttsemi LÍÚ verður látin óátalin - þá auðvitað leysist þetta mál af sjálfu sér. LÍÚ útrýmir makrílnum og end of story. Og Ísland stendur uppi samningslaust með öngvan makríl.
Margt bendir til að LÍÚ sé nú þegar á góðri leið með að útrýma makrílnum. það er ekkert eins mikil veiði og var í fyrra og hiiteðfyrra. það er alveg augljóst. Menn eru aðsegja að hann ,,komi seinna" - en það breitir því ekki að gangan er öðruvðisi núna.
Til hliðsjónar má hafa Færeyjar en þar gaf hafrannsóknarstofnunin færeyska beinlínis út opinberlega að makrílinn hegðaði sér allt öðruvísi núna en fyrri ár g í maí var bókstaflega enginn makríll í færeyskum sjógvi. Núna í byrjun júlí eru fréttir í færeyjum, opinberlega á netinu, þar sem veiðin er enn dræm og það er aðallega síld sem þeir eru að veiða. E hérna uppi í fásinninu - þa´er eins og það megi ekki tala um þetta! það er alveg sama sagan hérna. Veiðin er, í besta falli, dræm.
,,Fýra ísfiskatrolarar sleppa ikki at fiska í 10 dagar, tí teir høvdu ov nógva sild sum hjáveiðu, tá teir fiskaðu makrel.
Loyvt er at hava í mesta lagi 10 prosent av sild sum hjáveiðu. Men Rókur og Lerkur og eisini Stelkur og Bakur høvdu nógv meira enn tað, upplýsir Fiskiveiðueftirlitið.
Teir fýra trolararnir landaðu til Høgaberg, sum fyribils er einasta móttøkuskip á feltinum.
Enn eru annars bara nótaskipini farin eftir makreli. Tey hava sildakvotu, so hjá teimum er støðan viðvíkjandi hjáveiði ein onnur. Sildin, sum kemur við makrelinum, fer av sildakvotuni hjá skipunum.
Skipini royna eftir makreli norðan fyri Føroyar. Fitt av sild er uppií, meira enn hesa tíðina í fjør, upplýsir Fiskiveiðueftirlitið."
http://www.kringvarp.fo/Archive_Articles/2012/07/06/missa-dagar-ov-nogv-sild-uppii
Sennilega er staðan verri hérna. Sennilega. En erfitt að átta sig nákvæmlega á því vegna þess einfaldlega að LÍÚ stjórnar allri upplýsingagjf, að því er virðist.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.7.2012 kl. 12:55
Margir hafa undrast yfir Steingrími, jú, en það er orðið langt síðan. Maðurinn hefur ekkert unnið nema skemmdarverk síðan hann komst í stjórn og ég er sammála lýsingu Birgis að ofan á honum. Veit ekki um neinn sem býst við neinu öðru af honum.
Elle_, 6.7.2012 kl. 17:03
Svar við spurningunni í titli pistilsins er ekki prenthæft.
Pistillinn sjálfur er þó góður og íhugunarverður eins og vænta má af höfundinum. :)
Kolbrún Hilmars, 6.7.2012 kl. 18:14
Rifjað skal upp þegar R. A. var fjármálaráðherra þá ræddi hann gjarnan um að verðbólgan væri ekki alslæm því í henni væri drifkraftur sem efldi hagvöxt sem annars hefði ekki orðið.
Í hans tíð geisaði enda verðbólga sem aldrei fyrr. Hann stóð fyrir ríkisstyrktu loðdýraeldisrugli og graskögglaverksmiðjum, hvatti til fiskeldis um allar trissur Allt fór þetta á hausinn með glæsibrag.
Hann gagnrýnir formann sinn í því trausti að kjósendur nú til dags þekki almennt ekki til fjármálavits og dómgreindar hans sjálfs á árum áður.
Sverrir Hjaltason (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 23:01
Getur verið að Össur og fleiri séu of uppteknir af spennunni í sambandi við samræður og samninga við EU að þeir bara missi af því sem skiftir máli ? Ég vona ekki fyrir þá sem gætu haft eitthvað til málana að leggja án þess að vera kosnir til þess.
Pétur (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 23:55
- - - Hann gagnrýnir formann sinn í því trausti - - - Sverrir, var hann eins lyginn og undirförull og hinn svokallaði formaður? Það er ég viss um að hann var ekki og mætti gagnrýna hann miklu harkalegar en hann gerir.
Elle_, 7.7.2012 kl. 00:20
Ragnar þeir mótmæla ekki vegna þess að þeir eru ásamt öðrum leppar Evrópusambandsins hér í íslenskum stjórnmálum sem hafa það verkefni að koma landinu og lóðinni í kringum það inn í verðandi stórríki Evrópu. ESB sinnarnir blekktu ykkur hina allan tíman og var það með fullum ráðum og ásetningi gert. Út frá þessum staðreyndum verðið þið hinir á vinstrivaktini gegn að ganga!
Örn Ægir Reynisson, 7.7.2012 kl. 02:44
Takk fyrir öfluga grein.
Sigurður Þórðarson, 7.7.2012 kl. 10:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.