ESB hraðferð Össurar er orðin langferð út í myrkrið

Aðildarumsóknin varð til í óðagoti hrunsins. ESB og evra áttu að bjarga Íslendingum upp úr kviksyndi kreppunnar. Í reynd varð engin hjálp í aðildarumsókn eða evru. Það eina sem ESB hefur sent okkur eru hótanir út af makrílveiðum í eigin lögsögu. En Íslendingar björguðu sér sjálfir og eigin gjaldmiðill hjálpaði til.

Þeir sem fylgdust með umræðum á Alþingi árið 2009 þegar aðildarumsóknin var samþykkt minnast þess þegar Össur hélt því fram að engan tíma mætti missa. Umsóknina yrði að senda sem allra fyrst því að Svíar tækju við formennsku á miðju sumri og mestu skipti að nýta tímann til viðræðna meðan þeir væru í forystu. Jafnframt var því ákaft haldið fram af forystu Samfylkingarinnar að Íslendingar færu hraðar inn í ESB en nokkur önnur þjóð enda lægi lífið á að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti eftir bankahrunið.

Svo mikið var óðagotið að því var algerlega hafnað að þjóðin fengi að kjósa um það hvort hún hefði áhuga á að ganga í ESB þótt annar stjórnarflokkurinn hefði beinlínis þvertekið fyrir í kosningabaráttunni vorið 2009 að til stæði að sækja um aðild. Ástæðan fyrir því að þjóðaratkvæði var hafnað var augljóslega sú að mikill meiri hluti landsmanna var þá orðinn andvígur aðild.

Til marks um ósvífinn áróður Samfylkingarmanna vorið og sumarið 2009 er rétt að rifja upp orð Baldurs Þórhallssonar, prófessors, eins helsta ráðgjafa Össurar í málefnum ESB. Baldur bauð sig fram fyrir Samfylkinguna í þingkosningunum vorið 2009 og sagði í grein sem birtist tveimur dögum fyrir kosningar:

„Endurreisn samfélags okkar byggir á umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Lífskjör okkar eru í húfi. Hægt er að hefja undirbúning að upptöku evru samhliða samningaviðræðum um aðild að ESB. Enginn annar kostur stendur til boða varðandi gjaldmiðlaskipti. Það hefur margoft komið skýrt fram í máli forystumanna ESB. Þeir eru hins vegar tilbúnir að semja við okkur um inngöngu á 9 til 12 mánuðum. Það þýðir að hægt er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning á næsta ári. Þá getur hver og einn metið kosti og galla ESB aðildar."

Baldur hét sem sagt kjósendum því að kosið yrði um aðild árið 2010. Nú eru rúmlega tvö og hálft ár liðin síðan sótt var um aðild. Fullyrðingar Össurar og Baldurs um, að hraðferð að samningaborðinu hjá ESB væri í boði, reyndust vísvitandi blekkingar. Og ítrekaðar yfirlýsingar forystu Samfylkingarinnar þess efnis að krónan yrði tengd evrunni og þegar yrði hafin undirbúningur að upptöku evru, um leið og aðildarumsókn yrði send, reyndist enn meira bull. Reyndar hefur alltaf legið ljóst fyrir að mörg ár myndu líða frá því aðild væri fullfrágengin og þar til upptaka evru yrði möguleg.

Fyrir fáeinum dögum neyddist svo Össur utanríkisráðherra til að viðurkenna að líklega myndu aðildarviðræðum alls ekki ljúka á þessu fjögurra ára kjörtímabili. Það er því deginum ljósara að ekki stendur steinn yfir steini þegar rýnt er í gegnum áróðursmoldviðrið og loftkastalar Samfylkingarinnar frá því fyrir þremur árum skoðaðir í ljósi reynslunnar.  

Í fyrradag féll síðan eitt helsta vígi ESB-sinna: Samtök iðnaðarins. Það eru samtökin sem ausið af fé til áróðurs fyrir ESB-aðild. Í skoðanakönnun meðal félagsmanna nú í vikunni kom í ljós að mikill meiri hluti þeirra hafnar bæði aðild og upptöku evru.

Spurning dagsins hlýtur því að vera: er nú ekki nóg komið? Aldrei áður hefur verið jafn ljóst og nú að Samfylkingin er algerlega einangruð í ESB-dekri sínu. Það er tími til kominn að þeir sem ábyrgð bera á því að Samfylkingunni var hleypt af stað í þessa langferð út í myrkrið með þjóðina óviljuga í eftirdragi, segi við ráðherra Samfylkingarinnar: Hingað og ekki lengra!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þessu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.3.2012 kl. 12:22

2 identicon

Þið rekið hér alveg prýðilega langa lyga- og blekkingarslóð Samfylkingarinnar í þessu ESB máli.

Það er líka rétt hjá ykkur að það er löngu komin tími til að þeir sem báru ábyrgð á þessu blindflugi Samfylkingarinnar til Brussel.

Segi hingað og EKKI lengra !

Mikill meirihluti þjóðarinnar vill snúa vélinni við, svo hún brotlendi EKKI á Brussel völlum !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 13:03

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Góð vísa aldrei of oft kveðin, ætti að vera ;,,Hingað og ekki lengra,, t.d. alla helgina á hverri einustu síðu, þeirra sem vilja að við stöðvum þetta. Tillaga til annarrar umræðu.

Helga Kristjánsdóttir, 31.3.2012 kl. 16:29

4 Smámynd: Elle_

Jóhanna sagði líka opinberlega að VIÐ ættum að sækja um meðan ´vinir okkar Svíar´ væru í forystu.  Hvaða máli ætti það annars að skipta hver er í forystu?  Og svo skil ég ekki að Brusselvinnumenn heimti rök frá okkur sem ekki viljum þangað inn með öll rök Vinstrivaktarinnar.

Elle_, 31.3.2012 kl. 23:38

5 Smámynd: Sandy

Í mínum huga hefur aldrei staðið til að fara inn í ESB þess vegna hef ég fellt tár yfir öllum þeim peningum sem runnið hafa í þessa vitleysu undanfarin ár. Það er mér einnig óskiljanlegt hvers vegna þeir sem áttu að vera í stjórnarandstöðu á þingi samþykktu að hefja þessa vegferð án þess að fara í þjóðaratkvæði, eins og þeir sögðu kíkja í pakkann HVAÐ! eins og ekkert þeirra sé læst á enska tungu, það er ekkert erfitt að lesa sér til um lög og reglur ESB, eina sem þingmenn þurfa að hafa í huga þegar þeir lesa, er að það muni gilda sömu lög og reglur um Ísland og aðrar þjóðir ekki endalausar undanþágur þó þeir reyni að fá fólk til að trúa því, og heldur engin Evra fyrr en Ísland hefur uppfyllt þau skilyrði sem til þarf. ESB nei takk.

Sandy, 1.4.2012 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband