Þingflokkur VG í kröppum sjó

Það er erfið og undarleg staða sem þingflokkur VG og ráðherrar hafa sett sig í. Löngu er ljóst að ESB-aðildin verður heitasta mál næstu kosninga sem óðum styttist í. Ef ekki á illa að fara verður því flokkurinn að gera hreint fyrir sínum dyrum sem fyrst og komast aftur á sléttari sjó.

Vandi VG er einkum í því fólginn að þótt flokkurinn ítreki andstöðu sína við ESB-aðild á landsfundum og flokksráðsfundum er það þó miklu ofar í huga hins almenna kjósanda að flokkurinn situr í ríkisstjórn sem sótti um inngöngu í ESB fyrir hönd íslensku þjóðarinnar án þess að hafa nokkurt umboð til þess frá kjósendum og þvert á yfirlýsingar forystumanna VG fyrir seinustu kosningar. Allar kannanir sem efnt hefur við til undanfarin þrjú ár sýna að þjóðin vill ekki láta teyma sig inn í ESB. Venjulegt fólk á afar erfitt með að skilja hvers vegna flokkur sem er andvígur inngöngu í ESB hefur jafnframt skipað sér í fararbrodd inngöngunnar. Þessi undarlega þversögn veldur að sjálfsögðu vantrausti á flokknum.

Vissulega hafa margir látið blekkjast af þeim áróðri að rétt sé „að kíkja í pakkann" og sjá hvað í boði er hjá ESB. Þeir átta sig ekki á því að í boði er regluverk ESB og aðlögun okkar að því með einhverjum hugsanlegum og tímabundnum undanþágum. Við yrðum einfaldlega eitt af mörgum héruðum hins væntanlega stórríkis Evrópu þar sem atkvæðavægi okkar og áhrif væru langt innan við eitt prósent.

Að sjálfsögðu eru hér gífurleg átök framundan um þetta mál. Landsmenn munu þverklofna í afstöðu sinni til inngöngu í ESB en flest bendir þó til að mikill meiri hluti muni hafna aðild. Upptaka evru var lengi helsta röksemd ESB-sinna fyrir aðild. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun MMR voru aðeins 28% kjósenda fylgjandi því að taka upp evru en 58% á móti. Það merkir að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar láta ekki blekkja sig lengur með þessari tálbeitu sem raunar væri alls ekki í boði við aðild, a.m.k. ekki fyrstu árin, þar eð við höfum aldrei uppfyllt skilyrðin sem sett eru fyrir upptöku evru. Nú er verið að herða enn frekar þau skilyrði.

VG hefur þegar orðið fyrir miklum áföllum vegna afstöðu sinnar í ESB-málinu. Leita þarf langt aftur í sögu landsins til að koma auga á önnur eins umbrot og ólgu innan þingflokks eins og verið hefur hjá VG á þessu kjörtímabili. Forystulið og þingflokkur VG verður að gera sér grein fyrir því að í þeim heljarátökum sem framundan eru um ESB-aðildina kemst VG ekki um með þá tvöfeldni sem einkennt hefur framgöngu flokksins. Ætlar VG að bera ábyrgð á því að gerður sé samningur við 28 aðildarríki um inngöngu í ESB en vera þó samtímis á móti þeim samningnum? Eða ætlar VG að taka fljótlega af skarið og segja við samstarfsflokkinn: Nú höfum við átt í viðræðum við ESB í bráðum þrjú ár og nú er komið nóg!

Í komandi kosningum munu stjórnmálaöfl sem ekki hafa skýra stefnu í þessu máli uppskera vantraust og fyrirlitningu kjósenda jafnt úr herbúðum þeirra sem eru andvígir ESB-inngöngu eða fylgjandi aðild.

Það er þakkarvert að nokkrir af ráðherrum VG hafa að undanförnu lýst afstöðu sinni til ESB-aðildar og var ekki vanþörf á. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lýsti því yfir á fundi VG í Borgarnesi 25. janúar s.l. að innganga Íslands í ESB myndi ekki „fela í sér lausnir á þeim úrlausnarefnum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir við upphaf nýrrar aldar." Steingrímur Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði áherslu á það í umræðum á Alþingi 17. janúar s.l. að hann „vissi ekki betur en að hann og forveri hans á ráðherrastóli, Jón Bjarnason, hefðu nákvæmlega sömu grunnafstöðu til málsins." (Heimild: mbl.is) Og Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hafa öll margítrekað andstöðu sína við ESB-aðild á liðnum mánuðum.

Yfirlýsingar forystumanna hverfa þó í skuggann af þeirri staðreynd sem allir þekkja að með samþykki VG er unnið sleitulaust að því að gerður sé samningur um inngöngu í ESB og varið til þess hundruðum milljóna af skattfé landsmanna, jafnhliða því sem ESB undirbýr feikilega áróðurssókn til að gylla fyrir kjósendum fyrirhugaða aðild.

Kjósendur hafna stjórnmálamönnum sem þeir með réttu eða röngu telja tvöfalda í roðinu. Kjósendur vilja vita með vissu hvað þeir eru að kjósa. Þeir vilja skýrar línur. Forystumenn VG mættu hafa í huga að í nýlegri könnun sem Capacent gerði og náði yfir tímabilið október til desember s.l. með svörum 1.085 þátttakenda reyndust 63% andvíg inngöngu í ESB en 37% hlynnt, ef eingöngu er miðað við þá sem afstöðu tóku. Andstaðan hafði aukist frá sambærilegri könnun sem gerð var í júní s.l. en þá voru um 57% andsnúin inngöngu en 43% hlynnt.

Ragnar Arnalds


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

U.þ.b hemingur kjósenda VG villdi í EU. Samkvæmt könnunum. þeir sem eru óánægðir með að lýðræðið hafi sinn gang geta bara gengið í sjallaflokk enda eigið þið mesta samhljóm með þeim og fylgið þeim í flestum málum í blindu þjóðernisofstæki.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.2.2012 kl. 11:38

2 Smámynd: Elle_

Andstaða kjósenda VG við Brusseldýrðina ykkar Jóhönnu og Össurar var mikil þó þú alhæfir út í loftið um lýðræði eins og gengur meðal ykkar. 

Elle_, 1.2.2012 kl. 15:05

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Nú nú. þá koma nú frm úr skúmaskotum helstu talsmenn ,,vinstrivaktarinnar". þ.e.a.s. hægri öfgaþjóðrebingurinn erikkson.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.2.2012 kl. 16:08

4 Smámynd: Elle_

Enn að alhæfa og skálda út í loftið eins og ykkur Jóhönnumönnum hæfir??? 

Elle_, 1.2.2012 kl. 16:40

5 identicon

Meirihluti stuðningsmanna Vinstri grænna, sem taka afstöðu í skoðanakönnunum, vilja að aðildarviðræðunum verði haldið áfram og að þjóðinni verði gefinn kostur á að kjósa um aðild.

Með öðrum orðum er aðeins lítill minnihluti stuðningsmanna flokksins á móti því að halda aðildarviðræðunum áfram.

Það stríðir ekki gegn stefnu flokksins að gefa fólki kost á að kjósa um aðild enda er flokkurinn eftir sem áður á móti aðild.

Að viðurkenna að það sé þjóðarinnar að taka þessa ákvörðun óháð afstöðu flokksins sýnir aðeins lýðræðisþroska.

Það er því augljóst að Ögmundur, Guðfríður Lilja og Jón Bjarnason eru aðeins að gera forystu flokksins og meirihluta þingmanna gramt í geði.

Þau eru einfaldlega komin í andstöðu við eigin flokk og taka afstöðu í samræmi við það.

Það sést best á því að þau taka aðra afstöðu í Landsdómsmálinu en aðrir þingmenn VG og sömu afstöðu og þeir sem eru hættir í flokknum án þess að geta með nokkru móti sagst vera að koma til móts við kjósendur flokksins né kosningaloforð hans. Þvert á móti.

Að breyta um skoðun án tilefnis þegar málið er komið þetta langt er til frekari vitnis um hvað er í gangi. Fyrri samstaða flokksins er rofin án tilefnis.

Það versta við framgöngu þessara þingmanna er þó ekki eyðileggingarstarf þeirra innann flokksins. Verra er að rústa með þessum hætti trúverðugleika Alþingis.

Fólk sem vill að mark sé tekið á því breytir ekki um afstöðu í máli sem búið er að afgreiða ef ekkert nýtt hefur komið fram sem gefur tilefni til þess.

Það er skylda alþingismanna að standa vörð um trúverðugleika þingsins. Þess vegna er það eðlilegt að vera á móti því að draga kæruna tilbaka jafnvel af hálfu þeirra sem vildu ekki kæra Geir þegar Alþingi greiddi atkvæði um málið.

Það er hins vegar með algjörum ólíkindum að þeir sem vildu kæra Geir eins og Ögmundur, Jón Bjarnason ofl vilji nú draga kæruna tilbaka. Í stað þess að standa með sjálfum sér og flokknum splundra þeir flokknum og auka verulega líkur á að Sjálfstæðiflokkurinn komist til valda.

Að vinna þannig gegn flokknum og forystu hans er því ekkert annað en skemmdarverkastarfsemi.

Ég tek því undir með Þráni Bertelssyni um að ef þessir þingmenn sjá ekki að sér er ekki um neitt annað að ræða en þeir yfirgefi flokkinn enda sjálfhætt.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 16:48

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Úr Pistli BJörns Bjarnasonar.  

"Af hálfu ESB er enginn skilningur á því að eitthvert ríki sæki um aðild að sambandinu án þess að hafa kynnt sér skilmála um framgöngu á umsóknarferlinu. ESB telur einfaldlega ekki unnt að hrófla við þessum skilmálum þótt fulltrúar þess hafi teygt sig til móts við Össur og félaga með orðaleikjum um aðlögun annars vegar og „tímasetta áætlun“ hins vegar.

 

Hjá ESB hafa menn vonað að þessi orðaleikur dygði til að aðlögun hæfist. Að nokkru leyti hefur það gerst. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur þó ekki bitið nægilega fast á agnið að mati sambandsins."

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2012 kl. 20:59

7 Smámynd: Elle_

Hann sakaði Vinstrivaktina að ofan um ´blint þjóðernisofstæki´.
1.2.2012 kl. 11:38
Hann kallaði mig að ofan ´hægri öfgaþjóðrebingurinn erikkson´.
1.2.2012 kl. 16:08
Samt spurði hann okkur Valdimar hvort við værum ´vinstri menn´
1.2.2012 kl. 12:00 

Stórkostlegur málflutningur og allur í samhengi.
En hvað af ofanverðu er hann sjálfur?

Elle_, 2.2.2012 kl. 00:35

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ásmundur "Fólk sem vill að mark sé tekið á því breytir ekki um afstöðu í máli" osfrv. Það er akkurat það sem gerir höfuðpaur V.G. ómarktækan. Hafið þið hlustað á heitstrenginga málflutning Steingríms og andstöðu við ESB. inngöngu fyrir hrun. Af hverju er þessi maður í þessari stöðu? Af því að honum var trúað,,hvernig hefur hann leikið þjóðina,hún á honum grátt að gjalda. Það er auðvitað í mínum huga ekkert til að hlakka yfir,nema ef hann yrði settur af nú þegar. Þvílíkir dýrðardagar að sjá Jóhönnustjórn lyppast niður,líklega með hnefann á lofti.

Helga Kristjánsdóttir, 2.2.2012 kl. 03:30

9 Smámynd: Sólbjörg

Af hverju leyfist að maður eins og Steingrimur sitji sem ráðherra? Hann er endalaust ómerkingur, svikull og ósannindamaður er varðar stjórn landsins. Er formaður flokks sem laug til um stefnuskrá flokksin, náði fjölda nýrra atkvæða út á stefnumálin um algera höfnun á aðild að ESB. Flokkurinn fær aukna ríkistyrki í samræmi við þann aukna fjölda kjósenda en sviksemin er alger, auk þess að svíkja fé af ríkinu. Spyr er þetta ekki refsivert?

Sólbjörg, 2.2.2012 kl. 07:58

10 identicon

Helga, Steingrímur hefur ekki breytt um afstöðu til ESB. Hann er enn á móti ESB-aðild. Það er allt annað mál að standa við gerða samninga ríkisstjórnarflokkanna um að gefa þjóðinni kost á að kjósa um aðild.

Að gagnrýna Steingrím og meirihluta þingmanna Vinstri grænna fyrir að vilja standa við málefnasamning ríkisstjórnarinnar ber að mínu mati vott um alvarlegan siðferðisbrest.

Samningar eru ekki tæki til að komast í ríkisstjórn sem síðan er í góðu lagi að brjóta þegar því marki hefur verið náð? Siðferðisvitund Steingríms virðist sem betur fer vera á hærra plani. 

Það er ljóst að þessi ríkisstjórn hefði aldrei verið mynduð án þess að ESB-aðild hefði verið hluti málefnasamningsins. Valið var og er því um vinstri stjórn og ESB-umsókn eða stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. 

Þátttaka Vinstri grænna í ríkisstjórninni fékk lýðræðislega afgreiðslu í flokknum. Minnihlutinn verður að virða vilja meirihlutans. Annars virkar ekki lýðræðið. 

Gagnrýni þín á Steingrím á því ekki við rök að styðjast. Skoðanakannanir sýna að Vinstri grænir sem styðja umsóknarferlið eru mun fleiri en þeir sem eru á móti því. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 09:24

11 identicon

Þeir sem vitna í Björn Bjarnason til stuðnings andstöðu við ESB-aðild eru orðnir vel heilaþvegnir.

Björn Bjarnason er öflugasta heilaþvottamaskína ESB-andstæðinga. Hann á ekki upp á pallborðið hjá þeim sem stunda vitrænar umræður. 

Gengur barátta andstæðinga ESB-aðildar aðallega út á heilaþvott? Fátt er um rök, svo mikið er víst. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 09:37

12 identicon

og hvað ætlar þú að gera Ragnar Arnalds, kjósa þá aftur og enn ? enginn á Íslandi hefur verið svikinn meira en þú og þeir sem sem kusu yfir sig blekkingu Íslandssögunnar, Samfó liðið grætur úr hlátri yfir ykkur sem kusuð VG , sem andstæðingar ESB

siguróli kristjánsson (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 10:11

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég tek meira mark á manni sem fór og kynnti sér málið og hlustaði á hvað er í gangi þar ytra en heilaþvegnum ESBinnlimunarsinnum og sennilega borgðuðum áróðurspennnum sem að öllum líkindum skrifa hér undir nokkrum nikkum eða "nöfnum" til að ná þeim markmiðum að koma okkur inn í ESB.  Ég þarf ekki álit Björns Bjarnasonar til að vera á móti ESB, ég hef tekið þá afstöðu fyrir löngu síðan, en ég nota mér rök hans til að sýna fram á fáránleika þessa máls alls. 

Ég fer nefnilega í málið en ekki manninn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.2.2012 kl. 11:19

14 Smámynd: Elle_

Helga og Sólbjörg: Steingrímur er nefnilega maðurinn með skemmdarverkastarfsemina sem Brussellið Jóhönnu sakar Jón Bjarnason og Ögmund um.  En er staurblint fyrir af því skemmdarverk Steingríms voru FYRIR ÞAU SJÁLF.  
Elle

Elle_, 2.2.2012 kl. 11:32

15 Smámynd: Elle_

Ásthildur: Já, NÁKVÆMLEGA.

Elle_, 2.2.2012 kl. 11:41

16 Smámynd: Elle_

Og nú kom Brusselfarinn að ofan (2.2.2012 kl. 09:37) og sakaði 70% þjóðarinnar um ´heilþvott´ og segir ´fátt um rök´.  Nóg var víst ekki komið af endalausri ósvífninni undir fjölda pistla Vinstrivaktarinnar þar sem hann sakar 70% þjóðarinnar um ´paranoju og phobíu og vanmáttarkennd gagnvart útlendingum´ fyrir það eitt að vilja ekki dýrðina ÞEIRRA.  Gott hann lýsti Brusselförum sjálfum og það nákvæmlega í sinni rökleysu. 

Elle_, 2.2.2012 kl. 11:52

17 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gott kvöld eða nótt,væri löngu komin hingað,ef tölvan, þessi forláta Apple, hefði ekki látið illa,nei mér tókst ekki að gera rétta hluti. Ég var eiginlega viss um að mér yrði svarað og þakka ykkur dömur að halda á lofti okkar málstað. Ég datt hér inn á viðtalið við Eirík,sem koms tlífs af úr sjoslysinu við Noreg,ég hafði ekki heyrt það fyrr.Eins og Ásthildur veit var einar einn af þeim sem fórst,tengdasonur fósturbróður míns frá Þingeyri.Ásmundur eftir að hafa hlustað á frásögn skipbrotsmannsins, kem ég ekki upp aukateknu orði,enda hafa st0llur mínar sagt það sem segja þarf.

Helga Kristjánsdóttir, 3.2.2012 kl. 02:28

18 identicon

Nei, Helga, þessar svokölluðu stöllur þínar hafa ekki sagt aukatekið orð af viti, aðeins upphrópanir að ógleymdri paranojunni sem felst í að Ásmundur Harðarson = Ómar Harðarson = Ómar Kristjánsson. 

Hvergi örlar á rökum hvað þá mótrökum gegn mínum málflutningi. Þannig fylla stöllur þínar fjölmennan hóp fórnarlamba heilaþvottastöðva andstæðinga ESB-aðildar.

Forherðingin og afneitunin ar algjör eins og sést best á því að að þær neita að horfast í augu við niðurstöðu úr rannsókn norskrar sérfræðinganefndar.

Niðurstaðan var sú, eftir tveggja ára rannsókn, að mun meira fullveldisafsal fylgir EES-samningnum en ESB-aðild, og að við munum því endurheimta hluta fullveldisins með inngöngu í ESB.

Enn er "fullveldismissirinn" þó þeirra helsta ef ekki eina haldreipi. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 08:20

19 Smámynd: Elle_

Enginn nema hinni forherti  og rakalausi ÁSMUNDUR/ÓMAR sagði að Ómar Harðarson væri Ómar Kristjánsson.  Það sér það nú hver heilvita maður að það er ekki sama manneskjan. 

Elle_, 3.2.2012 kl. 12:41

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sá sem afsakar sig ásakar sig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2012 kl. 13:01

21 Smámynd: Elle_

Hann, ÁSMUNDUR/ÓMAR. gerir allt til að villa mönnum sýn og skirrist ekki við að segja ósatt eins og þarna.  Hann skáldaði upp hvað VIÐ höfum sagt.  VIÐ erum ekki svona græn.  Hann ætlar að ´endurheimta fullveldið´ í Brusselveldinu EFTIR að það verður gefið upp og endurtekur lygina nógu oft í þeirri von víst að e-ir trúi honum.

Elle_, 3.2.2012 kl. 13:04

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er aldrei gott þegar fólk hafnar allri skynsemi og láta teyma sig áfram á gulri gulrót í áttina að Mammon og gullkálfinum.  Ég eiginlega vorkenni svoleiðis fólki.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2012 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband