Leiftursókn í áróðri undirbúin með ESB-peningum

Össur og Jóhanna fóru þess á leit við ráðamenn ESB að fá hjá þeim digran sjóð í áróðursstarfsemi á Íslandi í því skyni að snúa Íslendingum til fylgis við ESB-aðild áður en þjóðaratkvæði fer fram. Það fé nemur nokkur hundruð milljónum króna. En er þetta löglegt?

Eftir að skoðanakannanir höfðu í meira en tvö ár sýnt eindregna andstöðu meiri hluta þjóðarinnar við inngöngu í ESB varð þeim Össuri og Jóhönnu ljóst að ekki væri á það treystandi að þeim tækist að sannfæra landsmenn um ágæti þess að framselja fullveldisrétt þjóðarinnar á fjölmörgum sviðum til Brussel og vinna þeim málstað fylgis eftir leikreglum lýðræðisins.

Fram hefur komið að auk stofnunar og reksturs upplýsingaskrifstofu, hyggst Evrópusambandið verja 213 milljón krónum til auglýsinga í viðbót við óþekktan fjölda kynningaferða fyrir áhrifafólk til Brussel í þeim yfirlýsta tilgangi að „eyða bæði ranghugmyndum og ótta í garð sambandsins".

Í lögum nr. 62 frá árinu 1978 svo og í lögum nr. 162 frá árinu 2006 er sett fortakslaust bann við því að stjórnmálasamtök þiggi fé frá erlendum aðilum, en „erlendir" teljast vera: „sérhverjar stofnanir eða einstaklingar, sem hafa erlent ríkisfang, hvort sem þeir eru búsettir hér á landi eða ekki".

Í lögum nr. 162/2006 eru „stjórnmálasamtök" skilgreind sem flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna. Lög  nr. 62/1978 „taka til stjórnmálaflokka og félagasamtaka þeirra, svo og til hvers konar stofnana, sem starfa á þeirra vegum, beint eða óbeint, þ. á m. blaða, og einnig til blaða og tímarita, sem út eru gefin á vegum einstaklinga eða félagasamtaka."

Það getur því orðið lögfræðilegt rannsóknarefni hvort lögin ná með lögjöfnun til annarra stjórnmálasamtaka sem þiggja fé frá ESB í því skyni að hafa áhrif á úrslit kosninga hér á landi, einkum þegar haft er í huga að það er fyrst og fremst einn tiltekinn stjórnmálaflokkur sem gengur erinda þess aðila sem leggur fjármagnið fram og fjárausturinn tengist þjóðaratkvæðagreiðslu. En best væri að Alþingi tæki af öll tvímæli í þessu efni með breytingu á lögunum.

Eins og kunnugt er hefur ESB stofnað sendiráð hér á landi sem ætlað er að skipuleggja upplýsinga- og áróðursstarfsemi en í fyrrnefndum lögum er einmitt tekið fram að „erlendum sendiráðum á Íslandi (sé) óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu."

Víða um heim má finna ákvæði í lögum sem gera það refsivert að ráða viðkomandi ríki undir erlend yfirráð. Í íslensku hegningarlögunum er samsvarandi ákvæði í 86. gr. Þar er þó sett það skilyrði fyrir því að verknaðurinn teljist refsiverður að reynt sé „með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð". Milliganga íslenskra stjórnmálasamtaka um fjáraustur frá ESB í því skyni að koma Íslandi undir yfirráð hins væntanlega stórríkis Evrópu í trássi við gildandi lög kann því að flokkast undir hugtakið „svik" í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.

Undirbúningur áróðursherferðar ESB er sem sagt þegar hafinn og má þegar sjá ýmis merki þess sem koma skal, jafnvel í nafni Háskóla Íslands. Leiftursóknin með fjáraustri frá ESB hefst þó sennilega ekki af fullum krafti fyrr en ljóst verður hvenær þjóðaratkvæði fer fram um ESB -aðild.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"Fjárgreiðslum, fríðindum" má og á að vera í 86. grein til að taka af öll tvímæli um þetta. Í bandaríkjunum gilda ströng lög um þetta og fangelsisdómur. Það er margt sem má skerpa í lögum að fenginni reynslu s.l. missera.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.11.2011 kl. 15:23

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er nákvæmlega á sömu forseendum og Sovéski kommúnistaflokkurinn vænaði og dænaði stjórnmálamenn, áhrifamikla einstaklinga og félagasamtök hér á árum áður. Fégjafir og kynningarferðalög voru þar á meðal. Þeir urðu þó aldrei svo óforskammaðir að opna hér áróðursráðuneyti fyrir opnum tjöldum. ESB ætti ekki að fá slíkt nema að þeir skilgreini sig sem trúfélag. (Sem ekki er fjarri lagi.)

Jón Steinar Ragnarsson, 28.11.2011 kl. 15:28

3 identicon

Þessu fé á að verja til að kynna ESB ekki til að halda úti blekkingaráróðri.

Menn gátu sótt um þetta fé og síðan voru þrír valdir. Það merkilega var að tveir hinna hólpnu voru andstæðingar ESB-aðildar Íslands.

Nú er að sjá hvort þeir eigi ekki eftir að misfara með þetta fé og hvernig ESB bregst við ef það gerist.

Var Vinstrivaktin gegn ESB kannski annar þeirra sem fékk styrk? Fær Ragnar Arnalds kannski laun úr styrktarfé frá ESB?

Ég held að Heimssýn hafi sótt um og fengið styrk frá ESB. Hver var hinn andstæðingurinn ef ekki Vinstrivaktin?

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 17:45

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það eru lög um sendiráð  en það virðist ekki vera hægt að benda Alþingi á þetta. http://untreaty.un.org/ilc/texts/instruments/english/conventions/9_2_1963.pdf

 Það er heldur ekki hægt að benda þeim á hegningalöginn kafla X greinar 86/87/88 og reynda virðast engin lög ná yfir þau á Alþingi. 

Valdimar Samúelsson, 28.11.2011 kl. 20:14

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þessi lög koma undir Sameiniðuþjóðanna

Valdimar Samúelsson, 28.11.2011 kl. 20:15

6 identicon

Ég hef verið að leita á netinu að upplýsingum um þessa styrki til að kynna Evrópusambandið sem ég minntist á í athugasemd númer 3.

Það var misskilningur hjá mér að þetta væru styrkir frá ESB. Þeir koma frá Alþingi og nema 27 milljónum samtals.

Það eina sem ég fann var blogg Björns Bjarnasonar. Þar kemur fram fyrir utan ofangreint að Evrópuvaktin er einn þeirra þriggja aðila sem hlaut þennan styrk.

Annars er mikill munur á kynningu og þeim áróðri sem td er stundaður hér. Í kynningu er greint frá staðreyndum eins og reglum og lögum, sérlausnum sem þjóðir hafa fengið osfrv.

Það veitir ekki af að upplýsa þjóðina enda er áróðurinn að miklu leyti alrangur, jafnvel hrein öfugmæli eða hálfur sannleikur sem eins og menn vita getur verið verri en versta lygi.

Mín reynsla er sú að þeir sem fá greitt fyrir að vinna ákveðnum málstað fylgi standa sig verr en sjáfboðaliðarnir. Ég ætla því ekki að lýsa yfir óánægju með að tvö samtök sem eru andstæðingar ESB fengu styrk en aðeins ein sem styðja ESB-aðild.

En hvernig er hægt að réttlæta svona mismunun?

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 20:54

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ásmundur, þú ert að rugla algerlega óskildu máli við þá umræðu sem hér fer fram.

ÞAð er verið að ræða þá fjármuni sem ESB ætlar að nota til "kynningar" á sjálfu sér. Það er verið að ræða stofnun sendiráðs ESB á Íslandi og yfirlýstu markmið þess. ÞAð er verið að ræða hvernig þetta tvennt brýtur í bága við Íslensk lög.

Það er ekki verið að ræða þá ákvörðun Alþingis að nota fé landsmanna til að styrkja þá sem eru með og móti aðild til að halda uppi sínum málflutningi. Það er allt annað mál.

Gunnar Heiðarsson, 28.11.2011 kl. 21:17

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Er ekki hægt að kæra þetta til einhvers yfirvalds sem hefur með málið að gera?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2011 kl. 21:38

9 identicon

Gunnar, ég veit og er reyndar búinn að leiðrétta þetta í athugasemd nr 6.

Annars verð ég að segja í sambandi við þennan pistil að allt er nú reynt til að koma í veg fyrir aðild. Svona kynning fer fran í öllum löndum sem sækja um aðild að ESB.

Tilgangur laganna getur ekki verið að koma í veg fyrir svona kynningu. Ég held að með lögunum sé verið að banna afskipti af hreinum innanríkismálum.

Ég tel einnig að það sé ekki að þyggja fé að taka að sér ákveðið verk fyrir greiðslu. Með lögunum er væntanlega átt við hreina styrki.

Ef þetta væri ólöglegt væri hægt að leysa málið með því að breyta lögum. Það væri eðlilegt miðað við hve sérstakt málið er. Ekkert bendir til þess að löggjafinn hafi viljað koma í veg fyrir kynningu af þessu tagi.

Svo er spurning hvað er átt við með stjórnmálasamtökum. Eru það ekki bara stjórnmálaflokkar og samtök þeirra eða innan þeirra?

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 22:19

10 Smámynd: Elle_

Ætlun sambandsins og Samfó, 19% flokksins sem öllu ætlar að ráða, er að ´eyða ótta og ranghugmyndum´ okkar.  Það kom fram frá stækkunarstjóranum sjálfum, Stefan Fule.  Þeim kemur okkar ´ótti og ranghugmyndir´ ekki við.  

Elle_, 28.11.2011 kl. 23:51

11 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ég vil benda Ásmundi Harðarsyni hér að ofan á að öfgafull framganga ESB og aðildarsinna krefjast hreinlega einhvers smá mótvægis, ef einhvers snefils af réttlæti á að gæta á þessu skeri.

Það er ekki auðvelt að keppa við ríkisfjölmiðlana, Fréttablaðið og ýmsa vefmiðla á framfærslu ESB-kolkrabbans! Ég er ekki með það alveg á hreinu hvað ESB notar mikla fjármuni í að kynna fagurskreytta framhliðina á mislukkuðu og spilltu ESB-viðskiptaklúðurs-bandalaginu. Eitt sinn heyrði ég að ESB notaði jafn mikið í að auglýsa sjálft sig, eins og Coca Cola í auglýsingar.

Það er ekki svo lítið!!!

Hvers vegna þarf ESB að auglýsa sig svona gífurlega, ef það er svona gott bandalag? Svo er á sama tíma látið líta út fyrir að þjóðir fái ekki að komast í þetta bandalag! Það er mikill tvískinnungur og mótsagnir í hegðun ESB-forystunnar og þeirra þjóna!

Er virkilega einhver þarna úti, sem finnst þetta ESB-áróðursbandalag eðlilegt og réttlátt viðskiptabandalag, miðað við svona framgöngu? Er fólk virkilega svona áhrifagjarnt og auðtrúa þegar það hlustar á, og les auglýsingar? Hvar er sjálfstæð réttlát og gagnrýnin hugsun landsmanna? Er búið að kúga hana, eða hefur fólki ekki verið kennt hversu mikilvæg réttlát og gagnrýnin hugsun er hverjum og einum?

Hver er sinnar gæfu smiður.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 29.11.2011 kl. 10:09

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir með ykkur Elli og Anna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2011 kl. 10:33

13 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Er einhver búin að komast að því hvaða Evrópusamband á að "kynna" hlutlaust fyrir okkur?

Verður það ESB 27/17?

Verður það ESB 27/17-10?

Verður það ESB Norður og ESB Suður?

Verður það ESB 1. deild, ESB 2. deild, ESB3. deild og ESB rusldeild?

Verður það  USE?

Held reyndar að það skipti engu máli hvaða ESB við eru að fara að ganga í enda mun Össur kynna allar niðurstöður í aðlögunarviðræðunum sem stórkostlegan sigur fyrir Ísland.

Eggert Sigurbergsson, 29.11.2011 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband