Icesave vitleysan var skilgetið afkvæmi ESB
30.1.2013 | 11:39
ESB var formlegur aðili að dómsmálinu gegn íslensku þjóðinni út af Icesave. Kommissarar þess bera sig nú illa undan löðrunginum sem þeir fengu og heggur nærri regluverki ESB. Enn vofir líka yfir hótun ESB um hafnbann á íslensk skip. Ljónið er sært og bíður átekta.
Yfirlýsing kommissara ESB í gær eftir Icesave-dóminn í fyrradag kom ekki á óvart. Þeir höfðu reynt hvað þeir gátu að koma ábyrgðinni af skuldafylleríi útrásarvíkinganna yfir á herðar íslenskra skattgreiðenda. Þeir áttu einmitt sjálfir sök á meingölluðu regluverki sem opnaði íslenskum óreiðumönnum leiðina inn í evrópskan bankaheim í gegnum EES-samninginn. Þeir kannast við króann. Icesave-reikningarnir voru skilgetið afkvæmi ESB.
Icesave-deilan og makríldeilan eiga það sameiginlegt að kommissarar í Brussel eru höfuðandstæðingar Íslendinga í báðum þessum deilum. Og í báðum tilvikum hafa deilurnar snúist um fullveldi íslensku þjóðarinnar. Ef Íslendingar hefðu verið komnir inn í ESB fyrir hrunið hefði þjóðin verið pínd til að kyngja allri skuldasúpu óreiðumanna í föllnu bönkunum. Þetta er einmitt það sem Írar máttu þola. Þeir voru þvingaðir af stjórnendum ESB til að taka risavaxin lán til bjargar bönkunum vegna þess að þeir eru með evru. Þær drápsklyfjar sem lagðar hafa verið á Íra valda miklu um að nú er þar 15% atvinnuleysi. Hins vegar er atvinnuleysi rúm 4% á Íslandi.
ESB hefur enn á ný gert samning við Norðmenn um að skipta með sér 90% af ráðlögðum makrílafla á Norður Atlantshafi. Íslendingar, Færeyingar, Rússar og önnur fiskveiðiríki utan ESB eiga að skipta með sér 10%. Talið er að yfir ein milljón tonna af makríl hafi gengið inn í íslenska lögsögu á s.l. ári og fitað sig þar um hundruð þúsunda tonna, jafnvel hálfa milljón tonna. Ljóst er af því hvernig kommissararnir hafa talað um makrílveiðar Íslendinga í eigin landhelgi, að værum við nú í ESB hefðu kommissarar skammtað okkar aðeins brot af þeim makríl sem við veiðum nú. En fullveldisréttur okkar Íslendinga veitir okkur rétt til þess samkvæmt hafréttarsáttmála SÞ, og meðan við stöndum utan ESB, að veiða þau 145 þúsund tonn af makríl sem Jón Bjarnason ákvað sem kvóta að höfðu samráði við fiskifræðinga og Steingrímur Sigfússon endurnýjaði í fyrra.
Bæði þessi mál sýna og sanna að það er grundvallaratriði fyrir Íslendinga að láta ekki glepjast til að framselja fullveldisrétt þjóðarinnar til Brussel. Og bæði málin eru fullt tilefni til þess, hvort fyrir sig, að afturkalla aðildarumsóknina þegar í stað enda er umsóknin bráðum sjálfdauð en verður þó öllum til æ meiri minnkunar sem reyna að halda henni til streitu. - RA
![]() |
Opnað fyrir nýtt Icesave og tímasprengja tengd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Fullveldi og yfirráð auðlinda
29.1.2013 | 11:54
Nú á öðrum í Æ-seif ætlar Vinstri vaktin að hvíla landsmenn á umræðu um það stóra mál - svona í einn dag - en við beinum sjónum að þeirri hættu sem yfirráðum okkar yfir auðlindum stafar af flausturslegri stjórnarskrárvinnu.
Óðinn Sigþórsson bóndi í Einarsnesi og formaður Landsambands veiðifélaga skrifar um málið í gær og segir þar m.a.:
Í greininni segir m.a.:
Það er umhugsunarefni að veigamesta breytingin í hinu nýja frumvarpi til stjórnlaga skuli vera nánast órædd í þjóðfélaginu. Um er að ræða heimildina í 111. gr. til að framselja megi fullveldi þjóðarinnar. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni, nú í haust, láðist af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að spyrja eða ræða þetta stærsta mál, í tillögu stjórnlagaráðs, við þjóðina. Í greinargerð með tillögu stjórnlagaráðs er ekki mikið kjöt á beinunum þegar fjallað er um hversu víðtæk þessi framsalsheimild stjórnarskrártillögunnar er. Það er engin tilviljun að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fagnaði fréttum af endurskoðun stjórnarskrárinnar, enda aðild Íslands að þeirri samkundu óhugsandi, án þess að umsóknarlandið heimili ríflegt framsal á fullveldi í stjórnarskrá.
Mikilvægt er að horft sé til auðlinda landsins þegar rætt er um hversu langt megi ganga í framsali fullveldis á grundvelli fyrirliggjandi frumvarps. Í 34. gr. frumvarpsins er kveðið á um að auðlindir verði þjóðareign. Almennt mætti skilja að með slíku orðalagi væri fullveldisréttur þjóðarinnar tryggður yfir auðlindum Íslands. Svo er þó alls ekki. Það er mat þeirra fræðimanna sem skoðað hafa samhengi þessa að allt tal um þjóðareign sé vita gagnslaust til verndar fullveldis yfir auðlindum í stjórnarskrá. Ef setja eigi skorður við framsali fullveldisréttar yfir auðlindum verði að kveða á um slíkt með skýrum orðum í texta frumvarpsgreinarinnar. Minna dugar ekki.
Það er umhugsunarefni hvort Vinstri grænir, sem í tali hafa viljað standa vörð auðlindir landsins, láti það yfir sig ganga að veita heimildir í stjórnarskrá til að grafa megi undan yfirráðum okkar yfir sjávarauðlindinni. Makríldeilan ætti að vera næg áminning um að stíga varlega til jarðar í þeim efnum.
Grein Óðins í heild sinni má lesa hér: http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1279792
Sigur fullveldisins og ósigur ESB sinna
28.1.2013 | 11:37
Í morgun nokkru áður en Icesavedómur féll var sagt frá því að það væri bakað og trallað í eldhúsi Háskólans á Bifröst i tilefni af Icesave deginum. Þá vissi enginn fyrir víst hvernig færi en greinilegt að Evrópufræðingarnir þar efra ætluðu að fagna.
Ef Ísland hefði tapað málinu gátu ESB sinnarnir fagnað og sagt, þarna sjáiði, þetta sögðum við. En úr því svona fór treysta jafn Evrópufræðingar á Bifröst, utanríkisráðherra og hinir óteljandi sérfræðingar málsins á gullfiskaminni þjóðarinnar og láta eins og sigurinn sé þeirra.
Vissulega er sigur Icesave sigur allrar þjóðarinnar, rétt eins og fullveldið er sameign okkar. En fyrir þá sem spáðu hér Kúbu norðursins, heldu hér langar ræður um að ESA tapaði aldrei máli fyrir eigin dómstóli og að meðalganga ESB sýndi sekt Íslands, - fyrir alla þessa er sigurinn súrari en hvalrengi.
Í hinni löngu og súru þrætu um Icesave sem skekið hefur þjóðina hafa menn þráfaldlega spurt hvað réttlætti Icesave samningana sem gerðir voru. Málið komst til tals á löngum fundi í Hótel Selfoss sem Steingrímur J. Sigfússon hélt með VG félögum 2011. Þar upplýsti þáverandi fjármálaráðherra að í þessu máli væru atriði sem hann gæti ekki tjáð sig um við núverandi aðstæður en sjálfur þyrfti hann engrar vægðar að biðja vegna fyrri Icesamninga. Þegar þar að kæmi gæti hann upplýst þessi atriði. Nú er kominn sá tími og þjóðin á heimtingu á skýringum, bæði frá þeim sem stóðu að Icesavesamningum og þeim sérfræðingum og stjórnmálaleiðtogum sem spáðu landinu hörmungum vegna þrákelkni þjóðarinnar.
Og höfum hugfast á þessum degi að sigurinn er sigur fullvalda þjóðar. Ef við hefðum verið í Evrópusambandinu þá hefðu málaferli sem þessi fyrir ESA dómstóli aldrei verið möguleg. Við hefðum einfaldlega þurft að borga það sem kommisarar ESB hefði sett upp. Niðurstaða Icesave málsins styrkir gríðarlega málefnastöðu okkar sem höfum talað gegn ESB aðild, gegn EES og gegn almennum undirlægjuhætti íslenskra stjórnvalda gagnvart erlendu valdi. / -b.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Flokksráð VG fól landsfundi að endurskoða aðildarferlið
27.1.2013 | 12:01
Flokksráð VG samþykkti s.l. laugardag að lagt yrði fyrir landsfund að taka afstöðu til þess hvort efnt verði til þjóðaratkvæðis um hvort stefna skuli að aðild að ESB og hvort gera eigi samþykki landsmanna að skilyrði fyrir því að VG standi að frekari viðræðum á nýju kjörtímabili.
Samþykkt flokksráðs VG fól þó ekki í sér beina ákvörðun í ESB-málinu heldur var því vísað til landsfundar VG sem haldinn verður 22.-24. febrúar n.k. að taka endanlega ákvörðun.
Samþykkt ríkisstjórnarinnar fyrr í þessum mánuði um að hægja á aðildarferlinu með því að stöðva frekari vinnu við mótun samningsafstöðu vegna viðræðnanna við ESB og með því að ákveða að ekki yrði haldin ríkjaráðstefna um málefni Íslands nú á útmánuðum, eins og til stóð, hlaut að vonum misjafna dóma. Flestum þótti samþykktin loðin og ómarkviss, ekki síst eftir að ráðherrar Samfylkingarinnar tóku að hamra á því að samþykktin breytti í raun og veru engu, því að samningaviðræður við ESB um þá kafla sem þegar hefðu verðið opnaðir myndu halda áfram og yrðu því í fullum gangi til vors.
Engu að síður var á það bent í pistli hér á Vinstrivaktinni fyrir réttri viku að samþykkt ríkisstjórnarinnar væri stutt skref í rétta átt. Það sem mestu skipti í samþykktinni væri eftirfarandi lokamálsgrein: Það er hvors flokks um sig að móta stefnu sína og málflutning þar um og hvað varðar framhald málsins, samanber það sem segir í samstarfsyfirlýsingu flokkanna að þeir virða ólíka grundvallarafstöðu hvors flokks og hafa fullt frelsi til málflutnings og baráttu á þeim grunni.
Með þessum orðum var framhaldi aðildarviðræðna beinlínis vísað nú í lok kjörtímabils til æðstu stofnana hvors flokks fyrir sig til endanlegrar úrlausnar. Eða með öðrum orðum: loksins var sett spurningarmerki við framhald aðildarviðræðna í herbúðum ríkisstjórnarinnar. Það er einmitt í þessu ljósi sem skoða ber samþykkt flokksráðsfundarins. Með henni er endurskoðun aðildarferlisins hafin.
Samþykkt ríkisstjórnarinnar var eins og áður segir stutt skref, en samþykkt flokksráðs VG er tvímælalaust miklu stærra skref í áttina að jákvæðri niðurstöðu, því að í henni er væntanlegur landsfundur VG beinlínis hvattur til að taka afstöðu til þess hvort efnt verði til þjóðaratkvæðis, áður en lengra haldið, og kjósendur verði þar beðnir um að svara því hvort þeir vilji að þjóðin stefni að inngöngu í ESB.
Undanfarna daga hefur orðið æ augljósara hve brýnt er að nú verði kaflaskipti í afstöðu VG til aðildarumsóknarinnar. Enn fækkaði í þingflokki VG í seinustu viku með úrsögn Jóns Bjarnasonar. Á fundi flokksráðs VG gerðust svo þau tíðindi að Hjörleifur Guttormsson, einn stofnenda Vinstri grænna, sagði sig úr flokknum. Hjörleifur sagði þar m.a. í kveðjuræðu: ESB-málið hefur verið undirliggjandi stór meinsemd frá því að þetta skref var stigið að fara í samkrull með Samfylkingunni. Kjarni málsins sem reynt hefur verið að fela er að skrifi stjórnvöld upp á aðildarsamning þá eru menn ábyrgir fyrir þeim samningi. Hjörleifur bætti því við að aðildarumsóknin væri göróttasti kokteill sem blandaður hefur verið um langt skeið, óverjandi, siðlaus og eitraður fyrir flokkinn.
Jafnframt var upplýst á fundi flokksráðsins að Anna Ólafsdóttir Björnsson, fyrrv. formaður VG á Álftanesi og varaþingmaður fyrir flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefði einnig sagt skilið við flokkinn. Anna var ekki á fundinum en sagði í viðtali við Mbl:
Ég sagði mig úr flokknum um daginn. Það er ekkert leyndarmál að ég hef verið ósátt við þessa vegferð í ESB-málum sem flokkurinn leiddist út í . Ég hef lengi verið að vona að það yrði einhver raunveruleg breyting á og að flokkurinn rifi sig út úr því hlutverki sem hann er kominn í, að vera aðeins meðreiðarflokkur hjá öðrum flokki sem er að reyna að stefna landinu hraðbyri í Evrópusambandið. Flestir mínir samherjar í andstöðu við Evrópusambandið hafa verið að tínast úr flokknum. Það hefur bæði kvarnast úr þingflokknum og forystumenn ýmissa félaga hafa verið að fara.
Ef VG ber gæfu til þess á komandi landsfundi að taka loksins af skarið, vaknar sú von að flokkurinn geti snúið vörn í sókn. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er andvígur aðild og það mál er því löngu sjálfdautt. Stóra spurningin er hins vegar hvort VG megnar að rífa sig út úr því hlutverki sem hann er kominn í, að vera aðeins meðreiðarflokkur hjá öðrum flokki sem er að reyna að stefna landinu hraðbyri í Evrópusambandið eins og Anna Ól. Björnsson komst svo ágætlega að orði. Flest bendir til þess að kaflaskili verði í þessu máli þegar í vor og Samfylkingin geti ekki böðlast öllu lengur með landsmenn í eftirdragi í átt til inngöngu í ESB, þótt löngu sé orðið ljóst að hvorki er vilji fyrir þeirri vegferð á þingi né meðal meiri hluti þjóðarinnar.
Ragnar Arnalds
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Vatn markaðsvara eða mannréttindi?
26.1.2013 | 11:13
Markaðsvæðing og einkavæðing vatnsveitna færist nú ofar á málefnaskrána í ESB. Páll H. Hannesson, fyrrum alþjóðafulltrúi BSRB, skrifar í vikunni á fésbókarfærslu:
Framkvæmdastjórn ESB stefnir nú að einkavæðingu vatns í Evrópu! Gróði vatnsfyrirtækja í 3ja heiminum hefur ekki verið nægur og andstaðan víðast mikil svo það var fyrirsjáanlegt að þau stefndu á ríkari markaði. Nú er framkvæmdastjórn ESB með nýtt directive - samið af fulltrúum vatnsfyrirtækja og fjármálahákarla - sem þrýstir á einkavæðingu vatns í öllum löndum ESB. Ekki bara í Portúgal og Grikklandi, þar sem þríeyki ESB krefjast einkavæðingar opinberra vatnsfyrirtækja, heldur á það að verða almenna reglan."
Í desember 2011 sendi ESB út tilskipun um nýtingarrétt og sérleyfi á sviðum vatns- og orkuveitna, einnig samgangna og póstþjónustu. Þar segir á einum stað:
Til að tryggja raunverulega opnun markaðarins og jafnvægi í beitingu reglna um úthlutun sérleyfa á sviði vatns-, orku-, samgöngu- og póstþjónustu er nauðsynlegt að þær einingar sem um ræðir verið skilgreindar á öðrum grunni en réttarstöðu. Tryggja þarf að jöfn meðhöndlun rekstraraðila sé óhlutdræg hvort sem þeir starfa í opinberum geira eða einkageira." http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=COM:2011:0897:FIN:EN:PDF , bls. 11.
Tungumál ESB er alltaf stofnanalegt og tyrfið. En þetta er eðlilegast að lesa sem svo að ekki megi mismuna til framdráttar opinberum þjónustufyrirtækjum. Nýja stefnan í höfðuðstöðvunum er í þá veru að nýtingarréttur og sérleyfi á sviðum þjónustu eins og vatns og orku skuli fara í útboð á opnum markaði - sem sagt markaðsvæðing.
Og reynslan sér gjarnan um að þýða inntakið í stefnunni. Um þessar mundir eru vatnsveitur í opinberri eigu í Aþenu og Lissabon og einnig Madríd og víðar settar á markað. Á bak við kreppuráðstafanir af slíku frjálshyggjumerki stendur einmitt Þríeykið" alræmda þ.e.a.s. Framkvæmdastjórn ESB, Evrópski seðlabankinn og AGS.
Ég hef áður á þessum vettvangi (2. jan) bent á hvernig kreppan er notuð sem múrbrjótur gegn skipulegri verkalýðshreyfing og áhrifum hennar í þeim vinnumarkaðsumbótum" sem ESB keppist nú við að keyra í gegn. Alveg á sama hátt er krafan um að mæta kreppunni með miskunnarlausum niðurskurði notuð sem múrbrjótur til einkavæðingar, m.a. á vatns-, orkuveitum.
Við verðum að viðurkenna að þróunin á Íslandi er í átt til markaðsvæðingar, óháð því hvort hægri eða vinstri stjórn situr við völd. Nýtingarréttur á fiskimiðum og nýtingarréttur á orkulindum til langs tíma (sbr. söguna um Magma Energy og HS orku) er ekkert annað en einkavæðing í áföngum á viðkomandi sviðum. Einkavæðing vatnveitna á Íslandi (í fræðilegri ESB-framtíð Íslands) væri vissulega ill tíðindi. Þó væri hún ekki úr öllu samhengi við það sem á undan er gengið. Páll H. Hannesson segir í áðurnefndu bloggi sínu: Og hvernig er svo vatnalögum Katrínar Júlíusardóttur háttað; allt grunnvatn er í eigu landeiganda; þegar og ef við göngum í ESB verður sveitarfélögum þrýst til að selja þetta í hendur Vífilfells eða annarra slíkra."
Það er þó mikilvægur skilsmunur á þessu tvennu: Ólög sem sett eru af Alþingi Íslendinga er hægt að taka tilbaka af sama Alþingi en sem kunnugt er á það ekki við um vond Evrópulög. /ÞH
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hið óviðjafnanlega grín!
25.1.2013 | 12:00
Það er öllum kunnugt að hér hafa verið við stjórn undanfarin misseri Samfylking og Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þessir tveir flokkar tóku hér við vondu búi í flestum skilningi eftir áralangt sukk og svínarí sérstaklega í fjármálum sem hér hafði verið í boði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og nota bene Samfylkingar.
En íslensk óstjórn var auðvitað ekki eina ástæðan fyrir þessum efnahagslegu hörmungum, heimurinn allur tókst og tekst enn á við hrun efnahagskerfisins, kapítalisma. Og sprikla nú um í þeirri öskustó af mismiklum krafti þjóðir og þjóðabandalög um víða veröld. Spriklar þar af mestri örvæntingu enda helst í dauðateygjunum apparatið ESB.
Á góðum stundum þegar fulltrúar þeirra flokka tveggja sem fyrst voru upp taldir í pistli þessum hæla sér um sumt réttilega af því hve vel hafi tekist til efnahagsstjórnin hér heima eftir hrun þá grípa þeir til skemmtilegra samanburðarfræða. Fræða sem eðlilega er notast við þegar mæla þarf árangur ríkja í hagstjórn. Þessi fræði ganga út á það að miða sig við nágrannalöndin. Og eru þá bornar saman hinar ýmsu stærðir, svo sem hagvöxtur, atvinnuleysi og sjálfbærni og það er sama hvar borið er niður, alltaf komast talsmenn ríkistjórnarinnar, oftast réttilega, að því að hér sé allt í betra standi en á næsta bæ.
Og hver er hann þá þessi næsti bær hvar allt er verra en hér? Jú, það eru auðvitað ESB-löndin. Þar er allt verra en hér að sögn þeirra sem með þeim vilja deila kjörum:
*Þar er segja okkur þeir sem undir slíku vilja búa hagvöxtur ekki nándar nærri eins góður og hér.
*Þar er segja okkur þeir sem við slíkt vilja lifa atvinnuleysi mun miklu meira og illskeyttara en hér.
*Þar er segja okkur þeir sem með slíkum vilja teljast sjálfbærni mun skemmra á veg komin en hér.
Auðvitað er þessi málflutningur eins og eitt óviðjafnanlegt grín á góðri stundu. Hér prédika menn um nauðsyn þess að komast í það samfélag þar sem allt er á köldum klaka. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur ýmislegt gert ágætlega og það ber að þakka. En því miður fellur það allt í skuggann af því gerræði að vilja koma þessari þjóð í hið yfirþjóðlega helsi ESB hvar allt og meira segja að mati prédikaranna sjálfra allt er í meira sukki en hér.
- gb.
Jón Bjarnason, fækkunin í VG og lýðræði hinna þaulsætnustu
24.1.2013 | 13:21
Smátt og smátt hafa ýmsir einlægustu ESB-andstæðingarnir verið að hrökklast burtu úr VG eða áhrifastöðum innan flokksins. Nú seinast ákvað Jón Bjarnason að segja sig úr þingflokki VG en heldur þó áfram í flokknum. Það er til lítils að fjölyrða um hverjir hafa farið úr flokki, þingflokki, forystusveit eða grasrót, en brotthvarfið er á margra vitorði.
Þær raddir heyrast nú enn háværari en fyrr að þetta fylgishrun megi nú alls ekki skrifa á undanlátssemina í ESB-málum. En það er einmitt lóðið, þarna er nánast örugglega beint samband á milli. Svo virðist sem um sex til níu þúsund kjósendur VG séu að jafnaði tilbúnir að feta þá slóð sem forystan hefur leitt Vinstri Græn í og sumir í þeim hópi hallir undir ESB-aðild. Það sér hver maður að 6-9000 manns af um 40.000, sem var kjörfylgi VG í seinustu kosningum, er alls ekki sama hlutfall og 6-9000 af þeim 17.000 atkvæðum sem VG getur vænst að fá í næstu kosningum samkvæmt könnunum (sumar fara jafnvel lægra).
Aðeins nánar um þetta, með hliðsjón af könnunum frá árinu 2009 og nú í ársbyrjun: 40-55% af væntanlegum kjósendum nú (sem eru þá um 9% kjósenda) er mjög nálægt því að vera sama tala um 20-24 prósent kjósenda VG sem studdu aðildarviðræðurnar í kjölfar stjórnarsáttmálans, en þá höfðu liðlega 22% kjósenda kosið Vinstri græn og fylgið ekki farið að hrynja af flokknum enn.
Þetta rennir sem sagt stoðun undir að þeir sem kusu VG og vildu aðildarviðræður hafi almennt ekki yfirgefið flokkinn, meira en helmings fylgishrun flokksins sé vegna þess að andstæðingar ESB og aðildarviðræðnanna styðja ekki lengur Vinstri græn. Þetta hefði einhvern tíma verið kallað lýðræði hinna þaulsætnustu. Þeirra sem eru fagna því að missa fylgi ESB-andstæðinga. Ef fylgið færi niður í sex til níu þúsund atkvæði væri meira að segja hægt að lýsa VG hreinan ESB-sinnaðan flokk og það ætti vissulega að greiða fyrir áframhaldandi stjórnarsamtarfi við Samfylkinguna og Bjarta framtíð. Er það sú framtíð sem við viljum?
Framundan eru flokksráðsfundur og landsfundur VG. Það kann því miður að freista sumra að nýta flótta margra einarðra ESB-andstæðinga úr flokknum til þess breyta flokknum í krataflokk og deyfa andstöðu þá við ESB sem hefur verið margítrekuð á landsfundum og flokksráðsfundum allt frá stofnun flokksins. En það gæti jafnframt orðið það reiðarslag sem flokkurinn má alls ekki við.
- ab
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fjórar helstu ástæður gegn ESB í Noregi
23.1.2013 | 11:51
Ekki gráta Björn bónda lengur, söfnum liði!
22.1.2013 | 11:38
Að horfa undir holhönd
21.1.2013 | 13:20
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Getur VG stöðvað lekann í sökkvandi skipi?
20.1.2013 | 12:26
Goldman Sachs & 'Masters of the Eurozone'
19.1.2013 | 10:56
Hægara sagt en gert
18.1.2013 | 10:24
Blekking og pólitísk gröf
17.1.2013 | 12:58
Efnahagsvandi Evrópusambandsins
16.1.2013 | 12:26