Grein Óðins Sigþórssonar í Morgunblaðinu 28. janúar 2013
Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi er staðráðinn í að keyra frumvarp til breytinga á stjórnarskránni í gegnum þingið. Þetta gera þau þrátt fyrir að öll viðvörunarljós logi. Ekki má doka við, þótt stefni í fenið með grundvallarlög og sáttmála þjóðarinnar. Allar málefnalegar ábendingar fræðimanna eru nú annaðhvort sagðar vitlausar eða fjandsamlegar og með öllu óskiljanlegt hvað því fólki gangi til. Þetta er jú í fyrsta sinn sem svona frumleg aðferð er notuð til að semja nýja stjórnarskrá fyrir lýðræðisríki. Enn á ný eru Íslendingar bestir í heimi.
Veigamesta breytingin
Það er umhugsunarefni að veigamesta breytingin í hinu nýja frumvarpi til stjórnlaga skuli vera nánast órædd í þjóðfélaginu. Um er að ræða heimildina í 111. gr. til að framselja megi fullveldi þjóðarinnar. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni, nú í haust, láðist af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að spyrja eða ræða þetta stærsta mál, í tillögu stjórnlagaráðs, við þjóðina. Í greinargerð með tillögu stjórnlagaráðs er ekki mikið kjöt á beinunum þegar fjallað er um hversu víðtæk þessi framsalsheimild stjórnarskrártillögunnar er. Það er engin tilviljun að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fagnaði fréttum af endurskoðun stjórnarskrárinnar, enda aðild Íslands að þeirri samkundu óhugsandi, án þess að umsóknarlandið heimili ríflegt framsal á fullveldi í stjórnarskrá.
Það sem blekkir
Mikilvægt er að horft sé til auðlinda landsins þegar rætt er um hversu langt megi ganga í framsali fullveldis á grundvelli fyrirliggjandi frumvarps. Í 34. gr. frumvarpsins er kveðið á um að auðlindir verði þjóðareign. Almennt mætti skilja að með slíku orðalagi væri fullveldisréttur þjóðarinnar tryggður yfir auðlindum Íslands. Svo er þó alls ekki. Það er mat þeirra fræðimanna sem skoðað hafa samhengi þessa að allt tal um þjóðareign sé vita gagnslaust til verndar fullveldis yfir auðlindum í stjórnarskrá. Ef setja eigi skorður við framsali fullveldisréttar yfir auðlindum verði að kveða á um slíkt með skýrum orðum í texta frumvarpsgreinarinnar. Minna dugar ekki. Það er umhugsunarefni hvort Vinstri grænir, sem í tali hafa viljað standa vörð auðlindir landsins, láti það yfir sig ganga að veita heimildir í stjórnarskrá til að grafa megi undan yfirráðum okkar yfir sjávarauðlindinni. Makríldeilan ætti að vera næg áminning um að stíga varlega til jarðar í þeim efnum.
Glás af mannréttindum
Þær Jóhanna Sigurðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Álfheiður Ingadóttir bera ábyrgð á meðferðinni á stjórnarskrá Íslands. Þær vilja kenna stjórnarskránni um efnahagsófarir Íslands og streitast við að þröngva upp á þjóðina stjórnarskrá, sem veitir hættulegan afslátt á borgaralegri vernd, þegar litið er til hinna dýrmætu auðlinda þjóðarinnar. Sjálfar hafa þær lítið eða ekki tekið þátt í efnislegri umræðu um innihald stjórnarskrárfrumvarpsins, heldur farið fram með tilheyrandi slagorðum um að þjóðin vilji bara nýja stjórnarskrá. Virðist þá einu gilda hver verða réttaráhrif þeirrar nýju. Nýjasta yfirlýsingin kom svo í útvarpi, nú í vikunni, frá Valgerði, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, að í frumvarpinu væri »glás af mannréttindum.« Gott að vita þetta!
Skýrt ákvæði í stjórnarskrá
Allsherjarnefnd Alþingis hefur í umsögn um frumvarp til stjórnlaga lagt til þá breytingu, að ekki verði felldar brott heimildir í 72. gr. gildandi stjórnarskrár. Greinin mælir fyrir um að takmarka megi með lögum fjárfestingu erlendra aðila í landi, fasteignum og atvinnurekstri. Telur nefndin réttilega að slík heimild sé nauðsynleg til að verja sjálfstæði lítillar þjóðar. Þetta er skynsamleg tillaga en það þarf einfaldlega að ganga mun lengra. Taka þarf fram með skýrum hætti í auðlindaákvæði að óheimilt verði með öllu að framselja fullveldi eða ríkisvald yfir auðlindum Íslands, til erlendra aðila, hverju nafni sem nefnist. Allir stjórnmálaflokkar hafa talað með þeim hætti að ekki komi til greina að í samningum við ESB láti Ísland af hendi yfirráð yfir sjávarauðlindinni. Alþingismenn eiga því að geta sameinast um að setja í nýja stjórnarskrá ákvæði sem tekur af öll tvímæli í þessu sambandi.