Hvar eru ákvarðanir teknar og hvers vegna skiptir það máli?

Það er í tísku að tala illa um þingið og ekkert nýtt við það. Á nýliðnu þingi vakti það athygli að fleiri þingmannamál voru samþykkt en venja er til. Það er skref í átt til þess að gera fleiri raddir gildandi en raddir þeirra stjórnvalda sem fara með völd hverju sinni.

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar á Íslandi og kosningar til ESB-þingsins. Sú þróun hefur átt sér stað undanfarna tvo áratugi að minnsta kosti að sífellt fleiri verkefni eru færð til sveitarfélaga og fjármagn fylgir eða á að fylgja þeim verkefnum. Stækkun og samvinna sveitarfélaga er nauðsynleg til að sinna þessum verkefnum og ekki til einhver ein, rétt leið til að gera það. Stundum hefur sameining sveitarfélaga falið í sér óvinsælar, umdeildar og stundum jafnvel ákvarðanir sem hafa verið kallaðar aftur vegna gagnrýni heimamanna. Nægir þar að nefna sameiningar umönnunarstofnana aldraðra og brottflutninga úr heimabyggðum og sameiningar skóla, sem hafa ýmist tekist vel eða illa, efling skólastarfs og langur skólabifreiðaakstur togast á þegar fólk gerir upp hug sinn.

Sífellt fleiri ákvarðanir eru teknar langt frá vettvangi heimahaga í Evrópu, lög og reglur sem varða smæstu atriði daglegs lífs. Sumt er vel gert en annað miður og því sterkari sem hagsmunaaðilar eru, þeim mun líklegra er að fólkið, sem ákvarðanirnar hafa áhrif á, megi sín lítils eða jafnvel einskis. Þetta er eitt af því sem veldur að fólkið innan Evrópusambandsins, ekki síst þeir sem gagnrýnir eru á regluverk þess, hefur barist fyrir auknum áhrifum Evrópuþingsins, því þar eiga þó þjóðkjörnir fulltrúar hverrar þjóðar sína eigin rödd, þótt lagasetningaferlið sé á annan veg en á flestum (öllum) þjóðþingum álfunnar. Henni er lýst svo á Evrópuvefnum (Evrópuvef Háskóla Íslands og alþingis):

“Aðkoma Evrópuþingsins að setningu Evrópulaga er ýmist í samræmi við svokallaða almenna lagasetningarmeðferð eða sérstaka lagasetningarmeðferð eftir því hvaða málaflokkar eru til umræðu. Núorðið eru flestar gerðir settar með almennri lagasetningarmeðferð en samkvæmt henni hefur Evrópuþingið jöfn tækifæri á við ráð ESB til að móta nýja löggjöf og getur hafnað tillögum þess. Framkvæmdastjórnin hefur í þeim tilvikum frumkvæðisrétt að nýrri lagasetningu sem felur í sér að hún ber ábyrgð á að móta og leggja tillögur að nýjum lögum fyrir Evrópuþingið og ráðið.”

Við þessar aðstæður er ekkert rúm fyrir frumkvæði, varla einu sinni raddir óbreyttra þingmanna, hvað þá enduróm frá kjósendum (nema þeir séu innvígðir í lobbíistaklúbbinn). Og kjörsókn, sem var árið 2009 aðeins 43% en margir óttast að verði minni í komandi kosningum eru fleirum áhyggjuefni en vinstrisinna á Íslandi, sem sæi fram á 6 þingmenn af 766 (með nýjustu viðbót þingmanna hefur þeim fjölgað upp í þessa tölu skv. sömu heimild og að ofan er nefnd). Og auðvitað hefur þetta verið rannsakað, enn er litið á upplýsingar af Evrópuvefnum:

„Mikið hefur verið rætt um hugsanlegar ástæður sífellt minnkandi kjörsóknar í kosningum til Evrópuþingsins. Finnski fræðimaðurinn Mikko Mattila hefur komist að þeirri niðurstöðu að áhrifaþættirnir séu að hluta til þeir sömu og í landskosningum. Þannig hafi það áhrif hvort borgurum sé lagalega skylt að mæta á kjörstað, hvaða dag vikunnar kosningar eru haldnar (kjörsókn er almennt meiri um helgar) og hvort kosningar til Evrópuþingsins séu haldnar samhliða öðrum kosningum í viðkomandi aðildarríki.

 

Þá hafi aðrir þættir, sem tengjast Evrópusambandinu beint, einnig áhrif en þó ekki eins mikil að mati Mattila. Kjörsókn í aðildarríkjum sem hljóta háa styrki frá ESB er meiri en í þeim ríkjum sem fjármagna stóran hluta styrkjanna. Einnig sé kjörsókn meiri í aðildarríkjum þar sem ESB nýtur almennt mikils stuðnings almennings. Sú staðreynd að vald Evrópuþingsins er töluvert minna en ríkisþinga geti einnig skýrt dræma kjörsókn, þar sem ávinningurinn af því velja sinn eigin frambjóðanda á Evrópuþingið sé minni en þegar kemur að ríkisþingum. Að mati Mattila endurspeglar lítil kjörsókn í kosningum til Evrópuþings vandamál varðandi lögmæti þingsins og jafnvel Evrópusambandsins alls.“

 

Það virðist því langt í land að menn líti um öxl í þinglok ESB-þingsins og fagni aðkomu óbreyttra þingmanna að ákvarðanatökunni. Spurningin er hverjum finnst það skipta máli? Og því miður er ekki hægt að sjá lausnina í aukinni beitingu þjóðaratkvæðagreiðslna. Því ef skrifræðisvaldinu í Brussel hugnast ekki niðurstaðan er bara kosið aftur, og aftur, og aftur ... þar til sú niðurstaða fæst sem þar þykir ásættanleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband