Jón Bjarnason, fækkunin í VG og lýðræði hinna þaulsætnustu


Smátt og smátt hafa ýmsir einlægustu ESB-andstæðingarnir verið að hrökklast burtu úr VG eða áhrifastöðum innan flokksins. Nú seinast ákvað Jón Bjarnason að segja sig úr þingflokki VG en heldur þó áfram í flokknum. Það er til lítils að fjölyrða um hverjir hafa farið úr flokki, þingflokki, forystusveit eða grasrót, en brotthvarfið er á margra vitorði.

Þær raddir heyrast nú enn háværari en fyrr að þetta fylgishrun megi nú alls ekki skrifa á undanlátssemina í ESB-málum. En það er einmitt lóðið, þarna er nánast örugglega beint samband á milli. Svo virðist sem um sex til níu þúsund kjósendur VG séu að jafnaði tilbúnir að feta þá slóð sem forystan hefur leitt Vinstri Græn í og sumir í þeim hópi hallir undir ESB-aðild. Það sér hver maður að 6-9000 manns af um 40.000, sem var kjörfylgi VG í seinustu kosningum, er alls ekki sama hlutfall og 6-9000 af þeim 17.000 atkvæðum sem VG getur vænst að fá í næstu kosningum samkvæmt könnunum (sumar fara jafnvel lægra).

Aðeins nánar um þetta, með hliðsjón af könnunum frá árinu 2009 og nú í ársbyrjun: 40-55% af væntanlegum kjósendum nú (sem eru þá um 9% kjósenda) er mjög nálægt því að vera sama tala um 20-24 prósent kjósenda VG sem studdu aðildarviðræðurnar í kjölfar stjórnarsáttmálans, en þá höfðu liðlega 22% kjósenda kosið Vinstri græn og fylgið ekki farið að hrynja af flokknum enn.

Þetta rennir sem sagt stoðun undir að þeir sem kusu VG og vildu aðildarviðræður hafi almennt ekki yfirgefið flokkinn, meira en helmings fylgishrun flokksins sé vegna þess að andstæðingar ESB og aðildarviðræðnanna styðja ekki lengur Vinstri græn. Þetta hefði einhvern tíma verið kallað lýðræði hinna þaulsætnustu. Þeirra sem eru fagna því að missa fylgi ESB-andstæðinga. Ef fylgið færi niður í sex til níu þúsund atkvæði væri meira að segja hægt að lýsa VG hreinan ESB-sinnaðan flokk og það ætti vissulega að greiða fyrir áframhaldandi stjórnarsamtarfi við Samfylkinguna og Bjarta framtíð. Er það sú framtíð sem við viljum?

Framundan eru flokksráðsfundur og landsfundur VG. Það kann því miður að freista sumra að nýta flótta margra einarðra ESB-andstæðinga úr flokknum til þess breyta flokknum í krataflokk og deyfa andstöðu þá við ESB sem hefur verið margítrekuð á landsfundum og flokksráðsfundum allt frá stofnun flokksins. En það gæti jafnframt orðið það reiðarslag sem flokkurinn má alls ekki við. 

- ab


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sundrungin í flokknum er augljóslega aðalástæðan fyrir fylgishruni Vg. Aðildarumsóknin mæltist vel fyrir í flokknum. Fylgi VG jókst og varð mest 28% um níu mánuðum eftir að aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi.

Þá fór að bera mikið á sundrungu sem hefur haldið áfram allar götur síðan með þeim afleiðingum að fylgi Vg er nú aðeins 1/3 af því sem það var mest. Á sama tíma hefur fylgi Samfylkingarinnar lítið breyst.

Sundrungaröflin njóta lítils stuðnings og lítillar samúðar. Við myndum samsteypustjórna þarf að miðla málum. Þeir þingmenn sem neita því eru dæmdir til áhrifaleysis í stjórnarandstöðu og eiga því tæpast rétt á sér.

Fólk hefur litla samúð með þeim sem krefjast þess að stjórnarsáttmálinn sé ekki virtur. Ég held að það sé mjög útbreidd skoðun að villikettirnir svokölluðu séu óalandi og óferjandi.

Ferill Jóns Bjarnasonar er með endemum. Hann bauð sig fyrst fram í prófkjöri fyrir Samfylkinguna en beið afhroð. Þá munaði hann ekki um að skipta um flokk og náði í þingsæti hjá Vg.

Stuðningur Jóns við ríkisstjórnina var háður því að hann yrði ráðherra. Slíkt mun vera einsdæmi. Í ríkisstjórn brást hann skyldum sínum og gerðist stjórnarandstæðingur sem einnig er einsdæmi þótt viðar væri leitað. 

Sem betur fer er spillingin ekki svo mikil á Íslandi að svona framganga njóti mikils stuðnings. Nær væri að tala um fyrirlitningu.

Jón er enn í Vg og er líklegur til að halda niðurrifinu áfram fram að kosningum með góðum stuðningi sjálfstæðismanna sem fagna óförum flokksins.

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 16:09

2 Smámynd: Elle_

Fals og lygar forystu VG, ollu eyðileggingu VG.  Gólftuskuþjónusta við Jóhönnuflokk Ásmundar olli eyðileggingu VG.  Það þjónar hinsvegar Ásmundi og Jóhönnu og þeirra skítlega flokki að kenna öðru um.

Elle_, 24.1.2013 kl. 18:31

3 Smámynd: Elle_

Og svona af því enn er verið að kenna hinum svokölluðu villiköttum um - þeir eru það eina sem VG getur stoltað af í þeirra óglæstu stjórn.  Skæðasta villidýrið er í hinum stjórnarflokknum.  Það fer oft í fýlu.  Það meira að segja skellir hurðum.

Elle_, 24.1.2013 kl. 18:44

4 Smámynd: Gunnlaugur I.

Lyga þvælan í Ásmundi tekur engan enda.

Þar er einskis svifist til þess að láta ESB tilganginn helga meðalið.

Það veit það hver maður sem eitthvað þekkir til íslenskra stjórnmála að ESB umsóknin og eftirgjöf, svik og undirferli forystu VG í því máli hefur eyðilagt VG.

Þó svo að ég og fleiri höfum kannski ekki strax snúið baki við forystu VG þar sem að við töldum að þau myndu veita hinni ESB sinnuðu Samfylkingu eitthvert aðhald og að gengið yrði þannig frá málum að ekki yrði hægt að teigja þessa ESB umsókn út í hið óendanlega allt eftir hentugleikum Samfylkingarinnar og ESB valdsins.

Heldur ekki að ESB yrði hér leyft að veita hér milljörðum króna í svokallaða IPA styrki sem eru ekki annað en mútufé.

Einnig datt okkur ekki í hug að hér yrði leyfð opnun sérstakrar áróðurs málaskrifstofu ESB valdsins, svokallaðri Evrópustofu sem spúri hér áróðri og slær um sig með því að bera fé á fólk, félagasamtök og fjölmiðla sem eru þeim þóknanleg.

Ekki datt okkur heldur í hug að ESB yrði óáreitt leyft að opna hér sérstakt sendiráð sem stenur hér í grímulausum áróðurs- og útbreiðslu starfssemi þessa gíruga valda apparats Sovétríkja Evrópusambandsins.

En það hentar Ásmundi og hans nótum best að reka það sem eftir er af VG fram af björgunum, þannig að Samfylkingin geti áfram misnotað þá í ESB málinu alveg fram á síðasta dag !

Gunnlaugur I., 24.1.2013 kl. 18:58

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er rétt hjá Munda að fylgi VG mældist 28% í apríl 2010, en það segir ekkert um að það tengist aðildarumsókninni.

VG fékk 21,7% fylgi í kosningunum, mánuði síðar mældist fylgi við flokkinn einungis 18%. Þá hafði stjórnarsáttmálinn litið dagsins ljós.

Það eru flestir sammála um að VG var sigurvegari kosningann vorið 2009, þó að sigur flokksins í kosningunum hafi verið blendinn, þar sem í nóvember 2008 mældist fylgið við hann 32%.

Nú mælist fylgi flokksins einungis 9% og er í frjálsu falli. Í ljósi þess að í kosningunum vorið 2009 fékk flokkurinn 21,7% fylgi, en samkvæmt mælingu Gallup skömmu fyrir þær kosningar mældist flokkurinn með 26% fylgi, má gera ráð fyrir að raunverulegt fylgi VG sé enn minna en 9%. Það er stutt í 5% markið!

Gunnar Heiðarsson, 24.1.2013 kl. 21:17

6 identicon

Gunnlaugur, svona talar enginn nema hann sé fyrir löngu búinn að rústa eigin trúverðugleika. Hér er öllu snúið á hvolf.

ESB-andstaðan er að miklu leyti fjármögnuð með mútufé LÍÚ. Evrópustofa og Sendiráð ESB eru nauðsynleg til að leiðrétta lygaáróðurinn og gefa réttar upplýsingar.

Það er ekkert óeðlilegt við það að skipta kostnaðinum þegar tveir aðilar semja. Styrkirnir eru heldur ekkert óeðlilegir. Allar þjóðir sem sækja um aðild njóta slíkra styrkja

Það má segja að við séum komin hálfa leið inn í ESB meðan á aðildarferlinu stendur. Við getum þó valið að snúa við þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram eftir að samningur liggur fyrir.   

ESB-umsóknarferlið er með eðlilegum hætti þó að það hafi dregist ekki síst vegna þess að Jón Bjarmason fór fyrir mikilvægustu málaflokkunum og neitaði að vinna vinnuna sína.

Það er þó fleira sem hefur valdið töfum eins og heimskreppan, endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB og makríldeilan. Samfylkingunni verður ekki kennt um neitt af þessu.

Að ætlast til að Vg ynni gegn aðildarferlinu og sviki þannig málefnasamninginn er svo galið að það er í raun ekki svaravert. Jón Bjarnason var viðundur í ríkisstjórninni.

Þáttur Samfylkingarinnar í aðildarferlinu er hnökralaus og lítið eða ekkert út á hann að setja. Sama verður ekki sagt um Vg þó að forystan hafi staðið í lappirnar.

Það er með ólíkindum ef einstakir þingmenn Vg ætlast til að Samfylkingin kynni fyrir þeim hvað í aðildarferlinu felst í stað þess að þeir kynni sér það sjálfir. Þingmenn sem verða þannig berir að vanrækslu eru óhæfir.

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 21:44

7 Smámynd: Elle_

Já, hér er sannarlega 'öllu snúið á hvolf', laupurinn sem kallar sig Ásmund, snýr öllu á hvolf.  Og er næstum allt ósatt og rangt sem kemur frá honum að ofan, sem endranær. 

Nú stóð forysta VG í lappirnar, jú þau stóðu á kafi í forarlyginni, með aumingja saklausa Jóhönnuliðinu sem 'ekkert er út á að setja', í sinni forherðingu.

Styrkirnir eru vægt sagt óeðlilegir, en laupnum að ofan finnst það bara allt í lagi að embætti, fréttamiðlar, og ekki síst stjórnmálamenn og meðhjálparar þeirra, þiggi mútufé og snúist við það gegn þjóðinni, sem þeir áttu vinna fyrir. 

Það er varla erfitt að leggja saman 2 og 2 hvað olli snöggum viðsnúningi Steingríms mikla í nokkrum málum.  Það var tæplega bara allsherjarego-ið og mjúka sætið hans.

En litli minn, þið eruð búin að tapa þessu máli, og kúguninni ICESAVE, þó þið verðið blá í framan af æsingi.  Við erum ekkert að fara inn í þvingunarveldið ykkar, svo endilega gerið ykkur að fíflum og 'viðundrum' enn lengur.

Elle_, 24.1.2013 kl. 22:28

8 identicon

Þjóðremban lýsir sér ekki síst í allt of háum hugmyndum um Ísland eins og sjá má í þessum pistli Vinstrivaktarinnar.

Þó að efnahagsmálin séu hér í kaldakoli, ekki síst í samanburði við þau ESB-lönd sem við erum vön að bera okkur saman við, segir þjóðremban okkur að Ísland sé best.

Í samanburði við þessi lönd er landsframleiðslan hér með versta móti þó að vinnutíminn sé langlengstur hér. Skuldir hins opinberra eru langhæstar hér og á langverstu kjörunum.

Atvinnuleysið er alls ekki minnst hér og hagvöxtur heldur ekki mestur. Hagvöxtur einstök ár eftir mikla lækkun skiptir heldur ekki máli heldur langtímahorfur.

Langtímahorfur á Íslandi með krónu sem gjaldmiðil eru miklu verri en í þessum samanburðarlöndum. Ástæðan er nauðsyn á gjaldeyrishöftum og skortur á stöðugleika sérstaklega ef höftum verður aflétt.

Gjaldeyrir kemur ekki til landsins. Og hann leitar úr landi í gegnum smugur. Við það lækkar gengi krónunnar eða hækkar ekki eins og það myndi annars gera.

Traust á Íslandi minnkar og vextir á erlendum lánum opinberra aðila fara hækkandi. Þetta gæti hæglega endað með ósköpum.

Hvernig einstökum evruríkjum gengur skiptir engu máli fyrir okkur ef við göngum í ESB nema sem víti til varnaðar.

Ekki það að kreppa á evrusvæðinu geti ekki haft áhrif hjá okkur. En það gerist þá hvort sem við erum í ESB eða ekki.

Ólafur Ragnar líkti nýlega í heimsfréttum Íslandi við Sviss og Noreg. Í athugasemd minni #25 við færslu frá í fyrradag má sjá hve fráleitur slíkur samanburður er.

Noregur og Sviss geta leyft sér að vera utan ESB þó að hag þeirra væri enn betur borgið þar. Við höfum hins vegar alls ekki efni á því.

Já eða nei við ESB-aðild Íslands er val um hvort þjóðremba, afdalaháttur, vanmáttarkennd og vænisýki eigi að ráða ferðinni eða hvort skynsemi og hagur komandi kynslóða sé í fyrirrúmi.   

   

Ásmundur (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 15:41

9 identicon

Sorry!

Ásmundur (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 15:47

10 Smámynd: Elle_

'Sorry´ var orðið, það var væntanlega fyrir að kalla fólk afdalamenn og vænisjúk viðrini með þitt eilífðar þjóðrembings-kjaftæði.  Þú færð 1/2 plús.

Elle_, 25.1.2013 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband