Á fjaðralausum bíl

Ef maður ýtir þéttingsfast ofan á húddið á bíl þá dúar hann. Hann hreyfist í raun og veru mun meira en átakinu nemur því fjaðurbúnaður í bílnum veldur víxlverkun þannig að fyrst fer vagninn niður, þá upp og síðan niður aftur, upp og niður nokkrum sinnum allt eftir því hvað handsterkur maður er hér að verki.

Þannig herma demparar bílsins eftir hverri ójöfnum á vegi. Best er vitaskuld að vegur sé sem sléttastur og ójöfnur sem fæstar en þar sem þær eru, er mikilvægt að fara hægt og sneiða hjá þeim verstu. Sé það ekki gert geta sveiflurnar og kastið á bíl orðið svo miklar að farþegar kastast utan í grindina og lemstrast, fyrir utan þau ósköp að bíllinn kann að svífa í fjaðurmagnaðri sveiflu út af veginum og lenda þar á hvolfi.

En það dettur nú samt engum í hug að kenna fjaðrabúnaðinum um þegar svoleiðis gerist enda flestum ljóst að án hans hefði kastið allt orðið mikið verra og hættan á slysi meiri.

Þetta er nú skrýtin byrjun á pistli en tengist þó umræðu um söguna endalausu af krónunni og hagkerfinu. Það sem af er nýbyrjaðri öld hefur krónan svo sannarlega tekið sveiflurnar með landsmönnum þeim til bæði tjóns og ábata. Það er því broslegt að heyra nú sömu stjórnmálamenn hallmæla bæði ríkisstjórninni og krónunni. Þeir svara því að vonum ekki hvað það er þá sem hefur skilað Íslandi miklu lengra fram en öðrum þeim löndum Evrópu sem verst fóru út úr bankakreppunni.

Það er vissulega ekki svo að allt sé komið í lag og verkefni næstu ára eru ærin. En engu að síður er merkilegt að Ísland sem tók stærri dýfu og fékk yfir sig algjört gjaldþrot bankakerfisins skuli nú betur á veg komið en önnur fórnarlömb sömu kreppu.

Evrusinnarnir sem tilheyra ríkisstjórninni halda því eðlilega fram að krónan hafi engu bjargað heldur sé endurreisnin sem hér hefur orðið fyrir kraftaverkastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Slík trú er í sjálfu sér svo fágætt dæmi um fagra og ósnertanlega foringjahollustu að það er illa gert að hreyfa við henni. Um trú þessa ætti að gilda lögmál friðunar og varðveislu eins og á öðru því sem fágætt er og óborganlegt.

En fyrir þá sem lifa í raunheimi er hægt að gera aðrar kröfur í umræðunni og þar á meðal að krónan fái að eiga það sem henni ber. Í byrjun aldar ákváðu fjárglæframenn sem áður höfðu hnuplað þjóðarbönkum landsmanna að spana krónuna upp með innlendu vaxtaokri. Þeir höfðu sér til liðsinnis ríkisstjórnina, Seðlabanka, Viðskiptaráð og ýmis smærri dótturfélög. Afleiðingin varð bóluhagkerfi þar sem fjöldi manna efnaðist óheyrilega af peningum sem aldrei voru þó annað en blikkandi tölur á tölvuskjá. Það sýndi sig að með einbeittum brotavilja mátti nota krónuna til óhæfuverka sem komu allri þjóðinni illa.

Þegar bóla þessi sprakk var það síðan krónan en ekki útrásarvíkingarnir sem tók til eftir ballið. Með því að núllstilla krónuna tókst að koma raunverulegu hagkerfi framleiðslu og verðmætasköpunar í gang. Kraftaverk Jóhönnu Sigurðardóttur voru óþörf enda engin í boði.

Suður í Evrópu urðu á þessum árum einnig til bóluhagkerfi, fæst þó eins ofsafengin og hér heima. En þegar þessar bólur sprungu þá kom í ljós að spænska, gríska og ítalska hagkerfið voru öll á fjaðralausum bílum.

Þar hefur gjaldmiðillinn ekki unnið í takt við kast hagkerfisins heldur þvert á móti skaðað það óheyrilega og heldur áfram að brjóta það niður. Auður þessara landa verður að engu og framtíðarsýnin sem þau eiga í hinu sæla myntsamstarfi evrunnar er svört. Afhverju eiga Íslendingar að feta í þau fótspor með upptöku gjaldmiðils sem ekki sveiflast með hagkerfinu? /-b.


Metatvinuleysi á evrusvæðinu er engin tilviljun

Draumur ESB-sinna um evru fyrir Íslendinga er helsta og algengasta röksemd þeirra fyrir inngöngu í ESB. En sameiginleg mynt þjóða sem búa við mjög ólíkar aðstæður á vafalaust sök á því að hvergi innan OECD er meira atvinnuleysi en einmitt á evrusvæðinu.

 

Samkvæmt nýjustu tölum OECD um atvinnuleysi er það 11,4% á evru-svæðinu, en til samanburðar má nefna að í sjö helstu iðnríkjum heims mældist atvinnuleysið að meðaltali 7,4% á síðasta ári. Meðalatvinnuleysi í ESB var 10,5%.

 

Tölur þessar segja heilmikla sögu. Gengi allra mynta sveiflast töluvert; ríki sem eru með eigin mynt og standa sterkt að vígi efnahagslega eru með hátt gengi, en þau sem verða fyrir erfiðleikum og áföllum þurfa lágt gengi til þess að verða betur samkeppnishæf og ná sér upp úr djúpum kreppulægðum. En á evrusvæðinu er sama gengi fyrir alla. Langvoldugasta ríkið, Þýskaland, ræður ferðinni og nýtur góðs af, en ýmis ríki á jaðri svæðisins engjast í fjötrum evrunnar.

 

Spánn er sér á parti hvað varðar atvinnuleysi en á síðasta ári var rúmur fjórðungur vinnufærra manna án atvinnu. En atvinnuleysi er einnig mjög mikið í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og Ítalíu. 53% ungs fólks á aldrinum 15-24 ára eru án atvinnu á Spáni, í Portúgal er hlutfall atvinnulausra á þessum aldri 38%, 35% á Ítalíu og 31% á Írlandi.

 

Ástandið er miklu skárra í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem atvinnuleysi á liðnu ári var í báðum ríkjum rúmlega 8%. Í Suður-Kóreu og Japan er atvinnuleysi minnst hjá OECD ríkjum eða 3,2% og 4,4%. Á Íslandi mældist atvinnuleysið að meðaltali 6% á síðasta ári en 13,8% hjá yngsta aldurshópnum. Hér fór atvinnuleysið upp í 8-9% eftir hrunið en hefur lækkað jafnt og þétt frá 2010 og er enn að lækka.

 

Þeir sem eru veikir fyrir því að við Íslendingar göngum í ESB í því skyni að taka upp evru þurfa að átta sig á því að þótt vissulega fylgi því ýmsir ókostir að búa við sjálfstæða mynt eins og krónuna þá er hitt hálfu verra þegar þjóðir festast í atvinnuleysis- og fátæktargildru vegna þess að hagkerfi þeirra er svo gjörólíkt þýska hagkerfinu að það sem hentar Þjóðverjum vel reynist öðrum illa. - RA  
mbl.is 63,3% andvíg inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svindl og afleiðuviðskipti með hneggjandi nautakjöt

Fleiri þúsund ESB tilskipanir og reglugerðir gagnslausar 
 

Nú hefur komið í ljós að hrossakjöts-skandalinn sem hneggjar á neytendur og skekur mörg ríki Evrópusambandsins er mjög víðtækt og skipulagt neytenda- og matvælasvindl  sem hefur staðið yfir lengi með dyggri hjálp fjórfrelsisins svokallaða. Við sögu koma gríðarlega flókin afleiðuviðskipti með kjöt og kjötafurðir milli margra landa og fjölda Evrópskra stórfyrirtækja og fyrirtækjasamsteypa í matvælaiðnaðinum.

Það gerir málið en neyðarlegra og ljótara fyrir framkvæmdastjórn ESB og hið samevrópska regluverk að aðal sökudólgurinn í málinu er evrópskt stórfyrirtæki sem ESB elítan hafði sérstakar mætur á þ.e. Evrópska stórfyritækja samsteypan FINDUS sem er marg vottað fyrirtæki með alla samevrópska ferla og staðla sem fyrir finnast í gervöllu regluverki skriffinnanna í Brussel. www.bbc.co.uk/news/uk-21374799

En eins og ýmis önnur stórfyrirtæki og fyrirtækjasamsteypur í Evrópu þá hefur FINDUS matvælarisinn lagt undir sig matvæla- og kjötmarkaði álfunnar með því að knésetja og yfirtaka og setja í þrot hundruðir smærri staðbundinna matvæla- og kjötvinnslufyrirtækja og við þá iðju auðvitað notið sérstakrar og sameiginlegrar velvildar stórkapítalsins, bankaelítunnar og miðstýringar valdsins í Brussel.

Enda er FINDUS samsteypan með á sínum snærum fjölmörg PR fyrirtæki og nokkur hundruð "lobbýista" við störf í Brussel til að leggja línurnar, hjálpa til við reglusmíðarnar og gæta þar á allan hátt hagsmuna samsteypunnar. Hver veit hvaða stimpla og hvaða vottunar pappíra þeir hafa notað og fixað í þessu stór svindli sem „alveg óvart" komst upp. 

Allt öðru máli hefði gengt, hefði hér verið um að ræða einhverja staðbundna smærri kjötvinnslu eða lítið kaupfélag eða CO OP fyrirtæki bænda í Bretlandi eða Frakklandi. Þá hefði sjoppunni einfaldlega verið lokað með skít og skömm af mikilli velþóknun valdsmanna Brussel valdsins.  En FINDUS !  Nei - Ekki þú Brútus bróðir! 

Gríðarlega ógegnsætt flækjustig þessara afleiðuviðskipta með þessar kjötafurðir hefur greinilega verið skipulagt þannig í þaula að það nýtti sér öll ákvæði fjórfrelsisins, sem jafnframt gerði viðskiptin svo ógegnsæ og flókin og stimplana svo marga að rekjanleiki vörunnar virðist ekki vera fyrir hendi og því slapp varan auðveldlega fram hjá öllu matvælaeftirliti og þaðan fór það hneggjandi á léttu tölti ofan í kok neytenda.

Til að byrja með átti að reyna að kenna vondum Rúmenum og Kýpverjum um svindlið, en slóðin virðist vel falin og illmögulegt reyndist að rekja uppruna kjötsins og hvar íblöndunin og svindlið átti sér stað. Dýralæknar og ýmsir matvælaráðgjafar segja að vegna ýmissa dýrasjúkdóma sem aðeins finnast í hrossum þá geti lyfjaleyfar og jafnvel sterar, verið blandaðir í hrossakjötið, sem skaðlegir séu mönnum.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins veit ekki sitt rjúkandi ráð. Fyrst töluðu þeir í fáti um að þetta væri aðeins eitthvað smávægilegt umbúða vandamál hjá FINDUS. Lobbýistarnir hjá FINDUS vildu vinna fyrir kaupinu sínu og reyndu að selja þeim svona sögu.

Málið vefst fyrir framkvæmdastjórninni enda geta þeir ómögulega útskýrt hvers vegna þessi ósköp gátu eiginlega gerst þar sem að þúsundir tilskipanna og flókinna og "fullkominna" reglna ásamt fjölda eftirlits- og vottunarstofnana með margvíslegum gæðavottunar stimlum áttu algerlega að tryggja og sjá um og koma í veg fyrir að svona nokkuð gæti gerst. Samt gerðist það og varla var það fyrir hreina tilviljun ? Nei varla, hver trúir því ?

Svar þeirra í Brussel er aldrei að efast um eigið ágæti eða sköpunarverkið eða að spilling eða slæm undirstaða hinns miðstýrða regluverks geti verið ástæðan fyrir því hvað illa gengur. Nei, eins og alltaf þegar augljósir vankantar þessa flókna og rándýra regluverks koma í ljós, þá er ævinlega hrópað á enn meiri reglur og enn meira eftirlit og enn meiri fjármuni og valdheimildir til miðstjórnarinnar.

Á þeirra máli heitir það alltaf það sama þ.e.: Miklu meira af því sama - Meira ESB, meiri Evrópa.

Það er ekki langt síðan að það uppgötvaðist hérlendis að um tíma hafði salt sem merkt var sem "iðnaðarsalt" verið í einhverjum mæli notað sem salt í sumar matvælaafurðir sem framleiddar voru hér á landi. Saltið var reyndar talið hafa verið alveg skaðlaust en það hafði ekki haft vottun um að vera leyfilegt til matvælavinnslu.

Þessu hefur nú verið hætt fyrir nokkru síðan, en engu að síður voru þessi mistök að sjálfssögðu talið vont mál fyrir neytendur, framleiðendur og hið íslenska matvælaeftirlit. Margir ESB sinnar hneyksluðust heil ósköp yfir þessu og töldu að þetta hefði náttúrulega aldrei getað gerst hefðum við verið í ESB og að fullu og öllu undir hinu samevrópska  og  miðstýrða eftirliti og regluverki þess. Allir sjá auðvitað að það hefði alls ekki verið nein trygging.

Hinn allt um vefjandi, alvitri og fullkomni keisari ESB valdsins stendur enn á ný alls nakinn á sviðinu, það sjá allir sem vilja sjá. /GI

Ungliðar í VG leggja fram ESB tillögu fyrir Landsfund

Ungliðar í VG hafa lagt fram tillögu fyrir Landsfund flokksins sem haldinn verður síðar í þessum mánuði. Þar er tekið undir þá hugmynd sem var rædd her á blogginu í gær að efnt verði til kosninga um ESB. Orðrétt segir í tillögu stjórnar ungra vinstri grænna:

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar  - græns framboðs telur nauðsynlegt að endurskoða afstöðu ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Sú valdbeiting sem varð til þess að ríkisstjórnarþingmenn samþykktu aðildarumsókn á sínum tíma má ekki verða til stefnumótunar fyrir áframhaldandi samstarf félagshyggjuflokkanna. Ef möguleiki á að vera á slíku samstarfi þurfa meðlimir stjórnarflokkanna að leggja til hliðar ofstækisfulla orðræðu og taka ákvörðun um hvort halda eigi ferlinu áfram.

Ósamstaða vegna þessa máls hefur klofið hreyfinguna og bera þar óbilgirni umsóknarandstæðinga og meðfærileiki flokksforystunnar gagnvart kröfum samstarfsflokksins hvort tveggja sök. Sú málamiðlun sem var gerð á stefnu hreyfingarinnar við ríkisstjórnarmyndun hefur ekki breytt afstöðu hennar til aðildarumsóknar. Það er yfirlýst afstaða hreyfingarinnar að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en að aðild verði aðeins ákvörðuð með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landsfundur telur nauðsynlegt að ákvörðun um  áframhaldandi aðildarviðræður verði lögð í dóm þjóðarinnar.

Stjórn Ungra vinstri grænna 

Það sem vekur hér athygli er að í tillögunni er afdráttarlaus yfirlýsing um að valdbeitingu hafi verið beitt við að koma aðildarumsókn í gegnum Alþingi. Þetta er í reynd hið alvarlegasta sem hægt er að saka lýðræðislega ríkisstjórn um,- að hún beiti Alþingi valdi við að koma máli sínu í gegn. Þessu hefur verið haldið fram m.a. af þingmönnum sem hafa yfirgefið VG. En þegar lengra er lesið í tillögu ungliða er greinilegt að hún er í heild málamiðlun milli ESB sinna og ESB andstæðinga því rétt síðar eru umsóknarandstæðingar sakaðir um óbilgirni, líklega þá einmitt þeir sem ekki voru til í að beygja sig fyrir valdbeitingu ríkisstjórnarinnar.

Tillagan endar á málsgrein sem gefur VG færi á að samþykkja ályktunina en aðhafast ekkert þar sem engin tímamörk eru á því hvenær efna eigi til atkvæðagreiðslu og taka þar með ákvörðun um framhaldið. Forystan hefur því möguleika á að standa að umsókinni út kjörtímabilið en getur svo að nýju beitt sér sem andstöðuflokkur við ESB eftir kosningar - enda þá væntanlega í stjórnarandstöðu.

Spurningin hlýtur að vera hversu trúverðugt útspil er hér á ferðinni. /-b.


Alþingi ber að slíta ESB viðræðunum

Einn af athyglisverðari pennum Samfylkingarinnar er Karl Th. Birgisson blaðamaður. Hann skrifar á Eyjubloggi sínu um þá möguleika sem geta komið upp í kjölfar kosninga þar sem að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og VG hafa lýst yfir andstöðu við aðild að ESB en vilja láta kjósa um framhald viðræðna. Gefum ESB sinnanum Karli orðið:

Gott og vel.

Setjum sem svo að síðara sjónarmiðið verði ofan á í stjórnarmyndun, til dæmis í ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks: Þjóðin fái að ákveða hvort viðræðum verður fram haldið.

Setjum líka sem svo að þjóðin segi já. Þjóðin segir „Já, takk, við viljum klára þessar viðræður og kjósa svo um samninginn."

Þetta er alls ekki óhugsandi rás atburða.

Hvaða staða verður þá uppi?

Flokkarnir, sem eru andvígir aðild að ESB og segja hana beinlínis ganga gegn hagsmunum Íslands, eiga þá að klára viðræðurnar.

ESB-andstæðingarnir fara semsagt í samningaviðræður um aðild að Evrópusambandinu. Þeir taka að sér að ljúka samningum, þar með talið um viðkvæmustu kaflana, landbúnað og sjávarútveg.

Óháð því hversu líklegt er að ESB-andstæðingar leggi blóð, svita og tár í samningagerðina eða gefi hreinlega allar kröfur eftir - trúir þeirri sannfæringu sinni að ESB-aðild sé hvort sem er vond - óháð því er þetta absúrd staða.

Hér er á ferðinni mjög málefnaleg gagnrýni ESB sinna en vitaskuld liggur einnig í orðum Karls sú staðreynd að allt aðlöguunarferlið er "absúrd" meðan meirihluti þjóðarinnar er andvígur aðild.  

Þó svo að við ESB andstæðingar gerum jafnan ráð fyrir að vinna kosningar sem þessar þá er fráleitt að fara í kosningaslag án þess að gera ráð fyrir báðum kostum sem mögulegri niðurstöðu. Einhverjir hafa að vísu sett málið þannig fram að við kosningar um ESB eigi einfaldlega að greiða atkvæði um það hvort Ísland vilji ganga í ESB og þá er niðurstaðan vitaskuld ljós því aukinn meirihluti þjóðarinnar er andvígur aðild. En það er þó hverjum manni ljóst að kosningum nú í miðju aðlögunarferli ESB yrði alltaf snúið upp í spurninguna um það hvort klára eigi ferlið. Þessvegna er krafan um kosningar nú frekar óraunhæf krafa og barnaleg.

Staðreyndin er sú að engin þjóð getur sótt um að verða eitthvað sem hún ekki vill vera. Áður en sótt var um aðild lögðu ESB andstæðingar á Alþingi fram tillögu um að efnt væri til þjóðaratkvæðis um það hvort sækja skyldi um. ESB sinnar í þinginu lögðu ekki í þann slag heldur beittu ofríki til að þvinga fram umsókn. Það sama gerðist raunar þegar EES var þvingað upp á þjóðina, þá sveik þingið þjóðina um að fá að greiða atkvæði þrátt fyrir einarða kröfu þar um. Nú eru aftur á móti engar forsendur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og það eru enn síður forsendur til að halda aðlögunarferlinu áfram í blóra við mikinn meirihluta þjóðar.

Það er þessvegna rökrétt að Alþingi sjálft slíti viðræðunum. Í framhaldi af því getur þingið efnt til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, gjaldmiðil og fleira. Þar ætti vitaskuld að spyrja um aðild að ESB en einnig hvort banna eigi verðtryggingu húsnæðislána, hvort segja eigi upp EES og hvort þjóðin vilji kasta sinni krónu og taka upp gjaldmiðil annarrar þjóðar. Niðurstaða af slíkum þjóðarpúlsi gæti orðið virk leiðsögn fyrir stjörnvöld.  /-b.


ESB þingið hafnar því að aðildarríkin endurheimti forræði sitt á auðlindum sjávar

Ný sameiginleg fiskveiðistefna ESB felur í sér enn frekara framsal til Brussel á forræði aðildarríkja. Nú ætlar ESB líka að leggja undir sig sjávarbotninn. Þeir sem reyna að telja Íslendingum trú um að við höldum forræði okkar yfir auðlindum sjávar við inngöngu ættu að hætta þeim blekkingaleik.

 

Fjölmiðlar á Íslandi hafa lítið fjallað um ályktun ESB-þingsins s.l. miðvikudag um nýja fiskveiðistefnu ESB, þ.e. CFP, The Common Fisheries Policy. Þar var felld sú tillaga Sjálfstæðisflokksins breska að flytja ætti núverandi yfirráðarétt ESB yfir fiskveiðiauðlindum aðildarríkjanna heim í hérað, þ.e. til ríkisstjórna og lögþinga aðildarþjóðanna. Breytingatillagan var nr. 214 og þar stóð m.a:

 

„Therefore, the Common Fisheries Policy should be repatriated to Member States as soon as possible. In order to achieve this, the Union should repeal all existing relevant Union legislation and facilitate this repatriation of competences.“

 

Samkvæmt reglum CFP hafa aðildarríkin haft einkalögsögu  við strendur lands síns út að 12 mílna mörkum, en svæðið milli 12 og 200 mílna hefur verið undir lögsögu ESB. Hin fræga sérlausn, sem Malta fékk og ESB-sinnar hafa löngum hampað, gekk út á einkalögsögu Möltu að 25 mílna mörkum, (þ.e. 13 mílna kragi til viðbótar), en jafnframt var áskilið að þar mættu einungis smábátar veiða  sem væru styttri en 24 metrar, þ.e. undir ca. 100 tonnum. Malta þarf þó engu að síður að deila veiðum milli 12 og 25 mílna með útgerðaraðilum frá öðrum ESB-ríkjum. En þar sem þessi takmörkun felur í sér að einungis má veiða á fremur smáum bátum og alllangt er til flestra annarra landa sitja Möltubúar nær einir að veiðum á þessu svæði. Þetta er því sérlausn sem hvorki er undanþága frá meginreglunni um jafnan aðgang að miðum ESB-ríkja né í ósamræmi við regluna um veiðireynslu (hlutfallslegan stöðugleika).

 

Í nýrri samþykkt ESB-þingsins felst nú að stefnt skuli að því að 12 mílna reglan hverfi með öllu eftir 10 ár. Í 2. málsgrein 6. gr. samþykktar ESB-þingsins (Article 6 – paragraph 2) er eins konar sólarlagsákvæði. Þar stendur orðrétt:

 

„In the waters up to 12 nautical miles from baselines under their sovereignty or jurisdiction, Member States shall be authorised from 1 January 2013 to 31 December 2022 to restrict fishing to fishing vessels that traditionally fish in those waters from ports on the adjacent coast, without prejudice to the arrangements for Union fishing vessels flying the flag of other Member States under existing neighbourhood relations between Member States and the arrangements contained in Annex I, fixing for each Member State the geographical zones within the coastal bands of other Member States where fishing activities are pursued and the species concerned. Member States shall inform the Commission of the restrictions put in place under this paragraph.“

 

63. breytingartillaga sem til atkvæða kom snerist um skilgreiningu á hugtakinu „Union waters“ sem stundum er þýtt á íslensku sem „Evrópuhafið“ eða „ESB-hafið“ en það er eins og áður segir hafsvæðið milli 12 og 200 mílna. Við afgreiðslu þingsins á 63. breytingarttilögu (við fyrirliggjandi tillögur frá framkvæmdastjórninni) var bætt inn í skilgreiningu á hugtakinu „Union waters“ þremur afar mikilvægum orðum, þ.e. „and the seabed“ sem í íslenskri þýðingu merkir „og sjávarbotninn“ .

 

Fjölmiðlar hafa nær eingöngu sagt frá þeim hluta af samþykktum Evrópuþingsins um breytingar á fiskveiðistefnu ESB sem miða að því að draga úr því að fiski sé fleygt í hafið og verja fiskistofna í lögsögu ESB. Að sjálfsögðu voru það bæði merkileg og jákvæð tíðindi, því að framkvæmdastjórninni í Brussel hefur tekist að rústa svo fiskistofnum undir sinni stjórn að nú er viðurkennt að 75% af öllum fiskistofnun innan ESB séu ofveiddir og í stórfelldri hættu, en um 23% af afla fiskiskipa í ríkjum ESB er hent aftur í hafið af ýmsum ástæðum, m.a. vegna kvótareglna og vegna þess að fiskurinn er of smár.

 

Samþykkt ESB þingsins var gerð með 502 atkvæðum gegn 137. En málið er langt í frá fullfrágengið því að það á eftir að fara fyrir ráðherraráðið. Það voru einkum þingmenn sem eru andsnúnir Evrópusamrunanum, sem greiddu atkvæði gegn tillögunni. Það var þó ekki vegna þess að þeir séu því andvígir að dregið verði úr því að fiski sé fleygt í hafið. Þeir vildu einmitt flestir ganga lengra hvað það varðar en gert var. Hins vegar vildu þeir flestir að aðildarríkin hefðu 200 mílna einkalögsögu hvert fyrir sig og voru stórhneykslaðir á því að framkvæmdastjórnin og þingið hygðust draga auðæfi á sjávarbotninum innan 200 mílna út frá ströndum aðildarríkja undir sína stjórn.

 

Sennilega er ákvörðun ESB-þingsins um sjávarbotninn stærstu tíðindin sem urðu í þessari atkvæðagreiðslu og getur átt eftir að marka mikil tímamót í sögu ESB ef það verður endanleg niðurstaða. Ríki eins og Bretland og Írland munu aldrei sætta sig við að yfirráðin yfir sjávarbotninum færist til Brussel og frekar kjósa að yfirgefa ESB.

 

Ragnar Arnalds


Árni Páll og Árni Páll

Nú er ljóst orðið að Árni Páll Árnason er nýr foringi Samfylkingarinnar. Hann er grjótharður Evrópusinni og má eiga það að hann fer ekki í neinar grafgötur með þá skoðun sína. Það er fengur að heilum mönnum í pólitík - þó maður sé ekki sammála skoðunum þeirra.

Guðmundur Steingrímsson er að nokkru annar Árni Páll - hann er þó laumulegri um afstöðu sína um ESB-aðild en ferst það ekki vel að leyna aðdáun sinni á sambandinu og er þegar öllu er á botninn hvolft heldur harðari Evrópusinni en Árni Páll.

Bjarni Benediktsson er Evrópusinni en hann á bágt með að úttala sig um málefnið þar sem sterk andstaða er við það í hans flokki. Hann er sjálfur Guðjón (Árni Páll) inn við beinið.

Steingrímur J. Sigfússon reynir enn að sannfæra kjósendur um að hann sé ekki Árni Páll í eðli sínu en gleymir því þá um leið að hann hefur verið annað tveggja höfuð þessarar ríkisstjórnar sem hefur ekki afrekað minna en að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samt kveinar Steingrímur og rifjast þá upp orðatiltæki sem ég heyrði stundum á æskuslóðum mínum: Skítmenni breka mest.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður Evrópusinni eftir kosningar verði honum boðið það.

Af þessari upptalningu má sjá að þörf er á raunhæfum valkosti í íslenskri pólitík. Valkosti sem stendur heill og óhaggaður vörð um sjálfstæði landsins en er um leið dyggur talsmaður þess að Ísland geti átt frjáls og óhindruð samskipti á öllum sviðum við öll heimsins lönd.


5 birtingarmyndir þjóðrembu íslenskra ESB-sinna

Íslenskir ESB-sinnar eru duglegir við að saka okkur ESB-andstæðingana um þjóðrembu, yfirleitt gersamlega að tilefnislausu. Þeir sjá hins vegar ekki eigin þjóðrembu, eins og hún birtist svo ótal oft í ýmsum myndum. Kannski er einhver bjálki í auga að...

Sigmundur og Bjarni: Ekkert í pakkanum og ekki eftir neinu að bíða

Aðildarviðræður snúast um það hvernig ríki lagar sig að regluverki ESB. Sérlausnir eru tímabundnar og verða að rúmast innan regluverksins sem sjálft er óumsemjanlegt. Umræðan hér á landi um ESB er á villigötum. Varanlegar undanþágur frá regluverkinu fást...

Eftirlit með skoðunum innan ESB!

Embættismenn ESB hafa nú ákveðið að fylgjast kerfisbundið og skipulega með öllum umræðum og"óæskilegum" skoðunum fólks á netinu um ESB. Í því sambandi er nú unnið að því að þjálfa einskonar skoðanalögreglu sem geti skráð og kortlagt þessar óæskilegu...

Á fullveldið bjarta framtíð?

Fyrir áhugamenn um stjórnmál eru nú uppi mjög áhugaverðir tímar. Hér verður fyrst og fremst horft á stöðuna út frá ESB málum. Fyrst af öllu er ástæða til að vara við þeim hugsunarhætti að baráttunni gegn aðild að ESB sé lokið og umsóknin þegar búin að...

Höftin hverfa ekki með hókus-pókus aðferðum

Aftur og aftur er reynt að telja fólki trú um að með því að skipta krónunni út fyrir erlendan gjaldmiðil sé svonefndur snjóhengjuvandi úr sögunni, nú seinast á að blekkja fyrirhugaðan landsfund sjálfstæðismanna til að gleypa þá flugu. Kanadadollar á að...

Icesave: innsýn í miðstýrt auðs- og valdakerfi

Neyðarlögin voru sett 6. október 2008. Tveimur dögum síðar settu Bretar hryðjuverkalög á íslensku bankana. Skömmu síðar lýsti Geir Haarde yfir að ríkissjóður myndi standa við „alþjóðlegar skuldbindingar" og styðja Tryggingasjóð innstæðueigenda. Í...

Allt í þágu ESB

Í fyrradag (30. janúar) var gengið, eina ferðina enn, fram af grimmilegri hörku gegn saklausum verkalýð í Grikklandi. Óeirðalögregla gekk í skrokk á mótmælendum og framkvæmdi að lokum ólögmætar handtökur þegar fólk var að mótmæla í friðsamlegri göngu...

Ákvarðanataka í Fjarskanistan

Fjarlægð er ekki aðeins mæld í vegalengdum heldur einnig í því hversu auðvelt er að nálgast það sem þar, í fjarskanum, er að finna. Þótt Brussel sé ekki í ýkja langri fjarlægð frá Reykjavík og enn skemur frá Fljótshlíð eða Djúpavogi, þá er leiðin þangað...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband