Þess vegna var Jón Bjarnason rekinn úr utanríkismálanefnd

Líklega er það einsdæmi í þingsögunni að þingmaður sé rekinn úr þingnefnd til að hindra á seinustu stundu að mál sem nefndin hefur samþykkt en hefur enn ekki sent formlega frá sér komist út úr nefndinni og til atkvæða í þinginu.

 

Mörgum þykir ríkisstjórnarsamþykktin sem fæddist í gær um að „hægja á samningaferlinu við ESB“ heldur veiklulega orðuð. Hún felur það eitt í sér að málið er lagt á ís og verður endurmetið að kosningum loknum. Það skýrist því ekki fyrr en í vor hvaða afleiðingar hún hefur í för með sér.

 

Þessi samþykkt ein og sér markar engin tímamót en er engu að síður stutt skref í rétta átt. Hún er áfangasigur fyrir andstæðinga ESB-aðildar og skapar þeim viðspyrnu til að tryggja að aðildarumsóknin verði endanlega lögð til hliðar að loknum kosningum og viðræðunum verði þá formlega slitið.

 

Loðið og veikt orðalag í samþykktinni um „að hægja á samningaferlinu“ ber fyrst og fremst vott um mikil átök sem áttu sér stað að tjaldabaki milli forystumanna stjórnarflokkanna áður en þessi málamiðlunarleið varð fyrir valinu.

 

Öllum er ljóst að forystumenn Samfylkingarinnar voru mjög ófúsir að gera nokkra samþykkt varðandi ESB-viðræðurnar og sérstaklega hafði Össur utanríkisráðherra allt á hornum sér og taldi að verið væri að rífa málið úr höndum sér. Þegar Össur kynnti Alþingi störf og stefnu í utanríkismálum á s.l. vori (26/4) sagði hann: „Ég tel að kröfur um að slá aðildarviðræðunum á frest séu óðagot og yfirskot.“ Þess vegna er óneitanlega heldur skoplegt að heyra Össur halda því fram í gær, að það að málið sé sett á ís með formlegri tilkynningu til leiðtoga ESB sé í fullu samræmi við sínar kokkabækur.

 

Enginn úr liði ESB-sinna tekur undir með Össuri að niðurstaðan sé góð. Jón Steinar Valdimarsson, einn helsti fyrirliði ESB-sinna sendir Össuri og ríkisstjórninni tóninn á vefsíðu Evrópusamtakanna í dag og segir m.a: „Stjórnmálamenn eiga margir hverjir erfitt með að hugsa til lengri tíma en enda hvers kjörtímabils. Eigið þingsæti og hagsmunir flokksins yfirskyggja því miður oftar en ekki langtímahagsmuni lands og lýðs. Slíkir stjórnmálamenn eru okkur skeinuhættir og þá eigum við að forðast eftir mætti.“  Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Já, Ísland, harmaði samþykkt ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu í viðtali á Rás tvö í gær.

 

Vitað er að forystumenn Samfylkingarinnar tóku áramótaboðskap Steingríms mjög illa, þegar hann lýsti því yfir að óhjákvæmilegt væri „að endurmeta nú stöðu viðræðna við Evrópusambandið í ljósi breyttra forsendna “. Að sjálfsögðu skiptir einnig meginmáli í þessu sambandi að allar skoðanakannanir sem fram hafa farið frá því að aðildarumsóknin var send hafa sýnt að mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur því að láta leiða sig inn í ESB.

 

Jafnframt er ljóst að viðræðurnar við ESB hafa gengið miklu hægar en nokkurn óraði fyrir. Össur getur ekki bent á að samið hafi verið um eitt einasta atriði sem máli skipti fyrir Íslendinga. En ofan á allt annað óttaðist Samfylkingin eins og heitan eldinn að brátt kæmi á dagskrá þingsins tillaga til þingsályktunar frá meirihluta utanríkismálanefndar þess efnis að aðildarumsókninni skuli vikið til hliðar og viðræður ekki hafnar á ný við ESB nema fyrir liggi samþykki landsmanna í þjóðaratkvæði.

 

Það sem Samfylkingin fékk fyrir sinn snúð þegar gengið var frá samþykkt ríkisstjórnarinnar var einmitt rúsínan í pylsuendanum, þ.e. að Jón Bjarnason skyldi tafarlaust rekinn úr utanríkismálanefnd áður en hann næði að skrifa formlega undir tillögu nefndarinnar sem var munnlega samþykkt þar fyrir jól en hafði ekki verið formlega afgreidd til þingsins. Þar með eru auknar líkur taldar á því að tillagan komi aldrei til atkvæða í þingsalnum áður en kjörtímabilinu lýkur og þingmenn kveðja. Það er ekki mikil ást á lýðræði og þingræði sem felst í þessari ákvörðun. - RA
mbl.is VG spáði aldrei hraðferð í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamót eða merkingalaus kosningaleikur?

Aðlögun Íslands að Evrópusambandinu er á fullu skriði og hefur verið allt kjörtímabilið eins og margoft hefur verið rakið hér á síðu Vinstri vaktarinnar og i fjölmiðlum landsmanna. Þetta er gert þrátt fyrir vaxandi andstöðu innanlands og alvarlega ólgu í jaðarlöndum ESB.

Ákvörðun um að hægja á Evrópulestinni nú án þess að atbeina Alþingis þurfi til að setja lestina á fullt að nýju er ekki dýr fórn fyrir utanríkisráðherra. Þetta getur öðrum þræði verið tækifæri fyrir svokallaða samninganefnd til að vinna að viðkvæmum málum án þess að athygli þings og þjóðar sé að trufla. Ferlið er í gangi, það verður ekki lagt til hliðar eins og forystumenn VG höfðu gefið ádrátt um og áfram vinnur mútufé ESB sitt hljóðláta starf. 

En þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar verður engu að síður að skoða í ljósi alls gerst hefur. Meirihluti utanríkismálanefndar hefur lagt fram tillögu um að leggja umsóknina alfarið til hliðar og taka hana ekki upp nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihluti nefndarinnar hefur það væntanlega í hendi sér að koma þeirri tillögu á dagskrá Alþingis. Þar með stæðu þingmenn frammi fyrir því rétt fyrir kosningar að opinbera afstöðu sína í málinu.

Slík atkvæðagreiðsla yrði mjög erfið fyrir þá þingmenn VG sem bjóða sig fram til áframhaldandi þingsetu. En um leið upplýsandi fyrir kjósendur. Afgreiðslu ríkisstjórnarinnar nú er stefnt gegn þeirri atburðarás og nú ríður vissulega á að meirihluti utanríkismálanefndar, skipaður fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Jóni Bjarnasyni - kikni ekki. / -b.


mbl.is Hægt á viðræðunum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljum við ganga inn í Bandaríki Evrópu undir þýsk-frönsku forræði?

Þessari spurningu verða íslenskir ESB-sinnar að svara af hreinskilni. Aðalrök Össurar fyrir inngöngu Íslands í ESB er upptaka evru. Þó er ljóst að evran lifir tæpast af nema utan um hana rísi nýtt, miðstýrt stórríki undir forystu Þjóðverja og Frakka. Vill þjóðin láta teyma sig inn í fjarlægt stórríki? Hún hefur aldrei verið spurð.

 

Rök ESB-sinna fyrir upptöku evru eru afar óljós og loðin. Í seinni tíð eru aðalrökin orðin þau að hér verði gjaldeyrishöft til eilífðar ef evran sé ekki tekin upp. Sá hræðsluáróður er úr lausu lofti gripinn. Upptaka evru fylgir ekki sjálfkrafa í kjölfar ESB-aðildar. Við uppfyllum ekki skilyrðin fyrir upptöku evru og höfum raunar aldrei gert það. Um einn tugur ríkja í ESB er ekki með evru, þ.á.m. Bretar, Svíar og Danir.

 

Afnám gjaldeyrishafta á Íslandi, áður en innganga Íslendinga á sér stað, er eitt af skilyrðunum fyrir því að Íslendingum sé hleypt inn í ESB en ekki hitt að inngöngu í ESB fylgi afnám gjaldeyrishafta.  Það væri bjarnargreiði ef ESB veitti Íslendingum „aðstoð“ til að afnema gjaldeyrishöft með því að veita ríkinu risalán í þeim tilgangi að erlendir vogunarsjóðir geti sloppið sem fyrst úr innilokun sinni. Viðleitni Össurar til að blanda saman gjaldeyrishöftunum og inngöngu í ESB er því innantómur og yfirborðslegur áróður.

 

Það er komin ólykt af tálbeitunni sem lokka á Íslendinga inn í ESB. Upptaka sameiginlegrar myntar fyrir sautján þjóða í Norður og Suður Evrópu sem búa við gjörólíkar efnahagslega aðstæður var tilraun sem reynst hefur háskalegt glæfraspil. Sú tilraun virðist dæmd til að misheppnast.

 

Hvers vegna? „Það er ekkert dæmi til í sögunni um varanlegt gjaldmiðilssamband (monetary union) sem ekki var hluti af einu ríki.“ Þetta sagði Otmar Issing, fyrrum bankastjóri Seðlabanka ESB (ECB) og aðalhagfræðingur German Bundesbank fyrir nokkrum árum.

 

Með öðrum orðum: fyrst þarf að mynda eitt miðstýrt stórríki til þess að tilraunin geti gengið upp. Nú er reynt í örvæntingu að berja í brestina með því að knýja evruríkin til að framselja til ESB enn meira af fullveldisréttindum þeirra, þ.á m. réttinn til að ráða yfir fjárlögum sínum og skattamálum.

 

Jack Straw, fyrrum utanríkisráðherra Breta úr Verkamannaflokknum var ekkert að skafa utan af því þegar hann sagði: „Þar sem ljóst er að evran í núverandi mynd mun hrynja er þá ekki best að það gerist snögglega fremur en í langvinnu dauðastríði?“  

 

ESB-sinnar endurtaka í sífellu að íslenska krónan sé „ónýt“ vegna þess að gengi hennar hefur lækkað mikið undanfarna áratugi. En hvaða gjaldmiðill annar en gull og silfur hefur ekki lækkað mikið að verðgildi? Heimsverðbólgan er stöðugt að verki, stundum hratt, stundum hægt. Dollarinn hefur tapað 90% af veðgildi sínu frá sem var fyrir stríð.

 

Aðalhagfræðingur Finacial Times í Bretlandi, Martin Wolf, sem af mörgum er talinn einn helsti blaðamaður heims á sviði efnahagsmála sagði á fundi VÍB 26. okt. 2011, að hann sæi ekkert að því að Íslendingar héldu fast í krónuna, „minnsta gjaldmiðil í heimi“. Hún hefði reynst þeim ágætlega. - RA


Samfylkjum!

Taktíkin í baráttunni er alltaf mikilvæg og ræður stundum úrslitum. Hverjir eiga samleið? Hverjir vilja standa saman? Hvað skilar bestum árangri? Í samtakabaráttu almennings fyrir hagsmunum sínum er grundvallaratriði að kunna að samfylkja,  að sameina þá sem sameinast geta um þau mál sem brýnust eru á hverjum tíma.

Baráttan gegn ESB-aðild Íslands er slíkt mál . Við vitum að andastaðan gegn ESB-aðild er þverpólitísk. Hún er m.a. afar breið á skalanum hægri-vinstri. En það er vandaverk að samfylkja, Í því efni er auðvelt að falla í gryfjur, ýmist út frá eingin flokkshollustu, pirringi eða óþolinmæði gagnvart fólki úr öðrum flokkum m.m. Í ESB-andstöðunni gengur þetta brösótt eins og stundum áður í líku samhengi..

Samtökin Heimssýn eru mikilvægustu samtökin í baráttunni gegn ESB-aðild, enda eru þau - að ég held - einu samtökin sem helga  sig alveg því málefni. Og þau eru skipulögð sem ekta samfylking. Í lögum þeirra segir að þau séu: „þverpólitísk landssamtök fólks sem hefur mismunandi skoðanir á þjóðmálum en vinnur saman á vettvangi samtakanna til verndar íslensku sjálfstæði og lýðræði..."

Það er ekkert nema gott um þessi lög að segja. Þau eiga að geta sameinað ólíka hópa. Samt hefur allmjög borið á sundrungu í Heimssýn og innan raða ESB-andstæðinga. Spurningin er: Er það skortur á TAKTÍK eða vantar VILJANN til að standa saman? Lítum á fáeina sundrungarbresti sem orðið hafa.

Það var slæmt þegar Páll Vilhjálmsson fyrir skemmstu skaut breiðsíðu að VG sem flokki, sagði að koma þyrfti VG af þingi vegna eftirgjafa og svika flokksforustunnar í Evrópumálum.  Með því móti var Páll farinn að reka frá sér marga eindregna ESB-andstæðinga sem halda tryggð við VG. Þetta var sérstaklega slæmt af því Páll var helsti starfsmaður Heimssýnar og bloggaði þetta á vef samtakanna, að vísu undir eigin upphafsstöfum. Páll er kappsamur og hressilegur baráttumaður, en ekki sérlega taktískur, og breiðsíða hans kostaði nokkrar úrsagnir úr samtökunum.  Hann tók afleiðingum af því og sagði af sér sem starfsmaður Heimssýnar.

Hins vegar er Páli Vilhjálmssyni og örðum ESB-andstæðingum vandi á höndum að fást við VG. Samtök stofnuð til að berjast gegn ESB-aðild hljóta óhjákvæmilega að gagnrýna harkalega ríkisstjórn sem sækir um inngöngu í sambandið, og forustu þeirra flokka sem hafa forgöngu að slíkri umsókn (jafnvel gegn eigin stefnu). Samt þarf að forðast gagnrýni sem er árás á alla stuðningsmenn stjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Það er vandrataður meðalvegurinn - en um hann liggur leiðin að markinu.

Svo eru það annars konar úrsagnir úr Heimssýn, formlegar eða óformlegar. Menn hafa gengið úr liðinu - og yfirgefið alla virka ESB-andstöðu - á þeim forsendum að einhverjir séu í liðinu sem þeir vilja ekki hafa með.  Árni Þór Sigurðsson réðist gegn vefmiðlinum „Evrópuvaktinni", þar sem Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson eru áberandi, á þeim forsendum að þar færu „öfgahægrimenn". Huginn Þorsteinsson og Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmenn Steingríms J. og Katrínar Jakobsdóttur, skrifa greinar og segja Heimssýn vera hluta af íslenskri „Teboðshreyfingu" og að samtökin hafi „runnið sitt skeið á enda".  Í mars 2011 lýsti Björn Valur Gíslason á bloggi sínu frati á Heimssýn og spurði hvort ekki væri tímabært að skapa sér nýjan vettvang til að takast á við umræðuna í stað þess sem Heimssýn er að bjóða upp á". Hvaða vísbendingu gefur það að nokkrir alnánustu bandamenn Steingríms J. Sigfússonara gangi fram í Evrópuumræðunni á þennan hátt?

Hugtakið „öfgahægrimenn" er yfirleitt notað um fasista, nasista, rasista, fólk sem berst gegn innflytjendum, gegn múslimum o.s.frv. Ég kæri mig reyndar ekki heldur um að starfa með öfgahægrimönnum í neinum samtökum. Hins vegar er meira en hæpið að tala um Björn Bjarnason og Styrmi Gunnarsson sem öfgahægrimenn. Frekar eru þeir hefðbundnir, þjóðlegir íslenskir hægrimenn. Og á „Evrópuvaktinni" er erfitt að finna dæmigerð rök öfgahægrimanna í rökstuðningi fyrir ESB-andstöðu. Enda nefndi Árni Þór ekkert dæmi því til staðfesteingar. Þeir Huginn og Elías Þór nefndu ekki heldur neitt dæmi um það hvernig hvernig málflutningur á vegum Heimssýnar samrýmdist málflutningi Teboðshreyfingarinnar bandarísku. Stimplarnir eru einfaldlega dregnir fram til að sverta þau samtök sem um ræðir

Björn Valur Gíslason hefur ekki skapað neinn „nýjan vettvang" fyrir baráttu gegn ESB hvorki fyrr né síðar. Og ekki heldur þeir Árni Þór, Huginn eða Elías Jón, síður en svo. Gagnrýnin úttekt á ESB er mjög fyrirferðalítil á vettvangi VG eftir að stjórnarsamstarfið hófst (sem skýrir það að meira ber á hægri en vinstri mönnum kringum Heimssýn). Þá lítur út fyrir að þátttaka hægrimanna í samfylkingu ESB-andstæðinga sé einfaldlega notuð sem átylla þessa fólks til að hlaupast á brott úr liðinu. Og það er alvarlegra mál en að vera ótaktískur.

ESB-andstaðan er breið og þverpólitísk. Það ætti að vera styrkur hennar, ef menn taka málstaðinn fram yfir flokkshagsmuni - og ef menn kunna að samfylkja. /ÞH


Maður er nefndur, Eamon Gilmore

Eamon Gilmore vinnur við það að vera utanríkisráðherra Írlands. Það er mikið að gera hjá Eamon Gilmore því hann er einnig aðstoðar-forsætisráðherra Írlands. Eamon Gilmore er reynslumikill stjórnmálamaður, fæddur árið 1955 og hefur setið á írska þinginu (Dáil Éireann) frá því 1989. Hann var ágætlega vinstri sinnaður – en er vart róttækur lengur – og hefur verið leiðtogi írska Verkamannaflokksins frá því 2007. Konan hans heitir Carol og er ágætis manneskja.

 

Eins og flestum mun kunnugt þá eru Írar meðlimir í Evrópusambandinu – og hafa verið frá því árið 1973. Eamon Gilmore byrjaði að skipta sér af stjórnmálum árið 1975 og hefur síðan tekið sleitulaust þátt í stjórnmálastarfi á eyjunni grænu.

 

Vegna þess sem að ofan er talið – og er það aðeins fátt eitt um téðan Gilmore – þá má ýkjulaust halda því fram að Eamon Gilmore viti sitthvað um Evrópusambandið og gangverk þess. Í vikunni tjáði þessi geðþekki írski ráðamaður sig um eðli aðildar að sambandinu. Það var í kjölfar umræðu um að Bretar væru tvístígandi sem aldrei fyrr um þátttöku í þessu apparati skriffinnsku og kúgunnar.

 

Eamon Gilmore sagði eitthvað á þá leið að Írar myndu beita sér af fullum þunga fyrir því að Bretar yrðu um kyrrt í sambandinu. Og hann sagði meira, Eamon Gilmore sagði að Bretar yrðu að taka þátt á öllum sviðum og lúta sömu leikreglum og allar hinar bandalagsþjóðirnar. Og hann sagði meira, hann ýjaði að því að Bretar vildu helst velja það besta úr Evrópu-samstarfinu, og ítrekaði þá um leið að slíkt gengi ekki upp. Og Eamon Gilmore sagði meira, hann sagði að eitt og hið sama yrði yfir öll aðildarríkin að ganga! Og síðan hnykkti hann Eamon Gilmore utanríkisráðherra Írlands á þessu fagnaðarerindi Evrópusambandsins og sagði að það væri útilokað að hafa í gangi 26 eða 27 útgáfur af sambandsaðild!

 

Kannski Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra Íslands ætti að panta tíma hjá Eamon Gilmore og fá hjá honum smá upplýsingar um fúnksjónina í Evrópusambandinu. Útgangspunkturinn gæti verið þessi: Það gengur ekki að það séu í gangi 26 eða 27 útgáfur af sambandsaðild. Og ef Össur Skarphéðinsson skilur það ekki þá er ekki ólíklegt að Eamon Gilmore myndi segja honum að: eitt og hið sama verður yfir öll aðildarríkin að ganga.

 

- gb.


Blekktu mig einu sinni og skömmin er þín, blekktu mig tvisvar og skömmin er mín

Flestir þeir sem Samfylkingin kýs að kalla villiketti og áður fundu sér samastað í Vinstri grænum, eiga það sammerkt að vera mjög eindregnir ESB-andstæðingar. Smátt og smátt hafa þeir verið flæmdir í burtu eða kosið að hverfa á braut og oftar en ekki er það vegna undirlægjuháttar Vinstri grænna við þá stefnu Samfylkingarinnar að koma þjóðinni í Evrópusambandið með góðu eða illu. Með því að halda áfram aðildarviðræðum og aðlögun að ESB-regluverkinu, með því að láta ESB ráða ferðinni í þessum samningaviðræðum sem áttu að taka svo örskamman tíma, með því að láta að því liggja að dráttur á því að fiskveiðar og landbúnaðarmál yrðu tekin til umfjöllunar væri Jóni Bjarnasyni að kenna. Það síðastnefna hefur reyndar háðulega afhjúpast og staðreyndin sú að ESB vill ljúka öllum öðrum viðræðum áður en snert er á þeim viðkvæmu málum.

Það er forvitnilegt að sjá hvernig nokkrir úr hópi villikattanna meta frammistöðu flokks síns, fyrrverandi eða núverandi, við brotthvarf úr stjórnmálum og/eða flokknum. Þegar Atli Gíslason sagði sig úr VG fyrir um 15 mánuðum sagði hann meðal annars: 

Ég hef nú sannreynt að fyrir kosningarnar vorið 2009 hafi verið ákveðið í þröngum hópi forystu VG og Samfylkingarinnar, næðu flokkarnir þingmeirihluta, að sækja um aðild að ESB og samþykkja Icesave, skilgetið afkvæmi ESB–umsóknarinnar. Sannleikanum var haldið frá mér og ótal fleirum í aðdraganda kosninganna. 

Ólafur Jónsson, Óli kommi, var heiðraður á landsfundi VG sömu helgi og Atli sagði sig úr flokknum. Tveimur mánuðum síðar sagði hann sig úr VG og sagði í blaðaviðtölum um úrsögnina að hún væri til komin vegna ,,dekurs við ESB og aðfararinnar að Jóni Bjarnasyni." Jón hafði þá verið hrakinn úr ráðherrastóli vegna þess að hann hélt uppi andstöðu við ESB, þótt ekki væri hún á sömu nótum og að ofan er getið. Nú hefur Jón Bjarnason ákveðið að bjóða sig ekki fram á vegum VG fyrir næsta kjörtímabil og þar ráða ESB-mál miklu. Hann segir meðal annars í bloggi sínu:

Það hafa orðið mér vonbrigði hvernig haldið hefur verið á mörgum stefnumálum VG síðusu misseri og vikið frá þeim gildum sem hann [flokkurinn] var stofnaður um.

Afstaða mín og skoðanir í þeim málum eru öllum kunnar. Ég nefni hér umsóknina um aðild að ESB þvert á grunnstefnu flokksins og gefin kosningaloforð, niðurskurð til velferðarmála, ásamt því hvernig hert hefur verið með margvíslegum hætti að íbúum á landsbyggðinni. 

Margir fleiri úr hópi villikattanna hafa horfið úr starfi og flokki Vinstri grænna og augljóst er að ekki gengur að slá ryki í augu kjósenda korteri fyrir kjördag, eins og af og til virðist vera vilji forystunnar. Það er því grátlegra þar sem flestir stuðningsmenn VG í grasrótinni einlægir ESB-andstæðingar. En því miður, það má segja eins og þekkt orðtak í hinum engilsaxneska heimi hermir (kínverskt að uppruna, að því er best er vitað): ,,Blekktu mig einu sinni og skömmin er þín, blekktu mig tvisvar og skömmin er mín."



Ólýðræðislega aðlögun að ESB verður að stöðva

Það er fróðlegt að skoða þau skjöl sem lýsa samningsafstöðu Íslands í ýmsum málum í viðræðum við Evrópusambandið. Þar er í meginatriðum sagt að Ísland fallist á regluverk ESB eins og það liggur fyrir og að áður en af mögulegri aðild geti orðið þá muni Ísland vera búið að ljúka innleiðingu á öllu regluverki sem ekki hefur þegar verið innleitt.(Sjá m.a.:  http://www.vidraedur.is/gognin/island/samningsafstada-islands/)

Í ljósi þessa á sér nú stað umfangsmikil aðlögun að regluverki sem stór hluti íslenska stjórnkerfisins tekur þátt í á fullu. Þjóðin hefur verið blekkt. Það eru ekki samningaviðræður sem eru í gangi, heldur aðlögunarviðræður sem miða að því að búið verði að uppfylla öll helstu skilyrði ESB þegar mögulegur samningur liggur fyrir. Alþingi og stjórnkerfið eru að þröngva Íslandi inn í Evrópusambandið áður en þjóðin hefur fengið tækifæri til að taka afstöðu til þess.

Þess vegna ber að hætta þessu aðlögunarviðræðum strax.

Svo sem sjá má á nýlegum greinarskrifum utanríkisráðherra er hann hræddur við að honum muni ekki takast það ætlunarverk sitt að þröngva Íslandi inn í Evrópusambandið.

Utanríkisráðherra skrifar hverja greinina á fætur annarri þar sem hann í örvæntingu biðlar til almættisins um að viðræðurnar verði ekki stöðvaðar.

Jafnframt lætur hann að því liggja, eins og í grein í DV í dag, að Íslendingar muni halda yfirráðum sínum yfir fiskveiðiauðlindinni. Samt hefur ráðherrann í 11 ár svikist um að setja fram samningsmarkmið um þetta veigamikla mál. Undirsátar hans hafa sett fram samningsmarkmið í nokkrum veigalitlum málum, en samningsmarkmiðin eru þó oftast engin því eins og að ofan segir þá segist stjórnkerfið þar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar fallast á regluverk ESB og lofar að innleiða þær reglur sem ekki eru þegar í íslenskum lögum.

Það verður kosið um þetta mikilvæga mál í kosningunum í vor. Stjórnarflokkarnir ætluðu að klára þetta verk á kjörtímabilinu. Það hefur mistekist.


mbl.is Erfiðu kaflarnir ræddir síðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Asni ESB klyfjaður gulli klifrar yfir Íslandsmúra

Aðildarumsóknin er strönduð. Það gengur hvorki né rekur. Árangurinn fram að þessu í aðildarviðræðum er enginn en kostnaðurinn ærinn. Aðeins hefur verið samið um atriði, þar sem Ísland hafði þegar, með illu eða góðu, aðlagað sig ESB vegna EES-aðildar....

Réttlausir allra landa sameinist!

Eða var það öreigar allra landa sameinist!? Einhverjum kann að þykja bratt að byrja pistil hér á Vinstri vaktinni á þessu gamla og herskáa slagorði Kommúnistaávarpsins. Það er á seinni árum frekar safngripur en gilt innlegg í pólitíska baráttu. Þegar orð...

Hvort er betra að hætta viðræðum strax eða fullgera samning til að geta hafnað honum?

Íslendingar láta ekki lokka sig inn í ESB. Það sjá allir. Sú bábilja lifir þó enn að þjóðin þurfi að kíkja í ESB-pakkann og geti það aðeins með formlegum samningi við ESB sem síðan yrði felldur í þjóðaratkvæði. En eru það gæfuleg áform með hliðsjón af...

Árið 2013, Ísland og ESB

Um áramót er til siðs að spá í framtíðina, sumir treysta á spádómsgáfu, aðrir draga ályktanir af sögunni og hvernig vænta má að mál þróist, enn aðrir líta á skoðanakannanir. Árið sem framundan er verður tvímælalaust viðburðaríkt þegar litið er til ESB,...

Steingrímur krafsar

„Óumflýjanlegt er að endurmeta nú stöðu viðræðna við Evrópusambandið í ljósi breyttra forsendna og búa um það mál með ábyrgum hætti. Þar verður vilji þjóðarinnar sjálfrar að varða veginn úr því ljóst er orðið að ekki reyndist unnt að leggja málið í...

Evran aldrei óvinsælli í Svíþjóð

Samkvæmt könnun sænsku hagstofunnar eru 82% Svía á móti því að taka upp evru. Það er mesta andstaða við evruna frá því mælingar hófust. Andstaðan við ESB-aðild Svía hefur einnig aukist. Tæplega þriðjungur Svía vill nú yfirgefa sambandið. Svíar eru þannig...

Vinnumarkaðsumbætur ESB boða harkaleg komandi ár

Saga EBE/ESB er saga um stöðuga viðleitni og endurteknar tilraunir lítillar elítu, þ.e.a.s. klúbba kringum vesturevrópskt stórauðvald, til að smíða sér stærri og voldugri einingu, efnahagslega og pólitíska blokk. Til þess þarf að brjóta niður skilrúm,...

Sameiginlegur gjaldmiðill í ákafri leit að sameiginlegu ríki

Eitt hið furðulegasta sem sjá mátti á liðnu ári var hvernig sameiginlegur gjaldmiðill 17 ESB ríkja hefur útheimt æ meira framsal fullveldis evruríkja sem neyðast til að leggja gífurlega fjármuni í sjóði til bjargar evrunni og framselja um leið yfirráð...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband