Með upptöku evru færum við úr öskunni og aftur í eldinn

Evrukreppan fer verst með ríki á útjaðri evrusvæðisins. Þau tvö norræn ríki sem nú eru verst stödd tengjast bæði evrusvæðinu: Finnar eru með evru og Danir tengja mynt sína við evru. Áróður íslenskra ESB-sinna fyrir ESB-aðild og upptöku evru eru í hróplegri mótsögn við veruleikann í kringum okkur.

 

Evran þjónar stærstu ríkjum ESB þolanlega. Þjóðverjar og Frakkar njóta góðs af. En mörg minni evruríkin engjast nú ár eftir ár í klóm evrukreppunnar vegna þess að þau búa við gjaldmiðil sem ekki hentar þeim. Fjármálakreppan sem gengið hefur yfir heiminn undanfarin sjö ár er eins og skæður faraldur sem fáar þjóðir sleppa við. En víðast hvar gengur faraldurinn yfir.

 

Íslendingar urðu illa úti í upphafi kreppunnar en eru nú óðum að ná sér upp úr brunarústum hrunsins. Í desember s.l. var atvinnuleysi á Íslandi 4,2%. En á sama tíma var atvinnuleysi á evrusvæðinu um 12% að meðaltali, sbr. fréttir RÚV á gamlársdag. Samkvæmt tölum Eurostat var t.d. 27,4% atvinnuleysi í Grikklandi í nóvember s.l. og 26,7% á Spáni.

 

Allmörg ríki, ekki síst á jaðri evrusvæðisins, hjakka sem sagt  áfram í sama kreppufarinu ár eftir ár. Þau geta ekki breytt gengi gjaldmiðilsins til að örva útflutning sinn og treysta sér ekki til að yfirgefa evrusvæðið, vegna þeirrar röskunar sem það hefði í för með sér þegar þau eru á annað borð komin þangað inn. Með öðrum orðum: þau sitja föst í dauðabúðum evrunnar og það virðist litlu breyta þótt ESB og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn moki í þau meira og meira lánsfé. Samdrátturinn heldur áfram og skuldirnar aukast.

 

Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði var nýlega á ferð í Kaupmannahöfn og lýsti þeirri skoðun að tvö ríki á Norðurlöndum væru verst stödd, þ.e. Finnland sem er með evruna og Danmörk, sem er tengd evrunni. Það vakti sérstaka athygli að hann taldi einmitt að Danir gætu lítið gert sjálfir til þess að losna úr viðjum stöðnunar vegna þess að þeir hefðu ekki í sínum höndum vald til að taka þær ákvarðanir, sem til þyrfti.

 

Að sjálfsögðu hafa ríki með sjálfstæða mynt miklu meiri möguleika til að rífa sig upp úr kreppunni. Íslenska krónan er einmitt dæmi um mynt sem að vísu er enn svo veikburða að hana þarf að verja með gjaldeyrishöftum vegna „snjóhengjunnar“ sem bankabóla vanhugsaðra EES-reglna bjó til hér á landi eins og víða. Engu að síður hefur tekist að efla framleiðslu hér og halda niðri atvinnuleysi langt umfram það sem gerst hefur víðast hvar á evrusvæðinu.  - RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Sem "hægri" maður, hvet ég alla síðuritara sem að þessari þörfu síðu koma, til að hamra á staðreyndum og gefa ekkert eftir!. Í barátttunni gegn afsali valds og sjálfstæðis, hverfa öll hugtök um hægri og vinstri. Í staðfestu og trú á eigið ágæti, getum við, sennilega best allra þjóða, staðist sjálfstæði, án utanaðkomandi "bjúrókratisma".

Halldór Egill Guðnason, 2.2.2014 kl. 03:22

2 identicon

Það er hárrétt sem þú bendir á, Halldór, að upplýsingar byggðar á staðreyndum er það eina sem dugir í þeirri baráttu sem nú er háð fyrir áframhaldandi sjálfstæði þjóðarinnar og gegn valdaafsali til Brüssel. – Þær tölur sem RA dregur fram um atvinnuleysið í mörgum ríkjum ESB eru ógnvænlegar. Það þarf ekki að gera því skóna að með aðild að ESB myndi atvinnuleysi hér rjúka upp og verða fljótlega komið í tveggja stafa tölu.

Gunnar Guttormsson (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband