Bandaríkin eru fyrirmynd ESB

Bandaríkin eru vont samfélag. Gjáin milli fáækra og ríkra er óbrúandi og breikkar stöðugt. Í þessu ríkasta landi heims lifir sjötti hver þegn nú á matargjöfum. Sex milljónir Bandaríkjamanna eru í fanglesi, og FBI og Þjóðaröryggisstofnunin stunda æ víðtækari persónunjósnir á þegnunum. Í utanríkismálum reka Bandaríkin kolgrimma hernaðarstefnu til að tryggja hagsmuni auðhringa sinna.

Bandaríkin eru draumaland frjálshyggjunnar, frá og með Reagan enn frekar en áður. Þar er afar „hreyfanlegt" vinnuafl, má flytja það langar leiðir þangað sem auðmagnið þarf á því að halda. Launamunur er óskaplegur, ekkert „gólf" á vinnumarkaðnum og ekkert „þak" heldur, stór hluti launþega er ólöglegur og réttlaus. Stétt launamanna er sundruð og verkalýðshreyfingin tjóðruð, vængstífð og áhrifalítil. Auðmagnið og pólitísk elíta því tengd ráða lögum og lofum.

Bandaríkin eru ekki bara nánasti bandamaður ESB í utanríkismálum, þau eru hin mikla fyrirmynd ESB sem samfélag. Sú breyting sem orðið hefur á ESB-ríkjunum síðustu 2-3 áratugi er öll í sömu átt, í átt að fyrirmyndinni.  Hið frjálsa flæði frjálshyggjunnar („fjórfrelsið") er ígildi boðorðanna tíu og kom m.a. inn í Lissabonsáttmálann (2007) sem nánast stjórnarskrárbundin lög. Árið 2000 tók ESB upp svokallaða Lissabon-stjórnlist (Lisbon strategy) þar sem sett var á dagskrá að gera ESB að „samkeppnishæfasta efnahagskerfi heims" fyrir árið 2020. Sérstakt vígorð var „sveigjanleiki", sem byggðist á þeirri trú að afnám reglna (deregulering) og sveigjanleiki á vinnumarkaði væri lykilatriði í því að gera efnahagskerfið samkeppnishæfara og auka hagvöxt. Svo kemur hagkvæmni stærðarinnar: að gera ESB að risaríki með risarekstur og risamarkað -líkt og fyrirmyndin, Bandaríkin.

Sama þróun heldur áfram. Eftir stækkun ESB í austur er ódýrt vinnuafl flutt inn á vinnumarkað ESB í stórum stíl. Síðastliðið haust lagði Framkvæmdastjórn ESB fram tillögur um „skipulagsumbætur" á vinnumarkaðnum. Þær ganga út á lækkun lágmarkslauna, minna vægi heildarkjarasamninga og sveigjanlegri vinnumarkað. http://eldmessa.blogspot.com/2012_12_01_archive.html  Hefðbundin réttindi launafólks og velferðarkerfið eru rifin niður.

Þetta er frjálshyggjuþróun að bandarískri fyrirmynd. Frjálshyggjan er stríðspólitík auðvaldsins gegn verkafólki. Ein ástæða þess að evrópska stórauðvaldið getur keyrt í gegn frjálshyggju sína er að verkalýðshreyfingin þar þar orðin mjög veik.

Okkur verkalýðssinnum finnst verkalýðshreyfingin veik á Íslandi. En á evrópskan mælikvarða er hún mjög sterk. Á Íslandi er í reynd við lýði skylduaðild launafólks að stéttarfélögum. Í ESB-löndunum hefur hins vegar hlutfall þess launafólks sem er skipulagt og félagsbundið farið dramatískt lækkandi undanfarin 30 ár. Á vinnumarkaði ESB í heild er hlutfallið 23%. Á Spáni og Portúgal er hlutfallið nú um 15% og í Frakklandi er það komið niður í 8%. Þetta líkist orðið mjög Bandaríkjunum. Auk þess sem verkalýðshreyfingin er víðast undir forustu krata sem sjálfir hafa gengið hafa frjálshyggjunni á hönd eins og við þekkjum á Íslandi. 

Svo bætist það við að sjálfskipað herforingjaráð elítunnar - Þríeykið: Framkvæmdastjórnin, Evrópubankinn og AGS - keyrir nú í gegn vægðarlausa niðurskurðarstefnu og víkur öllu lýðræði til hliðar í aðþrengdum löndum Suður-Evrópu. Og meira en það, herforingjaráðið stefnir stöðugt að miklu meiri valdasamþjöppun inna ESB, þótt meirihluti almennings í nánast öllum aðildarríkjum sé því andvígur.

Evrópa kallar sig vöggu bæði lýðræðis og verkalýðshreyfingar en er orðin að sjúkrabeði beggja - líkt og Bandaríkin - þökk sé ESB. Hin sívaxandi ólga í suðurríkjum ESB gefur von um að alþýðan muni senn rísa upp og snúa þessari voluðu þróun við. / ÞH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ESB er ekki ríki og hefur því sem slíkt enga fyrirmynd.

Innan ESB þrífast margs konar ríki. Sum þeirra td Bretland eiga sér að einhverju leyti fyrirmynd í Bandaríkjunum, önnur alls ekki eins og Norðurlöndin.

Frelsi innan ESB gerir einstökum ríkjum kleift að fara sína eigin leið innan þess ramma sem ESB setur þeim.

Frelsið dregur úr misnotkun og spillingu. En frelsi er einnig hægt að misnota í þágu sérhagsmuna og spillingar. Slík misnotkun er lágmörkuð í ESB með vandaðri löggjöf.

Þannig eru lýðræði og mannréttindi mun meira í heiðri höfð í ESB-ríkjunum en Bandaríkjunum. Ísland er mikill eftirbátur ESB-ríkja hvað þetta varðar. Eftirlit ESA og möguleikinn á að áfrýja málum til Mannréttindadómstólsins er þó mikil réttarbót. 

Munurinn á Bandaríkjunum og ESB-ríkjunum er mikill. Í Bandaríkjunum ráða peningar nánast öllu. Í ESB-ríkjunum er hagur almennings í forgrunni þó að það sé með misjöfnum hætti og í mismiklum mæli í hinum ýmsu ríkjum.

ESB og Bandaríkin er tveir andstæðir pólar innan þess frjálsræðis sem almennt er samþykkt. Dreymir Vinstrivaktina um Ísland sem kommúnistaríki?

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 12:54

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svo merkilegt sem það nú er þá eru Bandaríkin, þrátt fyrir allt,  fyrirheitna landið.  Við fáum okkar skerf af "hælisleitendum" sem vilja ekki sjá að setjast að í ESB og leggja allt í sölurnar til þess að komast til USA.

Hefur ameríski draumurinn verið auglýstur betur á heimsvísu en ESB draumurinn?  Eða er það eitthvað annað sem heillar?

Kolbrún Hilmars, 8.6.2013 kl. 16:22

3 identicon

Ameríski draumurinn er liðin tíð. Nú kemst enginn áfram þar nema hann eigi umtalsvert fé. Í flestum ef ekki öllum ESB-löndum eru möguleikarnir mun betri. Sérstaklega er öryggisnetið miklu öflugra.

Hælisleitendum á Íslandi hefur yfirleitt verið hafnað í ESB-löndunum. Viðleitni þeirra til að komast áfram til Ameríku endurspeglar því ekki að þeir taki Bandaríkin fram yfir ESB.

Vinstrivaktin er fulltrúi vinstri öfgaafla en Kolbrún virðist vera fulltrúi hægri öfgaafla. Hinir fyrri fyrirlíta Bandaríkin, hinir síðartöldu dýrka þau. Allir raunverulegir andstæðingar ESB tilheyra öðrum hvorum hópnum. Þar er allt öfgaliðið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 17:39

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þessi pistill er ótækur og ber að endurskoða allt í honum. Vantar alla grunnvinnu og ekki hin minnsta tilraun til að öðlast skilning á einu né neinu.

Tökum dæmi: Frakkar og aðild að stéttarfélögum í samanburði við Ísland.

Nú er eg enginn sérfræðingur um franska verkamannabaráttu eða stéttarfélög - en svarið þarna liggur í augum uppi: Það eru augljóslega allt önnur hefð þarna í Frakkalandi en hér og sennilegast er barasta ekki skylduaðild! Sennilegast. Þetta eru ekkert nýjar fréttir eða nýtilkomið.

Nú, þar fyrir utan þurfa menn varla að efast um áhrifamátt franskar verkalýðsfélaga eða baráttu verkamanna eða? Hafa menn ekki horft á fréttir hérna meir að segja í íslenska sjónvarpinu?

Hve oft hafa menn sé frakka marserandi þúsundum og hundrað þúsundum ef ekki milljónum saman um götur frakklands? Og trekk í trekk snúið stjórnvöld ofan í götuna úr götuvígum í París??

Sorrý stína, en eg held að íslendingar geti kennt frökkum fátt í verkalýðsbaráttu. Held það. Fremur fátt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.6.2013 kl. 19:09

5 Smámynd: Elle_

Mikill misskilningur í ýmsu að ofan í sambandi við Bandaríkin og ósannindi að segja að ekki ríki þar lýðræði og mannréttindi og allt snúist um peninga þar.  Þar eru ýmsir gallar, eins og alltof harðir og langir dómar, en að kalla evrópska Sovétveldið skárra en Bandaríkin er ótrúlegur þvættingur.

Elle_, 8.6.2013 kl. 19:51

6 Smámynd: Elle_

Hinsvegar tók ég eftir að ÞH er sami pistilhöfundur og neitar að neitt sovéskt sé við hið svokallaða Evrópusamband:
Hægri öfgastefna - mesta ógn við lýðræðið nú? 
Það er bæði kommúnistalegt og stórkapítalískt þó það hljómi skringilega.

Elle_, 8.6.2013 kl. 19:59

7 identicon

Ég sagði ekki að lítill munur væri á USA og ESB, heldur að samfélagsþróunin í ESB hefði verið hröðum skrefum í átt að USA. USA er sem sagt á undan í þróuninni. Einkavæðing, kapítalísering og markaðsvæðing samfélagsstarfseminnar er þar einhverjum áratugum á undan. Þverrandi áhrif verkalýðshreyfingar sömuleiðis. Ómar Bjarki: um hlutfall félagsbundinna í ESB, m.a. Frakklandi, er heimild mín frá Brusselbatteríinu sjálfu. Sjáðu:

www.worker-participation.eu/National-Industrial-Relations/Across-Europe/Trade-Unions2

Þórarinn Hjartarson (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 00:09

8 Smámynd: Elle_

Í no. 5 og öllum síðustu 3 línunum þar var ég að vísa í ósannindin frá öfgamanninum Ásmundi sem hefur nú gengið aftur eftir ótrúlega niðurlægingu.

Elle_, 9.6.2013 kl. 10:41

9 identicon

Bandaríkin voru aldrei á því stigi sem ESB er núna. Þess vegna mun ESB ekki þróast í sömu átt og þau.

ESB tekur það besta frá Bandaríkjunum en kemur með vandaðri löggjöf í veg fyrir flesta annmarkana. Þessi vandaða löggjöf á mestan þátt í skrímslisnafngiftinni sem andstæðingum aðildar er svo tamt að beita.

Vönduð vinnubrögð eiga ekki upp á pallborðið hjá andstæðingum aðildar. Öfgamenn til vinstri vilja boð og bönn í óhófi sem óhjákvæmilega leiða til stöðnunar og hnignunar.

Öfgaöflin til hægri vilja óheft frelsi til að arðræna náungann.

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 10:55

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, ég skil að þú eigir svolítið bágt núna, en það eru takmörk fyrir því hversu langt afsökunina má teygja.  Það gerir þig ekki að Salta-Pétri á miðjunni - alveg sama hvernig þú uppnefnir gestgjafa og pennavini hér. 

Svo heldur þú þig ekki á sögulegu nótunum, því USA tók upphaflega bæði það versta og það besta frá Evrópu, auk þess að hafa á síðustu öld bjargað Evrópu tvisvar frá sjálfri sér.  Ekki að undra að ESB líti í sólsetursáttina - þegar þeim hentar.

Frá okkur séð eru bæði Evrópa og USA í suður.   Ætti að segja þér eitthvað!  

Kolbrún Hilmars, 9.6.2013 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband