Katrín Jakobsdóttir:

Í stefnuyfirlýsingu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs kemur fram að flokkurinn er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í þeim samþykktum sem flokkurinn hefur gert, t.d. á landsfundum, er þessi andstaða ítrekuð en um leið lögð áhersla á að þjóðin hafi síðasta orðið í þessum efnum. Ríkisstjórnin starfar á grundvelli samstarfsyfirlýsingar sem meginþorri flokksráðs samþykkti. Hún gerir ráð fyrir að „[á]kvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum“. Staða viðræðna við Evrópusambandið hefur komið til umræðu flokksráðs og landsfundar á kjörtímabilinu og hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þeim skuli lokið eins og lagt var upp með í upphafi kjörtímabilsins. Í ljósi stöðu mála í Evrópu hefur verið rætt innan flokksins að fara þurfi vandlega yfir stöðu þessa máls nú í vetur. Það mun verða í höndum stofnana flokksins, flokksráðs eða landsfundar, að leiða þá umræðu til lykta. Hvað mína persónulegu skoðun varðar samrýmist hún fullkomlega samþykktum flokksins þar sem ég er andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu. Eigi að síður vil ég að þjóðin fái tækifæri til þess að taka sameiginlega ákvörðun í því máli.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband