Hörð gagnrýni á samningsmarkmið í utanríkismálanefnd



Jón Bjarnason

Bjarni Benediktsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Setja verður fram skriflega »skýlausa og ófrávíkjanlega kröfu um að Ísland fái haldið varanlega rétti sínum og undanþágum hvað varðar bann við innflutningi á lifandi dýrum og innflutningi á hráum ófrosnum dýraafurðum og bann við innflutningi tiltekinna planta og trjáa.« Svo sagði í bókun Jóns Bjarnasonar, alþingismanns og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á fundi utanríkismálanefndar Alþingis 30. október sl. sem er birt á þingvefnum. Verið var að ræða samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið (ESB) varðandi 12. kafla um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði.

 

Í bókuninni sagði Jón að sá texti sem þá lá fyrir varðandi samningsafstöðuna væri »algjörlega ófullnægjandi hvað þessi atriði varðar og ekki í samræmi við þær ófrávíkjanlegu kröfur sem samninganefndinni var gert að vinna eftir«. Hann vísaði til »afdráttarlausrar kröfu Íslands um að tryggja öryggi og verndun íslenskra búfjárkynja og plantna og þeirra varanlegu undanþága sem landið hefur haft skv. EES-samningnum og barist var fyrir og staðfest með hinum s.k. matvælalögum árið 2010«.

 

Þá vísaði Jón einnig til fyrirvara í greinargerð með þingsályktunartillögunni um aðild að ESB, til stefnu VG í þessum málum og til »varnarlína« Bændasamtakanna varðandi landbúnað, matvæla- og dýraheilbrigði og tollamál sem Jón lagði fram í ríkisstjórn sem grunnsamningsskilyrði Íslendinga.

 

Í bókuninni sagði að í ljósi mikilvægis málsins fyrir Íslendinga og fyrrnefndra skilyrða yrði að setja kröfur Íslands fram með skýrum hætti. Jón vildi einnig að ESB yrði krafið svara innan tiltekins tíma til þessara atriða »á grundvelli þess að hér sé um ófrávíkjanleg skilyrði af hálfu Íslands að ræða fyrir áframhaldandi viðræðum um kaflann,« eins og sagði í bókuninni. Þá ítrekaði Jón andstöðu sína við umsóknarferlið og aðild að ESB.

 

Nýr meirihluti í nefndinni

 

Þingmennirnir Árni Páll Árnason, Magnús Orri Schram, Lúðvík Geirsson og Björn Valur Gíslason létu bóka að drög að samningsafstöðu um 12. kafla hefðu verið rædd á sex fundum nefndarinnar og tekið miklum breytingum til bóta. Almenn samstaða hefði náðst um efnisatriði meðal hagsmunaaðila þótt ágreiningur sé um einstök atriði. »Ekki verður séð hvaða tilgangi frekari fundahöld um málið þjóna á vettvangi utanríkismálanefndar.«

 

Þingmennirnir Bjarni Benediktsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson bókuðu einnig og tóku undir flest sem fram kom í bókun Jóns. Þau vildu árétta að samningsafstaðan eins og hún lægi fyrir endurspeglaði ekki á skýran hátt skýlausar kröfur Íslendinga um bann við innflutningi lifandi dýra o.fl. »Þá vantar skýra kröfu um að Íslendingar framselji ekki rétt varðandi samninga um þennan málaflokk til ESB s.s. vegna WTO eða annarra samninga er tengjast þessum kafla. Því verður ekki fallist á að samningsafstaðan, eins og hún liggur nú fyrir í drögum, endurspegli hagsmuni Íslendinga.«

 

Sigmundur Davíð lagði til að nefndin lyki ekki umfjöllun um kaflann, að minnsta kosti ekki nema að undangengnu samráði við utanríkisráðherra. Tillagan var samþykkt með atkvæðum stjórnarandstöðuþingmanna auk Jóns.

 

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kom á fund nefndarinnar 2. nóvember sl. Ragnheiður E. Árnadóttir lagði þá fram tillögu um að umfjöllun um samningsafstöðu vegna 12. kafla yrði ekki lokið fyrr en samningsafstaða fyrir 4. kafla um frjálsa fjármagnsflutninga hefði verið kynnt nefndinni. Tillagan var ekki tekin til afgreiðslu og lét Gunnar Bragi bóka að formaður nefndarinnar, Árni Þór Sigurðsson, hefði neitað að láta greiða atkvæði um hana.

 

»Við töldum að umfjöllun nefndarinnar væri ekki lokið,« sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í gær um stöðu mála eftir fundinn með Össuri. Hann sagði að hinn raunverulegi meirihluti nefndarinnar skilji ekki hvers vegna ekki megi tala um þessi atriði sem skilyrði sé mönnum alvara með að þau séu ófrávíkjanleg í samningunum.

 

»Það hefur verið tekist á um hversu skýrt á að kveða að orði hvað varðar samningsafstöðu Íslands í matvælaöryggiskaflanum,« sagði Bjarni Benediktsson. »Ég tel að afstaðan eins og hún birtist í þeim drögum sem okkur hafa verið kynnt sé ekki í samræmi við það sem meirihluti utanríkismálanefndar hefur óskað eftir.«

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband