Danskir hagfræðingar: okkur er betur borgið án evru

Lengi var því haldið fram að Danir og Svíar væru um það bil að taka upp evruna. En báðar þjóðir höfnuðu henni og Danir reyndar tvívegis. Þó átti að reyna í þriðja sinn á þessu ári að koma hnappheldunni á Dani en hætt var við. Nú berast þær fréttir frá Danmörku að stuðningur við upptöku evru sé mjög að dvína meðal danskra hagfræðinga. 

Í danska blaðinu Politiken er fullyrt að hagfræðingar hjá dönskum bönkum hafi almennt verið fylgjandi upptöku evru en þróun mála á evrusvæðinu hafi hins orðið til þess að margir þeirra hafi skipt um skoðun. Eru það skuldavandræði einstakra ríkja eins og Grikklands, Portúgals og Írlands sem valda áhyggjum meðal hagfræðinganna, en ekki síður áhrif þessara vandræða á evruna sjálfa. „Fleiri rök eru nú með því að betra sé að vera fyrir utan evruna,“ segir aðalhagfræðingur Danske Bank, Frank Øland Hansen og bætir við:

„Óvíst er að lán sem illa stödd ríki hafa fengið í gegnum björgunarpakka verði endurgreidd og því hentar Danmörku betur að standa utan við evrusvæðið og losna við að greiða hluta af þessum kostnaði.“

Á Íslandi hefur evran verið helsta tálbeita ESB-sinna í áróðri þeirra og löngum verið einu haldbæru rökin fyrir ESB-aðild. ESB-sinnar hafa hins vegar skautað létt framhjá þeirri staðreynd að við uppfyllum nær engin skilyrði fyrir upptöku evru og getum því ekki tekið hana upp í fyrirsjáanlegri framtíð.

En nú bætist það ofan á að evrusamstarfið hefur reynst smáríkjum á evrusvæðinu afar þungt í skauti, sbr. ástandið í Grikklandi, Portúgal og á Írlandi. Flestar þær þjóðir sem velt höfðu fyrir sér að taka upp evru eru fráhverfari því nú en nokkru sinni fyrr, m.a. Bretar, Svíar og Danir, og æ oftar heyrast raddir erlendra hagfræðinga sem telja að Íslendingar megi hrósa happi að vera ekki með evru. Hrunið hefði orðið enn dýrkeyptara, skuldabyrðin langtum hærri og miklu erfiðara verið fyrir landsmenn að vinna sig upp úr kviksyndinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftirfaarandi er tekið af vef Heimssýnar:

"Um 28 milljónir evra, 4,5 milljarðar króna, verða veittir til Íslands í aðlögunarstyrki vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Þetta var tilkynnt í Brussel á mánudag. Styrkirnir eru til að aðlaga Ísland Evrópusambandinu á meðan viðræður um aðild standa yfir.

Samkvæmt stækkurnarstjóra Evrópusambandsins, Stefan Fule miðast styrkirnir við að hafa áhrif á daglegt líf íbúa þeirra ríkja sem eru í aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Styrkirnir verða notaðir til að breyta lögum, stjórnarháttum og félagslegum aðstæðu.

Í flokkssamþykkt annars ríkisstjórnarflokkanna, Vinstir grænna, segir skýrt og ákveðið að Ísland eigi ekki að þiggja styrki frá Evrópusambandinu til að aðlaga landið regluverki ESB.

Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins.

Vinstri grænir gleymdu að láta Evrópusambandið vita um þessa afstöðu Vg-hluta ríkisstjórnarinnar"

Hvað ætlar Vinstri vaktin og ráðamenn VG að ganga langt í því að láta Samfylkinguna og ESB trúboðið á Íslandi niðurlægja sig og ganga þvert gegn öllum sínum samþykktum og þeim sem studdu þá í síðustu kosningum !

Hvenær er komið meira en nóg !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 14.7.2011 kl. 19:52

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Þó ég alfarið á móti aðild að ESB og vilji ekki sjá skaðræðisgripinn evru finnst mér þetta óttalega aumt hjá Dönum. Sér í lagi er það þrennt sem ég geri athugasemd við.

  • Ekki eru færð hagfræðileg rök fyrir að hafna evrunni (sem þó ætti að vera nóg til af) heldur aðeins að losna við að greiða hluta af kostnaði við "björgunarpakkana" illræmdu.
     
  • Danir hafa ekki kjark til að hafa krónuna sína danska. Hún er fastbundin evrunni og þar á undan þýska markinu. Í raun eru þeir ekki með eigin gjaldmiðil nema að nafninu til. Nær væri að tala um evruna þýdda á dönsku.
     
  • Slappast af öllu er að fresta þjóðaratkvæði um evruna af því að vindar blása ekki rétt þá stundina. Það er svo brussleskt að ákveða fyrirfram hvað á að koma upp úr kjörkössunum. 

Ég er því ekki sammála fyrri færslu um að það sé rökrétt hjá Rasmussen forsætisráðherra að fresta atkvæðagreiðslunni. Ef búið var að boða þjóðaratkvæði á að standa við það. Hvað er rétt við að bíða eftir hagstæðu augnabliki og kjósa þá í hvelli?

Haraldur Hansson, 14.7.2011 kl. 21:56

3 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Þetta er allt rétt hjá þér, Haraldur. En að sjálfsögðu var átt við að það var rökrétt frá sjónarmiði Rasmussen að fresta atkvæðagreiðslu sem hann vissi að hann myndi tapa. Að sjálfsögðu er engin sanngirni í því að láta kjósa aftur og aftur og aftur þar til "rétt niðurstaða" fæst. En það er fantaskapur sem við Íslendingar gætum einmitt átt eftir að kynnast þegar við höfum fellt aðildarsamninginn.

Vinstrivaktin gegn ESB, 14.7.2011 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband