Hans keisaralega tign herra Barrosso forseti ESB hefur talað

haukurlogi

Dýpkun evrkrísunnar, enn fleiri björgunarpakkar, brostnar og endurgerðar áætlanir og vaxandi atvinnuleysis- og efnahagsvandi margra ríkja ESB og Evrunnar hefur sýnt fram á alvarlega vangetu stjórnkerfisins og að ofan á efnahagsleg áföll þá býr sambandið einnig við alvarlegan skipulags- og lýðræðisvanda.

Íslenskir Sambands sinnar viðurkenna helst aldrei neitt slíkt því að á nánast öllum sviðum eru þeir í algerri afneitun á allan vanda Sambandsins og aðildarríkja þess. 

Það var því býsna fróðlegt að sjá og lesa nýlega blogggrein í DV eftir Hauk Loga Karlsson lögfræðing sem býr í Flórens á Ítralíu og stundar þar doktorsnám í lögum við European University Institute. Sjá: www.dv.is/blogg/haukur-logi-karlsson/2013/5/9/lydraedisvandi-evropusambandsins/

Í gegnum háskólann bauðst honum nýlega að sitja mikla ráðstefnu í Flórens borg á vegum Evrópusambandsins. Ráðstefnan bar auðvitað heitið "State of the Union" en viðfangsefnið var framtíð og horfur Evrópusambandsins.

Ráðstefnan sjálf var haldinn í einni af íburðarmestu miðaldahöll Flórensborgar, sjálfri Palazzo Vecchio höllinni og eins og fleiri topp ráðstefnur og málþing þessa Sambands þá var þetta eins konar elítu ráðstefna þar sem að smalað var saman sérvöldum silkihúfum og kommíserum Sambandsins sjálfs, ECB bankans og aðildarríkjanna í bland við þekkt fræðafólk hinnar Evrópsku háskólaelítu. 

Eins og fram kemur í greininni þá voru fundarmenn flestir engu að síður mjög gagnrýnir og uggandi um ástand og horfur Evrópusambandsins og töluðu á opinn og gagnrýninn hátt um vaxandi og alvarlegan lýðræðishalla Sambandsins og stofnana þess.

Haukur Logi segir að niðurstaða fundarins hafi verið að "State of the Union" væri ekki beisið. Það væru mjög alvarleg vandamál uppi sem ógnuðu framtíð þess og þau væru djúpstæðari heldur en sjálf efnahagskrísan. Mario Mornti sem samkvæmt valdboði ESB fór fyrir tæknikrata stjórn Ítalíu þar til fyrir skömmu, gagnrýndi harðlega inngrip Seðlabanka ESB af efnahags- og innanríkismálum Ítalíu og sagði þau með ólíkindum og að með þeim hefði skapast ákveðið rof á milli lýðræðislegs umboðs ESB og Ítölsku þjóðarinnar.

Afleiðingin hefði verið sú að 60% Ítala kaus stjórnmálaflokka sem að eru andsnúnir ESB, Þjóðverjum og Evrópska Seðalabankanum í kosningunum í febrúar s.l. David Miliband frá Breska Verkamannaflokknum tók undir ganrýnina á ESB en taldi að Sambandið yrði að sýna einhvern efnahaglsegan árangur til skamms tíma áður en ráðist yrði í tímafrekar skipulagsbreytingar, til að gera skipið haffært í lang siglingu. 

Joseph Weiler sennilega þekktasti fræðimaður heims á sviði stjórnskipunar Evrópusambandsins átti ræðu dagsins að mati Hauks Loga. Weiler eins og flestir aðrir tóku undir harða gagnrýni á Sambandið og hann bætti reyndar í þegar hann lýsti því yfir að innan ESB væri nú ört vaxandi ólögmætisbóla sem væri við það að springa. Víðtæka og vaxandi gagnrýni á Sambandið taldi Weiler vera beina afleiðingu af skorti á lýðræðislegri tengingu helstu stofnana ESB. 

barrosso

Grein Hauks Loga í DV er um margt mjög fróðleg og skemmtileg og hann verður á engan hátt sakaður um að draga taum eins eða neins í þessum skrifum sínum, enda er hann í ströngu doktorsnámi í einum af betri háskólum Evrópu. En það dylst þó engum sem les greinina að hann og aðrir viðstaddir urðu nokkuð undrandi og hissa yfir framgöngu og ekki síður burtreiðum José Manuels Barrosso´s sjálfs forseta Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á ráðstefnunni. 

Samkvæmt frásögn og lýsingu Hauks Loga stormaði Barrosso í Vechio höllina umkringdur 50 manna fylgdarliði. Hann reyndi að tala varlega en tók þó að einhverju leyti undir með fundarmönnum um vandann en forðaðist samt stórar yfirlýsingar um að allt væri á heljarþröm, enda hefðu þær getað reynst afdrifaríkar. Þess í stað benti hann á að sjálf Framkvæmdastjórnin væri að vinna að viðamiklum tillögum til úrbóta. Tillögum sem að fengið hefðu glimrandi móttökur. Um leið og herra Barrosso hafði lokið ræðu sinni strunsaði hann út úr höllinni umkringdur fimmtíu manna fylgdarliði sínu. Hans keisaralega tign hafði talað.

Þessi frásögn Hauks Loga og styttri endursögn hér á þessari dæmalausu framgöngu og burtreiðum, hans háfgöfgi og keisaralegu tignar herra Barrosso´s  sýnir á nöturlegan hátt við hvaða hyldýpis lýðræðis- og stjórnskipunarvanda Evrópusambandið býr. /GI


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband