Æ fleiri aðildarþjóðir ESB frábiðja sér að taka upp myntina sem vandræðunum veldur

Meirihluti Letta, 62%, er andvígur því að taka upp evru samkvæmt nýrri könnun sem birt var í gær á fréttavefnum The Baltic Course. Þetta er ein af ótal fréttum sem berast frá aðildarríkjum ESB um vaxandi skilning á því að sameiginleg mynt hentar ekki þjóðum sem búa við gjörólíkar aðstæður.

 

Eins og flestar aðildarþjóðir ESB eru Lettar skuldbundnir til þess að taka upp evru samkvæmt aðildarsamningi en verða hugsanlega þvingaðir til þess gegn vilja sínum . Hinn sameiginlegi gjaldmiðill ESB, sem varð til fyrir bráðum hálfum öðrum áratug, var frá öndverðu hugsaður sem tæki miðstjórnarvaldsins í Brussel til að þvinga fram aukin samruna aðildarríkjanna. Fjölmargir hagfræðingar vörðuðu þó strax við því að miklar efnahagslegar ófarir gæru af því hlotist ef þjóðir með ólík efnahagskerfi reyndu að nota sama gjaldmiðillinn.

 

Sú hrakspá er nú að rætast. Nú viðurkenna flestir að það er einmitt evran sem komið hefur Írlandi og Grikklandi, Kýpur, Portúgal í efnahagslega sjálfheldu. Forystumenn þjóðanna komast hvorki aftur á bak né áfram í viðeign sinni við evrukreppuna og nú er það nýjast að Spánverjar eru taldir á barmi gjaldþrots.

 

Í s.l. viku minnti Barruso, framkvæmdastjóri ESB, á  að Svíar og fleiri aðildarríki ESB hefðu skuldbundið sig til að taka upp evru en hefðu svikist um það. Ýmsir stjórnmálamenn í Svíþjóð brugðist hinir verstu við og töldu það gersamlega út í hött að forystulið ESB reyndi að þvinga aðildarþjóðir til að skipta um gjaldmiðil. Þeim er sannarlega vorkunn þegar haft er í huga að samkvæmt skoðanakönnunum eru nú einungis 9% sænskra kjósenda sem telja sig geta mælt með því að tekin verði upp evra í Svíþjóð. Danir eru því einnig afar fráhverfir.

 

Í Noregi tala fáir lengur um aðild að ESB og upptöku evru. Andstaðan þar við aðild er orðin svo máttvana að nýlega var ákveðið að leggja niður starfsemi heildarsamtaka sem barist hafa fyrir inngöngu í ESB.

 

Hinn 9. maí s.l. skýrði gríski fréttamiðillinn ekathimerini.com frá því að nýr stjórnmálaflokkur hefði verið stofnaður í Grikklandi, Drakma-fimm-stjörnu-flokkurinn en flokkurinn sækir fyrirmynd til 5-stjörnu-hreyfingarinnar á Ítalíu sem hlaut um fjórðung atkvæða í þingkosningunum í febrúar. Flokkurinn berst gegn evrunni og höfuðmarkmið hans er að innleiða hina gömlu mynt Grikkja, drökmuna, að nýju. Fyrr í vor hleypti Alekos Alavanos, fyrrverandi leiðtogi vinstrifylkingarinnar SYRIZA, af stað hreyfingu sem hann kallar Plan B og berst einnig fyrir úrsögn Grikkja úr evru-samstarfinu.

 

Í frétt tékknesku CTK-fréttastofunnar í gær er sagt frá könnun sem sýnir að mikill meirihluti Tékka (77%) vill halda í eigin gjaldmiðil og hafnar evrunni. Ljóst er að ríkisstjórn Tékka mun reyna að komast hjá því ef hún mögulega getur að skipta um gjaldmiðil næstu árin. Milos Zeman, nýkjörinn forseti Tékklands fullyrðir að ekkert verði af þeim áformum næstu fimm árin að minnsta kosti.

 

En sömu dagana og þessi þróun á sér  stað í nær öllum nálægum Evrópuríkjum sendir Össur utanríkisráðherra og ráðuneyti hans frá sér 74 síðna bók í stóru broti, þar sem hann ákallar þing og þjóð: „Klárum viðræðurnar, “ skrifar Össur í formála fullur örvæntingar fáeinum dögum áður en hann neyðist til að yfirgefa ráðuneyti sitt eftir að honum hefur gersamlega mistekist á fjórum árum að sýna fram á að Ísland geti fengið nokkra þá undanþágu frá regluverki ESB sem máli skiptir.

 

Aðalrök Össurar í formálanum eru enn sem fyrr að  með inngöngu í ESB getum við tekið upp evru, þennan sama gjaldmiðil  sem fært hefur fátækt og atvinnuleysi yfir tugi milljóna manna í þeim aðildarríkjum ESB sem ekki búa við svipað efnahagskerfi og Þýskaland og nokkur önnur forysturíki ESB, en þessi ríki gjalda þess nú að hjartsláttur evrunnar er í litlum takti við andardráttinn í efnahagslífi þeirra enda flest í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá Þýskalandi og glíma við allt önnur vandamál og aðrar þarfir en stóriðnaðurinn í Þýskalandi. - RA

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er auðvitað engann veginn í lagi með þetta fólk Össur og co.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.5.2013 kl. 12:25

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Hrokinn í þessari bloggfærslu hérna að ofan er svo mikill að ef þetta mundi falla saman, þá mundi myndast svarthol.

Mér þykir þetta einnig afskaplega stór orð komandi frá manni sem eitt helsta afrek í íslandssögunni var að valda 100% verðbólgu og eyðileggja gömlu íslensku krónuna endanlega með óviturlegum ákvörðunum um efnahag íslendinga. Ákvarðanir sem íslendingar súpa einnþá seyðið af í dag, og munu gera um nokkura áratuga skeið í viðbót.

Veistu hvað Grikkland, Spánn, Ítalía, Portúgal, Írland, Kýpur eiga sameiginlegt?

Það er ekki efnahagskreppan. Það sem þessi lönd eiga sameiginlegt er sú staðreynd að þarna hefur ekki orðið hrun gjaldmiðils þessara ríkja. Þarna er því bara efnahagskreppa í gangi, en ekki gjaldmiðlakreppa eins á Íslandi núna í dag.

Gjaldmiðilakreppan mun og er vaxandi efnahagslegur vandi á Íslandi, og mun koma af stað nýrri efnahagskreppu á Íslandi eftir 3 til 5 ár. Mun dýpri og alvarlegri kreppu en sem nú geysar á Íslandi.

Vanda sem væri hægt að leysa með inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku evru eftir að upptökuskilyrðum er náð.

Það er hinsvegar fólk eins og Ragnar Arnalds hérna, sem hefur augljóslega ekkert vit á efnahagsmálum sem er á móti þessum nauðsynlegum framförum, og þess vegna berst hann gegn þessum framförum af fullum krafti og skeytir þar í engu um hagsmuni hins almenna íslendings, enda er það hinn almenni íslendingur sem borgar fyrir þessi ósköp á endanum.

Ég ætla að fara fram á það að reikningurinn verði sendur til Heimssýnar og Ragnar Arnalds, ásamt til framsóknarflokksins, sjálfstæðisflokksins og vinstri grænna eftir nokkur ár.

Reikningurinn ætti bara að hljóða upp á 4000 milljarða í besta falli, gæti samt farið alveg upp í 12.000 milljarða í versta falli. Sjáum hvað setur.

Jón Frímann Jónsson, 15.5.2013 kl. 22:19

3 Smámynd: Snorri Hansson

Efnahagsgúrúinn Jón Frímann Jónsson hefur talað.

Snorri Hansson, 17.5.2013 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband