Maðurinn með beiningastafinn

Stefán nokkur Ólafsson háskólaprófessor og álitsgjafi fer oft mikinn á bloggsíðu sinni  og einn pistill hans í síðustu viku var tekinn upp sem frétt á Eyjunni,  málgagni ESB sinna.  Í örvæntingu og miklum hita telur prófessorinn  sér trú um að stjórnvöld muni „banna þátttöku Íslands  í söngvakeppninni" þegar umsóknin að ESB verður afturkölluð.   Nemendanna vegna verður  að vona að prófessorinn  kenni ekki rökfræði við Háskólann eða gerir hann það?  Eins og allir vita hefur Eurovisionkeppnin ekkert með aðild að ESB að gera heldur  eru  það Samtök sjónvarpsstöðva í Evrópu sem hafa staðið að þessari keppni um áratugi. Fjölmörg ríki Evrópu sem  taka þátt í keppninni eru ekki í ESB meira að segja sum ekki einusinni í Evrópu eins og t.d. Ísrael.  Einstaka ESB ríki urðu reyndar að blása af þátttöku vegna erfiðar fjárhagsstöðu.

Ef til vill er prófessorinn að fá útrás vegna þess að  hann gæti tapað spóni úr aski sínum við afturköllun umsóknarinnar og brotthvarf Jóhönnustjórnarinnar, en ófá álitin hefur hann verið fenginn til að gefa forsætisráðherranum síðustu ár. Má velta því fyrir sér hvort þau álit hafi verið álíka rökföst og pistill hans á Eyjunni. Var  þó prófessorinn um tíma nefndur til  sem arftaki Jóhönnu í formannsstól Samfylkingarinnar og mun jafnvel hafa dottið það í hug sjálfum.

Ekki virtist þó ráðgjöf hans og skrif fyrir Samfylkinguna og Jóhönnu bera ríkulegan ávöxt  því hún hverfur nú af vettvangi með minna en helmingsfylgi frá því sem var.  Og þegar háskólaprófessorinn sá hvert stefndi fór hann að gera hosur sínar grænar fyrir Framsóknarflokknum því eitthvað verða menn nú að hafa fyrir stafni með kennslunni.  Af skrifunum að dæma hefur Framsókn hryggbrotið  prófessorinn  því hann ræðst af „margrómaðri rökhyggju" sinni á þá sem vilja stöðva innlimunarferið í ESB  og þar með væntanlegan frama hans.

Sambandssinnar sjá hag sínum best borgið einangraðir innan þröngra múra Evrópusambandsins og miðstýringarinnar frá Brussel. Sjálfstæðssinnar vilja hinsvegar opið,  frjálst og fullvalda ríki, sem ræður auðlindum sínum sjált og getur samið  og átt samskipti við allar þjóðir heims á eigin forsendum, en þurfa ekki að hlíta boðvaldi Brussel  í alþjóðasamskiptum.

Hún hefur  nú ekki verið  rismikil ganga þeirra  sem borið hafa beiningastafinn til Brussel undanfarin misseri. Og þótt háskólaprófessorinn vilji vera í hópi göngumanna sem bera þann beiningastaf er hægt að hugga hann og aðra slíka með því hann getur horft rólegur og notið Euróvisions keppninnar hér eftir sem hingaðtil.

Það eru samtök útvarpsstöðva í Evrópu sem standa að söngvakeppninni og hefur ekkert með ESB aðild að gera. Hinsvegar er það Stækkunardeild ESB sem rekur Evrópustofu en hún er áróðursmiðstöð tengt innlimun ríkja í ESB en hefur ekkert með hefðbundið menningar- eða viðskiptasamstarf að gera. Þetta á nú prófessorinn að vita.

Stefán minntist í grein sinni á sauðskinnsskó, sem er gott hjá honum og þjóðlegt og sýnir að prófessorinn hefur ennþá örlitla tengingu við þjóð sína. Það verður að ráðleggja Stefáni Ólafssyni eindregið að losa sig við minnimáttarkenndina, reyna að vera víðsýnn og endurheimta  trúna á sjálfan sig, land og þjóð.  Það gæri jafnvel verið gott fyrir hann að draga á fætur sér sauðskinnskó, svona eina kvöldstund  og þó ekki væri nema fara í ullarsokka  og njóta útsendingarinnar frá Euróvision. Hann getur jafnvel dregið fyrir gluggatjöldin á meðan.   Fátt er verra en  vera votur og kaldur á fótunum.  „ Með kalda fætur hugsa menn ekki rökrétt" segir gamalt máltæki. Íslenska sauðkindin hefur farið  vel með fætur Íslendinga jafnvel fætur prófessora  og  ESB- sinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband