Foringi jafnaðarmanna í Svíþjóð gagnrýnir lýðræðishallann í ESB

Stjórnkerfi ESB er að ýmsu leyti lokaðra en stjórnkerfi aðildarríkjanna og
völdin færast sífellt meira frá ríkjunum til Brussel. Þetta veldur ýmsum
áhyggjum, m.a. Stefan Löfven, foringja jafnaðarmanna í Svíþjóð.


Í fyrstu heimsókn sinni til Brussel sem formaður Jafnaðarmannaflokksins
sagði hann skoðun sína skýrt í þessum efnum að sögn sænska veftímaritsins
Europaportalen, sem fjallar aðallega um ESB (sjá:
http://www.europaportalen.se/2012/10/lofven-simmar-motstroms-i-europa).
Löfven vill að framlög aðildarríkja til ESB verði minnkuð um 10% og honum
er ekkert gefið um tal framkvæmdastjórnar ESB um nauðsyn á stofnun
sambandsríkis. Hann segir forystumenn ESB ekki hafa neitt lýðræðislegt
umboð frá ríkjunum til þess að koma með stefnumótandi yfirlýsingar af
þessu tagi. Það þurfi að ræða meira um rétt ríkja og sveitarfélaga í
Evrópu, en ekki einblína á að safna völdum saman hjá hinum ýmsu stofnunum
ESB í Brussel.

Bragð er að þá Stóri-Bróðir í Svíþjóð finnur. Lýðræðishallinn í ESB er
honum erfiður biti að kyngja.

Það er víðar sem sjá má merki um það að lýðræðið og gegnsæið er minna í
stofnunum ESB en í mörgum aðildarríkjanna. Tökum Seðlabanka Evrópu sem
dæmi. Í nýbirtri skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslendinga í
gjaldmiðilsmálum er í kafla 24 fjallað um evrukerfið. Þar kemur skýrt fram
að gegnsæið og lýðræðislegt aðhald er miklu minna hjá Seðlabanka Evrópu en
í flestum öðrum seðlabönkum í álfunni.

Eins og vitað er miða vaxtaákvarðanir Seðlabanka Evrópu við meðaltalsþróun
í hagkerfum Evrópu og því myndi þróunin á Íslandi, yrðum við þar inni,
ekki skipta neinu máli. Það er hagþróunin í stærstu ríkjunum sem mestu
ræður um hver vaxtaákvörðunin verður; hvort þeir hreyfist upp á við, niður
á við eða standi í stað. Í kaflanum um evrukerfið kemur fram að ekki séu
greidd atkvæði um vaxtaákvörðunina og auk þess eru fundargerðir frá fundum
bankastjórnarinnar um vaxtaákvarðanir leynilegar.

Eða eins og segir í skýrslunni:

Allir meðlimir bankastjórnar bera óskipta ábyrgð á sameiginlegum ákvörðunum hennar. Fundargerðir bankastjórnarinnar eru trúnaðarmál, …

Aðeins einn maður kynnir síðan ákvörðunina fyrir blaðamönnum. Ennfremur
segir:

Sá háttur hefur verið hafður á þegar ákvarðanir í peningamálum eru teknar á vettvangi bankastjórnar að ganga ekki til atkvæða. Í fréttatilkynningum kemur fram sameiginlegt álit allra ráðsmanna. Þessi tilhögun hefur verið kölluð samstöðuregla (e. consensus principle).

Þá segir að það sé síðan meginhlutverk aðildarríkjanna að framkvæma
ákvarðanir bankastjórnar Seðlabanka Evrópu (ECB) og þar eru engin frávik í
skoðunum leyfð. Verði menn uppvísir að því að hafa að einhverju leyti
eigin skoðanir eru þeir umsvifalaust teknir á teppið eða jafnvel frystir
úti á fundum í sambandinu. Seðlabankar aðildarríkjanna eiga aðeins að
miðla upplýsingum ECB um stefnumótun bankastjórnar ECB og forsendur
hennar. Eða eins og segir í skýrslunni:

Seðlabankar evruríkjanna koma fram fyrir hönd ECB hver í sínu heimalandi og miðla upplýsingum og túlka og verja stefnu ECB. Þannig eiga þeir að skýra út og miðla upplýsingum um stefnumótun bankastjórnar ECB og forsendur hennar. Seðlabankar evruríkjanna eru jafnan í mun betri stöðu en ECB til að sjá um þessa upplýsingamiðlun og málsvörn fyrir peningastefnu ECB heima gagnvart stjórnvöldum, almenningi og hagsmunaaðilum.

Í Bretlandi, Svíþjóð, á Íslandi og víðar eru fundargerðir þeirra nefnda
eða hópa sem taka ákvarðanir um stýrivexti fljótlega opnar og aðgengilegar
almenningi. Hér á landi eru þær birtar tveimur vikum eftir ákvörðun. Rök
fyrir ákvörðun eru birt og jafnframt rök þeirra sem kunna að hafa viljað
aðra ákvörðun en meirihluti í hverju tilviki. Slíkt er bannað í
Evrópusambandinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband