Áminning til Gylfa í ASÍ um árásir ESB dómstólsins á verkalýðshreyfinguna

Í stað þess að níða niður krónuna og dásama evruna viku eftir viku mætti Gylfi Arnbjörnsson í ASÍ ásamt félögum sínum þar hugleiða hvernig ESB hefur markvisst unnið gegn kjarabaráttu verkalýðshreyfingarinnar.

ESB-dómstóllinn (EJC) virðist „staðráðinn i að festa í sessi þá túlkun á regluverki ESB að verkalýðshreyfingin hafi ekki rétt til að verja umsamin lágmarkslaun", skrifar Páll H. Hannesson  s.l. fimmtudag á blogginu esbogalmannahagur.blog.is.

Páll hefur í fyrri skrifum sínum á síðunni gert grein fyrir því hvernig Evrópudómstóllinn og EFTA-dómstólinn hafa seilst inn á vinnumarkaði ESB- og EES ríkjanna og komið í veg fyrir að lýðræðislegar ákvarðanir stjórnvalda nái fram að ganga. Fjórfrelsið hefur með öðrum orðum forgang á aðra lagasetningu.

„Einn hinna tímamótandi dóma er svokallaður Rüffert-dómur sem kveðinn var upp af Evrópudómstólnum í apríl 2008. Í dómnum er gripið fram fyrir hendur stjórnvalda í Neðra-Saxlandi sem höfðu reynt að koma í veg fyrir félagsleg undirboð í verkefnum á vegum hins opinbera. Rétt eins og í EFTA-dómnum gegn Íslandi, véfengir dómstólinn skilgreiningar stjórnvalda á hvað teljast lögleg/lögbundin lágmarkslaun. Með túlkun sinni á lögbundnum lágmarkslaunum í skilningi tilskipunarinnar um útsenda starfsmenn, kemur dómstólinn í veg fyrir að stjórnvöld geti krafist þess að verktakar sem starfa fyrir hið opinbera, greiði umsamin lágmarkslaun eins og þau gerast á vinnumarkaði hins opinbera. Þau lágmarkslaun, nái samkvæmt skilgreiningu, ekki til alls launamarkaðar í Þýskalandi og því eru þau ekki nothæf viðmiðun. Það er svo sem tilvísun í þennan dóm, sem að ESA er að reyna að knésetja stjórnvöld í Noregi og fá norsk stjórnvöld til að brjóta ILO-samþykkt 94."

„Úrskurður Evrópudómstólsins (EJC) í svonefndu Rüffert-máli er alvarlegt áfall fyrir verkalýðshreyfinguna í Evrópu og það má jafnvel halda því fram að hann sé lýðræðinu áfall."

„Virðist dómstóllinn staðráðinn í að festa í sessi túlkun sem setur fjórfrelsið í fyrsta sæti, þ.e. réttinn til að veita þjónustu sbr. gr. 49. grein stofnsáttmála Evrópusambandsins um frjáls þjónustuviðskipti. Nú er þetta frelsi túlkað á þá lund að verkalýðsfélög hafa ekki rétt til að grípa til aðgerða til að verja umsamin lágmarkskjör (eins og gerðist í Laval - málinu), og nú bætist það við að lýðræðislega kjörin stjórnvöld megi ekki taka um það ákvörðun að hafa beri hliðsjón af kjarasamningum verkalýðsfélaga við útboð og samninga."

„Evrópsk verkalýðshreyfing telur að þessi dómur sé mjög varasamur og veiki óhjákvæmilega stöðu verkalýðshreyfingarinnar og grafi undan ávinningum hennar frá fyrri tíð."

Sjá nánar: http://www.esbogalmannahagur.blog.is/blog/esbogalmannahagur/

Sjá dómsniðurstöðu Evrópudómstólsins hér: http://curia.europa.eu/jurisp/cgi-bin/form.pl?lang=EN&Submit=rechercher&numaff=C-346/06


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Marinósson

Tek fram að ég er mótfallinn inngöngu í ESB.  Hinsvegar er það held ég einsog að stinga höfðinu í sandinn að viðurkenna ekki að það er slæm hagstjórn áratugum saman sem hefur gert að verkum að krónan hentar okkur ekki sem gjaldmiðill.  Þeir sem engu vilja breyta vilja auðvitað hafa krónuna áfram svo hægt sé að velta afleiðingum slæmrar hagstjórnar yfir á herðar launafólks og neytenda í þessu landi.  Vinstri vaktinni væri nær að útlista sannleikann fyrir almenningi í landinu.

Ágúst Marinósson, 23.1.2012 kl. 09:38

2 identicon

Smæð krónunnar veldur miklum sveiflum á gengi hennar. Það þarf lítið til að gengið hækki eða lækki.

Þegar gengið lækkar hækkar verð innfluttra vara og úr verður verðbólguskot. Það kallar á launahækkanir sem auka innlendan kostnað svo að verðbólgan eykst enn frekar. 

Hækkun á gengi krónunnar kemur hins vegar aðeins að takmörkuðu leyti fram í  lækkun á vöruverði og aldrei í launalækkunum. Það er því óhjákvæmilegt að sveiflur á gengi krónunnar valdi miklu meiri verðbólgu hér en í nágrannalöndum. 

Það er því nauðsynlegt að skipta um gjaldmiðil til að fá nauðsynlegan stöðugleika.

Það er ekki verjandi að bjóða fólki upp á gjaldmiðil sem vegna gengisbreytinga hefur þau áhrif að lán geta hækkað upp úr öllu valdi á sama tíma og laun standa í stað ,verð íbúðarinnar lækkar og eigið fé upp á milljónir gufar upp.

Það er ekki verjandi að bjóða fyrirtækjum upp á gjaldmiðil sem vegna gengisbreytinga getur hæglega gert blómlegan rekstur svo vonlausan að ekkert blasir við annað en gjaldþrot.   

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 16:07

3 identicon

Meintar árásir ESB á kjarabaráttu verkalýðsfélaga er okkar vandamál ekki síður en ESB-þjóða vegna EES-samningsins.

Ef Gylfi á að geta skipt sér af þeim verðum við fyrst að ganga í ESB enda höfum við fyrr ekkert með mál ESB að gera nema að taka við tilskipunum og fara eftir þeim.

Hins vegar eru gífurlegir hagsmunir fólgnir í að taka upp evru eins og ég hef rakið í öðrum athugasemdum.

Gylfi er því að standa sig með því að kanna kosti þess að taka upp evru og ekki síður að benda á gallana og hætturnar við að gera það ekki.  

Ásmundur Harðarso (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband