Landsfundur VG einhuga í andstöðu við ESB-aðild

Samþykkt landsfundar VG um ESB-aðild var eindregin og afdráttarlaus. Segja má að með henni sendi flokkurinn Samfylkingunni kveðju sína og afþakki hrósið sem hann fékk frá Jóhönnu fyrir veittan stuðning í ESB-málinu; flokkurinn er staðráðinn í að berjast af fullri einurð gegn aðild Íslands að ESB.

 

Mörgum stuðningsmönnum VG hefur fundist að flokkurinn og forystumenn hans létu alltof lítið til sín heyra um afstöðu sína til ESB-aðildar eftir að umsóknarferlið hófst. Úr þessu var bætt með samþykktinni á landsfundinum á Akureyri nú um helgina. Formaður flokksins, Steingrímur Sigfússon, gaf reyndar strax tóninn í ágætri setningarræðu sem rakin var hér á síðunni s.l. laugardag.

 

Ýmsir fjölmiðlar áttu von á hörðum rimmum um þetta mál á landsfundinum. En svo fór að fjölmennur vinnuhópur sem fjallaði um ESB-málið á laugardeginum komst að einróma niðurstöðu um ályktun sem samþykkt var af öllum þorra fundarmanna gegn fáeinum mótatkvæðum. Ekki kom skýrt fram hve mörg mótatkvæðin voru en þau virtust færri en fingur annarrar handar. Að fenginni þessari eindregnu samþykkt er fulljóst að Samfylkingin er mjög einangruð í ákafa sínum að koma Íslendingum inn í ESB og nú hafa þrír flokkar, Vinstrihreyfingin grænt framboð, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, gert hreint fyrir sínum dyrum og tekið skýra afstöðu gegn ESB-aðild á landsfundum sínum.

 

Samþykkt landsfundarins, sem birt er hér í lokin, var í aðalatriðum byggð á tillögu sem 25 andstæðingar ESB-aðildar fluttu í upphafi fundar, en tillagan var kynnt hér á síðunni 15. október s.l. í grein Hjörleifs Guttormssonar. Eftir umræður í vinnuhópi varð samstaða um tillöguna með nokkrum orðalagsbreytingum, þar á meðal kom inn eftirfarandi setning: „Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB nema þjóðin samþykki aðild.“ Jafnframt bættist við setning um íslenskan landbúnað.

 

Hvorki í upphaflegu tillögunni né þeirri sem samþykkt var eftir endurskoðun í vinnuhópi var fjallað um hvað gert yrði við aðildarumsóknina, þ.e. hvort hún yrði dregin til baka eða lögð til hliðar eða hvort henni yrði haldið til streitu þar til „efnisleg niðurstaða“ væri fengin, eins og nefnt var í annarri tillögu um sama mál sem lá fyrir fundinum, heldur var áhersla á það lögð að eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, sé að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar og jafnframt minnt á ýmsa meginhagsmuni sem þjóðin verði að slá skjaldborg um.

 

Eins og oft hefur verið rakið hér á síðunni hefur Össur utanríkisráðherra haft uppi endurtekna tilburði til að hafa að engu álit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis sem lá að baki  hinni umdeildu samþykkt um að senda ESB aðildarumsókn. Í því áliti eru ýmsir fyrirvarar skilgreindir og skilyrði sett fyrir því að unnt sé að fallast á ESB-aðild. Össur hefur aftur á móti haldið því blákalt fram að Íslendingar þurfi ekki á neinum undanþágum að halda í sjávarútvegsmálum. Landsfundurinn hafnaði því algerlega að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda og lagði áherslu á að Ísland haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum. Jafnframt minnti landsfundurinn á þá miklu skerðingu lýðræðis sem fælist í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum.  

Samþykkt landsfundarins var svohljóðandi:

„Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Landsfundurinn ályktar að í yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu og leggur áherslu á að Ísland haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum, s.s.makríll, kolmunni, úthafskarfi, loðna og norsk-íslenska síldin. Sama á við hvað varðar umfang á stuðningi við íslenskan landbúnað svo og um náttúruauðlindir sem fyrirhugað er að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá. 

Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins. Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur. 

Landsfundurinn telur það vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar.“

Ragnar Arnalds


mbl.is Hart deilt í VG um niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Þegar ekki fara saman orð og gerðir verða orðin merkingarlaus.

Nú verður VG að sjá til þess að almenningur fái að skera úr um það í þjóðaratkvæði hvort halda eigi aðildarferlinu áfram. Fyrr er ekkert að marka einhverjar samþykktir, sama hversu eindregnar og afdráttarlausar þær eru.

Haraldur Hansson, 31.10.2011 kl. 12:36

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er einhver misskilningur hjá síðuritara.

Einhugur Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð heitir því þjóðþekkta nafni:

Steingrímur J. Sigfússon 

Árni Gunnarsson, 31.10.2011 kl. 13:50

3 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Það er rétt hjá Haraldi Hanssyni að best væri ef landsfundurinn hefði samþykkt að aðildarumsóknin skuli dregin til baka. Þar með hefði skapast meiri hluti fyrir því á Alþingi að ljúka málinu nú þegar, hugsanlega með þjóðaratkvæði. En staða málsins er því miður flóknari en svo að þess hafi verið að vænta í þetta sinn. Við sem fluttum tillöguna á landsfundinum lítum hins vegar svo á að samþykkt hennar sé mikilvægur áfangasigur og með henni hafa orðið ákveðin vatnaskil í þróun málsins innan VG.  - RA

Vinstrivaktin gegn ESB, 31.10.2011 kl. 14:54

4 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Ég er orðin harður í andstöðu minni við Vinstri Græna. Sem eru ekkert nema landráðamenn og svikarar við almenning á Íslandi. Enda er það til skammar að það skuli vera til fólk sem vinnur gegn almenningi á Íslandi með þessum hætti eins og raunin er.

Fólk sem hefur aldrei haft, og mun aldrei hafa nein rök til þess að standa við þann málflutning sem það hefur sett fram varðandi Evrópusambandið, evruna og það starf sem fer fram í Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess.

Það er skömm, og það mikil að mönnum eins og Ragnari Arnalds sem eru ekkert nema argasta íhald og harðir kommúnistar, jafnvel hreinir kommúnistar af gamla og vonda skólanum.

Skömm Vinstri Grænna er mikil, og það verður svo sannarlega skrifað um þessa skömm í framtíðinni og mikið verður litið niður á þetta viðhorf sem Vinstri Grænir hafa hérna uppi í dag.

Jón Frímann Jónsson, 31.10.2011 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband