Slíta Bretar sig lausa frá fiskveiðistefnu ESB?

Það er ekki auðvelt að endurheimta fullveldisréttindi sem ríki hafa afsalað sér til ESB. En loksins eygja leiðtogar Breta þann möguleika að þeir geti losað sig út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB sem Bretar hafa svo lengi verið hundóánægðir með.  

Leiðtogar þess hluta ESB sem jafnframt er evrusvæði, þ.e. Frakkar og Þjóðverjar ásamt helstu fylgiríkjum sínum, eru nú að undirbúa enn eitt samrunaferlið með viðeigandi framsali valds frá aðildarríkjunum, í þetta sinn á sviði efnahagsmála og ríkisfjármála. Tilgangurinn er að styrkja evruna og koma í veg fyrir síendurtekið kreppuástand í kringum gjaldmiðilinn.

Mbl.is hefur það eftir breska dagblaðinu Daily Telegraph „að til þess að leysa úr vandræðum evrusvæðisins þurfi að koma til breytingar á sáttmálum ESB sem heimili aukinn samruna evruríkjanna og sem öll ríki sambandsins þurfi að samþykkja.

Áhrifamenn innan breska Íhaldsflokksins, sem stendur að ríkisstjórn Bretlands ásamt Frjálslyndum demókrötum, telji að þar með geti Bretar sett það sem skilyrði fyrir því að samþykkja breytingar sem snúi aðeins að evrusvæðinu og að þeir endurheimti völd til að mynda yfir félags- og atvinnumálum sínum.

Fram kemur í fréttinni að slíkar hugmyndir séu þó ólíklegar til þess að falla í góðan jarðveg hjá samstarfsflokknum í ríkisstjórn sem sé mjög hlynntur veru Bretlands í ESB og hafi viljað að Bretar tækju meiri þátt í sambandinu en ekki minni. Ýmsum áhrifamönnum innan Íhaldsflokksins þykir á hinn bóginn hugmyndirnar ekki ganga nógu langt og vilja meðal annars að Bretar fari fram á það að segja skilið við sameiginlega sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB og helst yfirgefi sambandið að fullu.“  

Ljóst er að Bretar hafa engan áhuga á að taka upp evru og munu streitast á móti framsali fullveldisréttar á sviði efnahags- og ríkisfjármála. En eins og frétt Daily Telegraph ber með sér gætu þeir séð sér þann leik á borði að endurheimta fullveldisrétt sinn á einhverju öðru sviði, t.d. yfirráðin yfir fiskveiðilögsögu sinni, en það hefur verið baráttumál breska Íhaldsflokksins um langt skeið, í skiptum fyrir að samþykkja aukinn samruna evruríkjanna.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband