Leitar þú skjóls í brennandi húsi?

„Kjarni málsins er sá að ekkert hefur enn verið gert til að lækna sjúkdóminn sem efnahagslíf Vesturlanda á við að glíma“, segir Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur, í afbragðsgóðri grein í Morgunblaðinu í dag. Við birtum hér stutta kafla úr grein hans:

 

„Neytendur sem stjórnlaus kapítalismi hefur gert gjaldþrota, geta ekki knúið hagkerfin áfram með eftirspurn sinni. Það er ekki bara byltingin sem étur börnin sín. Þær gífurlegu innspýtingar opinbers fjár sem markaðirnir fengu hafa ekki verið teknar til baka. Alkóhólistinn fékk bara einn afréttarann enn. Bandaríkin eiga enn eftir að bíta úr nálinni, en þau eru þó ekki með evru heldur eigin gjaldmiðil og geta fellt hann.

 

Viltu rjóma Jóhanna mín?

 

Angela Merkel er líka merkileg með sig. Ósvífin leyfði hún sér að hrósa Íslendingum fyrir að hafa náð góðum árangri við endurreisn landsins eftir „hrunið“. Angela veit að vonlaust er að smala köttum, en kann hins vegar að venja kött inn til sín með því að strjúka honum rétt og gefa honum rjóma. Við vitum að ESB mundi aldrei líða aðildarþjóð þær aðgerðir sem Ísland greip til. Þvert á móti er það einmitt tilgangurinn með nauðungarlánum til evrulanda að koma í veg fyrir að ábyrgðarlausir evrópskir, ekki síst þýskir risabankar, tapi útlánum sem þeir hafa veitt jafn ábyrgðarlausum lántakendum þessara landa. Íslenska leiðin var sú að ábyrgjast ekki skuldir banka en „láta þeim (risabönkunum) svíða sem undir sig míga“ m.a. í von um að þeir geti lært af mistökum sínum. Annar helsti þátturinn var að gera innlán að forgangskröfum, sem jók enn á sviðann.“

 

Síðar í greininni skrifar Ragnar:

„Risabankar sem lánað hafa staðbundnum einkabönkum fé sem vonlaust er að geti endurgreiðst hafa skákað í því skjóli að ríkisstjórnir viðkomandi landa „verði“ að koma bönkum sínum til hjálpar eftir á, með ókeypis ríkisábyrgðum. Íslenska leiðin afsannaði þetta. Sú leið stendur þó ekki til boða innan ESB, hvað sem fagurgala Angelu líður. Yfirþjóðlegt vald kommissaranna bannar það.“

 

Í lok greinarinnar skrifar Ragnar:

„Það er auðveldara að koma sér í vandræði en úr þeim. Þeir sem halda að léttar lausnir séu til eru blindir eins og nýfæddir kettlingar. Margir alþingismenn eru í þeim hópi. Það er mesta vandamálið. Að ganga í ESB núna er eins og að leita skjóls í brennandi húsi. Það væri glapræði.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband