Hvar er nú nafli alheimsins?

Heiðnir menn töldu miðju heimsins vera í mannheimum og þar ofan við var Ásgarður, heimur guða. Nærhendis góðum mönnum. Með kristninni varð til sú hugmynd að miðja heimsins væri í hinni helgu borg Jórsölum og heiminum var þaðan skipt í þrjá meginhluta sem byggðir voru sonum Nóa, Sem, Kam og Jafet. Og hver sá sem andmælti mönnum um miðjur þessar gat átt von hins verra.

En því er þetta rifjað hér upp að ennþá eru mannanna börn harla viðkvæm fyrir því að gantast sé með þessa miðju. Þessa urðum við áþreifanlega vör í umræðu helgarinnar þegar grænlenski stjórnmálamaðurinn Josef Motzfeldt sló því fram að Evrópa væri jú langt frá veröldinni! Á bloggsíðum og fésbók mátti sjá rokur stórar yfir hinu grænlenska guðlasti. Það er kannski harla fátt nýtt undir sólinni í þessum efnum.

Vitaskuld hefur Vestur Evrópa um nokkrar aldir verið sá heimshluti sem mest er horft til í framförum, efnahagslífi og pólitískri stefnumótun á jarðarkringlunni. Lengi vel voru Evrópumenn raunar tregir til að samþykkja að það væri nokkur annar heimur en þeirra eigin akrar og allt væru það ólönd sem flækingar fundu í fjarlægum stöðum. Að lokum var sæst á að kalla sumt þeirra landa Nýja heiminn og þóttu nú lengi vel ekki merkileg pláss.

Síðustu 100 árin hefur þessi nafli heimsvaldastefnunnar þó færst og Bandaríkin tekið að sér hlutverk gömlu álfunnar. Í kalda stríðinu var Evrópu vestan Rússlands skipt upp í frekar áhrifalítil leppsvæði stórveldanna í austri og vestri. Sameining Evrópulanda í ríkjabandalag er til marks um stórveldisdrauma en það er mikið vafamál vel til takist. Brauðfætur Evrópu eru öllum augljósir með óhagsstæðri aldurssamsetningu þessara landa, óhóflegri skuldasöfnun og ofvexti í hinu býrókratíska skrifræðisveldi Brusselborgar.

Á sama tíma er alheimsnafli heimskapítalisma og heimsvaldastefnu á hraðri leið frá vesturveldunum yfir í austrið, til efnahagsrisanna Rússlands, Kína og Indlands. Mestur hagvöxtur er svo í hinni svörtu Afríku.

Í öllu þessu róti er spaugilegt að uppi á litla Íslandi skuli vera til fólk sem heldur með stórveldum eins og enskum knattspyrnuliðum. Þetta sama fólk æsir sig þegar því er góðlátlega bent á að kannski sé okkar eigin alheimsnafli bara hér í fiskiplássum heima hjá okkur og með okkar allra næstu nágrönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er alveg furðulegt þessi tilhenyging til að gera alltaf lítið úr Evropu og niða lýðræðis- og mannréttinda stefnu hennar ásamt umhverfisvernd. Alveg furðulegt.

Eina skýringin á þessu hjá svokallaðri ,,vinstri" vakt er, aðdáun kommúnista á Íslandi í gamla daga á Sovétríkjunum.

Þeir hötuðu lýðræðis- og réttarbótaríkin í Evrópu - en litu til Stalíns að fyrirmyndum! Litu til Sovétríkjana.

Það er eins og íslendingar sumir sem kalla sig ,,vinstri" hafi ekki enn jafnað sig á falli Sovétríkjanna. Þeir hafa ekki enn áttað sig á að þeir tóku kolranga afstöðu og að mörgu leiti óskiljanlega afstöðu því margir gömlu kommúnistana hlutu alveg að vita betur enda ferðuðust þeir þar austur eftir og jafnvel menntuðust þar.

Jafnframt er sagnfræðilega rangt að leggja vestur- og austur-Evrópu að jöfnu eftir stríð. Vestur Evrópa var auðvitað í allt annari stöðu gagnvart BNA en Austur-Evrópa þar sem löndin voru réttilega leppríki Sovétríkjanna.

Í dag eru margir naflar í heiminum. Það er alveg úrelt hugsun að halda að bara fjallahringurinn sé heimurinn. Að veröldin endi við sjónarrönd.

Varðandi fiskiþorp, að þá er nafli þeirra í raun ekki síst þar sem fiskur þeirra er seldur aðallega til. Á því byggist tilvera fiskiþorpanna.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.3.2014 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband