Þegar borgarmúrarnir falla

Filippus Makedóníukonungur  faðir Alexanders mikla sagði að engir borgarmúrar væri það háir að asni klyfjaður gulli kæmist ekki þar yfir.  Það eru orð að sönnu.

Hvert sveitarfélagið á fætur öðru ályktar nú um að haldið skuli áfram aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið. Fyrst var það stjórn  Sambands íslenskra sveitarfélaga með borgarstjóraefnin   Halldór Halldórsson og Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar. Stjórnin sendi út yfirlýsingu um að umsóknarferlið væri gríðarlegt hagsmunamál sveitarfélaganna.  Á eftir  þeim kom svo Reykjavíkurborg sjálf með áskorun um að halda innlimunarferlinu áfram, þá  kom Kópavogur og Hafnarfjörður sem ekki vildu vera minni menn í þessum efnum.

Allt  þetta fólk veit vel að umsóknarferlinu verður ekki haldið áfram nema að  Alþingi falli frá þeim fyrirvörum sem settir voru með umsókninni m.a. varðandi forræði á sjávarútvegsauðlindinni.

 Það er hinsvegar ófrávíkjanleg krafa ESB að forræði fiskveiðiauðlindarinnar fari undir sameiginlega stjórn ESB í Brussel.  Krafa sveitarstjórnarmanna í þessum bæjarfélögunum um áframhald samninga er jafnframt krafan um að gefnir séu eftir þeir grundvallarfyrirvarar sem settir voru af Alþingi fyrir samningum í upphafi.

Að fá frítt far og hótel með 340 evrur í vasann

Ég velti því fyrir mér hvort allur almenningur veit hvað hefur stanslaust gengið á síðustu misseri í utanferðum til Brussel.

Ótrúlegur fjöldi sveitarstjórnarmanna, starfsmanna bæjarfélaga, fyrirtækja og  félagasamtaka hefur streymt í svokallaðar kynnisferðir til Brussel.

Eða eins og segir á heimasíðu Sendinefndar ESB hér á landi, sem hefur að eigin sögn ígildi sendiráðs:

„EUVP-áætlun Evrópusambandsins (EuropeanUnionVisitorsProgram) veitir einstaklingum á aldrinum 25-45 ára í löndum utan ESB tækifæri til heimsækja stofnanir ESB í Brussel og Strassborg. Markmiðið er auka tengsl og gagnkvæma þekkingu á ESB og viðkomandi landi.

EUVP-áætlunin er fjármögnuð af Evrópuþinginu og framkvæmdastjórn ESB, sem í sameiningu sjá um framkvæmd heimsókna. Hver heimsókn stendur yfir í 5 til 8 daga og er sniðin að þörfum hvers og eins. ESB greiðir fyrir ferðir og uppihald.

Hverjir geta tekið þátt?

EUVP-heimsóknir eru ætlaðar einstaklingum á aldrinum 25-45 ára sem starfa í stjórnmálum, stjórnsýslu,  hjá fjölmiðlum, hagsmunasamtökum eða við fræðistörf.  Heimsóknirnar eru ekki ætlaðar námsfólki. Æskilegt er að umsækjendur hafi  háskólapróf og nokkurra ára starfsreynslu. Staðgóð þekkingu á ESB er kostur“

 

Og „asninn klyfjaður gulli“ er boðinn velkominn

 

Og hvað er í boði :

 Frítt far frá heimastað til Brussel, ókeypis dvöl á hóteli með morgunmat og 340 evrur í umslagi sem er afhent við komuna til Brussel.

Það væri fróðlegt að vita hve margir tugir ef ekki hundruð sveitarstjórnarmanna, og starfsmanna á þeirra vegum hafa  fengið slík boð og þegið jafnvel oftar en einu sinni. Er það að furða þótt forystumenn stóru sveitarfélaganna gráti afturköllun umsóknarinnar. Hver vill ekki geta fengið frítt far til Brussel, hótel og umslag fullt af evru  í vasann? Er að furða þótt borgarmúrarnir falli þegar gullið birtist.

Jón Bjarnason 


mbl.is Evrópustofa gæti starfað fram til 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef einkafyrirtæki býður stjórnmálamönnum og opinberum starfsmönnum upp á svona ferðapakka þá heita það mútur, er ESB undanþegið slíku?

Gulli (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 12:41

2 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Það virðist sem, sumir séu svo heilagir að þeir þurfi ekki að fara að lögum, og gildir það jafnt um erlenda sem innlenda aðila. En svona er þetta bara,og verður áframm nema því verði breitt með stórtækum aðgerðum. En Íslendingar eru friðsöm þjóð og gerir ekki slíkt og það vita ráðamenn Íslendinga! Td er verið að brjóta lög með því að bjóða aðeins 20% lagfæringu á húsnæðislánum! svo dæmi sé tekið.

Eyjólfur G Svavarsson, 28.3.2014 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband