Hjörleifur: Um Sjálfstæða Evrópumenn, Evruna og skýrslu Hagfræðistofnunar

Um kvöldmatarleytið 21. febrúar var í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar fyrr um daginn lögð fram á Alþingi tillaga utanríkisráðherra „um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki.“

 

Fram kom þá þegar að allir þingmenn stjórnarflokkanna utan tveir styddu tillöguna. Hún hefur samkvæmt því traustan meirihlutastuðning á Alþingi og er í samræmi við málefnasamning stjórnarflokkanna um að hverfa frá aðildarumsókn sem fyrri ríkisstjórn hafði lagt á ís fyrir einu ári.

 

Ofsafengin viðbrögð Þorsteins Pálssonar og fleiri

 

Vart var tillagan komin fram þegar Þorsteinn Pálsson fyrrum ráðherra birtist í viðtali við Stöð 2. Voru viðbrögð hans vægast sagt hörð þar sem hann sakaði Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins um stærstu svik í sögu íslenskra stjórnmála með því að efna ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. Á eftir fylgdi á RÚV Benedikt Jóhannesson formaður félags Sjálfstæðra Evrópumanna, sem fundað hafði fyrr um daginn og ályktað m.a. að mikilvægt væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn  að verða ekki „viðskila við aðila vinnumarkaðarins í þessu stóra máli.“ Vitnaði Benedikt til orða Þorsteins Pálssonar á fundinum: „Að það sé undarlegt að sumir Sjálfstæðismenn hafi snúist gegn bandalagi sem væri stofnað til um grunngildi flokksins.“ Ennfremur sagði Benedikt: „Evrópusambandið snýst um lýðræði, jafnrétti, mannfrelsi og í stuttu máli frjáls viðskipti og vestræna samvinnu. Ég held það sé ekki hægt að segja annað en að þetta samræmist grunngildum flokksins nákvæmlega.“

 

Ríkisútvarpið lá ekki á liði sínu

 

Í kjölfar þessa vakti það athygli að Ríkisútvarpið fyllti á laugardaginn fréttatíma sína með boðskap þeirra félaga og kallaði til viðtals fulltrúa samtaka atvinnurekenda, einn á eftir öðrum, til að fordæma tillögugerð stjórnarflokkanna um að draga til baka umsóknina um ESB-aðild. Var engu líkara en Sjálfstæðir Evrópumenn hefðu tekið fréttastofuna í gíslingu þennan dag til að útbreiða boðskap sinn. Aðeins var rætt við Birgi Ármannson úr hópi tillögumanna og hann látinn svara fyrir um, hversvegna fallið hefði verið frá boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu. Um sjálfa tillöguna fjallaði RÚV ekki í fréttum sínum þennan dag og fylgir henni þó margra síðna greinargerð ásamt fylgiskjölum. Vissulega gáfu viðbrögð andstæðinga tillögunnar tilefni til frásagnar, en framganga fréttastofnunnar varðandi málið í heild kom á óvart og var með hreinum ólíkindum.

 

Bakgrunnur átakanna

 

Það er ekkert nýtt að Þorsteinn Pálsson og Benedikt Jóhanneson tjái sig með tilfinningaríkum og ákveðnum hætti um að Íslandi beri að ganga í Evrópusambandið. Það er að sjálfsögðu þeirra góði réttur og í þessu stórpólitíska máli hljóta tilfinningar að blandast inn í efnisleg rök með og móti í andstæðum fylkingum. Eftir er að sjá hvort þeir félagar grípi til pólitískra gagnaðgerða mót flokki sínum. Þorsteinn átti sæti í viðræðunefnd fyrrverandi ríkisstjórnar um aðild að ESB og hefur um árabil haldið úti vikulegum pistlum í Fréttablaðinu sem eindreginn boðberi inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Í raun er Fréttablaðið með ritstjórunum Ólafi Þ. Stephensen og Mikael Torfasyni eindreginn boðberi aðildar og Mikael hefur að auki nýverið fengið vettvang sem þáttastjórnandi á Stöð 2. Hóf hann þar göngu sína með árás á Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins fyrir hálfum mánuði, en höggið geigaði vegna hógværra og málefnalegra viðbragða Bjarna.

 

Evran sem gjaldmiðill trúaratriði

 

Margir sannfærðir fylgjendur inngöngu Íslands í ESB hafa lengi hampað Evru og aðild að myntbandalagi ESB í boðskap sínum. Einnig í röðum atvinnurekenda er sá þáttur áberandi eins og m.a. mátti heyra frá forstöðumanni Viðskiptaþings um liðna helgi. Sá taldi verst við tillögu stjórnarflokkanna að með því fækkaði valkostum Íslands í gjaldmiðilsmálum. Boðberar Evrunnar gerðu rétt í að kynna sér aðstæður á Evrusvæðinu og þá kreppu sem þar hefur verið glímt við síðan 2009 og ekki sér fyrir endann á. Einnig geta menn sótt sér margvíslegan fróðleik um bakgrunn þeirra vandræða og tengsl þeirra við spennitreyju Evrunnar í glóðvolga skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans þar sem m.a. stendur (s. 91): „Höfuðvandinn felst í því hve hagþróun hinna ýmsu landa á evrusvæðinu er ólík og endurspeglar að myntbandalagið er ekki byggt á forsendum hagkvæms myntsvæðis.“ Til viðbótar höfum við aðgang að skýrslu Seðlabanka Íslands frá haustinu 2012 og kallast þessar fróðlegu skýrslu á um ýmsa þætti. Þannig segja þeir hagfróðu í HÍ (s. 94): „Einnig er rétt að taka undir með skýrsluhöfundum [Seðlabankans] að ákvarðanir í gjaldmiðilsmálum eru pólitískar ákvarðanir.“ Það á raunar við um flest það sem snertir samskipti Íslendinga við aðrar þjóðir.

 

Hjörleifur Guttormsson

 


mbl.is Evrópumálin í brennidepli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég hef aldrei skilið almennilega hvað Þorsteinn Pálsson er, eða afhverju mér finnst allir aðrir tala hnitmiðað og skiljanlegra en þessi gaur.

Helga Kristjánsdóttir, 25.2.2014 kl. 04:14

2 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Góður pistill Hjörleifur og ekki síður greinin sem þú skrifar í Moggan í dag las hana tvisvar.

Ragnar Gunnlaugsson, 25.2.2014 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband