Evrópusambandið þorði aldrei að opna á kaflann um sjávarútvegsmál

Rýniskýrsla ESB um íslenskan sjávarútveg var tilbúin, en ESB hikaði við að birta hana því að þá hefði komið fram sú ófrávíkjanlega krafa að öll yfirstjórn auðlindarinnar færðist il Brussel. Þetta kemur fram í grein Jóns Bjarnasonar í Morgunblaðinu í dag.

 

Grein Jóns er svohljóðandi: „Til þess að ferillinn gæti hafist í ESB-viðræðunum um hvern einstakan málaflokk þurftu báðir aðilar að leggja fram svokallaða rýniskýrslu, þar sem greindur var munur á löggjöf og regluverki aðila í málaflokknum. Þar kæmi fram hverju Ísland þyrfti að breyta í sinni löggjöf til að falla að kröfum ESB.

 

Rýniskýrslan um sjávarútveg var tilbúin af Íslands hálfu, en Evrópusambandið þorði ekki að birta sína, né heldur virtust ESB-löndin ná saman innbyrðis um hvað ætti að standa í skýrslunni af þeirra hálfu. Til þess bar of mikið í milli og sérstaklega í grundvallaratriðum. Þar bar hæst ófrávíkjanlega kröfu ESB um að öll yfirstjórn auðlindarinnar færðist til Brussel. Einungis væri hægt að semja um undanþágur til takamarkaðs tíma.

 

Ég krafðist þess sem ráðherra að rýniskýrslan um sjávarútveg frá ESB kæmi fram og þá birtust formlega kröfur sambandsins um hverju við yrðum að breyta í okkar löggjöf. Jafnframt myndi þá birtast formleg krafa þeirra um afsal okkar á forræði auðlindarinnar. Það stóð aldrei til af minni hálfu að gefa fyrirfram eftir fullveldisrétt Íslands í sjávarútvegsmálum.

 

Krafa ESB um yfirráð

á fiskveiðiauðlindinni

 

Samningamönnum ESB var það reyndar fullljóst að kæmi afstaða og kröfur þeirra formlega fram væri í raun samningum sjálfhætt. Þetta var ýmsum öðrum í íslenskri stjórnsýslu líka ljóst og því leiddu þeir athyglina frá sjávarútvegi að öðrum deiluatriðum eins og landbúnaði. Um þetta segir í skýrslu Hagfræðistofnunar:

 

»Hvað varðar sjávarútvegskaflann er mikilvægt að árétta að þegar viðræðunum var frestað hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki lagt fram rýniskýrslu sína og Ísland gat því ekki lagt fram formlega samningsafstöðu sína í sjávarútvegi.«

 

Og síðan er vikið að því að Íslendingar myndu seint hafa samþykkt þá kröfu ESB að »formlegt forræði yfir auðlindum sjávar, takmarkanir við fjárfestingar og forsvar á alþjóðavettvangi »færðist til Brussel«. Áfram segir í skýrslu Hagfræðistofnunar:

 

»Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja löggjöf í sjávarútvegsmálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu þess. Varðveisla auðlinda nær ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða.«

 

Samningsstaða Íslands

sterk í makrílnum

 

Þá er vikið að deilunum um makríl og þann rétt Íslands sem sjálfstæðs strandríkis að semja um varðveislu og nýtingu deilustofna. Ég gerði mér grein fyrir mikilvæginu, þegar ég skrifaði undir reglugerð 30. desember 2011, sem kvað á um tæp 150 þús. tonn af makríl fyrir íslenska fiskiskipaflotann fyrir árið 2012. En það var að mínu mati eðlileg hlutdeild okkar í makríl, öll veidd innan eigin lögsögu.

 

Jafnframt vissi ég að með þeirri ákvörðun var verið að setja alla eftirgjöf af Íslands hálfu í frost gagnvart ESB næstu árin í sjávarútvegsmálum. Slíkt er reyndar rækilega undirstrikað í skemmtilegri bók fyrrverandi utanríkisráðherra, Ári drekans, en þar er því lýst hve ESB-ríkin áttu erfitt með að sætta sig við sjálfstæðan rétt Íslands sem fullvalda ríkis að semja um og veiða makríl í sinni eigin lögsögu.

 

Sóknarfæri Íslands liggja í sjálfstæði þess og fullveldi heima sem erlendis.“


mbl.is Tæplega þriðjungur vill í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þá skilur maður af hverju Samfylkingin fékk kaldar fætur og ákvað að hægja á ferlinu. Þeir vissu auðvitað um þessar kröfur en þorðu ekki að láta þær heyrast. Það þarf allavega að skoða það, því ef svo er að þeir hafi vitað um innihald skýrslu ESB þá hafa þeir í raun framið landráð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.2.2014 kl. 12:14

2 identicon

Eftir að hafa hlustað á Steingrím J. Sigfússon í ræðustól Alþingis á þessari stundu, þá ætti enginn að velkjast í vafa um að SJS er eldheitur ESB-sinni.

Pétur D. (IP-tala skráð) 20.2.2014 kl. 12:37

3 identicon

Og einkar hnitmiðuð spurning sem Birgir Ármannsson síðan beindi að SJS, eitthvað á þessa leið: "Ef fyrri ríkisstjórn var svo áköf að sjá hvað var í boði i landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, hvers vegna liðu 3 ár án þess að þessir kaflar voru opnaðir?"

.

Það er sama hvað Samfylkingin og VG reyna að snúa sig út úr þessari spurningu, þá munu þessir flokkar alltaf komast í mótsögn við sjálfa sig. Og á meðan SJS, Katrín Jakobs og Árni Þór sitja á þingi fyrir VG, þá mun sá flokkur alltaf vera flokkur ESB-sinna í augum þjóðarinnar. Heilindi og klofin tunga fara einfaldlega ekki saman.

.

Síðan þetta eilífa stagl um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, sem aldrei var lofað. Krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna er innantómt rugl vegna þess að fyrri stjórnarliðum datt ekki til hugar að spyrja þjóðina hvort sækja ætti um aðild á sínum tíma.

Pétur D. (IP-tala skráð) 20.2.2014 kl. 12:58

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er nú svo oft búið að fara yfir þetta atriði ,,forræði auðlindarinnar" svokallað - að furðu sætir að andsinnar skuli fara með þá umræðu á núllpunkt enn og aftur.

Sýnir vel málefnaleysi þeirra og jafnframt aðeina sandkornið sem þeir standa á er kjánaþjóðrembingur.

Nefnt sandkorn er veikur grunnur undir málatilbúnað til lengri tíma litið.

Andsinnar skjóta sig látlaust í fæturnar þessa dagana.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.2.2014 kl. 14:41

5 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Þarna er einhver mismunum í gangi eða hvað.Bretar eru með olíu úti í sjó, en ekki veit ég til þess að ESB hafi yfirumsjón með þeim. Er eitthvað þarna sem ég ekki skil eða er önnur skýring á þessu misræmi.

Eyjólfur Jónsson, 20.2.2014 kl. 16:57

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég man eftir umræðu frá Bretlandi um að ESB hafi yfirtekið allar þeirra orklindir, og sjávarútveginn þar með. Enda myndur Bretar, Skotar, portugalar og spánverjar aldrei samþykkja að við héldum okkar veiðiréttindum, þeir geta ekki beðið eftir að komast á miðin okkar hér, það hafa þeir sagt sjálfir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.2.2014 kl. 17:16

7 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Það að þeir hafi ekki þorað.... er einfaldlega rangt.

ESB var að breyta egin köflum og frestaði því að opna kaflann um sjávarútveg.

Þegar þeir voru loks tilbúnir (á-sept 2013) var kominn upp klofningur innan VG og stjórnin hafði ekki starfshæfann meirihluta og því "hægt á" [lesist hætt] viðræðunum. 

Óskar Guðmundsson, 20.2.2014 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband